04.12.1959
Neðri deild: 11. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 185 í B-deild Alþingistíðinda. (99)

16. mál, bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði 1960

Björn Fr. Björnsson:

Herra forseti. Hæstv. landbrh. gat ekki stillt sig um að víkja nokkrum orðum að okkur framsóknarmönnum í sambandi við það mál, sem hefur verið efst á baugi og efst í huga, a.m.k. okkar framsóknarmanna, og það er hið mikla ójafnaðarmál á hendur bændastéttinnt, sem stofnað var til upp úr miðjum september s.l. Orðræður framsóknarmanna hér á hv. Alþingi sýnast hafa nokkuð komið við hans samvizku, og samvizkubit hans, ef svo má orða það, brýzt út í allsendis óviðurkvæmilegum orðum og fráleitri lýsingu hans á stefnu og starfi okkar framsóknarmanna á liðnum mörgum áratugum í þágu bænda og landbúnaðarins.

Ég gæti skilið þau orð, sem hæstv. landbrh. lét hér falla í okkar garð, framsóknarmanna, betur, ef við værum staddir hér á framboðsfundi, og ég hygg, að hæstv. ráðh. hafi vart áttað sig á því, að hann er kominn inn í alþingissalina, en hann háði, eins og margir fleiri okkar, kosningabaráttu tvísvar sinnum á því ári, sem nú er senn að liða. Ég þekki orðbragð hans frá þeim fundum.

Hæstv. ráðh. gerði fremur lítið úr tillögunni á þskj. 46, brtt. við frv. til l. um bráðabirgðafjárgreiðslur, frá hv. 2. þm. Sunnl. og 4. þm. Norðurl. e., en þar er gerð till. um það, að ríkisstj. sé enn fremur heimilt að greiða 3.18% verðhækkun á afurðaverð landbúnaðarins frá 1. sept. s.l.

Það var alveg ástæðulaust fyrir hæstv. landbrh. að gera litið úr þessari tillögu. Hér er verið að reyna að bjarga því, sem bjargað verður, og bændur munu sannarlega sætta sig við eftir atvíkum eða úr því sem komið er að fá þessa greiðslu, þótt ekki sé fyrr en í janúar. Og hann hneykslaðist á því, að greiðslan skyldi þá ekki ákvörðuð í desember fremur en í janúar á næsta ári. En sjálfur sagði hæstv. landbrh., að hann hefði heimild til þess að bæta bændum upp 3.18% og hefði hana þegar á hendi. Er þá hæstv. ráðh, þess umkominn, þegar hann hefur þessar heimildir á hendi, að gera lítið úr þeirri till., sem framsóknarmenn bera fram á þskj. 46?

Þessi afstaða hæstv. ráðh. nú í kvöld bendir ljóslega til þess, að hann og stjórnarliðið allt er komið á verulegt undanhald í þessu máli. Það hefur svignað undan þunga málfærslu framsóknarmanna hér í hv. Alþingi. Og landbrh. óttast ofurþunga almenningsálitsins, því að honum er vel kunnugt um, að það eru fleiri en framsóknarbændur, sem finna til sviða vegna bráðabirgðalaganna frá 18. sept. s.l. Hér var óréttur framinn á hendur bændastéttinni, og Íslendingar geta, — og það vitum við allir jafnvel, í hvaða stétt sem menn kunna að vera, — gjarnan þolað erfiðleika, sem ganga nokkurn veginn jafnt yfir og jafnvel þó að réttarskerðing sé, en þeir munu aldrei þola mis- eða órétti. Þess vegna má hæstv. landbrh. vel vita það, að hann kemst ekki óskaddaður út úr þessum hildarleik með öðru móti en því að ganga til fullnaðar frá brbl. hér á hv. Alþingi með hjálp okkar framsóknarmanna, eða ef vænlegra er og tíminn væri svo naumur og stjórnin á það hröðum hlaupum, að þurfi að senda hv. Alþingi heim þegar nú um helgina, þá að notfæra sér þá heimild, sem hann hefur á hendi um að endurgreiða bændum það fé, sem ranglega var af þeim haft.

Hæstv. landbrh. sagði, að ætíð, þegar sjálfstæðismenn væru í stjórn, og mér skildist hefðu á hendi landbúnaðarmál, þá vegnaði bændum vel og þeim öðrum, sem ynnu að landbúnaði, en öfugt væri farið, þegar framsóknarmenn hefðu landbúnaðarmálin á hendi. Þetta finnst mér sannarlega ekki, svona í upphafi landbúnaðarráðherraferils, álitlegur eða grundvallaður boðskapur af hálfu hæstv. landbrh.

Hvenær hafa sjálfstæðismenn haft nú á síðustu tveim, þremur áratugum á hendi landbúnaðarmál í ríkisstjórn? Jú, á nýsköpunarárunum svokölluðu. Hver var þá afstaða hæstv. ráðh. gagnvart þeirri stjórn? Manni skilst, að hann hefði glaður gengið henni á hönd og viljað styðja hana í öllum efnum. En varð sú niðurstaðan? Er það hin rétta saga af sambandi hæstv. landbrh. við nýsköpunarstjórnina? ónei. Hann taldi sig ekki geta stutt hana. Og af hverju? M.a. vegna þess, að hann hefur ofur eðlilega óttazt, að hún kynni að halda verr á málefnum bændastéttarinnar en hann á þeim tíma óskaði eftir. Og það voru fleiri þm., sjálfstæðismanna, sem studdu ekki, a.m.k. fyrsta kastið, nýsköpunarstjórnina.

Þetta árabil frá 1944 til 1946 er eitt gleggsta dæmi þess, hvernig fer, þegar sjálfstæðismenn hafa á hendi landbúnaðarmál í ríkisstjórn, og þetta tímabil var sannarlega ekki glæsilegt fyrir sveitirnar. Ég ætla ekki að rifja það upp, en vissulega var þá mjög gengið á hlut sveitanna á móts við það, sem aðrir fengu á þeim tíma, þegar hvern stórrekann af öðrum rak á fjörur þjóðarinnar í efnahagslegu tilliti.

Hver var afstaða sjálfstæðismanna hér á þingi og enda utan þess líka til afurðasölulöggjafarinnar 1935? Voru það framsóknarmenn, sem þá voru að vinna að því að bæta kjör landbúnaðarins, eða voru það sjálfstæðismenn, sem gerðu það?

Ég þarf ekki nema aðeins að drepa á þessi dæmi, þá veit ég það, að hv. alþm. er mjög ljóst, að mál hæstv. landbrh., að því er varðar söguskilning hans á landbúnaðarmálum og starfi framsóknarmanna í þeim efnum, er algerlega út í hött. Og ef þessi skilningur hæstv. landbrh. á landbúnaðarmálum og lausn vandamála bænda á að vera ríkjandi, þá þarf væntanlega ekki að gera því skóna, hver muni verða framvindan undir hans stjórn í málefnum sveitanna. Því vil ég vænta þess, að hæstv. landbrh. kynni sér öllu betur baráttusögu landbúnaðarins yfirleitt, og þá mun hann komast að raun um það, hverjir hafi varanlegast og bezt unnið að hag bænda og sýnt skilning á starfi þeirra og hverjir ekki. Þetta ætti hæstv. landbrh. m.a. að íhuga á næstu vikum, þegar þeir stjórnarherrarnir hafa dregið feld yfir höfuð sér til íhugunar á úrlausnarefnum í efnahagsvanda þjóðarinnar. Ef hann þannig tekur sig til og bætir um þekkingu sína á landbúnaðarmálunum, sögu þeirra, afdrifum einstakra mála landbúnaðarins, hverjir hafi dyggilegast stutt við bak hans, þá mun hann sannarlega læra, hver stefnan á að vera í framtíðinni, til þess að við í þessu efni náum sem fyrst og bezt æskilegu marki.

Ég hef lofað hæstv. forseta að lengja ekki mjög mál mitt, þó að ég hefði gjarnan viljað ræða hér bæði um þingfrestunina og þá fráleitu meðferð, sem hér á að hafa á Alþingi og alþingismönnum með því að reka þá heim af þingi í miðjum klíðum, áður en þeim er gerð sæmilega ljós efnahagsaðstaða þjóðarinnar, eins og hún er í dag, og áður en gengið er frá því mikla hitamáli, bráðabirgðalöggjöfinni frá 18. sept. Þó verð ég að taka þetta fram í sambandi við þetta síðasttalda málsatriði: Á framboðsfundum í Suðurlandskjördæmi leið sá fundur vart, að hæstv. landbrh. lýsti ekki yfir hátíðlega, að sjálfstæðismenn mundu fella brbl. á Alþingi, strax er það kæmi saman. Því mættu allir treysta, enda hefðu sjálfstæðismenn ekki átt hlut að framkomu þeirra, síður en svo. Þetta mál var sem sagt víðast hvar höfuðumræðuefnið og um fá mál meiri áhugi, enda eðlilegt, a.m.k. af sjónarhóli okkar sveitamanna. Og hvaðanæva berast nú áskoranir til hv. Alþingis um að fella lögin þegar úr gildi. Nú stendur svo einstaklega vel á, að hæstv. landbrh. hefur alveg sérlega haganlega aðstöðu til þess að framfylgja einmitt hátíðlega gefnum loforðum um sjálfsagða lagfæringu á þeirri verðlagsskekkju varðandi afurðaverð landbúnaðarins, þar sem brbl. eru. Einmitt þessum hæstv. landbrh. ber að leggja brbl. fram og sjá til þess, að þau fái fullnaðarafgreiðslu hér á hv. Alþingi, til samþykkis eða synjunar. Þetta ber honum að gera samkv. lögum, og það ætti einmitt að vera honum einkar ljúft, um leið og honum er sú skylda á hendi.

Þegar nú þetta hvort tveggja fer saman og hið þriðja bætist við, sem í raun og veru mestu máli skiptir, að brbl. hljóta að verða felld við þinglega meðferð, ef yfirlýsingar sjálfstæðismanna eiga nokkuð að duga, þá sýnist ástæðulaust af hálfu hæstv. landbrh. að þybbast lengur við, að þessi bráðabirgðalöggjöf fái þinglega og tafarlausa meðferð til úrslita. Þegar þau hafa síðan verið, að því er vænta má, felld hér á hv. Alþingi, þá hefur ranglætinu verið skotíð til hliðar og réttlætinu fullnægt að þessu leyti. Og það á að sjálfsögðu að verða okkur alþm. öllum til mikillar ánægju og væri sérstaklega heppilegt, að við yrðum þeirrar ánægju aðnjótandi svona rétt fyrir hátíðir. Og ég hlýt af þessum bollaleggingum mínum að álíta, að þessi framvinda hljóti að vera hæstv. landbrh. hin geðfelldasta og í þessu tilfelli meira að segja persónuleg nauðsyn vegna undangenginna loforða og yfirlýsinga af hans hálfu um að hjálpa öðrum til þess að afmá þá forsmán, sem bráðabirgðalöggjöfin er.

Eins og ég hef sagt hér, þá er hér hið kærkomna, hið gullvæga tækifæri fyrir hæstv. landbrh. að ganga erinda í hagsmunabaráttu þeirra, sem landbúnað stunda, og ganga erindanna svo skörulega og afdráttarlaust, að enginn þurfi að villast á því, hvort hugur fylgi máli eða ekki. Þá ætti ekki síður hæstv. landbrh. að vera umhugað um það að afstýra einmitt þessari árás á efnahag bændastéttarinnar, þar sem honum öðrum fremur er kunnugt um það, að sérstaklega hefur erfiðlega árað að því er varðar bændur í okkar kjördæmi, Suðurlandskjördæmi, og þarf sannarlega aðstoðar við í því efni. Og í fyrstu lotu sýnist mér, að afnám brbl. sé hin eðlilegasta fyrsta bót, sem hægt er að gera í þessu efni, að því er bændur varðar.

Ég hlýt loks að ítreka þá kröfu til hæstv. landbrh., að hann sjái svo um, að þráttnefnd bráðabirgðalöggjöf verði tafarlaust tekin hér á hv. Alþingi til þinglegrar meðferðar og þannig afgreidd, að afstaða hv. þingmanna til þess fólks, sem stundar landbúnað, og afstaða hv. þingmanna til vandamála þessa fólks komi afdráttarlaust í ljós. Ef það er hins vegar ætlun hæstv. ríkisstj. að komast hjá því að tjá sig um afstöðu sína hér á Alþ. um þetta prinsipmál bændastéttarinnar, áður en bráðabirgðalöggjöfin að efni fellur úr gildi, þá verður sú hlédrægni í svo augljósu réttlætismáli eigi skilin öðruvísi en svo, að telja megi samsvara fullkomlegu vanmati á starfi landhúnaðarmanna og vanmati á hlutdeild þeirra í þjóðarbúskapnum og að þetta fólk hafi fengið of ríflegan hluta úr sameíginlegum sjóði þjóðfélagsins.