24.05.1960
Efri deild: 83. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2577 í B-deild Alþingistíðinda. (975)

169. mál, Búnaðarbanki Íslands

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Það, sem menn kynnu að taka fyrst eftir við að líta á þetta frv., sem hér liggur fyrir, er, að með þessu frv. er tekin upp til fullnustu — og hefur kannske stefnt að því að nokkru leyti — sú regla, sem líklegt er að hér eftir verði viðhöfð, að skipta um bankaráð og e.t.v. bankastjóra við hverjar kosningar og e.t.v. við stjórnarskipti. Það er engin knýjandi þörf að gera breyt. á lögum Búnaðarbankans. Og þó að deildar kunni að vera skoðanir um það, hvort þess sé þörf eða ekki; þá er það augljóst, að það hefur verið skoðun mín og Framsfl. af ástæðum, sem ég skal greina. Þess vegna var l. ekki breytt eftir seinustu kosningar. Það var fyrirsjáanlegt, að ef aðrir tækju við, þá öðluðust þeir með eðlilegum hætti og á eðlilegum tíma, þ.e. nú eftir hálft ár, aðrir en við, meiri hlutann í stjórn bankans, svo að það hefur ekki átt að vera langur biðtími fyrir þá, sem hlut áttu að máli, ef þeir gera ráð fyrir því, að sú ríkisstj., sem nú situr, verði við völd.

Það er rétt að vekja athygli á þessari meginreglu, sem slegið er fastri með flutningi og samþykkt þessa frv., því að það skiptir verulegu máli, að Alþ. geri sér þetta ljóst. Það er kannske ekkert við þessu að segja. Með þessu hverfa bankarnir úr tölu þeirra stofnana, sem eru nokkurn veginn sjálfstæðar, og stjórn þeirra verður skipuð í samræmi við ríkisstjórnina á hverjum tíma.

Þetta er fyrsta atriðið, sem hlýtur að vekja athygli. Að vísu kunna menn að segja sem svo, að þetta sé ekkert nýtt, bönkunum hefði verið breytt áður og stjórn þeirra, og munu þá þeir, sem það segja, vísa til þess, að stjórn sú, sem ég veitti forstöðu, hafi sannarlega ekki gert þetta síður en aðrir. Það er alveg rétt, ég beitti mér fyrir því að breyta um stjórn á Útvegsbankanum og Landsbankanum. Það eru þeir tveir almennu meginbankar þjóðarinnar, tveir almennu meginútlánabankar og sparisjóðsbankar þjóðfélagsins. Og það var gert vegna þess, eins og skýrt var frá greinilega við flutning og í grg. fyrir því máli, að einn flokkur í landinu, aðeins einn flokkur í landinu, réð meiri hluta í báðum þessum meginpeningastofnunum og hafði 2 bankastjóra í hvorum banka af 3, sem sagt hafði algert vald yfir þessum tveimur aðalþjóðbönkum. Og þetta kom til af því, að ákvæði um það, hvernig kosið var í stjórn þessara banka, voru með þeim hætti, að þau voru algerlega úrelt. Þegar þessi breyting var gerð, var það a.m.k. frá mínu sjónarmiði og ég held flestra sanngjarnra manna eðlileg breyting. Það er ekki eðlilegt, að einn flokkur, sem er í minni hluta með þjóðinni, ráði yfir tveimur aðalbönkum þjóðarinnar, aðalbönkum ríkisins, og þess vegna var þessi breyting nauðsynleg. En hún var ekki gerð út frá því sjónarmiði, eins og hæstv. landbrh. orðaði það, sem er almenn orðun á þeirri reglu, sem nú er tekin upp, að kjósa þurfi bankaráð með eðlilegum hætti og á lýðræðislegan hátt. Ég tók eftir því, að hann tvítók þessa setningu, en það þýðir, að í hvert skipti, sem breyting verður á hlutföllunum hér á Alþ., þarf til þess, að bankaráðin séu skipuð með eðlilegum hætti og á lýðræðislegan hátt, að breyta til á þann hátt, sem hér er gert. Og það er ekki í samræmi við þá nauðsyn, sem það var að breyta tveimur aðal- og almennu útlánastofnunum ríkisins, eins og var gert með Útvegsbankann og Landsbankann. Þegar maður athugar þetta nánar, er auðsætt, að Búnaðarbankinn er í miklu meiri skyldleika við Iðnaðarbankann og Verzlunarbankann. Það er að vísu þannig, má segja, og verður sjálfsagt sagt, að Búnaðarbankinn er ríkisbanki. En hann er, eins og nafnið ber með sér, banki fyrir fyrst og fremst ákveðna stétt, eins og Iðnaðarbankinn og Verzlunarbankinn, og þó að ekki séu enn þá komnar ríkisábyrgðir á Iðnaðarbankann og Verzlunarbankann, þá mun það sannast, að erfitt verður að standa lengi gegn því, þegar fólk veitir því athygli varðandi þessi hlutafélög, Iðnaðarbankann og Verzlunarbankann, að það er engin ríkisábyrgð þar á bak við, það er algerlega komið undir hyggindum og náð þeirra manna sem stjórna bankanum, hvað vel er farið með fé, sem þar er lagt inn og ég efast ekkert um, að sé vel með farið núna. Það er algerlega undir því komið, hvort það heldur áfram, hvað spariféð er tryggt í þessum stofnunum, Verzlunarbankanum og Iðnaðarbankanum, því að þar er ekki ríkisábyrgð, og þó að það sé tryggt núna, fer það eftir því, hvað heppilega veljast þeir menn, sem lána út þetta fé. Það er því ekki líklegt, að það verði langt þangað til tekin verði ábyrgð á innlánsfé þessara banka, enda til skamms tíma talið mjög óhyggilegt að leyfa einkabanka, þar sem ekki væri ábyrgð ríkisins, vegna þess að ef það kæmi fyrir, sem hefur komið fyrir einkabanka hér, eins og menn vita, en er ekkert yfirvofandi með þessa tvo banka núna, vegna þess að þeim er að sjálfsögðu vel stjórnað, þá hefur það komið fyrir á eftirminnilegan hátt, að fólk hefur tapað sparifé sínu, og það hefur ríkið talið óheppilegt. Þau óhöpp taldi þjóðfélagið svo óheppileg fyrir sparifjársöfnun, að það var talið fráleitt að leyfa einkabanka án afskipta ríkisins af og ábyrgðar ríkisins á sparifé. Sú alda var uppi, eins og menn muna, eftir að Íslandsbanki gat ekki staðið í skilum og sparifjáreigendur fengu þung áföll. Þess vegna verður þess ekki langt að bíða, að svo verði, og hvað sem því líður, þá eru það svo mikil fríðindi fyrir Iðnaðarbankann og Verzlunarbankann að fá löggjöf frá Alþ. um bankareksturinn, að þessum tveimur stéttum er þar sýnd tillitssemi, sem jaðrar að því, sem er um Búnaðarbankann fyrir bændur. Og þessum bönkum ráða iðnaðarmenn og verzlunarmenn. Um það verður ekki deilt, að þeir ráða stjórn þessara banka, og þykir eðlilegt, að þessar stéttir, sem bankarnir eru stofnaðir til hagsmuna fyrir, ráði stjórn þeirra, vegna þess að það þykir líklegt, að það fari bezt úr hendi fyrir stéttirnar, að svo sé, og liggur líka í eðli þeirra sem hlutafélaga.

Það má segja: Hví gera bændurnir ekki þetta líka, að stofna slíkt hlutafélag? Þeir mundu fá samþykki ríkisins fyrir því að reka banka hliðstæðan Iðnaðarbankanum og Verzlunarbankanum. En það er vitanlega eins og allir sjá og reynslan er alls staðar af, að það er erfiðara um vik fyrir dreifða stétt eins og bændastéttina, sem hefur ekki mikil fjárráð aflögu, að gera slíkt heldur en þessar tvær stéttir, iðnaðarmenn og verzlunarmenn, sem búa í þéttbýli.

Það er enginn efi á því, að Búnaðarbankinn er miklu meiri hliðstæða Iðnaðarbankans og Verzlunarbankans en Útvegsbankans og Landsbankans. Þannig var á þetta litið og hefur verið á þetta litið hingað til. Þegar Búnaðarbankinn var stofnaður, var um það mikill styr, og þeir menn, sem nú eru fylgjandi bankanum og tala um, að það þurfi að efla hann, voru þá á móti því sumir, börðust hatramlega gegn því, þeir sem nú telja sig vilja efla hann, og það er ekki nema gott um það að segja, og taka að sjálfsögðu, eins og hæstv. landbrh. orðaði það, samkvæmt lýðræðislegum reglum að sér stjórn hans. Það er í sjálfu sér ekkert við því að segja nema bara það, að það er ný regla, vegna þess að um leið og farið er með þessa reglu að þarflausu inn á svið Búnaðarbankans, sem er sérbanki stéttar, er reglunni fyrst slegið fastri, sem ekki var gert með breyt. á Útvegsbankanum og Landsbankanum, sem eru, eins og ég hef margsagt, stærstu og almennustu útlánastofnanir þjóðarinnar, sem er ekki hægt að láta vera í stjórn eins flokks, sem er í minni hluta með þjóðinni. Og það sýnir sig, hvernig þetta var hugsað með Búnaðarbankann, hvernig tenging hans var hugsuð við bændastéttina, sem nú á að rjúfa algerlega með þessum lögum og gera hann að almennari banka. Bankaráðsmennirnir eru núna skipaðir, eins og við munum, samkv. þeim lögum, sem gilda, af landbúnaðarnefndum beggja deilda. Og hvers vegna er þetta gert? Þetta er gert vegna þess, að það er talið líklegt, að í landbn. beggja deilda veljist áhugamenn um landbúnað og þeir menn, sem auk þess voru áhugamenn um landbúnað, hafa þekkingu á landbúnaði og vilja fyrir landbúnaðinn vinna. Þess vegna var það, að þingið var ekki látið kjósa þessa bankaráðsmenn, eins og í hinum almennu bönkum, heldur fékk bændastéttin aðstöðu til þess á vissan hátt að hafa áhrif á þetta með því, að þeir menn, sem valdir voru í landbn. beggja d., kusu bankaráðsmennina og landbrh. skipaði formann, með tilliti til þess, að líklegt þótti, — og það hygg ég að flestir muni fallast á, — að sá flokkur, sem að jafnaði eða oftast færi með landbúnaðarmál, væri líklegastur til þess að gera það vegna þess, að hann væri talinn hafa sérstakan áhuga á landbúnaði. Þetta hvort tveggja er þurrkað út með því, að bankinn er settur undir hinar almennu reglur hinna bankanna, sem annast almenna bankastarfsemi, og bankaráð nú allt kosið af Alþingi.

Það mætti að sjálfsögðu bæta úr þessu, ef vilji er fyrir hendi að tengja bankana áfram, eins og verið hefur, við bændastéttina. Þó að það hverfi, að landbn. hafi það vald, sem þær hafa samkv. núgildandi lögum, og landbrh. samkv. sömu lögum, má að sjálfsögðu finna ýmsar leiðir til þess að tengja þetta við hin almennu samtök bændanna, að þeir hafi nokkra íhlutun um skipun bankaráðsins, til þess að hægt verði að segja með sanni, að bankinn væri í tengslum við þá stétt og stjórn valin í samræmi við það, sem kann að vera vilji bændastéttarinnar. Þetta mætti gera, og væri þá haldið áfram á þeirri meginbraut, sem mörkuð var, þegar bankinn var stofnaður, og hefur haldizt síðan, og væri þá bændastéttinni sýnd hliðstæð tillitssemi og þeim stéttum, sem reka Verzlunarbankann og Iðnaðarbankann, og ég vænti þess þá, að í n., sem fjallar um þetta mál, verði hægt að finna reglu um þetta atriði, og þá reynir á það, hvernig á það verður litið, að bændurnir hafi þarna íhlutun um.

Það er nú mælt með þessu frv. með þeirri röksemd, að bankastjórarnir þurfi í raun og veru að vera fleiri en einn. Vitanlega má lengi um þetta deila. Og sagt er, að tveir hafi starfað fyrir núv. bankastjóra, þegar hann var fjarverandi vegna lasleika. Það er alveg rétt, það störfuðu tveir þá um skeið sem fulltrúar hans, enda var hann aldrei frá störfum þannig, að þeir bæru sig — ekki saman við hann um flest það, sem gert var, og þótti eðlilegra, að þeir væru tveir en einn. En ég hygg nú satt að segja, að um þetta atriði séu hliðstæðurnar meiri milli Búnaðarbankans og Iðnaðarbankans og Verzlunarbankans. Það er vitað mál, að þessir tveir bankar, Verzlunarbankinn, sem nú verður, — Verzlunarsparisjóðurinn sem ætlazt er til að verði Verzlunarbanki og óhætt er að tala um, því að það er sjálfsagt búið að tryggja það mál, — og Iðnaðarbankinn eru meiri hliðstæður, vegna þess að þetta eru vaxandi stofnanir, dugandi menn, sem stjórna þeim, og ég geri ráð fyrir, að það telji enginn ástæðu til þess, að Alþ. fari að hafa afskipti um það, eins og er með hlutafélög, að fjölga bankastjórunum við þessa tvo banka, en þeir eru miklu meiri hliðstæða Búnaðarbankans en Búnaðarbankinn er hliðstæða Útvegsbankans og Landsbankans. Þar sem útlán þessara tveggja meginbanka eru svo almenn og að ýmsu leyti miklu stórfelldari, er ekki óeðlilegt, að aðrar reglur gildi þar um en við Búnaðarbankann. Afgreiðslan á lánum úr byggingarsjóði og ræktunarsjóði og veðdeild fer eftir föstum meginreglum, og ég hef aldrei heyrt nokkurn mann halda því fram, að frá þeim reglum væri hvikað eftir því, hver í hlut ætti pólitískt. Þetta er í sjálfu sér nokkurs vert. Því er haldið fram með fullum rökum, að það sé engu síður eðlilegt, að bankastjóri sé þarna einn, eins og verður í Verzlunarbankanum og Iðnaðarbankanum, og ef á að fjölga bankastjórum, er a.m.k. eðillegt að taka það fram í lögunum. Það er óvenjulegt, að Alþingi framselji þannig vald sitt til þess að fjölga stöðum, fjölga embættum, fjölga embættismönnum. Það er skoðun núv. hæstv. landbrh., að þeir eigi að vera tveir. Það getur vel farið svo, að meiri hl. bankaráðs verði síðar þeirrar skoðunar, að þeir eigi að vera fleiri en tveir, og þá er engin tala ákveðin. Það fer eftir því, hver er skoðun bankaráðsins á hverjum tíma, á meðan þessi lög verða í gildi, og það er engin trygging fyrir því, að það verði skoðun næsta hæstv. landbrh., að bankastjórar eigi að vera tveir, heldur allt önnur tala. Þess vegna finnst mér eðlilegt að ákveða töluna í l., hvort sem það verður einn eða fleiri.

Það er sjálfsagt búið að ákveða það í höfuðatriðum, að þetta frv. gangi fram eins og það er, og ég skal ekki fara öllu fleiri orðum um það en ég hef þegar gert. Ég hef vakið athygli á því, að hér er tekin upp almenn regla, sem búast má við að farið verði eftir hér eftir um skipti á bankaráðum eftir kosningar og jafnvel eftir stjórnarskipti, því að það verður alltaf hægt að setja það inn í lög, að bankaráðsmenn skuli verða 3 í staðinn fyrir 5 eða 5 í staðinn fyrir 2, og alltaf hægt að setja inn í lög einhverjar heimildir fyrir bankaráðin, eins og gert er í þessum lögum, ef meiri hluti er til staðar. Og í annan stað, í viðbót við þessa almennu reglu, sem þarna er tekin upp, hlýtur það að vekja athygli, að bankinn er tekinn úr sambandi, eftir því sem var áður, við bændastétt landsins, þar sem það voru landbn., sem e.t.v., eins og ég hef áður sagt, höfðu þarna meginvöldin, og landbrh. Nú er bankaráðið kosið almennum kosningum. Þetta álít ég mjög stórt atriði, ekki sízt vegna þess, að það hefði þurft að búa betur um hnútana, að bændur hefðu meiri áhrif á stjórn bankans, þannig að tryggt væri, að honum væri stjórnað í samræmi við hagsmuni þeirra. Jafnframt því, sem vitanlega verður að reka þar starfsemi og meiri hl. verður að geta ráðið því, að hún sé rekin í samræmi við hagsmuni stofnunarinnar, þá er það rétt, að bændastéttin, sem bankinn er stofnaður fyrir fyrst og fremst, hafi þar þá rödd, sem hún ræður sjálf hver er, og ég geri ráð fyrir því, að það þurfi að athuga það gaumgæfilega í nefnd, hvernig því verður fyrir komið.

En fyrst og fremst er ég mótfallinn þessu frv. og mun greiða atkv. gegn því. Ég geri ráð fyrir, — það er búið að vera lengi í suðunni, — að það sé búið að tryggja meiri hluta fyrir framgangi þess, og ef það á að ganga fram, þá er að reyna að fá á því þær breytingar, sem nauðsynlegastar eru, og hef ég minnzt á eitt meginatriðið, sem ég tel mestu máli skipta í því sambandi. Það er það, að áhrif bændastéttarinnar verði ekki þurrkuð út í stjórn bankans. Þau ráð, sem hún hefur í gegnum landbn., mættu vera meiri, og ég geri ráð fyrir því, að ég komi með brtt. í því sambandi.