07.03.1961
Sameinað þing: 47. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 322 í D-deild Alþingistíðinda. (10001)

204. mál, lausn fiskveiðideilunnar við Breta

Forseti (FS):

Fundi verður fram haldið. Ég bið hv. þm. að víkja úr ræðustól. Til máls tekur hv. 2. þm. Sunnl. (HV: Leyfist mér að spyrja hæstv. forseta, hvort ráðstafanir hafi verið gerðar að minni beiðni til þess, að hinir fjarstöddu hæstv. ráðherrar gegni þingskyldu sinni og komi hér, því að ég vilji við þá tala.) Hv. þm. getur fengið tækifæri til þess að tala á morgun, og þá geri ég ráð fyrir, að ráðherrarnir verði viðstaddir. (HV: Er þá ekki eðlilegra, að þm. sé gefinn kostur á því að sinna ekki lengur þingstörfum nú, þegar ráðherrarnir eru ekki fáanlegir? Væri það ekki eðlilegra?) Það er atriði, sem ég ætla ekki að ræða um við hv. þm., en hann víki nú úr ræðustól. (HV: Ég mun ekki gera það. Hér er ofsalegu ranglæti beitt, og ég vitna til þeirra þm., sem hér eru, að ég hef eingöngu farið fram á sanngjarna hluti.) Ég bendi enn á, að ég mun gefa hv. þm. kost á að flytja ræðu sína á morgun. (HV: Ég vænti, að ég þurfi ekki að fá neina heimild til þess, en ég hef hér ekkert af mér brotið, — hef tjáð forseta. að ég sé reiðubúinn að flytja mína ræðu, en hef óskað eftir, að hann gerði ráðstafanir til þess, að aðrir menn gegndu hér þingskyldu sinni, meðan þingskyldu er krafizt af þeim, sem hér eru staddir.) Ég hef áður bent hv. þm. — (HV: Ég mótmæli því sem ranglætisverki, ef mér er vísað úr ræðustól, án þess að hafa farið fram á neitt annað en sanngjarna hluti.) Ég hef áður bent hv. þm. á, að það er ekki hægt að knýja þm. með valdi til þess að sitja fundi. sem þeir vilja ekki sitja. Það varðar að vísu vitum, en það er viðkunnanlegra, að þeir séu viðstaddir, þegar þeim eru veittar vitur. (HV: Hverjir eru hér þá víttir, mig langar til að vita það?) Ætlar hv. þm. að óhlýðnast skipun forseta? (HV: Ég er hér í ræðustóli tilkvaddur af forseta.) Ég spyr. Sé svo, þá er það vítavert. (HV: Ég er hér tilkvaddur af forseta. Er ég þá einn víttur, en ekki hinir sofandi ráðherrar? Við skulum fá að vita það.) Hv. þm. er viðstaddur, og ég víti hann fyrir óhlýðni. (Hv: Eru hinir fjarverandi ráðherrar víttir? Ekki heyrist það. Er það nýtt réttlætisverk af forsetanum?) Ég gef hv. þm. tveggja mínútna frest til þess að víkja úr ræðustóli. (Gripið fram í: Það er óskað eftir því, að fundi verði frestað. — Gripið fram í: Er tekið undir þá ósk? — Gripið fram í: Það eru eindregin tilmæli, klukkan er orðin þrjú. Hér er aðeins einn þriðji þingmanna mættur í húsinu. Það er eindregið farið fram á það, að fundi verði frestað. — HV: Af öllu stjórnarliðinu 3–4 menn eða svo.) Það er ekki óvenjulegur fundartími, þegar um stórmál er að ræða. Það er ekki óvanalegt, að fundir séu haldnir fram á nætur. (Gripið fram í: Það er sjaldgæft fram yfir þennan tíma.) Það er ekki sjaldgæft. Það er misskilningur. (Gripið fram í: Það er eindregið farið fram á það, að fundi verði frestað. Þess er vænzt, að forsetinn taki þessa ósk til greina.) Það er fundarhlé í fimm mínútur. Á meðan vænti ég þess, að hv. þm. hugsi sig betur um. (HV: Ég er sífellt að hugsa um það, hvort hæstv. forseti sé nú að gera skyldu sína að kveðja þessa menn til.) — [Fundarhlé].