28.05.1960
Efri deild: 86. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2613 í B-deild Alþingistíðinda. (993)

169. mál, Búnaðarbanki Íslands

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Ég sagði áðan, að ég ætlaði ekki að lengja þessar umræður. En það er ástæða til þess samt sem áður, áður en þetta mál fer úr þessari hv. d., sem verður sjálfsagt eftir fáeinar mínútur, að segja fáein orð í tilefni af því, sem hér hefur verið sagt um ríkisbanka og einkabanka.

Eins og ég hef bent á, var það stefna hér í langan tíma, eftir að sparifjáreigendur urðu fyrir hinu ægilega tapi við gjaldþrot Íslandsbanka, að leyfa ekki að setja upp eða fara varlega í það að setja upp einkabanka, vegna þess að það var talið þjóðfélagslega hættulegt að láta sparifé vera ótryggt, vegna þess að ef almenningur yrði fyrir miklu tapi á því sparifé, sem hann legði inn í banka, væri líklegt, að það yrði til þess, að menn fengjust ekki til þess að safna sparifé á þann stað, sem er þjóðfélaginu nauðsynlegt.

Nú er það svo, eins og ég sagði, að þessum bönkum er sjálfsagt svo vel stjórnað núna, bæði Iðnaðarbankanum og væntanlegum verzlunarbanka, að af þeim stafi ekki hætta. En þetta getur vitanlega komið fyrir hvenær sem er, og þess vegna, vegna þeirrar hættu, sem getur alltaf verið yfirvofandi, ef ekki er vel stjórnað, hefur ríkið tekið ábyrgð á sparifé hinna bankanna, sem kallaðir eru ríkisbankar og kallaðir ríkisbankar eingöngu vegna þess. En í raun og veru eru þau hlunnindi, sem fást við það að fá að reka banka, meðan fólk treystir því að leggja inn sparifé í hvaða banka sem er, þó að ekki sé ríkisábyrgð, þau hlunnindi að fá að reka banka eru meginatriðið. Spariféð, sem er í bönkunum og er ráðstafað, er ekki eign þessara banka, það er eign almennings í þessu landi, alveg eins í einkabönkunum og í þeim bönkum, sem ríkið ber ábyrgð á. Ég fullyrði, að það er skemmra yfir í það en frá því að taka meiri hlutann í aðalbönkunum, sem ég taldi vera nauðsynlegt fyrir hvaða ríkisstj. sem væri, þar sem stjórnarandstaðan hafði þar öll ráð, og til þeirra breyt., sem nú er verið að gera, — það er skemmra yfir í það nú, að þingið vilji líka hafa afskipti af ráðstöfun þessa sparifjár og stjórna því, þó að það séu einkabankar, ríkið beri ekki ábyrgð á því, vegna þess að það veitir hlunnindin. Það er mikill stigmunur á því að taka yfirráðin yfir tveimur aðalgjaldeyrisbönkunum og aðalútlánabönkunum og því, sem nú er gert með því að taka yfirráðin yfir því sparifé, sem ríkið að vísu ber ábyrgð á, og kalla því þennan sérbanka bændastéttarinnar ríkisbanka. Það er mikill munur á því og minni munur á því, eftir að þessi regla hefur verið staðfest um þennan sérbanka, að heimfæra regluna um yfirráð ríkisins yfir bönkunum öllum. Þó að ég sé síður en svo að mæla með því, að það sé gert, þá er rétt að vekja athygli á þessu, um leið og málið fer hér út úr deildinni.