30.05.1960
Neðri deild: 91. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2619 í B-deild Alþingistíðinda. (999)

169. mál, Búnaðarbanki Íslands

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Frv. þetta um breyt. á l. um Búnaðarbanka Íslands er komið frá Ed. Þótti eðlilegt að flytja þetta frv. til breyt. á l., þannig að í stað þess að hafa þriggja manna bankaráð, þá verði kosið 5 manna bankaráð í Sþ., og er þá tekin upp sama regla fyrir Búnaðarbankann og gildir um hina ríkisbankana. Einnig hefur þetta frv. þá breyt. í för með sér að gera mögulegt að fjölga bankastjórum í 2, ef bankaráð leggur það til og landbrh. samþykkir.

Það er óþarfi að fara mörgum orðum um þessa breyt. Flestir munu sjá, að hér er um eðlilega breyt. að ræða. Það er ekki eðlilegt um Búnaðarbankann, sem teljast verður einn af aðalbönkum landsins, að stjórn hans, bankaráð hans sé kosið með öðrum hætti en hinna bankanna. Það munu flestir vera sammála um það, aðrir en hv. framsóknarmenn, að það sé óeðlilegt, að einn flokkur hafi meiri hluta í þessum banka, flokkur, sem er í miklum minni hluta hjá þjóðinni. Og menn eru undrandi á því, að þegar bankalöggjöfinni var breytt 1957, skyldi Búnaðarbankinn einn vera undanskilinn.

Mál þetta var rætt nokkuð í Ed., og þar sem umr. þar hafa nokkuð verið raktar í blöðunum, þykir mér ekki ástæða til að vera að flytja hér langa framsöguræðu um málið, enda ljóst, hvað í frv. felst, og er því síður ástæða að fara að halda hér langa ræðu um málið, þar sem í Ed. kom fátt eða ekkert fram frá hendi þeirra, sem töluðu á móti frv., sem gaf tilefni til þess að ræða málið í löngu máli.

Ég legg til, að þetta frv. fari til hv. fjhn. þessarar d. og því verði vísað til 2. umr.