27.05.1960
Efri deild: 85. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2600 í B-deild Alþingistíðinda. (985)

169. mál, Búnaðarbanki Íslands

Frsm. minni hl. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Eitt, aðeins eitt, sem hv. frsm. meiri hl. sagði núna, gaf mér ástæðu til þess að biðja um orðið. Hann hafði það eftir mér, að ég hefði sagt, að verkefni Búnaðarbankans væru harla lítil, svo að ekki þyrfti að fjölga stjórnendum hans þess vegna. Ég sagði ekki, að verkefnin væru harla lítil. Ég sagði, að verkefnum væri þannig skipað, vegna þess að hann starfaði í stofnlánadeildum, sem hafa fastar reglur, að hann þyrfti ekki eins mikla daglega yfirstjórnarstarfsemi og hinir ríkisbankarnir eða eins og hann hefði þurft, ef þetta skipulag hefði ekki verið, og ég taldi hagfelldara form og ódýrara, að bankastjórinn hefði fulltrúa, en að fjölgað væri bankastjórum, og færði rök fyrir því.

Annars kom það nú greinilega í ljós af ræðu hv. frsm„ hvað fyrir vakir, og er það sama og ég hafði líka gizkað á, þó að ekki kæmi fram í hans fyrri ræðu og þó að það hefði ekki komið fram beint í athugasemdum þeim, sem fylgja frv. Hæstv. landbrh. var í raun og veru hreinskilnari um þau efni, þegar hann flutti sína fyrri framsöguræðu, og þess vegna þurfti ekki eins mikið að geta í eyður þar. Það er sem sé þetta, að stjórnarflokkarnir fái meiri hluta í stjórn bankans, í bankaráðinu og sæti í bankastjórastólum.

En úr því að ég er kominn hingað og farinn að tala, vil ég vekja athygli á því, sem hv. frsm. sagði og sagði sem dæmi um það, hve Sjálfstfl. væri í þessu máli ósérdrægur, að ef það hefði verið dregið til áramóta að gera þessa ráðstöfun, beðið þangað til formaðurinn gekk af sjálfu sér úr stjórninni og landbrh. gat skipað mann í hans sæti, þá hefði Sjálfstfl. fengið meiri hluta, en það samrýmdist ekki réttarmeðvitund hans. Skyldi nú ekki vera sú ástæðan, að hann hefur þarna með sér ofur litinn náunga, sem vill fá sitt? Skyldi það ekki vera, að litli bróðir, þessi ágæti litli bróðir, sem veitir Sjálfstfl. meirihlutaaðstöðu að þessu sinni, sem er betri en meirihlutaaðstaða, sem hefði fengizt með kosningum, sem hefðu skapað Sjálfstfl. sjálfum meiri hluta, — skyldi nú ekki vera, að það sé hann, sem er hafður þarna í blóra, þegar talað er um rétt, réttsýni og óeigingirni? Er þá ekki augljóst, að úr því að bankastjórarnir eiga ekki að vera nema tveir, verði að fullnægja kröfu þessara flokka, óskum tveggja flokka, en skiptir minna um hina? Það er eins og venjulega, þegar mál eru flutt að yfirvarpi, í öðrum tilgangi en þeim, sem undir býr, þá koma fram dálitlar mótsagnir, og þær hafa komið vel og greinilega fram í þessu tilfelli.

Hv. frsm. meiri hl. gerði nú tilraun, mjög laglega, eins og hann kann, þegar hann flytur mál, því að það verður að segjast um málflutning hans, að maður má varast að verða honum sammála, án þess að ástæða sé til þess. Hann flytur mál sín svo sakleysislega og blátt áfram. Já, hann var að leysa þá fulltrúa, sem hér eru fyrir náð bændanna, undan áhyggjum af, að það sé nokkuð athugavert við það, þó að þeir verði á móti því, að bændurnir fái beinan aðila, sem kjörinn sé af stjórn stéttarsamtaka þeirra, inn í bankaráðið. Og hann skírskotaði til þess, að þeir mundu sjá, að það væri ekkert óeðlilegt við það, þar sem hér væri um ríkisbanka að ræða, og þeir mundu yfirleitt treysta Alþingi svo vel, að það mundi þrátt fyrir það, þó að sú skipan yrði höfð á, sem frv. gerir ráð fyrir, koma fulltrúa bænda inn í bankaráðið. En ég verð nú að segja það, að mér hefur fundizt oft bóla á því hér á hv. Alþ., einkum hjá þeim flokkum, sem hafa ekki sérstakan áhuga á störfum þeirra nefnda, sem þingið kýs, en eru launaðar, að þá sé kosið meira með tilliti til þess að veita bitling en að kjósa menn, sem kannske beinlínis hafi áhuga fyrir verkefnunum. Og gæti ekki svo farið enn, að þannig yrði?

Ég hygg, að það sé ekki hægt að komast fram hjá því, hversu laglega sem hagað er orðum, að þeir, sem greiða atkvæði á móti því, að Stéttarsambandið fái aðstöðu til þess að eiga einn fulltrúa í ráði þess banka, sem er í eðli sínu stéttarbanki, þeir eru ekki bændastéttinni trúir. Þeir fara ekki að þeim vilja bændanna, sem hafa kosið þá, sem þeir ættu að gera. Og ég er viss um það, að ef málið yrði borið undir bændurna, mundu þeir greiða till. minni hiklaust atkvæði og telja í því sambandi, að þeir, sem vilja fella till., séu ekki umhyggjusamir um þeirra hag eins og skyldi á því þingi, þar sem andstæðar stéttir og flokkar með misjöfnum sjónarmiðum á gildi bændastéttarinnar fara með valdið, sem ætlazt er nú til að velji trúnaðarmenn að þessum banka.