07.03.1961
Sameinað þing: 47. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 268 í D-deild Alþingistíðinda. (10000)

204. mál, lausn fiskveiðideilunnar við Breta

Karl Guðjónsson:

Herra forseti. Ég vil í upphafi máls míns leyfa mér að gefa yfirlýsingu varðandi samning þennan fyrir hönd Alþb., og að því gefnu tilefni, sem hér liggur fyrir, þá lýsir þingflokkur Alþb. því yfir, að þar sem samningur sá, sem fyrirhugað er að gera við ríkisstjórn Bretlands, á rót sína að rekja til ofbeldisaðgerða og hervaldsbeitingar brezkrar ríkisstj., en er gerður af ríkisstjórn, sem ekkert umboð hefur frá þjóðinni til að skuldbinda hana um aldur og ævi, þá er íslenzk þjóð um alla framtíð óbundin af því réttindaafsali, sem í þessum samningi felst, og mun Alþb. beita sér fyrir því, að þjóðin framfylgi lögum sínum og rétti án tillits til hans.

Þessi yfirlýsing kemur að sjálfsögðu í kjölfar þess, að ríkisstj., sem situr, er studd af meiri hl. Alþ., sem í síðustu kosningum lýsti því yfir, svo að segja mann fyrir mann, að í landhelgisdeilu Íslendinga og Breta yrði hvergi hvikað. Hún hefur að sjálfsögðu ekki að réttu og ekki með neinu siðferði rétt til þess að gera samning á borð við þann, sem hún fyrirhugar nú.

Í umr. hér hefur komið skýrt og greinilega fram, að samningurinn er allur hugsaður út frá því, að við eigum einskis annars kost, ella séu hér uppivaðandi brezk herskip á okkar miðum, ella sé hér hætta á því, að slys verði á hafinu af brezkum byssukjöftum eða vígdrekasiglingum. Þar af leiðandi verðum við að gefa Bretum eftir af okkar landhelgi. Þetta er rökstuðningur ríkisstj. slíkur samningur getur aldrei skoðazt öðruvísi en sem nauðungarsamningur, og nauðungarsamninga verða menn að halda að því leyti, sem annað er ómögulegt. En þegar við bætist, að hér á að skuldbinda þjóðina um alla framtíð, þá liggur það einnig fyrir, að þar er beitt valdi af hálfu íslenzkra stjórnarvalda. þar er beitt valdi á óborna niðja þessarar þjóðar, sem með engum siðferðisrétti er hægt að telja að liggi á valdsviði þeirrar stjórnar, sem hér stendur að málum.

Herra forseti. í þeim umr., sem hér hafa farið fram, hafa þeir talsmenn ríkisstj., sem mælt hafa fyrir þessum samningi, haldið því fram, að við andstæðingar hans viljum ekki fara að alþjóðalögum og við viljum einskis virða alþjóðadómstólinn í Haag. Hér eru fullyrðingar gersamlega út í loftið. Hvorugt þetta verðum við sakaðir um með réttu. Við höfum aldrei lagt til, að gerðar yrðu neinar þær ráðstafanir um landhelgi Íslands, sem brjóta í bága við alþjóðalög. En við vitum fullvel af þeirri staðreynd, að alþjóðalög um landhelgismál eru býsna takmörkuð og að það er viðurkennt af fjölmörgum vel menntuðum og vel metnum lögfræðingum á þessu sviði, að um víðáttu landhelginnar eru engin alþjóðalög gildandi. Þar af leiðandi höldum við því fram, að það sé okkur heilladrýgst að halda okkur að okkar landgrunnslögum og færa út víðáttu okkar landhelgi eftir því, sem við sjáum möguleika til á hverjum tíma. ekki þvert ofan í alþjóðalög, heldur svo langt sem við komumst án þess að brjóta þau, þar sem þau kunna að liggja fyrir. Því hefur verið ágætlega lýst af einum ráðherra, hæstv. fjmrh., í þessum umr., við fyrri umr. málsins, að alþjóðadómstólnum er einnig ætlað að fella dóma í tilfellum, þar sem engin lög eru til um það efni, sem hann fjallar um. Þá á hann að dæma, eins og segir og eins og ráðh. tók fram, eftir sanngirni og réttlæti. En nú vitum við það, að sanngirni og réttlæti eru ærið teygjanleg hugtök, og við vitum það, að í deilunni um yfirráðin yfir íslenzku fiskimiðunum hafa Bretar talið allt aðra hluti vera réttlæti en við teljum vera réttlæti, og þeir hafa einnig talið allt aðra hluti vera sanngirni en það. sem við getum fallizt á að sanngirni sé. Nú hagar málum svo til, að um skipun alþjóðadómstólsins ræður mestu stofnun, sem við höfum aldrei átt neinn fulltrúa í, þ.e.a.s. alþjóðadómstóllinn er skipaður af öryggisráðinu. Þar eiga Bretar fulltrúa, við eigum þar ekki fulltrúa. Þar eiga Bandaríkjamenn, sem bezt hafa stutt við bakið á Bretum til þess að þjappa að rétti okkar í þessu máli, líka fastan fulltrúa, og þannig mætti áfram telja. Réttlæti alþjóðadómstólsins og sanngirni hans er þess vegna engan veginn óyggjandi. Þar sem hann hefur ekki lög til þess að dæma eftir, þar höfum við ekki ástæðu til þess að sækjast eftir því að skjóta málum okkar undir hann.

Í þessum umr. hefur sitt hvað komið fram, sem fróðlegt er ýmist að rifja upp eða athuga nokkru nánar. Hér hefur t.d. verið rætt um þá 3 mílna landhelgi, sem íslendingar bjuggu við fyrra helming þessarar aldar, eða frá 1901 til 1952. 3 mílna landhelgin var okkur með öllu ófullnægjandi. Hún var aldrei sett með okkar þarfir fyrst og fremst fyrir augum. Hún var sett, á meðan við vorum nýlenduþjóð og gátum ekki sjálfir ráðið okkar málum. Það var þrengt og margþrengt að íslendingum í landhelgísmálunum, og sú eftirgjöf var notuð þeirri herraþjóð, sem við bjuggum þá undir, Dönum, til framdráttar í verzlunarsamningum við Breta. Það er margsannað í alþjóðlegum skýrslum, að hér var um nær stöðuga ofveiði að ræða á okkar fiskimiðum, þegar liða tók nokkuð á öldina og eftir að hin stórvirkari fiskiskip, eins og togarar, komu til sögunnar, og hefur t.d. hæstv. sjútvmrh., Emil Jónsson, sýnt fram á það og raunar fleiri í fyrri umr. þessa máls, að líklegt er, eð fiskveiði við Ísland hefði verið stórlega skert um ófyrirsjáanlegan tíma, ef ekki hefðu komið nokkrar eyður í veiðarnar hjá þeim stórþjóðum, sem á fjölda stórvirkra fiskiskipa sóttu okkar mið, á styrjaldartímunum tvennum, sem gengu yfir einmitt á þessu tímabili og stöðvuðu að verulegu leyti veiðarnar, svo að fiskstofnarnir við Ísland gátu nokkuð rétt við í þeim hléum og gerðu það líka. Ég ætla, að um þessa skoðun sé enginn ágreiningur meðal þeirra manna, sem hafa lagt orð í belg um þessi mál, heldur séu þetta viðurkenndar staðreyndir. Á þessu tímabili var fiskveiðilögsagan, sem við að nafninu til áttum að njóta, eða landhelgin tæplega 25 þús. km2 að stærð af sjávarfletinum næst ströndum landsins. En raunverulega var þetta svæði ekki friðað, vegna þess að landhelgisgæzla var mjög ófullkomin fram eftir öldinni, fyrstu áratugi hennar og reyndar má segja allan tímann, þótt nokkuð brygði þar til hins betra horfs, eftir að íslendingar tóku þessi mál í eigin hendur og lögðu meiri rækt við þau en áður hafði verið gert, á meðan þau voru í höndum Dana, enda þótt vanefna Íslendinga gætti þar um lengi.

Það var þess vegna enginn ágreiningur hjá Íslendingum um það, að hér þurfti að spyrna við fæti. hér þurfti að fá viðurkennd stærri hafsvæði við landið sem sérréttindasvæði Íslendinga sjálfra, og af þeirri nauðsyn voru hér á Alþingi sett landgrunnslögin 1948. Þau lög lýstu yfir því, að Íslendingar teldu sig eiga rétt til yfirráða á landgrunninu við Ísland, — landgrunninu, sem Ísland stendur á. Hæstv. fjmrh. skilgreindi það nokkuð hér í sinni ræðu við fyrri umr. þessa máls. hvað landgrunnið væri, það væri hjalli eða hilla, sem næði út frá landinu, mismunandi langt á hinum ýmsu stöðum, en í aðalatriðum hefði það lögun landsins sjálfs, með flestum þeim stærri fjörðum og flóum, sem inn í landið ganga. Lengi vel hafa verið nokkuð á reiki hugmyndir manna um, hvað telja ætti landgrunnið ná út á mikið dýpi. En nú mun það vera nokkuð almenn skoðun, að telja beri, að landgrunnið nái allt út á 200 m hafdýpi. 3 mílna landhelgin okkar náði hvergi neitt nálægt brúnum landgrunnsins. Það var þess vegna langur vegur fyrir hendi, þegar íslendingar settu lög um að helga sér landgrunnið, ná yfirráðum yfir því, ná að skipuleggja nytjar íslendinga af því, og það var einnig vitað, að á þeim vegi mundu verða mörg ljón, svo sem þegar er komið á daginn og allir vita. Engu að síður vil ég minna á það, að á grundvelli landgrunnslaganna og með einhliða aðgerðum hafa allar þær aðgerðir, sem Íslendingar til þessa hafa gert í landhelgismálinu og nú hafa um það bil þrefaldað stærð fiskveiðilandhelginnar, — allar þær ráðstafanir hafa verið gerðar með einhliða ráðstöfunum. Og það er allsendis ósannað, hvort við hefðum fengið nokkurn ferþumlung til viðbótar 3 mílunum undir okkar lögsögu, ef við hefðum eingöngu blínt á þá leið, sem í samningi þeim eða samningsuppkasti, sem hér liggur fyrir, er gert ráð fyrir að farin verði í framtíðinni, og mun ég máske síðar að því víkja nokkru nánar.

Það væri synd að segja, að Íslendingar hefðu farið að því með ofstopa að bæta úr hinni brýnu þörf sinni fyrir stærri fiskveiðilögsögu, þegar hafizt var handa og þegar samningur Dana og Breta um 3 mílna landhelgina við Ísland rann út árið 1951. Við tókum okkur nokkurn umþóttunartíma, og það var ekki fyrr en á árinu 1952, að hafizt var handa, og þá var hafizt handa með þeim hætti, að fiskveiðilögsagan var stækkuð um í sjómílu, hún var færð út um á milli 1600 og 1700 metra. Það er svo sem eins og lengdin á tveimur netatrossum. En raunverulega stækkaði þó landhelgin meira, vegna þess að um leið og 4 mílna landhelgin var innleidd, var einnig dregin grunnlína fyrir firði og flóa, sem áður höfðu staðið opnir. Þessi ráðstöfun stækkaði landhelgina úr 25 þús. km2 í 43 þús. km2 og var þess vegna veruleg stækkun, enda mátti fljótt á sjá, að hún gaf miklum mun betri árangur fyrir íslenzku veiðiskipin en áður hafði náðst, enda þótt stækkunin væri ekki meiri en svo, að eftir hana höfðum við yfirráð á 43 þús. km2 af hafsvæðinu við strendur landsins. En einnig þá voru til þjóðir, sem vildu ekki una því, að íslendingar fengju neina stækkun á landhelginni. Bretar mótmæltu 4 mílna landhelginni, þeir höfðu uppi mótmæli í mörgum liðum. Þeir töldu þetta vera mjög slæma meðferð á brezka ríkinu, og á harmatölum þeirra ekki síður þá en nú hefði næstum mátt skilja, að þetta væri það rothöggið, sem mundi verða þess valdandi, að Bretaveldi liði undir lok. Og þeir sýndu ekki minnsta skilning á þörfum okkar Íslendinga til þess arna. Þeir virtu það líka að engu, þótt samhliða þessari útfærslu væri ákveðin sérstök friðun bæði á þeim hafsvæðum, sem þarna bættust við okkar landhelgi, og einnig hinum, sem höfðu verið landhelgi okkar áður. Við bönnuðum Íslendingum sjálfum ýmsar veiðar á 4 mílna svæðinu. Við bönnuðum allar togveiðar á því, og við bönnuðum einnig dragnótaveiðar á því, líka Íslendingum sjálfum. Það kom líka í ljós, að eftir þessar friðunarráðstafanir tóku ýmsir þeir fiskstofnar, sem áður höfðu verið ofveiddir við landið, að rétta við og stækka, og það kom ekki bara okkur að gagni, það kom líka þeim að gagni, sem fiskuðu fyrir utan okkar landhelgi, og það voru ekki við einir. Þar áttu stærsta hlutinn að Bretar sjálfir, og þeir fengu að sjá það eftir nokkur ár, að þessi ráðstöfun okkar var ekki einasta okkur í hag, heldur líka þeim. Og þar kom að lokum, eftir að þeir höfðu rekið við okkur viðskiptastyrjöld um margra ára skeið, svikið á okkur gerða milliríkjasamninga og bannað okkur, þó með óformlegum hætti og að forminu til án tilskipana stjórnarvaldanna þar í landi, að landa ísvörðum fiski í mörg ár í sínu landi, sem við höfðum þó skv. milliríkjasamningi skýlausan rétt til, — sem sagt, Bretar uppgötvuðu að lokum, að þessi ráðstöfun okkar kom einnig þeim að góðu gagni, því að það væri mikill misskilningur, ef Bretar héldu, að það væri einhver þeirra hagur að ganga svo nálægt fiskstofnunum við Ísland, að þeir gætu engar nytjar af sér gefið. Og nú kom að því, að þeir féllu frá mótmælunum gegn 4 mílna landhelgi.

Enn líður tíminn og okkar fiskifloti tekur að þróast mjög ört á áratugnum milli 1950 og 1960. Skipin bæði stækka og þeim fjölgar, og veiðihæfni þeirra fer vaxandi. En allt þetta kallaði auðvitað á það, að þau fengju stærra athafnasvæði á Íslandsmiðum, því að enn voru þau mjög aðþrengd, þrátt fyrir það að landhelgin hefði verið stækkuð í 4 mílur. Það var þess vegna öllum ljóst, er tímar liðu fram, að við hlutum að halda áfram á þeirri braut að helga okkur stærri hluta af hafsvæðunum við landið, til þess að við gætum nýtt okkar fiskiskipastól og til þess að áfram þróaðist okkar fiskiðnaður, sem einmitt hafði risið upp og þróazt mjög til hagsbóta fyrir land og þjóð á árunum, sem Bretar neituðu að taka við fiskinum sem hráefni upp úr okkar skipum í brezkum höfnum.

Til Alþingis tóku fljótlega eftir útfærsluna 1952 að berast tillögur frá einstökum þingmönnum, oftast nær gerðar í samráði við hagsmunasamtök útgerðar- eða sjómanna, um stækkun landhelginnar. Það komu fram till. um stækkun landhelginnar út af Vestfjörðum. Það komu fram till. um réttingu á grunnlínunum, og hafði þáv. ríkisstj., ríkisstjórn sú, sem tók við stjórn hér árið 1953, stjórn Ólafs Thors, þá gefið alveg sérstakt tilefni til þess, að slíkar till, kæmu fram. Hún hafði sem sagt, þó að hún legðist á allar slíkar till., gefið út merkilegt rit um landhelgismál Íslendinga, hvita bók. Sú bók var aðallega til þess ætluð að eyða ýmiss konar firrum, sem fram höfðu komið í fullyrðingum Breta um það, að Íslendingar væru að brjóta alþjóðalög, því að auðvitað lágu Íslendingar þá undir þeim orðrómi frá Bretum, alveg eins og stjórnarandstaðan hér á þingi liggur nú undir þeim ásökunum af stjórnarinnar hálfu að vilja ekki virða alþjóðalög. Bretar báru það sem sagt á okkur, að við hefðum brotið ýmiss konar alþjóðalög með útfærslunni 1952. Ríkisstjórn Ólafs Thors, sú sem sat frá 1953 til 1956, gaf út rit, sem mótmælti þessu, og sýndi fram á það með tilvitnunum í ýmsar samþykktir frá alþjóðaráðstefnum, að þessu væri alveg öfugt farið, Íslendingar hefðu hvergi brotið alþjóðalög, þeir hefðu þvert á móti látið hjá líða að taka til sín allan þann rétt, sem alþjóðareglur í rauninni gæfu þeim fylista rétt á. Og þar var alveg sérstaklega tiltekið, að það væri enginn vafi á því, að íslenzka ríkisstjórnin hefði haft fullan rétt á því að draga lengri grunnlínur á nokkrum tilteknum stöðum og hafa grunnlínupunktana færri, með þeim afleiðingum, að landhelgislínan hefði færzt út og fiskveiðilögsaga okkar stækkað.

Ég minnist þess, að ég flutti eitt sinn á Alþingi till. um það, að allar þær grunnlínubreytingar, sem í þessari hvítbók ríkisstj. voru taldar heimilar, yrðu gerðar. Og þegar ríkisstj. stóð frammi fyrir því, að hún þurfti að taka afstöðu til þess, hvort hún ætti að framkvæma nauðsynlega stækkun á fiskveiðilögsögunni, — stækkun, sem hún sjálf hafði í riti sínu talið fullkomlega heimila. þá að vísu komst hún í nokkurn vanda, og hún leysti þann vanda með því að láta þessa till., ásamt reyndar fleiri till. til stækkunar á landhelginni, aldrei koma til afgreiðslu þingsins. Þær voru jarðaðar í ruslakistum ríkisstj. og fengu enga þinglega afgreiðslu. En þó að ríkisstj. legðist á till. stjórnarandstæðinga með þessum hætti, sem ég vildi einna helzt flokka undir lágkúru og þykir eiga þar vel heima, af því að þrátt fyrir allt hafði hún of mikla samúð með Bretum, til þess að hún hefði dug til að framfylgja rétti Íslendinga, þegar Bretar áttu í hlut annars vegar, þá breytti það ekki því, að vaxandi fiskifloti kallaði á stækkaða landhelgi. Og þegar þessi ríkisstj., sem ég nefndi, ríkisstj. Ólafs Thors, sem sat á árunum 1953–56, var öll, þá var gerður nýr stjórnarsáttmáli, sáttmáli vinstri stjórnarinnar, en eitt af aðalatriðunum í honum var ákvæði um það, að fiskveiðilandhelgi Íslands skyldi stækkuð.

Og nú kom til Teits og Siggu. Þegar framkvæma átti þetta stjórnarsáttmálaatriði, er því ekki að leyna, að um það reyndist vera þverbrestur í ríkisstj. Alþfl. neitaði að vísu ekki útfærslu, en hann bað um frest á frest ofan, og honum voru veittir ýmsir frestir. Það var beðið eftir því, hvernig fiskveiðilögsögu eða landhelgismálum reiddi af á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna árið 1957. Sú afgreiðsla var með þeim hætti, eins og menn máske muna, að allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna komst ekki að neinni niðurstöðu, annarri en þeirri að vísa málinu til sérstakrar hafiagaráðstefnu. Sú ráðstefna var haldin árið eftir, árið 1958. Og enn fékk Alþfl, því ráðið, að engar hreyfingar voru gerðar á íslenzku landhelginni, heldur öllu slegið á frest fram yfir þá ráðstefnu. Allan þennan tíma lá það auðvitað skýrt og greinilega fyrir, að við hefðum ekki brotið nein alþjóðalög, þótt við hefðum fært út fiskveiðilögsöguna á þessu tímabili, og alveg sérstaklega lá það fyrir óhrakið, að við höfðum beinlínis rétt til þess að breyta grunnlínunum á þessu tímabili. En hvað vantaði þá? Jú, það vantaði viljann í ráðherra Alþfl. í vinstri stjórninni til þess að framkvæma grunnlínubreytingar eða landhelgisstækkun með öðrum hætti. Forsrh., sem þá var, Hermann Jónasson, var að sjálfsögðu í nokkrum vanda með stjórn sína, sem þannig var sjálfri sér sundurþykk í þessu máli, og hann tók þá afstöðu, sem ég vil ekki lá honum, að ekki væri hægt fyrir ríkisstj. að standa að öðrum landhelgisstækkunum en þeim. sem hún ætti þingmeirihluta fyrir. Nú var það alkunnugt. að Alþb. og Framsfl., sem að málinu vildu standa, höfðu ekki þá frekar en nú meiri hluta hér á Alþingi. Þar af leiðandi varð að skera úr því, hvort Alþfl. eða þá Sjálfstfl. vildi styðja frekari stækkun landhelginnar, og eftir mikið þóf voru þeir beinlínis píndir til þess, Alþýðuflokksmennirnir, eins og síðan hefur verið margupplýst, m.a. í ræðum Bjarna Benediktssonar, sem gerla veit, hvað gerist í Alþfl. Því var af hans hálfu lýst yfir á landsfundi Sjálfstfl., að Alþfl. hefði verið píndur í þessu máli. og mér vitanlega hefur Alþfl. eða nokkur meðilmur hans ekki reynt að neita þessu nokkru sinni, eða hafi þeir gert það, þá hefur það a.m.k. farið fram hjá mér. Og hafi þeir gert það, þá er það ekki heldur sannleikanum samkvæmt, því að þeir urðu mjög nauðugir að standa að þeirri landhelgisstækkun, sem gerð var haustið 1958. En þeir virðast líka sýnu viljugri til þess að minnka þá landhelgi nú. Að því leyti má það kannske teljast óvenjulegt um Alþfl., að hann er sjálfum sér samkvæmur í þessu máli.

En þrátt fyrir tregðu Alþfl. var landhelgin stækkuð í 12 mílur hinn 1, sept. 1958, og varð þá stær8 fiskveiðilögsögu um 70 þús. km2 af haffletinum við strendur landsins. Þannig hefur landhelgin verið í 21/2 ár. Það er að vísu ekki langur reynslutími, það skal ég játa, en ég held nú samt, að það sé svolítið vert að leiða hugann að því, hvernig þessi landhelgisstækkun hefur gefizt íslenzku þjóðinni.

Segja má að vísu, að Íslendingar hafi ekki notið þessarar landhelgi alveg óskorað. Bretar hófu hér ránskap undir vernd sinna herskipa og undir vernd sinna fallbyssukjafta í landhelginni okkar. En þeim varð svo furðulega lítið ágengt, að það má segja, að árangurinn hafi ekki verið meiri eða stórkostlegri en þótt risa tækist að rota flugu. Þeir gátu aldrei hersetið samtímis nema örlitla bletti at landhelgisstækkuninni. Það hefur verið gizkað á, að stærstu reitirnir, sem þeir gátu helgað sér yfirráð á hverju sinni, hafi máske numið um 2 þús. km2. En ef við lítum til þess, hvað Íslendingar drógu úr sjó, áður en þessi landhelgisstækkun fór fram, og hvað þeir hafa fengið úr sjó, eftir að landhelgin stækkaði, þá skulum við líta á tvö ár. Árið 1957 er síðasta heila árið, sem Íslendingar stunda veiðar sínar með 4 mílna landhelginni. Það ár varð heildarafli íslenzkra skipa 436 þús. tonn. Árið 1957, síðasta árið fyrir landhelgisstækkunina í 12 mílur, var heildarafli íslenzkra fiskiskipa 436 þús. tonn. Fyrsta heila árið eftir landhelgisstækkunina, þ.e.a.s. árið 1959, sem reyndar er eina heila áríð eftir landhelgisstækkunina. sem fiskveiðiskýrslur þær, sem birtar hafa verið opinberlega, ná yfir, veiddu íslenzku fiskiskipin afla úr sjó, sem samtals nam 564 þús. tonnum. Heildarafil Íslendinga á þessum tveim árum, frá 1957 til 1959, óx um 156 þús. tonn, en það er á milli 29 og 30%. Það væri því rangt að segja, að íslenzka þjóðarbúinu hafi ekki áskotnast góður búhnykkur, þegar landhelgin var stækkuð í 12 mílur.

Ef litið er til þess, hvað skeður í verðmætum þjóðarframleiðslunnar á þessu sama tímabili, kemur í ljós, að á árunum 1958 og 1959 vex verðmæti íslenzkrar framleiðslu — þjóðarframleiðslunnar um 13.2%. en það er með því mesta, sem þekkist í þjóðarframleiðslu um eitthvert árabil.

Þetta gat herskipafloti Breta ekki hindrað. Hann gat ekki hindrað það, að fiskafli Íslendinga óx um 29–30% og að verðmæti íslenzkrar þjóðarframleiðslu óx á sama tíma um 13.2%. Þá vantaði ekki viljann til þess að hersetja íslenzka landhelgi, en svo óverulegt var það, sem þeim varð ágengt, afl þrátt fyrir ránveiðar þeirra gerðust þeir hlutir, sem ég hér hef lýst.

Frammi fyrir þessum staðreyndum, sem einmitt voru að þróast, þegar dró að því, að íslenzka þjóðin ætti að kjósa til Alþingis og frekar tvisvar en einu sinni á árinu 1959, vildu ýmsir, sem lítið komu við sögu til stuðnings íslenzkum málstað, þegar landhelgin var stækkuð í 12 mílur, eiga sinn hlut í dýrðinni, og þá vildu þeir ekki liggja undir því, að þeir sætu á svikráðum við landhelgina, sem var að gefa okkur þann árangur, sem ég hef lýst. Þeir stóðu einnig í því, sem tregastir voru og mótsnúnastir 12 mílna landhelginni, þegar hún var sett, að samþykkja till. á Alþingi hinn 5. maí 1959. Sú tillaga var reyndar stefnuyfirlýsing allra þeirra, sem í framboð fóru árið 1959. og yfirlýsing þeirra til kjósenda um það, hvar þeir stæðu í landhelgismálinu, og með leyfi forseta vil ég leyfa mér að lesa upp þá tillögu orði til orðs, til þess að það fari ekkert á milli mála, hverju þjóðinni var lofað. Till., sem samþykkt var með öllum greiddum atkv. á Alþingi, var þannig:

„Alþingi ályktar að mótmæla harðlega brotum þeim á íslenzkri fiskveiðilöggjöf, sem brezk stjórnarvöld hafa efnt til með stöðugum ofbeldisaðgerðum brezkra herskipa innan íslenzkrar fiskveiðilandhelgi, nú nýlega hvað eftir annað jafnvel innan 4 mílna landhelginnar frá 1952. Þar sem þvílíkar aðgerðir eru augljóslega ætlaðar til að knýja íslendinga til undanhalds, lýsir Alþingi yfir, að það telur Ísland eiga ótvíræðan rétt til 12 mílna fiskveiðilandhelgi og afla beri viðurkenningar á rétti þess til landgrunnsins alls, svo sem stefnt var að með lögunum um vísindalega verndun fiskimiða landgrunnsins frá 1948, og að ekki komi til mála minni fiskveiðilandhelgi en 12 mílur frá grunnlínum umhverfis landið.“

Berum þessa samþykkt saman við það, sem nú er að gerast hér á Alþingi og búið er að gerast hjá hæstv. ríkisstj. í samningum eða samningaumleitunum við Breta. Í upphafi þessarar ályktunar segir: „Alþingi ályktar að mótmæla harðlega brotum þeim á íslenzkri fiskveiðilöggjöf, sem brezk stjórnarvöld hafa efnt til með stöðugum ofbeldisaðgerðum brezkra herskipa innan íslenzkrar fiskveiðilandhelgi.“ Þetta er fyrsti liðurinn í þessari ályktun. Ég er hræddur um, að það hafi einhverjir fallið frá mótmælum í þessu efni. En það eru ekki Bretar. Það er íslenzka ríkisstjórnin. Hún „mótmælti brotum þeim á íslenzkri fiskveiðilöggjöf, sem brezk stjórnarvöld hafa efnt til með stöðugum ofbeldisaðgerðum brezkra herskipa innan íslenzkrar fiskveiðilandhelgi“. Frá þessu hefur íslenzka ríkisstj. fallið, og ég efast ekkert um það, að hún hefur ekki fallið frá þessu til þriggja ára, hún hefur fallið frá þessu um alla framtíð, þessi ríkisstj. Vera má einnig, að ég komi að því svolítið síðar, að hún hefur sýnt það fráhvarf sitt rækilega í verki. Það, sem fyrst liggur því fyrir í þessu máli, er, að það var íslenzka ríkisstjórnin fyrst og fremst, sem féll frá mótmælum, mótmælunum gegn því, að Bretar hersætu landhelgina. Hún féll frá því að gera það, sem þm. voru kosnir út á að gera og þeir lýstu yfir allir í síðustu kosningum og í síðustu tvennum kosningum.

Annað efnisatriðið er það, að Bretar eru einnig ásakaðir fyrir það að brjóta 4 mílna landhelgina, sem þeir voru fallnir frá mótmælunum við.

Það rifjast upp fyrir manni, að hæstv. dómsmrh. sendi eitt sendibréf suður í Háskóla Íslands til þess að spyrja þá vísu menn þar, prófessora lagadeildarinnar, hvernig bæri að skilja orðalag í samningi, sem ráðh. sjálfur var rétt að ljúka við að gera. Hann virtist ekki lengur botna í því sjálfur, hvernig bæri að skilja þetta. A.m.k. kallaði hann til prófessora, sem enn voru starfandi. Hann hefur sjálfsagt talið, að sjálfur hann, sem er gamall lagaprófessor, gæti kannske ekki alveg treyst á það, hvað honum fyndist, hann væri eitthvað farinn að ryðga í fræðunum. En þá kallaði hann til prófessora lagadeildarinnar og spurði þá, hvernig ætti að skilja þetta ákvæði í samningi, sem hann sjálfur hafði gert. Það er auðvitað ósköp mannlegt að spyrja aðra um slíkt, þegar menn hafa ruglazt sjálfir. En það er náttúrlega ekki alveg örgrannt, að það geti ekki fleiri ruglazt. Þessir prófessorar gáfu ráðh. yfirlýsingu, sem hann hefur lesið nokkrum sinnum hér á þingi, rétt eins og hann stæði hér í málþófi, sem hann þó ber aðallega á aðra, og hann hefur látið ríkisútvarpið, sem íhaldið virðist eiga og notar nokkurn veginn eftir sinni vild, — látið lesa þessa yfirlýsingu prófessoranna í útvarpið, af því að hann heldur, að hún hafi eitthvert áróðursgildi. Það getur vel verið, að einhverjir haldi það, að prófessorar séu merkilegri menn en annað fólk. En ég verð að segja það, að í þeirri yfirlýsingu, sem þeir þarna hafa gefið, þá finnst mér, að þeir eigi eftir spöl ógenginn til þess að skynja veruleikann eins og hann liggur fyrir.

Þeir góðu prófessorar hefðu gjarnan mátt leiða hugann að því, að það eru til fordæmi um það, hvernig fráhvarf frá mótmælum gegn ákveðinni landhelgislínu hafa staðizt. Bretar sem sagt hurfu frá mótmælunum gegn 4 mílna landhelginni. En það vita flestir, nema þá uppgjafaprófessorar og þá líka starfandi prófessorar, að Bretar hafa með togskipum sínum vaðið inn fyrir þessa línu, og það datt víst engum í hug, nema þá kannske prófessorum, að það væri hægt að stöðva þær aðgerðir Breta með bréfi eins og lagadeild háskólans hefur nú sent dómsmrh. Íslands. A.m.k. prófaði dómsmrh. það ekki að stöðva þær aðgerðir Breta með slíku bréfi.

Að öðru leyti segir í þessu plaggi prófessoranna. að þeir hafi kannske ekki nógu góða þekkingu á ensku máli, en þeim virðist vera nokkur blæbrigði á enska og íslenzka textanum, og þeir virðast vera alveg ruglaðir í því, eftir hvorum þeirra þeir eigi að fara, og það virðist ríkisstj. sjálf vera líka. Það er ekki hægt að sjá, hvor textinn á að vera frummálið, hvor textinn á að gilda. Ég sé engin ákvæði um það, hvor textinn sé gildandi, en einhvern veginn hafði maður ætlað það, að frumtextinn væri íslenzkur, þegar í hlut á íslenzka utanrrn., en reyndar er nú svo komið málum, að margur er farinn að efast um það.

Ég vil samt ekki segja, þrátt fyrir allt, að þetta blað prófessoranna við lagadeild háskólans sé að öllu ómerkilegur pappír. Ég held, að ráðh. hefði máske getað haft af honum einhver not, ekki þau, sem hann reynir að hafa. Ég held, að hann hefði átt að reyna að nota þann pappír til þess að sýna hann Bretum og segja þeim, að úr því að íslenzku háskólaprófessorarnir kvæðu upp þann úrskurð, sem hér hefur verið gerður, þá skyldu Bretar hætta að þrjózkast við það að taka inn í samninginn það orðalag, að þeir viðurkenndu landhelgina. En það gæti máske verið, að prófessorinn hafi ekki trú á því, að Bretar taki mark á íslenzkum háskólaprófessorum.

Þeir góðu menn, sem það plagg gáfu út. virðast ekki einasta hafa lent út úr sinni fræðigrein, að því er varðar hina ensku þýðingu, þar sem þá skorti sérfræðinga, heldur virðast þeir að verulegu leyti byggja úrskurð sinn eða álit á einhverju sérstöku sálarástandi, sem ríkjandi sé hjá brezku ríkisstj. í málinu. Máske hafa þeir kallað sér til aðstoðar einhverja sálfræðinga, — mér er kunnugt um það, að einn sálfræðingur hér í bæ hefur lítið mjög að útvegsmálum nú að undanförnu, og það má vel vera, að þeir hafi leitað álits hans um sálarástand brezku ríkisstj., — en samt sem áður leyfi ég mér að efast um, að það mat á því sálarástandi. sem sá sálfræðingur mundi gera eða sálfræðingar yfirleitt, sé samhljóða því, sem háskólaprófessorarnir í lagadeild virðast gera að sinni forsendu.

Ég gat um það áðan, að hæstv. dómsmrh., sem er landhelgisráðherra, sem hefur með að gera þann þátt landhelgismálsins, sem varðar víðáttu lögsögunnar og að sjálfsögðu einnig dómsmál í sambandi við landhelgisbrot, reyndi ekki að stöðva Breta með þessum hugmyndum sínum og annarra prófessora. Hann þvert á móti gaf Bretum upp sakir, einnig fyrir þau brot, sem þeir höfðu framkvæmt innan við 4 mílna landhelgina.

Það liggur í augum uppi. að slík plögg sem hér um ræðir binda á engan hátt Breta til þess að skilja sinn milliríkjasamning með einum eða neinum hætti. Það eina, sem máli skiptir í þessu, er auðvitað það, hvaða skilning Bretar leggja sjálfir í þetta og hvernig ætla þeir að framkvæma það. Þegar enginn mótstöðukraftur virðist í íslenzkum stjórnarvöldum til þess að hamla gegn neinu, sem Bretar ákveða, þá er auðvitað ekkert, sem máli skiptir í þessu, nema það, hvað Bretar ætla sér sjálfir.

Ef við höldum áfram og lítum á þriðja efnisatriðið í yfirlýsingunni frá 5. maí, sem var stefnuyfirlýsing allra þingmannsefna og væntanlega hefði átt að vera þingmanna líka, þótt svo reyndist nú ekki, þá er það það, að í till. er lýst yfir, að Íslendingar eigi ótvíræðan rétt til 12 mílna landhelginnar. Og ef maður lítur á efnisatriðið, sem er lokaefnisatriði till., þá er það ákveðið, að ekki komi til mála minni landhelgi við Ísland en 12 mílur frá grunnlínunum. En það skýtur heldur skökku við varðandi þennan samning, því að hér er einmitt ráðgert að hleypa Bretum inn í okkar landhelgi og reyndar ekki bara Bretum, heldur öllum öðrum, sem þess kunna að krefjast. Og þá er það auðvitað orðinn orðaleikur, sem er óraunhæfri ríkisstj. einni samboðinn, að kalla það íslenzka landhelgi, sem allar aðrar þjóðir mega gera sér að góðu eftir vild, þær sem vilja hagnýta sér þær reglur, sem settar hafa verið þar um, eða stunda þar fiskveiðar á vissum tímum og á vissum svæðum.

Eitt efnisatriði er enn þá ótalið í þessari samþykkt frá 5. maí, en það er það efnisatriði, að íslenzka ríkisstj. eða íslenzk stjórnarvöld ætli að leita eftir viðurkenningu annarra þjóða. til réttar síns yfir landgrunninu. Í samningi þeim, sem hér liggur fyrir, er greinilega horfið frá þessu með því að ákveða, að Bretar og þeir aðrir, sem kynnu að gerast aðilar að þessum samningi, geti skotið öllum slíkum ágreiningi fyrir alþjóðadómstólinn. Og nú er það upplýst, að alþjóðadómstóllinn hefur engin lög til að dæma eftir í þessu efni. þ.e.a.s. það á þá að leggja tilkall okkar til fiskveiðilögsögunnar undir það, sem kalla mætti sanngirni og réttvísi þeirra dómenda, sem í alþjóðadómstólnum sitja. En þetta er auðvitað víðs fjarri því að fá viðurkenningu annarra þjóða fyrir yfirráðarétti okkar yfir landgrunninu og allt annað, og hér er hlaupizt frá málinu og reyndar dálítið verra en það, því að jafnvel þótt við fengjum viðurkenningu einhverra þjóða fyrir yfirráðarétti okkar yfir öllu landgrunninu, þá á það þó að standa eftir, að ef við vildum nota okkur þann yfirráðarétt, þá værum við að samningi þessum skyldugir til þess í fyrsta lagi að tilkynna hann öðrum, rétt eins og þeir væru aðilar að málinu, með ákveðnum fyrirvara, og síðan að leggja málið undir alþjóðadómstólinn. Hér er því greinilega í efnisatriðunum vikið algerlega frá því, sem var stefnuyfirlýsing þingflokkanna allra við síðustu kosningar, og í framhaldi at því verður að Álykta: Þeir alþm., sem hér sitja, hafa sagt kjósendum sínum það, að þeir ætluðu ekki að veita Bretum nein réttindi í landhelginni, þeir ætluðu að mótmæla öllu þeirra ofbeldi, en ekki falla frá mótmælunum o.s.frv., en hér eru þeir að mynda sig til þess að gera einmitt hið gagnstæða.

Ég hef hér lýst því nokkuð, hvernig aðgerðir okkar í landhelgismálum á undanförnum árum hafa þróazt og hver árangur hefur orðið af þeim. Alltaf hingað til hefur verið reynt af þeim ríkisstj., sem með málið fóru hverju sinni, að hafa samráð og samstöðu við þjóðina og stjórnmálaflokkana á sem breiðustum grundvelli. Sú hæstv. ríkisstj., sem nú situr, er sú fyrsta, sem hverfur algerlega frá þeirri reglu. Sú regla var gildandi allt fram undir þetta. Og þótt þeir aðilar, sem að þessari ríkisstj. standa. hafi fyrir nokkru setzt að leynisamningum við Breta um þetta mál og farið þar á bak við andstæðinga sína, þá var þessum klofningi, sem hún þannig var að koma af stað, ekki lengra komið en svo, að við val fulltrúa á aðra hafiagaráðstefnuna, sem haldin var í Genf 1960, treystist stjórnin ekki til annars en hafa í sendinefnd á þeirri ráðstefnu einnig fulltrúa stjórnarandstöðuflokkanna.

Sú ráðstefna, Genfarráðstefnan 1960, var að ýmsu leyti lærdómsrík fyrir Íslendinga. Þar kom það greinilegar í ljós en á nokkurri ráðstefnu áður hafði gert, enda þótt farið væri að örla á því áður, að allar þær ríkisstj., sem ráða fyrir ríkjum, sem við erum í bandalagi við, Atlantshafsbandalagsþjóðirnar, Atlantshafsbandalagsríkisstjórnirnar, þær voru í einum samblæstri á móti hagsmunum okkar Íslendinga. Þær stóðu að því að flytja þar tillögur. sem okkur voru svo óhagkvæmar, að jafnvel Morgunblaðið hafði á sinni tíð kallað þær rýtingsstungu í bak Íslendinga. Á þessari ráðstefnu reyndu Bandaríkin að beita öllum sínum áhrifum til þess að fá þær þjóðir, sem hún hafði eitthvað saman við að sælda með þeim hætti, að hún taldi sig hafa á þeim einhver tök, til þess að ganga á móti okkur í málinu. Það var dálítið sorgleg saga fyrir íslenzku ríkisstj., sem elskaði þarna óvini sína, en var lítið um hina gefið, sem veittu henni lið, — það var dálítið sorglegt fyrir hana að sjá það, hvernig málin snerust, að hún var umkringd af sendinefndum þeirra ríkisstj., sem hún var í bandalagi við, en þær voru í samsæri gegn okkur. Þar á móti byggðist okkar von öll á því, að þær þjóðir, sem íslenzku ríkisstj. var minnst um gefið eða jafnvel íslenzka ríkisstj. vildi gjarnan eiga í útistöðum við, voru þær líklegustu til að vernda okkur frá því að lenda í gini úlfsins og gerðu það líka. Í þessu samkvæmi var íslenzka ríkisstj. svo illa haldin, að hún vissi ekki, til hverra ráða hún átti að grípa. Hún prófaði það að hafna samstöðu við þær þjóðir, sem við áttum greinilega samstöðu með í þessu málí, þjóðirnar, sem vildu stóra landhelgi. Hún hafnaði samstöðu við þær. En til þess að reyna að réttlæta afstöðu sína með einhverjum hætti, samdi hún till. um það, að Ísland hefði algera sérstöðu og yrði að líta á það sem slíkt. Þessa till. mun íslenzka ríkisstj. hafa gert sér einhverjar vonir um, að hún fengi bandalagsþjóðir sínar til þess að fallast á. En einnig þar brugðust henni vonir þær, sem til vinanna stóðu. Þeir gengu einnig á móti henni, og hún var felld með geysilega miklum atkvæðamun. þannig að því var slegið föstu á alþjóðaráðstefnu, að ráðstefnan vildi ekki taka tillit til Íslands sem ríkis, sem hefði sérstöðu í landhelgismálum.

Ég er hér með eina blaðsíðu úr Morgunblaðinu frá 15. júní 1960. í því blaði segir frá því, þegar ritstjóri blaðsins gekk á fund brezka fiskimálaráðherrans, sem þá var nú reyndar annar en nú skipar þann ráðherrastói. — John Hare hét hann, sá sem þá var fiskimálaráðherra Breta. Ritstjórinn á við hann allmerkilegt samtal, og þar kemur að lokum, að ritstjóri blaðsins fer fram á það að fá að heyra álit ráðh. um það, hvernig hann telji, að málstaður Breta standi gagnvart Íslendingum. Ráðherrann svarar, — hann er reyndar að svara spurningunni um það, hvort samningar þeir, sem þá stóðu fyrir dyrum við Noreg um fiskveiðilandhelgi Noregs, mundu hafa áhrif á stöðu Breta gagnvart Íslandi, — ráðherrann svarar, með leyfi forseta: „Slíkir samningar mundu sýna, að það geta allir komizt að skikkanlegu samkomulagi við okkur, sem það vilja,“ sagði John Hare. „Slíkir samningar yrðu ykkur siðferðilega í óhag,“ þ.e.a.s. samningar Breta við Noreg. „Þið áttuð undir högg að sækja í Genf. Þar fenguð þið alvarlegt áfall, þegar till. ykkar var felld,“ segir brezki fiskimálaráðherrann. Það skyldi þó aldrei vera, að íslenzka ríkisstj., sem umfram allt vildi semja við Breta, en hafði ekki aðstöðu til þess vegna eindrægni þjóðar sinnar, hafi verið með þeim tillöguflutningi, sem hún hafði uppi á Genfarráðstefnunni 1960 í andstöðu við sendinefndarmenn Alþb. og Framsfl., — það skyldi þó aldrei vera, að íslenzka ríkisstj. hefði með því að láta fella þá till. þar verið að fá sér aðstöðu gagnvart Íslendingum sjálfum til þess að sýna Bretum linkind, eftir að búið var að fella það á alþjóðaráðstefnu, að litið skyldi á sérstöðu Íslands í málinu?

Á þessari ráðstefnu kom til atkvæða till. sú, sem andstæðingar okkar voru búnir að gera allt, sem þeir gátu, til þess að fá þar samþykkta með 2/3 atkv., þ.e.a.s. till. um 12 mílna fiskveiðilandhelgi með undanþáguákvæði upp að 6 mílum fyrir þær þjóðir, sem stundað hefðu veiðar á undanförnum árum á þeim slóðum, sem um ræddi. Þessi till. fékk ekki það atkvæðamagn. sem hún þurfti til þess að fá stoð sem alþjóðleg samþykkt, og það áttum við ekki vinum okkar að þakka, þ.e.a.s. þessum gæsalappavinum okkar, sem við erum í bandalagi við og ævinlega hafa reynzt okkur verst allra þjóða. þegar við höfum þurft á að halda á alþjóðaráðstefnum um þetta mál. Við áttum það þeim ríkjum að þakka sem íslenzku ríkisstj. er minnst um getið að gjalda þakkir sínar fyrir eitt eða neitt.

Síðan lauk þessari ráðstefnu. En þróun mála hélt áfram. Íslenzki dómsmrh., sem sæti hafði átt á ráðstefnunni, kom hingað heim í mýflugumynd, settist hér augnablik niður, — ég er ekki viss um, að hann hafi stanzað meira en einn sólarhring, — og hann átti erindi. Og hvert var nú erindið? Jú, það var að tilkynna það opinberlega, að brezkum ræningjum væru endanlega gefnar upp allar þær sakir, sem á þá höfðu hlaðizt við þjófnað úr okkar landhelgi. Þetta var framkvæmd hans á samþykktinni frá 5. maí 1959 um að mótmæla harðlega ofbeldisaðgerðum Breta í íslenzkri landhelgi. Ég gat um það, að hann hefði ekki stanzað lengi hér heima, hann hefði komið til þess arna og einskis annars. Og hann hélt þegar á burt að þessu loknu, og nú var löng ferð fyrir höndum. Hann hélt allt suður til Miklagarðs, en þar átti þá að hefjast einhver samkunda á vegum Atlantshafsbandalagsins, þar sem búast mátti við því, að þessi mál yrðu rædd. Á þeirri samkundu varð víst eitthvað styttra í umr. en til stóð, sökum þess að landslýður þar hafði risið upp gegn þeirri stjórn, sem ætlaði að vera „vertinn“ í þessu samkvæmi Atlantshafsbandalagsins, og það voru víst ýmsir ráðamennirnir, sem styttu mál sitt meir en til hafði staðið, til þess að ráðstefnunni gæti lokið, áður en landsmúgurinn þar gerði upp reikningana við sína ríkisstj., sem hafði boðið bæði okkar ríkisstj. og öðrum heim til vinafunda, enda máttu þeir ekki öllu seinni vera. því að forsætisráðherra þess ríkis var rétt upp úr þessu gripinn af þjóð sinni og færður í fangelsi, þar sem hann situr enn þá, sakaður um fjölmarga glæpi, og bíður dóms. Og til allrar hamingju sluppu ráðherrar okkar og þeir aðrir, sem ráðstefnuna sóttu, við það að lenda í þessu uppgjöri hjá Tyrkjum.

Sakaruppgjöfin til handa Bretum var sjáanlega gerð í því skyni, að ráðherrar okkar gætu slegið sig til riddara suður í Miklagarði á því að tilkynna þar, hversu eðallyndir þeir væru, að nú væru þeir búnir að gefa upp sakirnar öllum sínum þjófum. En þar í landi var ekki góður markaður fyrir sakaruppgjöf, þar voru menn frekar á þeim buxunum að gera upp sakirnar við þá, sem sökótt áttu, og það varð eitthvað minna úr dýrðinni en til stóð. Engu að síður stendur það, að Bretar, sem hafa rænt og ruplað á okkar miðum að undanförnu, geta nú í skjóli dómsmrh. íslenzka komið inn í íslenzkar hafnir og fengið gert við, — ég veit ekki beinlínis, hvort þeir fá gert við götin á botnvörpunum, sem þeir hafa rifið á botninum á íslenzku landhelginni, en þeir geta a.m.k. fengið alla þá fyrirgreiðslu, sem þeir þurfa, aðra en þá, ef þeir geta þá ekki fengið hana líka. Með þessu hefur þeim náttúrlega verið gert langtum auðveldara en áður að sækja okkar mið, og ég vil taka það alveg sérstaklega fram, að þegar talað er um okkar mið, þá á það við stærra hafsvæði en það. sem liggur innan 12 mílna landhelginnar. því að við eigum einnig enn þá dýrmæt fiskimið utan hennar. En því er nú eitt sinn þannig varið, eins og segir í ljóðinu, að þeim mun stærri sem landhelgin okkar er, þeim mun erfiðara eiga þeir erlendu aðilar, sem á okkar mið vilja sækja, með að nýta einnig þau mið, sem liggja utan landhelginnar. En nú stendur sem sagt til að opna fyrir þeim inn að 6 mílum á ýmsum stöðum og auka þannig olnbogarými þeirra og gera þeim mögulegra en áður var að stunda sínar veiðar á íslenzku miðunum.

Þrátt fyrir alla sakaruppgjöf og þrátt fyrir það, að allir vissu það orðið, að setið var að samningum við Breta, þá var íslenzka ríkisstj. lengi vel að reyna að þræta fyrir þetta, og það var ekki fyrr en í ágústmánuði á s.l. sumri, að hún viðurkenndi það, að nú væri efnt til samningaviðræðna við Breta um landhelgi Íslands, en hún tók það fram, um leið og hún gaf út þessa tilkynningu, að íslenzka ríkisstj. mundi að sjálfsögðu halda fast við samþykktina frá 5. maí 1959. Ég hef þegar rakið það, hvernig hún hefur staðið við þá samþykkt, og það er reyndar ekkert meira, þó að hún gæfi út þessa tilkynningu um, að hún mundi halda sig við þau efnisatriði, sem samþykktin hljóðaði upp á, heldur en það, að hún er að burðast við það enn hér á þingi, eftir að samningurinn liggur fyrir, sem sýnir það ljóslega, að öll efnisatriði þeirrar till. eru niður tætt, ef þetta samningsuppkast nær fram að ganga sem milliríkjasamningur.

Það voru fleiri sólarmerki, sem sýndu það, að hér stóð ekki til að halda sig við samþykktina frá 5. maí, eftir að setzt hafði verið að samningaborði. Viðurkennt var, má segja, að að verulegu leyti hafi íslenzka ríkisstj. hætt að verja íslenzku landhelgina fyrir Bretum. Á haustmánuðum síðastliðnum, — ég get ekki tilkynnt mánaðardag núna, það skiptir ekki öllu máli, það atriði kom, þegar eftir að það hafði gerzt, til umr. hér í þinginu, — þá varð fjöldi sjómanna áheyrendur að því í talstöðvum báta sinna eða hlustunartækjum báta sinna, að íslenzkt varðskip tilkynnir, að brezkur togari sé langt innan við landhelgismörkin að veiðum austur með landi, og spyr landhelgisgæzluna, hvað gera skuli. Landhelgisgæzlan biður varðskipsforingjann um að bíða eftir frekari fyrirmælum. Varðskipsforinginn elti togarann, meðan á biðinni stóð, og að því er síðar varð upplýst, komst hann alveg að síðu hans, og hann sá hvað eina, sem á þilfari togarans var, og hann gat greint einkennisstafi hans og hann þekkti hann að öllu. En þá kom fyrirskipunin, þegar átti að fara að taka hann. Og hvernig var fyrirskipunin? Var hún ekki í samræmi við samþykktina frá 5. maí um það, að við hefðum ótvíræðan rétt til 12 mílna landhelginnar og að við mótmæltum öllum aðgerðum Breta í landhelginni? Nei. Hún var ekki í þeim anda. Hún var á þessa leið: Hættið að skjóta. Hættið að elta. Reynið að slæða upp vörpuna hans. — Þá fékk varðskipið þó verkefni, sem tryggði, að það væri ekki að ónáða brezka togarann frekar.

Þegar svona framkvæmd verður alþjóð kunn. þegar svona framkvæmd á vörnum okkar landhelgi er augljós, þá er það auðvitað líka augljóst, að hér eru maðkar í mysunni. Hér er verið að svíkjast um að láta íslenzku landhelgisgæzluna framkvæma þá skyldu, sem á hennar herðar á að vera lögð, af einhverjum annarlegum ástæðum. Og það er vissulega rétt, að þegar þessar frásagnir urðu kunnar hér í þingi, þá byrjaði ráðherra, sem var beðinn um skýringar á þessu, á þeim alkunna sið íslenzku ráðherranna nú á dögum að sverja og sárt við leggja, að hann vissi ekki neitt um atburðinn, hann hefði aldrei heyrt þetta fyrr, hann vissi ekkert um þetta. Guðmundur Í. Guðmundsson vissi ekki til þess heldur, að það hefði komið nein tillaga fram um lausn landhelgisdeilunnar við Breta, hinn 6. febr. s.l. Það hefur sem sagt verið leikur íslenzku ráðherranna í öllu þessu máli að telja sig ekkert vita og þykjast vera miklum mun fávísari en allir vissu að þeir voru.

Auðvitað var þessi atburður engin tilviljun. Hann stafaði af því, að það var þegar búið að gera einhvers konar samkomulag við Breta um það, að þeir skyldu ekki truflaðir hér við land. Sjálfsagt hefur það verið meðan á samningum stóð, sem eitthvert slíkt samkomulag hefur verið. Það er út af fyrir sig, þótt gert sé vopnahlé, á meðan ákveðnir samningar fara fram. En það er ekki mikil virðing fyrir Alþingi íslendinga, að ráðherrar skuli hvað eftir annað í þessu máli koma hér upp í ræðustól, neita að gefa upplýsingar um mál, sem liggja fyrir í staðreyndum, en skjóta sér á bak við það, sem þó er ósatt og í ljós kemur síðar, að þeir viti ekkert um málin.

Þegar við stöndum frammi fyrir þessu samningsuppkasti, sem hér liggur fyrir, þá er það útskýring ríkisstjórnar Íslands, sem leggur samningsuppkastið fyrir í þáltill.-formi, að nú sé aðeins um tvennt að ræða fyrir Íslendinga, þ.e. að fá brezka flotann á miðin með gífurlegri hættu á átökum og skothríð og manntjóni eða semja um það, sem hér liggur fyrir. Ríkisstjórnin virðist sem sagt ekki hafa komið auga á það, að Bretar í hermennsku sinni hér um slóðir hafa engum árangri náð, sem teljandi sé, í þau 21/2 ár, sem þeir hafa reynt þessa aðferð sína. Íslenzka ríkisstj. virðist líta fram hjá því, að Bretar eru að gefast upp á þessari aðferð, af því að hún gagnar þeim ekki. Íslenzka ríkisstj. virðist hafa misst sjónar á því, að við vorum búnir að sigra Breta í þessari deilu. En látum það vera. þótt íslenzka ríkisstj. líti fram hjá þessu öllu. Og við skulum bara segja það, að hún trúi því sjálf, að málin standi með þeim hætti, sem hún vill vera láta, þannig að nú sé um tvennt að ræða: annars vegar að semja við Breta um að hleypa þeim inn í landhelgina með þeim hætti, sem samningurinn gerir ráð fyrir, eða fá brezku vígdrekana með uppspenntar fallbyssur á mið okkar með gífurlegri hættu á átökum og skothríð og manntjóni. Vill þá ekki íslenzka ríkisstj., ef hún trúir þessu, sem hún segir hér á Alþingi, útskýra það fyrir okkur hér á þingi, hvernig í ósköpunum það má ske, að slíkur nauðungarsamningur, sem hér er kynntur, skuli vera stórsigur Íslands í málinu? Er það stórsigur nokkurs aðila að beygja sig fyrir spenntum fallbyssukjöftum, — beygja sig til þess að hleypa þeim hinum sömu ófriðarseggjum inn í þá landhelgi, sem ríkisstj. hefur sjálf lýst yfir, að við höfum ótvíræðan rétt til? Ég veit ekki. hvernig ríkisstj. setlar að koma því heim og saman, að hér sé hvort tveggja í senn, að við séum að láta undan ofbeldi, og hitt, að þetta sé um leið stórsigur Íslands í landhelgismálinu. Ég hygg, að Þórbergur mundi flokka þetta undir það að vera ruglandi. Nei, þetta getur ekki hvort tveggja verið, sigur Íslands og nauðungarsamningur Íslendinga við Breta um að hleypa þeim inn í landhelgina. Það vantar fleiri skýringar, til þess að hægt sé að kyngja þeim vísdómi.

Ef litið er aðeins á efnisatriðin í þessum samningi í ljósi þess, sem hér hefur fram komið í umr. varðandi þau, þá langar mig, með leyfi hæstv. forseta, að fara nokkrum orðum um þau.

Í fyrsta efnisatriðinu stendur: „Ríkisstjórn Bretlands falil frá mótmælum sínum gegn 12 mílna fiskveiðilögsögu umhverfis Ísland, sem mæld er frá grunnlínum samkv. 2. gr. hér á eftir, og er þá eingöngu átt við fiskveiðilögsögu.“ Þar kemur enn þetta atriði, sem hér hefur mjög verið deilt um, og kannske engin atriði meira deilt um en þetta: Ríkisstj. Bretlands falli frá mótmælum sínum gegn 12 mílna fiskveiðilögsögu. Þýðir þetta, að Bretar viðurkenni íslenzku fiskveiðilögsöguna? Við skulum athuga, hvað hér hefur verið sagt um þetta og hvað meta má samkvæmt því. Ég hef áður minnzt á það, að háskólaprófessorar lagadeildar telja, að þetta jafngildi viðurkenningu. Hæstv. utanrrh. sagði hér í umr. um málið, að brezkir ráðherrar hefðu tekið það fram í brezka þinginu, — það er reyndar um annað atriði, — að það mundi ekki verða leitað endurnýjunar á þessum samningi.

Ég vil víkja hér aðeins að því sérstaklega, hvað það þýðir, að Bretarnir falli frá sínum fyrri mótmælum. Ég hef áður minnzt á, hvernig það reyndist í framkvæmd, að þeir féllu frá 4 mílna landhelginni. Í framkvæmd reyndist það þannig, að þeir óðu inn í hana, þegar þeim þótti það sér henta, og töldu sig algjörlega óbundna af því, þó að þeir hefðu fallið frá mótmælum. En hér skiptir það í rauninni alls engu máli, hvað ráðherrar hér álíta um þetta atriði og ekki heldur hvað prófessorar hér álíta um þetta atriði. Það eitt skiptir máli, hvað í samningnum stendur, því að af því einu telja Bretar sig bundna. þegar fram líða stundir, það má öllum ljóst vera. (Forseti: Væri ræðumanni það mikið á móti skapi að gera örstutt hlé á ræðu sinni, það þarf að leita afbrigða fyrir tveimur till.?) Sjálfsagt. [Frh.]