14.03.1961
Neðri deild: 74. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1106 í B-deild Alþingistíðinda. (1072)

124. mál, ríkisábyrgðir

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Eins og hæstv. fjmrh. hefur gert grein fyrir, er þetta mál búið að vera alllengi í meðferð Alþingis og var lagt fyrir Ed. í haust. Sú deild hefur gert á þessu frv. nokkrar breytingar, og eru þær að minni hyggju til bóta.

Ég vil taka það fram þegar í upphafi, áður en ég fer að lýsa afstöðu minni til málsins, til þess að fyrirbyggja allan misskilning um þær reglur, sem hér er verið að setja, að ég óttast þær ekki að því er það hreppsfélag varðar, er ég er starfsmaður hjá, því að mér er ekki kunnugt um, að ríkissjóður hafi nokkurn tíma þurft að greiða eina krónu í ábyrgð fyrir það. Við það verður ekki afstaða mín til málsins miðuð, enda er ég líka fylgismaður þess, að um þetta mál verði settar reglur, þó að ég kunni að finna á frv. vankanta. Ég vil líka bæta því við um það fyrirtæki í minni heimabyggð, sem hefur lent í því, að ríkið hefur orðið að greiða fyrir það vegna ábyrgða, þar hef ég átt verulegan hlut að því, að um það mál yrði samið, og leit út fyrir, að samningar mundu verða gerðir á s.l. ári, en ég hygg, að það hafi ekki orðið úr framkvæmd, vegna

þess að þá hafi verið ákveðið að vinna að málinu í heild og eðlilegra að taka það þar til meðferðar.

Eins og hæstv. fjmrh. vék að í ræðu sinni hér áðan, hefur aðstoð ríkisins við uppbygginguna í landinu verið með þrennu móti. Í fyrsta lagi hafa það verið bein framlög, og hafa þau verið veigamest. Í því sambandi má nefna framlög til vega, brúa, til skóla, sjúkrahúsa og hafna. Að sumu leyti hefur hér verið eingöngu um ríkisfé að ræða. Að öðru leyti hefur ríkið stutt þessar framkvæmdir með beinum framlögum að nokkrum hluta. Þá hefur og ríkið átt ýmis atvinnutæki, eins og síldarverksmiðjur, og á síðari árum hefur það aðstoðað atvinnutækin í landinu með lánum, sem hafa verið kölluð atvinnuaukningarlán. Þessir þættir hafa verið veigamiklir fyrir uppbygginguna í þessu landi, og var ekki vanþörf á, þar sem við áttum alla hluti ógerða, er við tókum málin í okkar eigin hendur, Íslendingar. Í þriðja lagi hefur svo ríkið aðstoðað uppbygginguna í landinu með því að ganga í ábyrgðir. Sá þáttur aðstoðar ríkisins hefur verið hugsaður m.a. út frá því, að það væri eðlilegra, að ríkið veitti þar óbeina aðstoð, heldur en að auka framlög sín í beinni aðstoð, sem það hefði orðið að gera, eins og t.d. í hafnarmálum, ef þessi leið hefði ekki verið farin. Bezta dæmið um það er, að í bráðabirgðaákvæðum þessa frv. er gert ráð fyrir því, að hafnarframkvæmdir njóti þeirra kjara, sem þær hafa notið til þessa, þangað til þeirra mál hafa verið endurskoðuð. En það er ljóst, að ef ríkisábyrgðarleiðin hefði ekki verið til staðar, hefði orðið að auka bein framlög ríkissjóðs til þessarar uppbyggingar á mörgum sviðum. Oft og tíðum hefur ríkið líka notað þessa leið til þess að þurfa ekki að verða beinn þátttakandi í fyrirtækjum, eins og það hefði að öðrum kosti orðið. Og t.d. má það um síldariðnaðinn segja, að á síðari árum hefur sá háttur verið á hafður, að ríkið hefur aðstoðað aðra aðila við að koma upp síldarverksmiðjum, en ekki verið eigandi og rekið þær eins og það gerði, þegar síldariðnaðurinn var að hefja hér göngu sína.

Þessar ábyrgðir, sem ríkissjóður hefur veitt, hafa verið margvíslegar. Ýmist hefur það verið tekið fram í lögum um viðkomandi málaflokka, svo sem hafnir, vatnsveitur, hitaveitur o.fl., að ábyrgð ríkissjóðs mætti vera að vissu marki, og svo hefur það einnig verið við aðstoð við atvinnuvegina, svo sem lög um togarakaup, og þá hefur ríkið með ábyrgðum sínum stutt að fiskiðnaðinum í landinu og fleira slíku. Öllum hefur verið það ljóst, að þegar í þessar ábyrgðir var farið, var nokkur hætta á því, að þeim gæti fylgt sú áhætta, sem alltaf fylgir ábyrgðum, að til þess gæti komið, að ríkið yrði að hafa af þessum ábyrgðum einhvern kostnað. Og það hefur verið litið svo á, að þrátt fyrir það væri þessi leið eðlileg sem einn þáttur í uppbyggingunni í landinu til viðbótar hinum tveimur, sem ég hef hér lýst, enda hefur það verið svo með margar af þessum framkvæmdum, að þær hafa verið þess eðlis, að það hefur ekki verið svo auðvelt fyrir lántakandann að fá lán nema hafa slíka ábyrgð. Ég vil í því sambandi nefna framkvæmdir eins og t.d. vatnsveitur, sem í flestum tilfellum eru ekki slíkar framkvæmdir, að það sé æskilegt að lána fé til þeirra, og framkvæmdin út af fyrir sig ekki það gott veð, að lánveitandi mundi vilja veita lán út á það nema hafa góða baktryggingu, enda hefur það verið svo með slíkar framkvæmdir, að ríkisábyrgðar hefur yfirleitt verið krafizt, ef um slík lán hefur verið að ræða. Hef ég af eigin raun kynnzt því, að það hefur raunverulega ekki verið talandi um að fá lán til slíkra framkvæmda, nema ríkisábyrgð væri fyrir hendi. Sama er að segja um málaflokka eins og hafnir, rafveitur og aðrar framkvæmdir, sem eru bundnar við þann stað, sem þær eru gerðar á, og í raun og veru því ekki seljanlegar. Þess vegna hefur það verið hlutverk ríkisábyrgðanna að koma þar til sem trygging, þegar aðrar tryggingar, sem venjulegur lánveitandi krefst, hafa ekki verið til staðar. Að þessu leyti hafa ríkisábyrgðirnar orðið verulegur þátttakandi í uppbyggingunni í landinu á síðari árum. Ef þær hefðu ekki komið til, hefði ríkið orðið að mæta uppbyggingunni á annan hátt, með auknum beinum framlögum, og framkvæmdirnar orðið að fara með minni hraða en ella hefur átt sér stað.

Ekki orkar það tvímælis, að ýmsar framkvæmdir, sem þannig hafa verið framkvæmdar fyrir aðstoð ríkisábyrgðanna, hafa orðið þjóðinni hinar mestu nytjaframkvæmdir. Í því sambandi vil ég nefna t.d. síldarverksmiðjur á Austurlandi, sem komið hafa að miklu gagni við síldveiðarnar nú síðustu árin og eiga sinn þátt í því, að úr síldveiðinni hefur þó orðið meira en ella hefði orðið vegna tilveru þeirra. Þessar verksmiðjur hefðu ekki orðið til, ef ríkisábyrgð hefði ekki komið til, þegar um þeirra mál var fjallað. Það hefði ekki verið hægt að koma þeim í framkvæmd, ef ríkisábyrgðirnar hefðu ekki komið til. Svo er um fleiri framkvæmdir, að án aðstoðar ríkisins á einn eða annan hátt hefðu þær ekki verið framkvæmanlegar.

Ég vil í því sambandi nefna annað dæmi, sem ég er nokkuð kunnugur, og það er skipið Akraborg, sem gengur á milli Borgarness, Akraness og Reykjavíkur. Eftir að Laxfoss strandaði, voru samgöngumál þessara byggða í miklum vandræðum. Þeir aðilar, sem áttu Laxfoss, höfðu ekki fjárhagslegt bolmagn til þess að endurnýja skipið, þar sem tryggingarfjárhæðin nægði ekki til þess. Það varð því að ráði þeirra, er fóru með þau mál þá, að ræða við þáv. ríkisstj. um það, hvernig með mætti fara til þess að bæta úr þeim vandræðum, sem þarna sköpuðust. M.a. var vitanlegt, að Akraborgin gat verið mikið öryggi í sambandi við mjólkurflutninga hingað til höfuðstaðarins. Ef snjóar töfðu eða útilokuðu mjólkurflutninga að höfuðborginni eftir landleiðum, var þó hér um varaleið að ræða, og þetta var þungt á metunum. Ekki hefði verið hægt að koma þessu í framkvæmd, eins og ég áðan sagði, nema að því leyti, að aðstoð ríkisins kom til, og ríkissjóður veitti þá aðstoð með því að ganga í ábyrgð fyrir láni, sem fékkst til að byggja skipið, sem hefði ekki verið hægt að fá að öðrum kosti. Þáv. stjórn hefur að vísu gert sér það ljóst, þar eð þetta lán var til stutts tíma, að þessari ábyrgð fylgdi sú áhætta, að til greiðslu kæmi af hendi ríkissjóðs í sambandi við málið, þar sem litlar líkur voru til, að innlent lán gæti komið til á tímabilinu, en að öðrum kosti var óhugsandi, að lánið greiddist á svo stuttum tíma. Þrátt fyrir það áleit ríkisstj., að réttmætt væri að styðja málið, svo að það mætti komast í framkvæmd.

Það þarf ekki mörgum orðum að því að eyða, að ríkisábyrgðirnar hafa, eins og þeir tveir þættir, sem ég áðan nefndi og af ríkissjóðs hendi hafa verið látnir í té, verið mikils virði í uppbyggingunni í landi voru. Hefur það bæði átt sér stað um uppbyggingu í atvinnulífinu, ýmsum framkvæmdum, samgöngumálum o.fl. Hraðinn hefur verið meiri en ella hefði verið, og ríkissjóði hefur með ábyrgð sinni og aðstoð tekizt að brúa bil, sem annars hefði orðið til þess, að þessi fyrirtæki hefðu orðið að hætta sinni starfsemi vegna fjárskorts. Nú eiga þau þó þess kost síðar meir vegna ábyrgðarinnar að halda starfsemi sinni áfram og geta að verulegu leyti eða öllu leyti kannske greitt ríkissjóði aftur útlagðar ábyrgðargreiðslur, eins og ég mun síðar koma að, þó að hann hafi í bili orðið að leggja þeim aðstoð.

Þrátt fyrir það, þó að ríkisábyrgðirnar hafi þann kost, sem ég hef lýst, að hafa verið verulegur þátttakandi í því að vinna að uppbyggingunni í landinu, sem ég tel að mestu máli hafi skipt fyrir þetta þjóðfélag, þá hafa þær sina annmarka og sína galla, sem ég mun nú koma að.

Í fyrsta lagi eru með þessum hætti ójafnari skipti á milli byggðarlaga en eftir öðrum leiðum um aðstoð ríkisins. Hér getur oft verið um stórar fjárhæðir að ræða, og fyrir fram er ekki séð, að hverju leyti ábyrgðir falla á ríkissjóð, og getur þess vegna gætt allmikils misræmis á milli hinna einstöku landshluta.

Í öðru lagi geta ríkisábyrgðirnar einnig leitt til misnotkunar. Því er ekki að neita, að þegar maður hefur kynnt sér lista yfir þá aðila, er ríkissjóður hefur orðið að greiða ábyrgðir fyrir, þá gætir þess nokkuð, að sum byggðarlög láti ríkissjóð annast greiðslu á sínum lánum, kannske óeðlilega mikið. Það er ekki örgrannt um, að það flögri að manni sú hugsun, að þau gætu betur en virðist vera við fljótan yfirlestur. Að því leyti geta ríkisábyrgðir verið hættulegar, ef þær eru þannig misnotaðar, þegar önnur byggðarlög herða svo að sér mjög til þess að standa í skilum með sín lán, þó að ríkisábyrgð sé á þeim.

Í þriðja lagi hafa miklar greiðslur á ríkisábyrgðum náttúrlega áhrif á útgjöld ríkissjóðs. Nú er um þetta það að segja, að þetta kemur ekki eins við ríkissjóð og aðrar peningastofnanir vegna þess, að þegar ríkissjóður gerir sínar áætlanir um tekjur og gjöld í fjárlögum, þá er gert ráð fyrir gjöldum vegna þessara greiðslna. Að vísu munu útgjöld vegna ríkisábyrgða hafa flest árin farið fram úr áætlun fjárlaga þar að lútandi, en tekjur hafa einnig gert það, og hafa þær að því leyti verið notaðar til þess að mæta þessari útgjaldaaukningu. Þess vegna er það ekki eins alvarlegt fyrir ríkissjóð og aðra aðila, er slíku verða að mæta án bóta, enda verður hugsun ríkisvaldsins í þessu tilfelli að vera önnur en venjulegra peningastofnana, því að hér er um að ræða einn þáttinn í uppbyggingu landsbyggðarinnar.

Eins og hæstv. fjmrh. vék að, eru ríkisábyrgðir núna um 2.4 milljarðar samkvæmt yfirliti frá 30/11 1960. Hér er um allverulega háar fjárhæðir að ræða. En við þetta er það að athuga, að um helmingur af þessu eru ábyrgðir vegna bankanna, t.d. er Framkvæmdabankinn með um 870 millj. kr., svo er Seðlabankinn og veðdeild Landsbankans, — um helmingur þeirrar fjárhæðar, er ábyrgðirnar nema samtals, eða um 1200 millj. Þess vegna er málið ekki eins alvarlegt og ef litið er á þessar tölur án þess að skoða þær nánar.

Þá vék hæstv. ráðherra að því, að greiðslur vegna ríkisábyrgða hefðu farið vaxandi hin síðari ár, og er það alveg rétt. Útgjöldin vegna ríkisábyrgða hafa hækkað ár frá ári. Samkvæmt yfirliti frá 30/11 eru það 132.5 millj. kr., sem er þá á fallið af ríkisábyrgðum og ríkissjóður hefur orðið að leggja út. Hér kemur líka það til athugunar, að um fjórði hluti af þessu eða því sem næst er fjárhæð, sem ríkissjóður hefur orðið að greiða vegna eigin fyrirtækja, vegna ríkisfyrirtækja eins og síldarverksmiðja og fiskiðjuversins, meðan það var starfandi, og er því sjáanlegt, að ríkissjóður hefði orðið að greiða þessar fjárhæðir, þó að ábyrgð hefði ekki komið til, þá í formi lána eða beinna framlaga.

Ábyrgðargreiðslur fyrir lendingarbætur og hafnargerðir eru 27 millj. kr. Hér er einn stærsti liðurinn í þessum ábyrgðum. Ef á þetta er litið, kemur það einnig í ljós, að í þessum lið eru hafnargerðir eins og Rifshöfn, sem er landshöfn og ríkissjóður leggur fram allt fé til hafnargerðarinnar. Þess vegna er það einnig greinilegt, að hér hefði orðið að koma til framlag ríkissjóðs, ef lán hefði ekki verið tekið til framkvæmdarinnar, sem ríkissjóður hefur svo reiknað með að verða að greiða. Þá er á það að líta í sambandi við hafnirnar að framlag ríkissjóðs til hafnanna hefur verið svo sáralítið, að raunverulega undrum sætir. Ríkissjóður hefur alltaf orðið stórkostlega á eftir með framlag sitt til hafnarframkvæmdanna, svo að staðirnir, sem í hafnarframkvæmdunum hafa staðið, hafa auk þess að leggja fram 50 og upp í 60% af kostnaði verksins einnig orðið að standa undir lánum, að því leyti sem ríkið átti vangreitt að sínum hluta. Þetta hefur leitt til þess, að á ríkissjóð hafa fallið ábyrgðir frekar en ella hefði orðið, ef framlagið eftir hinni beinu leið hefði verið meira. Þá er og í þessum hópi höfn eins og Þorlákshöfn, sem er nú á milli vinda, ef svo mætti að orði kveða, þar sem nokkuð hefur verið á tilraunastigi um það, hvort af framkvæmd yrði eða ekki, og því ekki til staðar þar sú uppbygging, er þarf til þess að standa undir hafnargerðinni. Hins vegar hygg ég, að ef af þeirri framkvæmd verður þar, sem til er ætlazt, og Þorlákshöfn verður sá staður, sem menn gera ráð fyrir, þá muni hún geta komið til með að standa undir sínum hafnarframkvæmdum, þó að síðar verði.

Ábyrgðargreiðslur til rafveitna ásamt raforkusjóði eru hér einnig nokkur þáttur í útgjöldum ríkissjóðs.

Ýmsir málaflokkar eru hér, sem ríkissjóður hefur ekki þurft að greiða fyrir nema sáralítið eða ekki neitt. T.d. má benda á það, að ábyrgðir byggingarsamvinnufélaganna eru upp á 207 millj. kr., en ríkissjóður hefur þeirra vegna orðið að greiða 238 þús. Fyrir bankana og aðrar slíkar stofnanir hafa engar greiðslur verið greiddar.

Sá málaflokkur, sem ríkissjóður hefur orðið raunverulega harðast úti með, er togaraútgerðin. Þar hefur ríkissjóður orðið að greiða nærri 31 millj., og eftir þeim upplýsingum, sem fyrir liggja um ríkisábyrgðir, virðist, að hér sé langsamlega mesta hættan á ferðinni. Togaraútgerðin hefur notið ríkisábyrgðar 85 eða 90%, ef ég man rétt, og hér er orðið um verulegar fjárhæðir að ræða, þar sem verð togaranna er nú um 30–40 millj. kr. Má því gera ráð fyrir, að ríkissjóður geti orðið að greiða verulegar fjárhæðir vegna þeirra, — einmitt vegna þeirra, — og það hefur þegar sýnt sig, að hann hefur orðið að gera það. Það er eðlilegt.

Þó að ég telji, að upplýsingarnar um heildarfjárhæðina, sem er verulega há, segi ekki allt um áhættuna af ábyrgðunum, þar sem fyrir marga málaflokka og þá stærstu, eins og banka, hefur ekkert þurft að greiða, og þó að ég líti svo á, að af þeim greiðslum, sem ríkissjóður hefur orðið að inna af hendi, hefði hann orðið að greiða sumt sem bein framlög vegna ríkisfyrirtækja og mun fá annað endurgreitt, þá vil ég samt taka það fram, að ég tel nauðsyn á að setja skorður til þess að reyna að fyrirbyggja það, eins og frekast er hægt, að á ríkissjóð falli ábyrgðir nema a.m.k. af fullkominni þörf. Þess vegna er ég, eins og ég lýsti yfir áðan, fylgismaður þess, að með þetta mál sé farið þannig, að við því séu reistar skorður, að um misnotkun geti verið að ræða.

Eins og hæstv. fjmrh. tók fram áðan, er eðlilegt og sjálfsagt að halda áfram að veita ríkisábyrgðir, en verður að gæta hófs í því. Þess vegna þurfa að vera tvö meginatriði í sambandi við þær reglur, sem hér yrðu settar um ríkisábyrgðir. Í fyrsta lagi verður að halda áfram að veita eðlilega aðstoð uppbyggingunni í landinu, einnig eftir þessari leið, og í öðru lagi verður að skapa hæfilegt aðhald, til þess að ekki geti verið um misnotkun að ræða að því leyti.

Ég mun nú víkja að frv. því til laga, sem hér liggur fyrir um þetta efni, og ræða nokkuð um, hvort mér sýnist, að það nái þessum tveim atriðum, sem ég tel að það þurfi að stefna að.

Í 1. gr. frv. segir svo, að engin ábyrgð skuli veitt, án þess að lög komi til, við þetta hef ég í sjálfu sér ekkert að athuga. En ég vil þó segja það, að ég tel, að þetta atriði út af fyrir sig sé ekki mikil trygging. Ég man eftir hér á hv. Alþingi einu máli sérstaklega, sem hefur verið tekið til meðferðar um ríkisábyrgð, það var ábyrgð fyrir Flugfélag Íslands. Sú ábyrgð var gerð með þál., og er vikið að því hér í grg. frv. En ég man það vel, að þegar sú ábyrgð var samþ. hér á hv. Alþingi, voru allir á eitt sáttir um, að hér væri ekki verið að taka á sig neina áhættu og hér væri mál, sem sjálfsagt væri að styðja. Ég er alveg sannfærður um, að það hefði verið sama, hvort um var að ræða lög eða þál., eins og varð framkvæmdin þá, að málið hefði verið afgr. hér á hv. Alþingi á einum og sama degi, eins og gert var hér á háttv. Alþingi á sínum tíma. Ég man eftir áliti fjvn., þar sem allir voru á eitt sáttir um, að sjálfsagt væri að mæla með málinu og að áhætta fylgdi því ekki. Þess vegna held ég, þó að ég sé ekki út af fyrir sig að setja mig neitt á móti þessu ákvæði frv., að það tryggi ekki ríkissjóð gagnvart ábyrgðunum. Enn fremur er það svo með þær ábyrgðir, sem heimilaðar eru í fjárl., venjulega í fjárlfrv., að það er yfirleitt ekki lögð mikil vinna í það hjá fjvn. að kynna sér þær ábyrgðarbeiðnir.

Um 2. gr. frv. er allt öðru máli að gegna. Þar er mjög breytt um stefnu frá því, sem áður var. Þar er gert ráð fyrir, að sú regla, sem hefur verið aðalreglan um framkvæmd á ríkisábyrgðum, skuli nú vera aukaregla eða undantekning frá aðalreglunni. Yfirleitt hefur það verið svo, að um sjálfskuldarábyrgð hefur verið að ræða, og ég hygg, að það hafi yfirleitt undantekningarlaust verið framkvæmt þannig með þær ábyrgðir, sem eru í heimild fjárlaga hverju sinni, að það hafi verið sjálfskuldarábyrgðir. Nú er þessu snúið við, og hér á að vera um einfalda ábyrgð að ræða, og á henni er gerð sú eðlilega lagaskýring, að áður en til ábyrgðarmannsins sé leitað, skuli vera búið að þrautreyna, hvort lántakandinn geti greitt. Þetta sýnist mér að þýði það, að í raun og veru munum við geta gengið hér með ríkisábyrgðir af þessu tagi á milli margra lánastofnana án þess að fá þar nokkurt jákvætt svar fyrir lánbeiðendur.

Ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. fjmrh. t.d. í sambandi við ákvæði laganna um vatnsveitur. Mér skilst, að hér eftir mundi þar verða um einfalda ábyrgð að ræða, og ég er ekki búinn að sjá, að það muni reynast, hvorki mér né öðrum, létt verk að fara í lánastofnanir hér í Reykjavík með slíka ábyrgð til þess að fá fé út á hana. Það mundi ekki verða mikils virði fyrir eina eða neina lánastofnun að selja vatnsveitukerfi Borgarneshrepps, þótt að því væri gengið, og þess vegna held ég, að einföld ábyrgð í þessu tilfelli mundi verða þýðingarlítil.

Mér skilst því, að með þessu ákvæði laganna sé í raun og veru verið að gera óframkvæmanleg almenn ákvæði í lögum svo og ákvæði fjárl. um ábyrgðir ríkissjóðs í þeim tilfellum, er þar um ræðir. T.d. eru á 22. gr. fjárl. frá s.l. ári ýmsar ábyrgðir, sem ég sé ekki annað en muni í raun og veru falla um sjálfar sig eftir samþykkt þessa lagafrv. Hér er ábyrgð til Hjalteyrarverksmiðjunnar og Krossaness vegna leigu á skipi til síldarflutnings frá fjarlægum miðum, 500 þús. kr. Það er ekkert tekið fram um þessa ábyrgð, hvernig hún skuli vera, og það þýðir, að hér á að vera um einfalda ábyrgð að ræða. Nú getur vel verið, að þessi fyrirtæki gætu sett þær tryggingar, að þau fengju þess vegna lán með þessari bakábyrgð. En hvernig yrðu afleiðingarnar, ef vanskil yrðu? Og því hefur þessi ábyrgð verið fengin, að fyrirtækið hefur talið sig hafa þörf á henni og að það væri öryggi í því í sambandi við lánsútvegunina. En nú skilst mér, að þetta sé þannig komið, að það yrði að gera þessi fyrirtæki upp, ef til vanskila kæmi, áður en lánveitandinn gæti gengið að ríkissjóði sem ábyrgðaraðila.

Í þessu tilfelli vil ég einnig vitna til þess, sem ég nefndi hér áðan í sambandi við Akraborgina. Ríkissjóður hefur orðið að greiða ábyrgðarskuldir vegna Skallagríms, sem á Akraborgina. Ég er alveg sannfærður um það, að sú leið hefur verið ríkissjóði ódýrari en ef að skipinu hefði verið gengið og það selt og ríkissjóður orðið eigandi, sem hefði orðið niðurstaðan þar. Það er von mín, að það takist að endurgreiða þetta lán a.m.k. að verulegu leyti og þar fái ríkissjóður út úr því dæmi þau beztu viðskipti, sem hann gat fengið út úr þessu dæmi. En hefði hér verið um einfalda ábyrgð að ræða, hefði orðið að gera fyrirtækið upp.

Það hefur einnig hent með Flugfélag Íslands, þó að allir væru á eitt sáttir um, að þar væri ekki um neina áhættu að ræða, að ríkissjóður hefur í bili orðið að leggja út fyrir það fyrirtæki vegna þeirrar ábyrgðar, sem við vorum allir sammála um að veitt yrði og getum engum öðrum um kennt í því tilfelli. En ef þá hefði verið um einfalda ábyrgð að ræða, hefði orðið að gera Flugfélag Íslands gjaldþrota. Eru hv. þm. og hæstv. ríkisstj. sannfærð um það, að sú leið hefði verið heppilegust fyrir íslenzkt þjóðfélag? Ég er á þeirri skoðun, að það hafi verið happadrýgra, þó að ríkissjóður hafi orðið að hlaupa þarna undir bagga í bili, sem ég reikna með að fyrirtækið geti greitt aftur, heldur en ef það hefði verið brotalaust gengið að þessu fyrirtæki, þegar til þessara vanskila kom. Og eftir að búið er að gera einfalda ábyrgð að aðalreglunni, verður mjög erfitt að hverfa að sjálfskuldarábyrgð. Þetta þýðir auðvitað það, að ríkisábyrgðirnar verða að mjög verulegu leyti að litlu liði hér eftir, vegna þess að það vitum við allir, sem eitthvað höfum við viðskipti átt, að yfirleitt eru ekki lán veitt, ef gert er ráð fyrir því, að það þurfi að gera aðilann gjaldþrota, ef ekki á að tapast það, sem lánað er. Og ríkisábyrgðir hafa verið að því leyti gjaldgengar, að það hefur verið vitanlegt, að ef bæri upp á sker, þá mundi ríkið borga, og þetta hefur auðvitað verið hugsað frá sjónarmiði ríkisins líka sem aðstoð við uppbygginguna oft og tíðum.

Þess vegna er hér um verulega breytingu að ræða, — breytingu, sem ég tel að gangi lengra en hæstv. fjmrh. gat um í sinni ræðu, að eðlilegt væri að veita ríkisábyrgðir áfram, þó að yrði að hafa þar aðra siði, enda sýnist mér og kem að því síðar, að ýmis önnur ákvæði í þessu frv. séu með þeim hætti, að eðlileg varasemi sé þar við höfð. Ég tel, að það sé ekki nema eðlilegt um þá, sem hafa lent í vanskilum og þurfa að koma til ríkisstj. aftur og fá ábyrgðir, nýjar ríkisábyrgðir, að það sé gert út um þeirra mál, áður en til nýrra ábyrgða kemur. Að því leyti er ég samþykkur 3. gr., að það er eðlilegt, að sá háttur sé á hafður, að frá eldri vanskilum sé gengið, þegar til nýrra ábyrgða kemur, og er það í fullu samræmi við þann viðskiptamáta, sem ég tel æskilegan. Þetta er ekki nema til þess að halda reglu á viðskiptum, og svo á að vera. Þess vegna á að gera þessi mál upp áður, annaðhvort gera þau hreinlega upp eða semja um skuldina. Það á sem sagt að koma málinu á réttan kjöl.

Hins vegar verð ég að segja um 4. gr. frv., þar sem er tekið áhættugjald, að eins og ég tók fram í upphafi máls míns, þá er hér um að ræða vissan þátt ríkissjóðs í uppbyggingunni í landinu. Þess vegna á ríkissjóður, sem mætir töpum með áætlun í sínum útgjöldum á fjárl., þeim áföllum, sem af þessu leiðir, — þess vegna á ríkissjóður ekki í þessu tilfelli að hugsa eins og banki, því að hans aðstaða í þessu máli er öll önnur. Bankinn getur ekki bætt sér töpin upp með nýjum álögum á þjóðina, eins og ríkissjóður gerir, og út af fyrir sig finnst mér því, að þetta bankasjónarmið, sem þarna er ríkjandi, sé ekki eðlilegt í sambandi við ábyrgðir ríkissjóðs, sem þarna eru og í sumum tilfellum verða svo sennilega óseljanlegar.

Þá er það 5. gr. frv., sem hefur mjög staðið í mér. Hér er gert ráð fyrir, að ríkissjóður hafi aðgang að því að taka til sín öll þau framlög, sem einstök sveitarfélög eiga að fá frá ríkinu í öðru skyni.

Í fyrsta lagi vil ég um þetta atriði segja það, að hér er verið að gera mismun á sveitarfélögunum og einstaklingum, sveitarfélögunum í óhag. Yfirleitt er það ekki þannig, að einstaklingar eða einstök félög eigi að fá greiðslur frá ríkissjóði. En sveitarfélögin, a.m.k. mörg þeirra, eiga að fá þaðan greiðslur, og þau standa hér mun verr að vígi en einstaklingarnir.

Um þetta mál vil ég svo segja það, að með lögunum um jöfnunarsjóð, sem samþ. voru hér á síðasta Alþingi, er svo fram tekið í 4. gr. þeirra laga, að ríkissjóði er heimilt að taka framlag jöfnunarsjóðs upp í vanskil vegna ríkisábyrgða. Ég var út af fyrir sig ekki á móti þessu ákvæði þeirra laga, vegna þess að þarna fannst mér vera eðlileg trygging, sem ríkissjóður hefði, ef til þess arna kæmi, að um vanskil væri að ræða. Hér er líka um svo háa fjárhæð að ræða af tekjum sveitarfélaganna yfirleitt, að ég a.m.k. sé ekki í fljótu bragði, hvernig sveitarfélögin þyldu það, að meira væri af þeim tekið en þetta framlag upp í vanskil. Ekki orkar það tvímælis, að þau taka framlag jöfnunarsjóðs inn á sínar fjárhagsáætlanir, og ef þau svo töpuðu því öllu og auk þess öðrum framlögum, þá gæti það skapað ný vandræði.

Ég vil líka segja það, að mér finnst það ekki eðlileg leið, að það sé hægt að taka framlag ríkissjóðs upp í skólabyggingu vegna þess, að það hafi orðið að greiða ábyrgð á togaraútgerð fyrir viðkomandi byggðarlag. Mér finnst það ekki eðlilegt, og ég held, að sú leið gæti orðið mjög varasöm, ef farin yrði, auk þess sem ég benti á áðan, að hér væri verið að búa bæjarfélaginu miklu verri hlut en einstaklingunum. Mér dettur í hug í því sambandi, að i Hafnarfirði er bæjarútgerð. Ríkissjóður hefur orðið að greiða vegna þessarar útgerðar í bili fjárhæðir, sem ég reikna með að hann fái endurgreiddar. En svo var þar önnur togaraútgerð, sem einstaklingar eða hlutafélag stóð að, og ríkissjóður hefur líka orðið að greiða vegna þessa fyrirtækis. Nú er það svo með fyrirtækið, sem átti togarann Keili, að búið er að selja hann. Enginn vafi er á því, að ríkissjóður kemur til með að tapa þarna nokkurri fjárhæð. Hann hefur enga möguleika til þess að ná af þeim aðila, er átti Keili, eftirgreiðslum úr ríkissjóði, því að það er ekki hægt að gera ráð fyrir því, að hann fái greiðslur úr ríkissjóði. En ríkissjóður hefur hins vegar möguleika samkvæmt þessum lögum að ná af Hafnarfjarðarkaupstað vegna bæjarútgerðarinnar meira en jöfnunarsjóðsframlaginu, ýmsum öðrum fjárframlögum. Hér finnst mér lengra gengið en eðlilegt er og skynsamlegt, ef litið er á málið í heild.

Hæstv. fjmrh. sagði áðan, að þessu ákvæði yrði að beita með varfærni. Það er rétt. En því er hv. Alþingi að samþ. lög, þar sem það verður að eiga undir góðsemi fjmrh.? Nú er ég ekki með þessum orðum að segja, að ég treysti ekki hinum og þessum fjmrh. til þess að vera góðsamir menn í það og það skiptið. En það geta skapazt mikil vandræði hjá þeim í sambandi við svona mál. Ég sé ekki ástæðu til, að hv. Alþingi sé að samþ. í lögum ákvæði, sem fjmrh. hæstv. yrði að draga úr í framkvæmdinni, til þess að málið væri ekki hættulegt. Ég lít svo á, að þegar hv. Alþingi er að afgr. lög, þá eigi það að ganga þannig frá löggjöfinni, að sá, sem á að framkvæma hana, framkvæmi hana með eðlilegum hætti, án þess að góðsemi þurfi þar að koma að nokkru verulegu leyti til, því að það er fullkomin ástæða til þess fyrir hæstv. ráðh. að álykta sem svo, að vilji Alþingis hafi verið sá, að hér skyldi fara fram skuldajöfnuður, hvernig sem á stæði. Það eru engin skilyrði fyrir því sett, heldur hefur ráðh. þarna heimild til þess að hirða af sveitarfélaginu jöfnunarsjóðsframlagið samkvæmt þeim lögum, auk þess framlag til skólabygginga, til rekstrarfjár skóla og í aðrar framkvæmdir, sem væri verið að vinna að á staðnum. Þetta gæti skapað mjög mikil vandræði, og það er ekki hyggilegt að láta þetta vera svo í löggjöfinni eins og til er ætlazt.

Þá er það 7. gr., þar sem gert er ráð fyrir því, að ríkisstj. geti leitað álits banka, áður en hún kveður á um það, hvort ábyrgðin skuli gefin út eða ekki.

Í fyrsta lagi er nú svo frá gengið, að engin ábyrgð skal gefin út eða samþ., nema Alþingi samþ. hana í lögum. Þá er Alþingi þar með búið að lýsa því yfir, að það er því samþykkt, að ríkissjóður takist ábyrgðina á hendur. Hæstv. fjmrh. hefur því fullt vald til þess að gefa ábyrgðina út. Og er það eðlilegt, eftir að Alþingi hefur lýst þessum vilja sínum, að þá sé verið að leita álits banka um það, hvort á að gefa út þessa ábyrgð eða ekki? Nú gæti það farið svo og hlýtur einhvern tíma að fara svo, að bankinn legði til, að ekki skyldi gefin út ábyrgð, sem Alþingi hefði þó samþ., og það er ekki óeðlilegt, að það yrði einhvern tíma niðurstaða ráðh. að fara þannig að, enda væri ákvæðið líka algerlega þýðingarlaust, ef það væri ekki framkvæmt á þann veg. Þess vegna væri bankinn orðinn hér yfirdómari yfir Alþingi, þó að það hefði staðið að samþykkt löggjafarinnar og kannske óskipt.

Nú veit ég heldur ekkert um það, hvernig framkvæmdirnar hjá bönkunum yrðu í þessu tilfelli. Mér dettur í hug dæmi, sem ég var hér með áðan í sambandi við útgerð á togaranum Keili í Hafnarfirði. Ég minnist þess, að um svipað leyti og hann var keyptur til landsins og var verið að veita hér ábyrgð fyrir kaupum á honum, þá var forstjóra þess fyrirtækis falið að sjá um útgerð á togaranum Brimnesi frá Seyðisfirði, vegna þess að maðurinn var talinn sérstaklega vel til þeirra hluta fallinn. Ég gæti því ályktað, að ef þessi tvö mál hefðu verið borin undir banka, um Brimnesið annars vegar og Kelli hins vegar, þá hefði bankinn talið óráðlegt að veita ábyrgð eða taka ábyrgð á útgerð Keilis á Seyðisfirði, jafnvel þótt hann væri kominn í góðar hendur, en hins vegar talið eðlilegt og sjálfsagt að veita hina ábyrgðina. Niðurstaða málsins hefur hins vegar orðið sú, að bæði þessi fyrirtæki hafa nú verið gerð upp sem gjaldþrota, og það getur verið, að það sé mismunandi, hvað ríkissjóður hefur orðið að borga fyrir þau. En það stafar þá ekki af því, að neitt hafi tekizt betur til með annan heldur en hinn, heldur hefur það verið annar kostnaður, sem þar hefur ráðið. Þess vegna held ég, að annaðhvort gerist, að þetta bankaeftirlit verði algerlega neikvætt eða þá að það verði gagnslaust, það verði yfirleitt ekki lögð í það sú vinna, sem þarf, til þess að það komi að því haldi, sem ætlazt er til. Ég teldi líka eðlilegra, að þetta eftirlit annaðist fjmrn. sjálft, en væri ekki að leita aðstoðar hjá einum eða öðrum banka til þess að fá upplýsingar um það, hvort ætti að framkvæma vilja Alþingis eða eigi. Það er í alla staði óeðlilegt, enda verður sjónarmið hæstv. ríkisstj. á hverjum tíma að vera annað gagnvart ríkisábyrgðum heldur en í venjulegri bankastarfsemi.

Í hv. Ed. lagði fulltrúi framsóknarmanna í fjhn. fram nokkrar brtt., sem náðu ekki fram að ganga, og ég hefði nú mjög viljað fara þess á leit við þá n., sem fær þetta mál, að hún taki þær til athugunar, og við hæstv. ríkisstj., að hún endurskoði afstöðu sína til málsins, svo að það væri hægt að sameinast um málið og afgreiða það á þann veg, sem hæstv. fjmrh. orðaði hér í framsöguræðu sinni, að áfram yrði haldið að veita uppbyggingunni aðstoð í gegnum ríkisábyrgðir, en þó gætt fullkomins hófs. Og ég held, að ef hv. alþm. leggja sig fram um að finna þessa leið, þá sé auðveldara að finna hana heldur en nú virðist vera.