17.03.1961
Neðri deild: 77. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1041 í B-deild Alþingistíðinda. (1013)

209. mál, meðferð opinberra mála

Frsm. meiri hl. (Einar Ingimundarson):

Herra forseti. Allshn. hefur athugað og rætt frv. til l. um breyt. á l. nr. 27 5. marz 1951, um meðferð opinberra mála. Hefur n. ekki orðið sammála um afgreiðslu málsins, og leggur meiri hl. til, að frv. verði samþykkt, en einn nm., hv. 4. þm. Sunnl., Helgi Bergs, skrifar þó undir álit meiri hl. með fyrirvara og áskilur sér rétt til að flytja og fylgja brtt., sem fram kunna að koma við frv. Minni hl. n., hv. 11. landsk., Gunnar Jóhannsson, er andvigur samþykkt frv. að svo stöddu og hefur skilað sérstöku nál.

Í frv. þessu, sem er stjórnarfrv., er lagt til, að gerðar verði tvær veigamiklar breytingar á lögum um meðferð opinberra mála.

Í fyrsta lagi er lagt til, að sakadómarar í Reykjavík verði 3–5 eftir ákvörðun dómsmrh. í stað eins áður. Skal hver þeirra starfa sjálfstætt og á sína ábyrgð að málum þeim, sem hann fær til meðferðar af yfirsakadómara. Skipar forseti sakadómara. Fjölgun sakadómara í Reykjavík úr einum í 3–5 er ekki ný hugmynd, vegna þess að á árinu 1948 flutti þáv. dómsmrh., hæstv. núv. dómsmrh., Bjarni Benediktsson, frv. til laga um meðferð opinberra mála, og var í því frv. gert ráð fyrir fjölgun sakadómara í 3–5. Sama frv. eða frv. sama efnis var lagt fram á Alþingi 1949, en hvorugt þessara frumvarpa náði fram að ganga. Á Alþingi 1950 var enn lagt fram frv. um meðferð opinberra mála, en úr því hafði þá verið fellt ákvæðið um að fjölga sakadómurum. Náði frv. þetta fram að ganga í ársbyrjun 1951, og eru þetta nú hin gildandi lög um meðferð opinberra mála. Eins og tekið er fram í aths. við lagafrv. þetta, hafa fulltrúar við embætti sakadómarans í Reykjavík í um eins áratugs skeið starfað sem sjálfstæðir dómarar, og er því talið eðlilegt, að embættisstaða þeirra sé um starfsheiti og kjör að fullu viðurkennd.

Í annan stað gerir frv. ráð fyrir, að stofnað verði embætti saksóknara ríkisins og verði honum fengið í hendur ákæruvald í refsimálum, sem fram að þessu hefur verið í höndum dómsmrh. hér á landi. Eins og lýst er í grg. með frv. þessu og eins og þegar hefur komið fram í umr. um þetta mál hér á hv. Alþ., er sú hugmynd að flytja ákæruvaldið frá dómsmrh. í hendur opinbers ákæranda eða saksóknara ekki ný hugmynd hér á landi, enda hefur þessari skipan verið komið á þegar á Norðurlöndum og í mörgum öðrum löndum. Hafa frumvörp, sem gera ráð fyrir stofnun embættis opinbers ákæranda eða saksóknara ríkisins, verið flutt sex sinnum hér á Alþingi frá 1934, en ekki hafa þau náð fram að ganga fram að þessu. Ekki veit ég þó til, að skoðanir lögfræðinga eða annarra þeirra, sem fróðir eru um réttarskipun í nútímaþjóðfélögum, séu skiptar um það, að stofnun slíks embættis sé eðlileg og æskileg. En hingað til munu hv. þm. hafa horft í þann kostnað, sem óhjákvæmilega leiðir af stofnun þessa embættis. Hins vegar er það álit fróðustu manna, að ekki sé við það unandi, að stofnun slíks embættis dragist nú lengur.

Á fundi allshn. 14. þ. m. mættu til viðræðna um málið þeir Valdimar Stefánsson sakadómari og Theodór Lindal prófessor, sem hefur með höndum kennslu í réttarfari við Háskóla Íslands. Mælti sakadómari með, að frv. yrði samþ. óbreytt, og lýsti ánægju sinni yfir, að það skyldi nú hafa verið flutt. Einnig tjáði prófessor Theodór Líndal sig samþykkan frv. að stefnu til, en lýsti því áliti sínu, að frv. gengi of skammt í aðgreiningu rannsókna og uppkvaðningu dóma af hendi eins og sama aðila. Ekki taldi hann þó óeðlilegt, að skref, sem miðuðu að þessu, yrðu tekin í áföngum. Ég hef einnig rætt nokkuð um efni frv. við Ármann Snævarr lagaprófessor og núv. háskólarektor, sem er, eins og kunnugt er, einn af hinum færustu og fróðustu lögfræðingum okkar þjóðfélags nú. Mælti hann einnig með samþykkt frv. og tjáði sig samþykkan því í öllum höfuðatriðum. Þá vil ég geta þess hér, að í febrúarmánuði 1959 samþykkti Lögfræðingafélag Íslands ályktun á fundi sínum, þar sem eindregið var lagt til, að stofnað yrði embætti saksóknara ríkisins.

Mér er kunnugt um það, að uppi eru raddir um, að frv. þetta sé ekki nægilega undirbúið og að ekki muni vinnast tími til sæmilegrar athugunar á því fyrir lok þessa þings, sem nú situr. Út af þessu vil ég taka fram, að hvorug þeirra meginbreytinga í frv. þessu, sem lagt er til að gerðar verði á lögum um meðferð opinberra mála, er ný hugmynd, og eru þær flestum hv. þm. ekki með öllu ókunnar. Hafa á síðustu 20–30 árum hvað eftir annað verið flutt frumvörp hér á hv. Alþ., sem eru nærri samhljóða þessu frv., og er því síður en svo, að flestum hv. alþm. muni vera ókunnugt um efni þeirra breytinga, sem lagt er til í frv. þessu að gerðar verði á skipun opinberra mála.

Ég mun svo ekki að svo stöddu hafa þessi orð mín öllu fleiri. Að öðru leyti og um efni frv. vil ég vísa til athugasemda, sem fylgja frv., og einnig til ýtarlegrar ræðu, sem hæstv. dómsmrh. flutti, þegar hann fylgdi þessu frv. úr hlaði við 1. umr. þess.