10.03.1961
Efri deild: 70. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1099 í B-deild Alþingistíðinda. (1067)

124. mál, ríkisábyrgðir

Frsm. meiri hl. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Það var aðeins til þess að árétta enn frekar það, sem ég áðan sagði í sambandi við ríkisábyrgðir í samræmi við heimildir til ábyrgða, sem þegar hafa verið veittar, að ég stend hér upp. Mér skilst, að hv. 1. þm. Norðurl, e. telji, að ef fjmrh. án sérstakrar heimildar í þessum lögum — eða þessu frv. — veitti sjálfskuldarábyrgð hér eftir, þá væri það lagabrot, ef heimildin væri ekki til staðar í lögum. Ég álít fyrir mitt leyti, að svo sé ekki, og enda þótt ráðuneytisstjórinn í fjmrn. segði hjá fjhn., að það væri ætlunin að framkvæma þessar heimildir allar hér eftir á þann veg, að ábyrgð yrði einföld, þá voru þau orð ekki mælt með hliðsjón af því, að það væri undir öllum atvikum bannað við setningu þessara laga að veita hér eftir sjálfskuldarábyrgð út á eldri heimildir, heldur vegna þess, að þeirri grundvallarstefnu yrði fylgt, sem ég álít líka að sé sjálfsagt, varðandi einnig þær ábyrgðarheimildir, sem nú eru í gildi, að þær verði hér eftir einfaldar. Ég álít hins vegar, að það sé ekki með þessum lögum útilokað, að það sé hægt að veita sjálfskuldarábyrgð eftir eldri heimildum. Skal ég í því sambandi sérstaklega taka fram, að ég álít, að þar sem t.d. um framkvæmd er að ræða, þar sem búið er að veita ábyrgð út á hluta af ábyrgðarheimildinni, — við skulum segja í sambandi við byggingu einhvers mannvirkis eða einhverja tiltekna framkvæmd, — að þá sé fullkomlega heimilt að veita áfram til þess að ljúka þeirri ábyrgðarheimild ábyrgð á sama hátt og áður var gert.

Það, sem ég tel á móti því að samþ. sérstaklega þá till., sem hér er flutt, er það, að með slíku beinu ákvæði í lögunum mundi fjmrh. vera mjög erfiðlega stætt á því að ætla sér að neita að veita sjálfskuldarábyrgð. Þetta er hið eina atriði, sem veldur því, að ég fyrir mitt leyti tel, að það væri óráðlegt að samþ. þessa till., einmitt vegna þess, að það sé ekki með lögunum útilokað að láta áfram sjálfskuldarábyrgðir gilda, þar sem óhjákvæmilegt reynist, í sambandi við hinar eldri heimildir. Heimildir, sem hér eftir verða samþ. á Alþ., hljóta hins vegar allar að verða skoðaðar sem einfaldar ábyrgðir, nema annað sé beinlínis tekið fram.

Ég held því, að málefnalega sé ágreiningur raunverulega enginn á milli okkar hv. 1. þm. Norðurl. e., heldur sé hér aðeins um það atriði að ræða, hvað heppilegt sé í þessu sambandi. Og miðað við það, ef svo færi, að þessi till. hv. 1. þm. Norðurl. e. yrði ekki samþ., þá vildi ég láta það skýrt koma fram, eins og ég raunar áðan sagði, að það má ekki skilja þá afstöðu svo, að fall till. merki það, að meiri hl. d. væri andvígur því, að hæstv. fjmrh. veitti ábyrgðir út á eldri ábyrgðarheimildir á þann hátt, sem ég hef hér gert grein fyrir. Þetta tel ég nauðsynlegt að komi skýrt fram, til þess að það síðar valdi engum misskilningi í þessu efni. Og ég tel ekki, að það sé um neitt lagabrot að ræða, þó að framkvæmdin yrði á þennan hátt.