10.03.1961
Efri deild: 70. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1097 í B-deild Alþingistíðinda. (1065)

124. mál, ríkisábyrgðir

Frsm. 1. minni hl. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Ég er hræddur um það, ef fulltrúar á fundi sveitarfélaganna hefðu heyrt þá skýringu, sem hv. frsm. meiri hl. fjhn. gaf hér á því, hvað hann teldi að fælist í orðum ályktunarinnar: „umfram venjuleg bankagjöld“, að þá hefði till. verið breytt. Og ég tel mjög eðlilegt, að henni hefði verið breytt, vegna þess að ég tel rangt að líta á ábyrgð ríkissjóðs sem algera hliðstæðu bankaábyrgða, vegna þess að þessi aðstoð, sem ríkið veitir, er þátttaka ríkisins í nauðsynlegum framkvæmdum til þjóðþrifa, þar sem fjárhagsgeta hlutaðeiganda er of veik til þess að geta bjargað sér sjálfur. Bankaviðskiptin eru aftur á móti viðskipti fyrirtækja og manna, sem geta fullnægt fullkomlega þeim kröfum, sem gerðar eru, þegar viðskipti fara fram, þar sem hver geldur það, sem gjalda ber, fullkomlega, borgar fyrir sig án hjálpar, án aðstoðar. Ég veit, að hæstv. forseti þessarar deildar minnist þess, að það vafðist fyrir tillögumönnum að gera grein fyrir því, hvað fælist í þessum orðum. Ég hygg, að þeir hafi frekast búizt við, að þar væri um stimpilgjöld og þinglestursgjöld og þess háttar að ræða. Eftir að till. hafði verið samþ., fóru fram orðaskipti um þetta, — ég vakti athygli á þessu, — og þá minnist ég, að einn mjög ákveðinn stuðningsmaður till. og maður, sem gerir sér yfirleitt grein fyrir því, hvað hann er að gera, Stefán Jónsson úr Hafnarfirði, sagði: „Nú held ég, að Karl hafi rétt fyrir sér: En þá var búið að afgreiða málið. Þetta voru eins og eftiráumræður. Ég tel því, að þingið hafi ekki orðið við óskum fulltrúaráðsins með því að fella ekki niður áhættugjöldin. Og þó að það geti verið um áhættu að ræða í sumum tilfellum, þá er hún oft ekki eins mikil og gert hefur verið úr. Og í öðrum tilfellum er alls ekki um neina áhættu að ræða, því að svo vel er um tryggingar búið.

Ég tel þess vegna, að þar sem um áhættu er að ræða, sé í raun og veru um þátttöku að ræða til þess að koma fram nauðsynjaframkvæmdum og eigi því ekki við að taka áhættugjald. Og þar sem um enga áhættu er að ræða, þar er ekki heldur ástæða til að taka nein gjöld fyrir slíka aðstoð. Þar af leiðandi tel ég, að með þessu móti sé verið að gera þessa aðstoð ríkisins að tekjustofni, að fjáröflunarleið, sem eigi ekki að eiga sér stað.

Það er í fyrsta sinn nú við umr. um 2. gr., sem ég heyri örla á þeim skilningi, að fjmrh. megi framkvæma ábyrgðarheimild sem sjálfskuldarábyrgð, þó að 2. gr. verði gerð að lög um. Það er í fyrsta sinn, sem ég heyri það nú af vörum hv. frsm. meiri hl. fjhn. Við fengum í fjhn. til viðræðu ráðuneytisstjórann, sem hafði staðið að samningu þessa frv., og hann fullyrti, að meiningin væri að útiloka það, að eftirleiðis væri skrifað undir nokkurt slíkt ábyrgðarskjal, sem væri með sjálfskuldarábyrgð að skuldbindingu, nema Alþ. hefði samþ. það sérstaklega. Og hann var ekki í nokkrum vafa um það, að allar þær ábyrgðir, sem út hafa verið gefnar, en er ekki búið að nota, féllu undir þetta. Till. mín er byggð á því, að þetta var upplýst. Það var upplýst. Og úr því nú að hv. frsm. meiri hl. fjhn. telur, að það geti komið til greina, að ráðh. fylgi ekki orðanna hljóðan í þessari grein, sem telur, að það geti ekki komið til mála, þá finnst mér, að mætti og ætti að gefa honum þá heimild til þess, sem við leggjum til, flm. þessarar till., þ.e. skýlausa heimild til að nota þessar útgefnu, standandi ábyrgðir sem sjálfskuldarábyrgðir, ef nauðsyn krefur. Það er hægt að segja, að eftirleiðis sé hægt að breyta þessum standandi ábyrgðum á Alþ., gefa þær út að nýju, breyta þeim þannig, að þær, sem nauðsyn krefur að séu sjálfskuldarábyrgðir, verði útgefnar á ný, en hinar gerðar einfaldar. En það eru engar líkur til, að það verði gert á þessu þingi héðan af, og þá verður tíminn til næsta þings ónýtur í heimildargjöfinni til þeirra, sem þurfa á sjálfskuldarábyrgðum að halda, nema ef það stæðist, sem hv. frsm. meiri hl. fjhn. lét falla orð um, að ráðh, leyfði sér að gefa út sjálfskuldarábyrgðir. En ég skil ekki, ef sú hugsun býr í raun og veru með flm. þessa frv., hvers vegna þeir vilja ekki láta það koma fram hreinlega, svo að óumdeilanlegt sé, að ef ráðh. fyrir næsta þing gefur út slíka ábyrgð, þá sé það með fullum heimildum. Ég leyfi mér — með leyfi hæstv. forseta — að lesa upp aftur þessa brtt., því að ég hygg, að hún sé þannig orðuð, að hún gefi ekkert sérstaklega undir fótinn með, að allar standandi heimildir, sem eru nú til, eigi að gefa út í formi sjálfskuldarábyrgðar. Hún gefur ekkert undir fótinn með það og er þess vegna í stíl frv.: „Þær ábyrgðarheimildir, sem Alþ. hefur gefið út, áður en lög þessi öðlast gildi, og ekki hafa verið notaðar, mega teljast heimildir til sjálfskuldarábyrgðar, hafi annað ekki verið ákveðið, þegar Alþ. samþ. þær.“ Þá yrði þetta að mati hæstv. ráðh., og ég geri mér fulla grein fyrir því, að það er með þeirri tiltrú til hans, sem ég flyt þessa till., að hann kunni að meta.