23.03.1961
Efri deild: 890. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1024 í B-deild Alþingistíðinda. (1002)

152. mál, stofnlánadeild sjávarútvegsins

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Ég hef ekki skilað neinu séráliti sem fjárhagsnefndarmaður í þessu máli, þótt ég sé óánægður með frv. í ýmsum efnum. Ég tel sjálfsagt að greiða frv. atkv., vegna þess að sjávarútvegurinn er í mjög mikilli þörf fyrir aðstoð, og ég tel, að það spor, sem er stigið með frv., þótt skammt sé, sé í rétta átt. Hins vegar skrifaði ég undir sameiginlegt nál. með þeim fyrirvara, að ég áskildi mér rétt til að flytja brtt. við frv., þ.e.a.s. gerði ráð fyrir að flytja till., sem gengju í sömu átt og frv., en lengra. Hv. frsm. n., 11. þm. Reykv., minntist á þær till., sem ég hef flutt, og sagðist viðurkenna, að þörf væri fyrir að ganga lengra en gert er í frv., en taldi hins vegar tormerki á því, og hann rökstuddi tormerkin með því, að þess yrði að gæta að ráðstafa ekki meira fjármagni en til er. Og hann vitnaði í það, að á dögum nýsköpunarstjórnarinnar hefði verið samþ. löggjöf um að veita löng lán til nýbýla, en þegar til kom, var féð ekki fyrir hendi til að fullnægja lögunum, og þá komu þau vitanlega ekki að neinu gagni. Ég álít, að þetta dæmi og þessi afstaða hv. frsm. n. standist ekki gagnvart till. mínum, vegna þess að till. mínar eru ekki um það yfirleitt að veita ný lán, heldur að hagræða lánum, sem þegar hafa verið veitt, þannig að þeir, sem hafa tekið þau, geti staðið undir þeim. Till. mínar eru ekki um að auka lánveitingar í sjálfu sér, heldur að gera þau lán, sem þegar hafa verið tekin, þannig, að þau sligi ekki atvinnulífið.

Með þessum orðum tel ég mig hafa svarað þeirri afsökun og hrakið það, að sú afsökun sé fyrir hendi, sem hv. frsm. n. taldi sig hafa fyrir því að vera ekki með till., sem hann annars taldi þó í eðli sínu þarfar.

Þetta frv., það sem það nær, er nokkurs konar skuldaskilafrv. eða kreppulánafrv. fyrir þá, sem sjávarútveg stunda. Það er nú satt að segja napurt fyrir hæstv. ríkisstjórn, eftir að efnahagsmálalöggjöf hennar hefur staðið eitt ár, að þurfa að bera fram slíkt stjórnarfrv., að þurfa að stofna til slíkra kreppuráðstafana vegna sjávarútvegsins. Með þeim stórfelldu og byltingarkenndu og álagafreku efnahagsaðgerðum, sem ríkisstj. framdi með efnahagsmálalöggjöfinni fyrir rúmu ári, hafði hún talið, að þær mundu skapa sjávarútveginum rekstrargrundvöll án styrkja, eins og það var kallað, enda kvaðst hún miða aðgerðir sínar fyrst og fremst við það, að þessi mikilsverði atvinnuvegur, útflutningsframleiðsluatvinnuvegur, gæti borið sig. Hún kvaðst miða gengisfellinguna við það, að sjávarútvegurinn gæti fengið það fyrir framleiðslu sína, sem honum bæri, með beinni sölu á erlendum markaði og komizt af sjálfbjarga, eins og kallað var. Þá var hæstv. ríkisstj. töluvert hátt uppi.

Káinn orti einu sinni kvæði um sjálfan sig og sagði frá því, hvernig fór, þegar hann drakk úr 50 centa glasinu í einni lotu. Hann stakkst á hausinn, en stóð upp aftur, en aðeins til þess að stingast á hausinn á ný. Þetta stjórnarfrv. og athugasemdir og fylgiskjalið, sem fylgir, er í raun og veru hliðstætt og kvæði Káins. Með þessu frv. segir hæstv. ríkisstj. svipaða sögu af sjálfri sér í sambandi við útveginn og Káinn sagði í gamankvæði sínu. Þetta er ekki skemmtileg saga fyrir hæstv. ríkisstj. að segja hana og ekki heldur skemmtilegt fyrir neina, að hún skuli hafa gerzt, en satt að segja fór í þessu efni eins og vænta mátti og eins og við framsóknarmenn bentum á að verða mundi, og þegar svo þessi tilraun til úrbóta kemur fram, þá er það gallinn á henni, að hún stendur of völtum fótum og er of ófullkomin, eins og hún er fram borin. Og þar að auki er tilraunin aðeins miðuð við sjávarútveginn. En fleiri eiga um sárt að binda eftir efnahagsmálaaðgerðirnar en sjávarútvegurinn. Landbúnaðurinn berst líka í vök, og að því mun ég koma síðar.

Gagnvart sjávarútveginum er frv. harla ófullkomin úrbót, eins og ég hef sagt, en þar að auki með þeim viðsjárverðu einkennum, sem stjórnarstefnan hefur í heild, að hugsa fyrst og fremst um þá, sem eru þó þrátt fyrir allt meiri máttar en gerist og gengur. Þau einkenni koma glöggt fram í því, að þeim skal veita þessa kreppuhjálp, sem hafa svo miklar eignir og þarfnast ekki meiri lána en svo, að ekki fari yfir 70% af matsverði eignarinnar.

2. málsgr. 8. gr. reglugerðar stofnlánadeildarinnar hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: „Hámarkslán, að viðbættum öðrum lánum,

sem á hinum veðsettu eignum hvíla, skulu vera 70% af matsverði. Stofnlánadeildin getur þó lækkað þetta hlutfall, ef matið er að hennar dómi of hátt miðað við viðskiptalega aðstöðu fyrirtækis eða staðsetningu, t.d. að því er varðar öflun hráefnis, eða rekstrarkostnað.“

Með þessum reglugerðarákvæðum er það skýrt, að ekki á að veita neinum hærri lán til þess að borga lausaskuldir heldur en svo, að ekki sé meira veitt út á eignir hans en nemur 70% af matsverði þeirra og þó má lækka þetta, þar sem aðstaðan þykir eitthvað erfið til þess að standa straum af efnahagnum, og mun þá ekki sízt vera miðað við það, sem á sér stað í fámenninu úti á landi. Þannig er nefnilega, að björgunarskip ríkisstjórnarinnar á að sigla fram hjá þeim, sem verst eru stæðir, þrátt fyrir öll neyðarmerki, sem þeir gefa. Þeir mega farast, sem hafa ekki betri bát en svo, að þeir geti staðið af sér með því að setja að veði 70% eigna, en eigi hitt óveðsett.

Annað, sem sýnir glöggt hið sama, er það, að lánin skuli samkvæmt 3. gr. reglugerðarinnar aðeins veitt gegn veði í framleiðslutækjum og með einfaldri ábyrgð viðskiptabanka viðkomandi fyrirtækis. Andvirði þess skal greitt á reikning bankans, enda getur hann gert það að skilyrði, að lánunum sé varið til greiðslu á ákveðnum skuldum við hann. M.ö.o.: þeir, sem skulda bönkum, eiga að fá þessa aðstoð til að breyta lánum, en ekki er hugsað fyrir hinum, sem á hvíla lausaskuldir utan banka. Hér á aðeins að hjálpa útveginum til að greiða bankaskuldir. Hinir, sem hafa flotið á því að fá lán hjá öðrum, svo sem sparisjóðum og verzlunum, mega sökkva. Björgunarskip ríkisstj. siglir fram hjá þeim á fullri ferð.

Nú veit hver maður, að stefna framfaraáranna var sú að reyna að koma öllum til bjargálna og stuðla að því um land allt, að einstaklingar einir sér eða í samfélagi við aðra gætu hafið atvinnurekstur, gætu hafið útgerð.

Þetta hafði geysilega þýðingu fyrir jafnvægið í byggðum landsins, hagnýtingu heimamiðanna umhverfis allt landið og um leið þá fyrir atvinnulíf í landi, við að vinna aflann á hverjum stað. Þessi þróun var í mjög örum vexti, þegar hæstv. ríkisstj. gerði áfellið með gengisfellingunni miklu, vaxtahækkuninni, lánasamdrættinum og niðurfellingu sérbóta á verð þess fisks, sem grunnmiðin gefa mest af. Margir höfðu brotizt til útgerðarathafna upp á það að skulda mun meira en út á fyrirtæki sín, að því er 70% af verði þeirra nam. Nú mega þeir og þeirra fyrirtæki fara með rekstur sinn veg allrar veraldar. Ekki á stofnlánadeildin að reisa þá við eða styðja þá. Margir höfðu fengið lán hjá sparisjóðum og verzlunum víðs vegar um land. Þeir náðu ekki til bankanna, og nú mega þessir menn eiga sig. Aðeins þeir, sem eru þó það vel settir að hafa borð fyrir báru, eins og gert er ráð fyrir í stofnlánafrv. og reglugerðinni, að geta breytt lausaskuldum í fasteignaveðslán, tryggð með 70% af matsverði eigna sinna, og hafa lausaskuldirnar við bankana, þeir eiga að fá þessa hjálp. Vegna þeirra er þetta björgunarskip gert út. Hvað á svo að verða um hina? Þeir eiga að sökkva í djúpið, eins og verkast vill. Þeim á alls ekki að hjálpa til hafnar.

Ég styð frv., af því að sjálfsagt er að vera með björgun þeirra, sem bjarga á. En ég vil, að öllum sé bjargað, sem mögulegt er að bjarga. Þess vegna flyt ég brtt. við frv. um að breikka grundvöll þess og auka hjálparstarfsemina, gera hana miklu víðtækari og sanngjarnari. En till. mínar eru ekki um það að stofna til nýrra lánveitinga, þ.e.a.s. nýrrar notkunar á því fé, sem til er í landinu, heldur um hitt að breyta lánum til hagfelldari hátta fyrir þá, sem í skuldirnar hafa ratað og hafa ratað í þær að mínum dómi fyrir þær efnahagsmálaaðgerðir, sem hæstv. ríkisstj. stofnaði til og ber því sérstaklega ábyrgð á og skylda til að reyna að bæta úr.

Nú skal ég lýsa þessum till. ofur lítið nánar. Þær eru á þskj. 589.

1. till. er um breyt. á 2. gr. Ég ætla mér, með leyfi hæstv. forseta, að lesa till. upp: „Í stað orðanna „og með einfaldri ábyrgð viðskiptabanka viðkomandi fyrirtækis“ í 1. málsgr, komi: eða öðrum tryggingum, sem metnar verða gildar, svo sem ábyrgð banka eða ríkis:

Þessi breyting er nauðsynleg, ef á að veita mönnum úrlausn og hjálp, sem hafa ekki fasteignaveðstryggingar eða fyrirtækjatryggingar nægilegar til þess að fullnægja stofnlánafrv., eins og það er nú. Það á að veita þeim rétt til þess að geta sett aðrar tryggingar, svo að þeir geti breytt sinum lausaskuldum eins og hinir. Þetta er a-liður, en b-liður: „Við 3. málsgr. bætist: og séu ársvextir ekki hærri en 5%.“

Eitt af því, sem er að sliga þá, sem atvinnu reka í landinu og þurfa að skulda, er vaxtaokrið, og þó að lítils háttar hafi verið dregið úr því, hvílir það enn svo þungt á, að menn rísa ekki undir því, og þess vegna er ekki til neins að veita hjálp, breyta um lánastað og lánsform, nema vextir séu lækkaðir, Í frv. er gert ráð fyrir því, að stjórn fyrirtækisins hafi það í hendi sinni að ákveða vextina. Mér finnst, að Alþingi eigi að ganga svo frá, að það sé tryggt, að vextirnir séu bærilegir, og þess vegna legg ég þetta til.

Þá er c-liðurinn. Við greinina bætist ný málsgr., þannig: „Fjárhæð láns hverju sinni fer eftir ákvörðun stjórnar stofnlánadeildarinnar. Séu lánin við það miðuð, að lántakandi geti greitt lausaskuldir og haldið áfram atvinnurekstri sínum, eila sé verðmæti þeirra eigna, er hann veðsetur til tryggingar láninu, nægilegt til greiðslu á því eða aðrar tryggingar settar, er lánveitandi metur gildar.“ Og það er aðalatriði í þessu sambandi, að menn geti fengið breytt lánum sinum, ef þeir geta sett fullar tryggingar fyrir, þótt ekki séu veð í fyrirtækjum þeirra eða fasteignum, sem snerta rekstur þeirra.

Önnur till. er við 3. gr.: „Á eftir: „viðskiptabanka umsækjanda“ í 1. mgr. bætist inn í greinina: ef um er að ræða.“ Þessi breyting er miðuð við það, að það sé ekki aðeins hægt að fá breytt skuldum, sem eru við banka, heldur líka við aðra aðila, því að eins og ég tók fram, hefur margur, sem útgerð stundar, lifað á lánum, sem hann hefur fengið hjá öðrum en bönkum, láni, sem hann hefur fengið hjá sparisjóði á sínu útnesi og hjá verzlun þeirri, sem hann hefur haft viðskipti við. Það væri hróplegt ranglæti, ef þeir sparisjóðir, sem þannig hafa hjálpað í atvinnulífinu, og þær verzlanir, sem hafa reynt að lyfta undir, kæmu ekki til greina með að fá greiðslur á þessum lánum sínum, og þeir menn, sem þannig hafa verið settir, að þeir hafa ekki haft aðgang að bönkum, yrðu áfram að ganga undir drápsklyfjum lausaskulda, meðan þeir, sem hafa haft viðskiptin í bönkunum, eru teknir til aðgerðar og þeim er hjálpað til að hagræða skuldunum og gera þær léttari.

Þá er 3. brtt. Á eftir 4, gr. frv. komi tvær nýjar greinar:

a) (5. gr.) „Ríkisstj. er heimilt að ábyrgjast f.h. ríkissjóðs stofnlán skv. þessum lögum allt að 25 millj. kr., sem veitt kunna að verða með sérstöku tilliti til þess að koma í veg fyrir, að atvinnufyrirtæki, sem komið hefur verið upp með atbeina sveitarfélaga til þess að stuðla að jafnvægi í byggð landsins, verði að hætta starfsemi sinni í þessum tilgangi. Ríkisábyrgð skal því aðeins veitt, að fyrir liggi meðmæli nefndar þeirrar, er úthlutar atvinnuaukningarfé samkvæmt 20. gr. fjárlaga.“

Út um land, víðs vegar, hafa sveitarfélög gengið í það að vinna að aukningu atvinnulífs með því að koma upp fyrirtækjum, vinnslustöðvum og geymslustöðvum afurða og gert það af veikum mætti, þannig að á þeim hvíla miklar skuldir, sem eru rekstrinum mjög þungbærar og gera það máske að verkum, að hann verði að hætta. Hér er gert ráð fyrir því, að þessi fyrirtæki fái þá fyrirgreiðslu, að ábyrgð verði tekin á skuldum þeirra miðað við það, að þau gætu breytt þeim í föst lán hjá bönkum, ef þau hefðu ríkisábyrgð að setja. Hér er því ekki um bein fjárframlög að ræða — alls ekki, heldur stuðning með ríkisaðstoð. En sá varnagli er á hafður eða það varúðarákvæði, að fyrir þurfi þó að liggja meðmæli frá þeirri nefnd, sem skv. 20. gr. fjárlaga úthlutar atvinnuaukningarfé og á að hafa fullkomna yfirsýn um það, hvernig á stendur í þeim byggðum, sem eiga erfiðast og leita aðstoðar. Og henni ætti að vera treystandi til þess að meta þörfina fyrir slíka hjálp.

En b-liðurinn, hann er um 6. gr., hljóðar á þessa leið: „Stofna skal sérstaka lánadeild við Landsbanka Íslands, seðlabankann, er nefnist stofnlánadeild landbúnaðarins. Deildin veiti lán til að bæta fjárhagsaðstöðu bænda og fyrirtækja, er eiga vinnslustöðvar fyrir landbúnaðarafurðir og skortir fé til greiðslu á lausaskuldum, er á þeim hvíla. Lánin skulu veitt gegn veði í fasteignum og búvélum bænda og fasteignum og vélum vinnslustöðva landbúnaðarins eða öðrum tryggingum, sem metnar verða gildar. Hámarkslánstími skal vera: Lán út á fasteignir 20 ár og lán út á vélar 10 ár. Vextir skulu vera þeir sömu og af lánum skv. 2. gr. (þ.e. 5%) og mat á eignum fari eftir sömu reglum og þar greinir. Ákvörðun lánsupphæðar hverju sinni fer eftir ákvæðum 2. gr.

Fjár til lánveitinga samkvæmt þessari grein skal aflað á sama hátt og lána samkvæmt 1. gr. Ákvæði 3. gr. um sérstaka athugun á fjárhag umsækjenda, þegar þess er talin þörf, og um tímabundna stöðvun aðfarar skulu einnig gilda um þá, er sækja um lán samkvæmt þessari grein.“

Þessi liður 3. gr. er um það, að landbúnaðurinn fái sömu fyrirgreiðslu og sjávarútvegurinn, hliðstæða fyrirgreiðslu. Það er öllum ljóst, sem hér eru, að hann verst einnig í vök og að það væri fyrirhyggjuleysi af Alþingi að láta skeika að sköpuðu með þann atvinnuveg. Og hann á fullan rétt á því að fá sams konar aðstoð og sjávarútvegurinn. Einn þm. Sjálfstfl., hv. 3. þm. Austf. (JP), sem var að reyna að tala máli hæstv. ríkisstj. um daginn, þegar vantraustið á hana var rætt í útvarpinu, gaf yfirlýsingu f.h. ríkisstj. um, hvað hún ætlaði að gera vegna bændanna. Þessa yfirlýsingu birti Morgunblaðið í leiðara í gær og virtist vera stolt yfir henni. Nú skiptir það vitanlega miklu máli í sambandi við þessa till., hvað hæstv. ríkisstj, ætlar að gera eða er ráðin í að gera fyrir landbúnaðinn. Hæstv. ráðherrar hafa látið í það skína, að eitthvað vildu þeir gera, með því að segja, að þeir hafi málið til athugunar. Hins vegar gaf þessi þm. í útvarpsumr. yfirlýsingu f.h. ríkisstj., og það er staðfest í leiðara Morgunblaðsins í gær. Og ég vil, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp þennan leiðarastúf Mbl., hann er ekki langur, og hann hljóðar þannig í nafni Sjálfstfl., — fyrirsögnin er: „Fjárhagserfiðleikar bænda og yfirlýsing ríkisstjórnarinnar. — Í útvarpsumr, um vantrauststill. stjórnarandstöðunnar ræddi Jónas Pétursson alþm. nokkuð um þá fjárhagserfiðleika, sem margir bændur ættu við að stríða vegna vaxandi verðbólgu og dýrtíðar á undanförnum árum. Kvað hann þessa erfiðleika hafa verið til athugunar og umræðu hjá ríkisstj. og stuðningsflokkum hennar. Væri auðsætt, að hér væri um vandamál að ræða, sem greiða yrði fram úr með opinberum aðgerðum. Jónas Pétursson komst síðan að orði á þessa leið:

„Þess vegna tel ég rétt, að það komi fram, að ríkisstj. hefur ákveðið að leita eftir því við banka og sparisjóði, að hluta af víxilskuldum bænda verði breytt í föst lán til langs tíma með hagkvæmum vaxtakjörum.“

Jónas Pétursson flutti þessa yfirlýsingu fyrir hönd ríkisstj. Munu margir bændur fagna henni. Má óhikað treysta því, að bankar og sparisjóðir muni eftir föngum freista þess að verða við óskum ríkisstj. í þessum efnum. Það væri mjög illa farið, ef ungir og efnalitlir bændur, sem staðið hafa í miklum framkvæmdum á undanförnum árum, yrðu að gefast upp við búrekstur sinn. Af því mundi leiða þverrandi framleiðslu landbúnaðarafurða.“

Í þessum leiðara er fyrst og fremst full viðurkenning á því, að bændur eigi í vök að verjast. Jafnvel er gert ráð fyrir því, að ungir og efnalitlir bændur kunni að þurfa að gefast upp við búrekstur sinn, ef ekki komi hjálp til. Þetta er hverju orði sannara. En hver er þá hjálpin, sem Morgunblaðið er stolt af? Það er upplýst, hver hún er. Það kemur greinilega fram í orðum Jónasar Péturssonar, en hann sagði, eins og ég las áúan: „Þess vegna tel ég rétt, að það komi fram, að ríkisstj, hefur ákveðið að leita eftir því við banka og sparisjóði, að hluta af víxilskuldum bænda verði breytt í föst lán til langs tíma með hagkvæmum vaxtakjörum.“

Hér þarf því ekki frekar vitna við um það, hvað ríkisstj. ætlar að gera.

Nú er bezt að athuga yfirlýsinguna, sem bóndinn rogaðist með fram fyrir landsmenn í útvarpinu: „ríkisstj. hefur ákveðið að leita eftir því (að leita eftir því!) við banka og sparisjóði að hluta af víxilskuldum bænda verði breytt í föst lán til langs tíma með hagkvæmum vaxtakjörum.“ Hér er um það að tala, að það á að minnast á það við banka og sparisjóði að breyta einhverju af víxlum bænda í föst lán til langs tíma, með hagkvæmum vaxtakjörum. Þetta er allt og sumt, þegar gefin er þó hins vegar út i frumvarpsformi regla um miklu meiri aðstoð handa sjávarútveginum og á að lögbinda það fyrirkomulag.

Í þessu sambandi finnst mér vera rétt að minnast þess, að sparisjóðirnir, sem á nú að fara að tala við, hafa orðið fyrir því fyrst og fremst, að vextir hafa verið hækkaðir, þannig að mismunur innlánsvaxta og útlánsvaxta hefur minnkað og þar með dregið úr tekjum sparisjóðanna og rekstrarhæfni. En þar að auki hefur verið ákveðið að taka af sparisjóðunum fé til bindingar í stórum stíl, svo mikið fé, að numið getur meira en 1/4 af umráðafé þeirra. Svo er hugmyndin að koma til þeirra og minnast á það við þá, að þeir láni víxla, breyti víxlum í föst lán með lágum vöxtum. Þetta er víst sanngjarnt gagnvart sparisjóðunum, og þar að auki er þetta mjög ráðdeildarlegt hjá yfirstjórn peningamálanna í landinu! Þetta er gerhugsað! Enn fremur er það, að nú er langt frá því, að allir bændur skuldi aðallega við banka og sparisjóði. Bændur hafa yfirleitt ekki átt svo hæga leið til banka til þess að fá hjá þeim laus lán, víxillán, að meginskuldir þeirra — lausaskuldir — séu þar, og sparisjóðir hafa ekki heldur verið þess umkomnir að veita mikla aðstoð í þessum efnum í víxillánum út um byggðir landsins. Nei, skuldirnar, sem þeir eru í, eru á öðrum stöðum. Það eru verzlunarskuldir. Þeir skulda við viðskiptafyrirtæki sín, en ekkert er fyrir þeim skuldum hugsað.

Ég verð að segja það, að mér finnst þetta vera meiri vesaldardropinn, sem bóndinn kemur með á nefi sinu, þegar hann tilkynnir þetta f.h. sinnar hæstv. ríkisstj. Hvílíkur flatmagandi undirlægjuháttur og lítilþægni af bónda að telja þetta úrlausn og samboðna fyrir stétt sína! Hvers vegna leyfir Sjálfstfl. sér að smækka bóndann í flokki sínum með því að láta hann tilkynna þannig lítilsvirðingu á bændastéttinni? Nei, það er sannarlega þörf fyrir það að samþykkja aðstoð í sambandi við þetta frv., og um annað er nú varla að ræða, svo er áliðið þings, — samþykkja till. eins og þá, sem ég hér flyt, um að stofna sérstaka deild við Landsbankann til þess að veita bændum hliðstæða aðstoð og á að veita sjómönnunum eða útgerðarmönnunum. Og ég tel, að það væri til sóma fyrir hv. Ed., ef hún samþykkti þessar brtt. mínar og gerði með því víðtækari þá björgunarstarfsemi fyrir sjávarútveginn, sem hefur verið stofnað til, og tæki jafnframt upp þá hliðstæðu björgun vegna landbúnaðarins, sem ég legg til að ríkisstj. fái heimild til að gera, ef eitthvað vakir fyrir henni að gera, sem einhvers virði væri fyrir bændur. En það er einskis virði fyrir bændur, það sem Morgunblaðið segir og hv. 3. þm. Austf. (JP) tilkynnti að yrði gert eða ákveðið væri að gera, — það er einskis virði. Ef hæstv. stjórn vildi gera eitthvað, sem skárra væri og að gagni fyrir bændurna, þá ætti hún að taka með þökkum að fá heimild til þess, eins og hér er lagt til. Og stuðningsmenn hennar ættu líka að taka því með þökkum. Ég vil ekki að óreyndu trúa því, að hér í hv. Ed. finnist ekki nógu margir velviljaðir menn í garð þessara tveggja höfuðatvinnuvega, sem allir vita og viðurkenna að standa báðir höllum fæti, - nógu velviljaðir menn til þess að samþykkja þessar till., sem ég hef nú lagt fram og gert grein fyrir.