21.03.1961
Neðri deild: 79. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1120 í B-deild Alþingistíðinda. (1076)

124. mál, ríkisábyrgðir

Fram. 1. minni hl. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Eins og fram kemur í nál, frá fjhn., hefur n. ekki orðið sammála um afgreiðslu þessa máls. Ég er andvígur efni þessa frv. og tel, að fella beri þetta frv.

Mér sýnist, að það leiki enginn vafi á því, að sú meginbreyting, sem felst í þessu frv. frá gildandi reglum um veitingu á ríkisábyrgðum, sé sú að breyta ríkisábyrgðunum í svonefnda einfalda ábyrgð, í staðinn fyrir að áður hefur yfirleitt verið um að ræða svonefnda sjálfskuldarábyrgð ríkissjóðs. Annað er í rauninni fátt nýtt í frv. að finna. Að vísu er nú gert ráð fyrir því í þessu frv., að ríkissjóður geti lagt hald á tilteknar greiðslur, sem ganga eiga til sveitarfélaga yfirleitt, ef slíkir aðilar eru í vanskilum með ríkisábyrgðarlán, en auðvitað hefur ríkissjóður haft þessa heimild, þó að hún hafi líklega aldrei verið notuð, en með þessu frv. virðist eiga að leiða í lög, að þessi framkvæmdaaðferð skuli upp tekin. En sem sagt, eins og ég sagði, aðalbreytingin er sú að breyta ríkisábyrgðunum, sem veittar hafa verið, úr sjálfskuldarábyrgð í svonefnda einfalda ábyrgð. Það er nokkuð augljóst, að um leið og ríkisábyrgðunum verður breytt á þessa lund, verða ríkisábyrgðirnar að harla litlum notum í flestum tilfellum fyrir þá, sem þessar ábyrgðir taka. Hér er því greinilega stefnt að því að draga stórlega úr veitingu þessara ríkisábyrgða og gera þær óvirkar með öllu í ýmsum tilfellum.

Þá er að athuga það, hversu réttlætanlegt það hefur verið að veita þær ríkisábyrgðir, sem veittar hafa verið á undanförnum árum. Ég held, að það geti ekki leikið vafi á því, að ríkisábyrgðirnar hafa í mjög mörgum tilfellum orðið til þess að gera mögulegt að ráðast í ýmsar framkvæmdir, sem annars hefði með engu móti verið hægt að ráðast í hér á okkar landi á undanförnum árum. Sumpart er þetta af því, að það hafa ekki verið tök á því að fá nein stofnlán til vissra framkvæmda, og hefur þá ríkisábyrgðin orðið til þess að veita mönnum möguleika á því að safna saman fé úr ýmsum áttum út á ríkisábyrgðirnar og gera þannig mögulegt að ráðast í viðkomandi framkvæmd.

Ég skal hér nefna nokkur dæmi þessu til skýringar.

Það er búið að vera þannig í mörg ár hér, að það hefur ekki verið hægt að kaupa t.d. togara til landsins, þannig að þeir, sem í það vildu ráðast, jafnvel þótt þeir gætu lagt fram talsvert mikið fé, gætu fengið hjá nokkurri lánastofnun hér innanlands stofnlán til slíkra kaupa. Það hefur enginn stofnlánasjóður verið til í landinu, sem hefur tekið að sér að lána nokkuð sem heitir til kaupa á jafndýrum tækjum og togararnir eru. Þannig hefur þetta verið nú um margra ára skeið. Togarar hefðu því ekki verið keyptir til landsins nema vegna þess, að sú leið var farin, að ríkið veitti þeim, sem vildu kaupa togara, ríkisábyrgðir, sem hafa leikið frá 50 og jafnvel allt upp í 90% af stofnverði skipanna, og út á þessar ríkisábyrgðir hefur kaupendunum tekizt að fá lán erlendis og reyndar að safna saman þó nokkru láni til kaupanna líka hjá ýmsum sjóðum og stofnunum hér innanlands. Það er rétt, að það hefur þannig til tekizt nú á síðari árum, að þessar ábyrgðir hafa einmitt orðið ríkissjóði tiltölulega þungbærar. Það hefur borið jafnvel meira á því með þessar ábyrgðir vegna togarakaupa heldur en nokkrar aðrar, að þær hafi fallið á ríkissjóðinn. Þar er auðvitað um sérstakt vandamál að ræða, og hefði vissulega þurft að taka á því vandamáli eins og við átti, hvernig hægt væri að koma þeim málum þannig fyrir, að togaraútgerðin gæti staðið við sínar skuldbindingar. En ég hygg samt, að allir geti verið sammála um, að það hafi verið þýðingarmikið fyrir okkar þjóðarbúskap sem heild að kaupa þá togara, sem keyptir hafa verið nú um langan tíma, meira en heilan áratug, til landsins einvörðungu í krafti þessara ríkisábyrgða. Að breyta þessum ábyrgðum t.d. varðandi þessi kaup, þessar framkvæmdir, togarakaupin, breyta þeim í einfaldar ábyrgðir, það er nákvæmlega sama í þessum tilfellum og að strika þær út. Það er óhætt að fullyrða, að það er engin leið til þess, að erlendar lánastofnanir mundu greiða fyrir kaupum á slíkum tækjum út á einfaldar ábyrgðir. Ég tel t.d. í þessu tilfelli vera, mjög varhugavert að ætla að breyta ábyrgðunum og útiloka í þessu tilfelli kaup á slíkum framleiðslutækjum sem togarar eru, og breytir þar engu um í mínum huga með þá sérstöku erfiðleika, sem steðja að togaraútgerðinni nú í svipinn.

Ég skal taka fleiri dæmi.

Það hefur verið nokkuð byggt á undanförnum árum af síldarverksmiðjum í landinu. Þar hefur verið um dýrar framkvæmdir að ræða. Þær hafa kostað frá 10–20 millj. kr. Þar hefur ekki heldur verið um það að ræða, að nein lánastofnun í landinu væri til, sem lánaði til þessara framkvæmda eðlileg stofnlán. Bankarnir hafa færzt algerlega undan að lána stofnlán til þessara framkvæmda. Fiskveiðasjóður hefur ekki verið fær um það, og sérstakar lánastofnanir hafa því ekki verið fyrir hendi. En með því að hér hafa verið veittar ríkisábyrgðir til slíkra framkvæmda, sem taldar hafa verið fram til þessa mjög þýðingarmiklar fyrir atvinnulíf landsmanna í heild, hefur mátt takast að fá saman nokkur lán bæði erlendis og þó sérstaklega innanlands út á ríkisábyrgðirnar, svo að það hefur reynzt unnt að koma upp þessum fyrirtækjum. En það liggur líka ljóst fyrir, að ef aðeins væri völ á þeirri tegund af ríkisábyrgðum, sem nú er lagt til að verði hin almenna regla, þá yrði með öllu útilokað að fá lán út á þær til slíkra framkvæmda. Það væri alveg vonlaust, að þeir opinberu sjóðir, sem hér starfa og lána nokkuð fé út, vátryggingafélög og fleiri aðilar, færu að lána út á slíkar einfaldar ábyrgðir eins og hér er gert ráð fyrir. Þessi verkefni, að byggja þessar mjög svo þýðingarmiklu framleiðslustöðvar, slíkt mundi liggja niðri á eftir, fyrst ekki er séð fyrir því jafnframt að koma þá upp lánastofnunum, sem gætu yfirtekið þetta verkefni, leyst þetta af hendi.

Svipað er að segja um byggingu t.d. á öðrum fiskvinnslustöðvum. Sá háttur hefur nú verið hafður á um nokkurra ára skeið, að ríkissjóður hefur veitt ríkisábyrgðir vegna stofnlána til byggingar á hraðfrystihúsum og öðrum fiskvinnslustöðvum, og hafa þessar ríkisábyrgðir numið allt að 60% af stofnkostnaði þessara fyrirtækja. Það hefur verið hámarkið. En þannig hefur líka verið háttað, að það hafa ekki verið neinir stofnlánasjóðir til, sem hafa getað veitt eðlileg stofnlán til þessara framkvæmda. Sá stofnlánasjóðurinn, sem hefði raunverulega átt að anna þessu hlutverki, fiskveiðasjóður, hefur ekki treyst sér til þess nú um margra ára skeið, en í lögum þess sjóðs er svo fyrir mælt, að lánveitingar til skipa- eða bátakaupa skuli ganga þar fyrir öðrum lánum, og hann hefur ekki haft fé nema sáralítið til þess að veita sem stofnlán til byggingar á fiskvinnslustöðvum. En ríkisábyrgðirnar, sem veittar hafa verið allt að 60% af stofnframkvæmdunum, hafa gert það mögulegt, að þessar stöðvar hafa komizt upp, sem vissulega hafa haft mjög mikla þjóðhagslega þýðingu. Ég hygg, að reynslan hafi orðið sú, að þessar ábyrgðir hafi í mjög fáum tilfellum fallið á ríkið vegna fiskvinnslustöðvanna og þessar ábyrgðir hafi því ekki sakað ríkissjóð svo til neitt, en hins vegar leyst mikinn vanda í uppbyggingu atvinnulífsins.

Það er heldur enginn vafi á því að mínum dómi, að þeir aðilar, sem staðið hafa í því og koma til með að standa í því að byggja upp hraðfrystihús eða fiskvinnslustöðvar, geta ekki fengið lán út á slíkar ábyrgðir hér eftir, sem nú er gert ráð fyrir, út á einfaldar ábyrgðir, og liggja til þess alveg augljósar ástæður. Til þess að skýra það eilítið betur vil ég benda á það, að þegar aðilar ráðast nú í byggingu fiskvinnslustöðva, sem í mörgum tilfellum kosta kannske heilan tug milljóna, og þurfa þá á stofnlánum að halda, sem nema kannske 6–7 millj. kr., verður að fá þessa fjárhæð hjá mörgum óskyldum aðilum út á ríkisábyrgðir. Það er auðvitað ákaflega erfitt fyrir hina einstöku lánasjóði, sem starfandi eru í landinu, að veita aðilum 500 þús. kr. lán eða 1 millj. kr. lán úi á slíka ábyrgð, ef ganga þarf að ábyrgðinni, þá þarf fyrst að ganga að viðkomandi fyrirtæki og gera það upp, því að vel getur svo staðið á, að það hafi beinlínis ekki tekist að koma fyrirtækinu að fullu og öllu í gang eða í rekstrarhæft stand, áður en fyrstu greiðslur koma til með að falla á vegna þessara ábyrgða, og væru því þessir lánasjóðir bundnir þeirri hættu, að þeir þyrftu að láta leggja sér út hálfbyggð fyrirtæki í mörgum tilfellum, ef þeir ættu að sjá um innheimtu á réttum gjalddögum á þessum lánum.

Ég býst við því, að jafnvel þó að reynslan hafi sýnt það, að þessi fiskiðnaðarfyrirtæki hafi yfirleitt staðið í skilum með sínar ábyrgðir, mundu þessir lánasjóðir vera mjög tregir til þess að lána út á svona ábyrgðir, eins og hér er um að ræða. Ég er því á þeirri skoðun, að það sé ekki réttmætt og ekki hægt að breyta svona snöggt til, eins og hér er lagt til að gera með þessar ríkisábyrgðir, án þess að aðrar ráðstafanir komi í staðinn um leið, sem raunverulega leysa þann vanda, sem ríkisábyrgðirnar áður gerðu, þ.e.a.s. að það séu þá til einhverjar stofnanir, sem veita nauðsynleg stofnlán til gagnlegra eða nauðsynlegra fyrirtækja út á slíkar ábyrgðir sem þessar í jafnríkum mæli og aðilar voru áður fúsir til að veita lán út á fyrri ábyrgðartegundir.

Mér sýnist því, að hér sé beinlínis stefnt að því að torvelda mönnum að ráðast í þær framkvæmdir, sem raunverulega hefur verið ráðizt í á undanförnum árum í krafti ríkisábyrgðanna. En er það meiningin, að það sé verið að stefna að því að draga á þennan hátt úr þessum framkvæmdum, það sé á þennan hátt verið að vinna að því að stöðva þessa uppbyggingu? Er það það, sem vakir hér fyrir þeim, sem að þessu máli standa?

Ég vil ekki neita því, að það hafi verið full ástæða til þess að taka ríkisábyrgðamálin til sérstakrar athugunar, flokka þessar ríkisábyrgðir meira niður en gert hefur verið og fá þá glöggt yfirlit um það, hvers konar ábyrgðir það hafa aðallega verið, sem hafa reynzt ríkissjóði þungar, og gera þá sérstaka athugun á því, hvaða ráðstafanir hefðu verið eðlilegar og framkvæmanlegar til þess að draga úr áhættu ríkissjóðs í þeim tilfellum, án þess þó að þurfa að stöðva nauðsynlegar framkvæmdir í þessum efnum.

Ég tók eftir því, að hv. frsm. meiri hl fjhn. gat þess hér, að á árabilinu frá 1950–59 hefðu fallið á ríkissjóð greiðslur vegna ábyrgðarskuldbindinga, sem nema 140 millj. kr., og búast mætti við um 40 millj. fyrir árið 1960, þannig að á 10 ára tímabili hefðu þessar greiðslur ríkissjóðs numið í kringum 180 millj. kr. Ég hef ekki athugað þessa upphæð og geng út frá því, að hún sé rétt. En mér er aðeins spurn: Er þá búið að taka tillit til þess, að í allmörgum tilfellum hefur ríkissjóður fengið aftur til baka allstórar fúlgur! Þegar gengið hefur verið að vissum fyrirtækjum. eða þau gerð upp, eins og t.d. viss togarafélög, þá hefur ríkissjóður fengið þar allverulegar upphæðir greiddar aftur til baka. Ég þykist vita, að það sé ekki búið að taka tillit til þess heldur, að í ýmsum tilfellum, þar sem ríkið hefur lagt út fyrir aðilana vegna þessara vanskila, á ríkið þetta raunverulega gulltryggt núna í þeim fyrirtækjum, sem enn eru látin ganga hjá þessum aðilum, en ekki hefur verið gengið formlega að. Ég t.d. er alveg víss um það, að flestir togaranna, sem keyptir voru í einu lagi í kringum 1949, tugur talsins, frá Englandi og ríkissjóður hefur greitt mjög háar fjárhæðir fyrir vegna ríkisábyrgða á þeim, að flestir þeirra standa enn í því verði, að gengi ríkissjóður þar að, þá fær ríkissjóður alveg örugglega þessar greiðslur til baka aftur, þegar að því kemur. Þetta er því ekki allt saman tapað fé, því fer fjarri, þó að það hafi verið lagt út. Í sumum tilfellum er hins vegar algerlega um það að ræða, að hér sé tapað fé.

Þær ríkisábyrgðir, sem ég hygg að hafi verið hvað erfiðastar þannig fyrir ríkissjóð, eru sennilega ábyrgðir vegna hafnarframkvæmda víða á landinu. Það er enginn vafi á því, að ýmsar þær ábyrgðir hafa verið þess eðlis, að það voru litlar líkur til þess, mjög litlar líkur í mörgum tilfellum, að viðkomandi aðilar gætu staðið við þær skuldbindingar, og þær hafa fallið á ríkissjóð. En þar er líka vandinn svo mikill, að þeir, sem standa að þessu frv., treysta sér ekki enn þá að víkja sér undan þessu og gera ráð fyrir því að veita þær ábyrgðir áfram þrátt fyrir vanskil. En enginn vafi leikur á því, að þar hafa ábyrgðir verið veittar og eru veittar enn í dag frá fjárhagslegu sjónarmiði í svipinn á langhæpnustum grundvelli og með mestum vafa á því, að ríkið fengi þær upphæðir greiddar til baka á tilskildum tíma.

Ég held því, að afleiðingarnar af samþykkt þessa frv. og þeirri breyt., sem hér er gert ráð fyrir að gera, verði þær, séu ekki gerðar aðrar allvíðtækar ráðstafanir samhliða, að þetta dragi stórlega úr ýmsum mjög nauðsynlegum framkvæmdum, sem verða beinlínis óframkvæmanlegar eftir þessa breytingu, og það verði þjóðarbúinu og ríkissjóði einnig til stórtjóns. Auk þess er svo það, að það hefur verið gengið hér í enn þá fleiri ábyrgðir. Það hefur verið nú á síðari árum, að ég hygg, gengið í talsvert háar ábyrgðir fyrir flugfélögin vegna kaupa á flugvélum, mjög háar ábyrgðir, og eitthvað mun hafa beinlínis fallið á ríkissjóð vegna þessara ábyrgðarskuldbindinga í svipinn. Ég dreg það mjög í efa, að þó að slíkt hafi gerzt varðandi það flugfélagið, sem hér annast samgöngur innanlands aðallega, þá sé hægt að ætla að víkja sér undan þeim vanda með því í rauninni að hætta að taka á sig ábyrgðir fyrir slíka aðila, þegar svo er ástatt hjá þeim eins og verið hefur. Ég held, að það verði að finna önnur ráð til þess heldur en þá breytingu, sem felst í þessu frv.

Eins og ég segi, tel ég ekki óeðlilegt, að það hefði farið fram miklu frekari athugun á því, hvernig framkvæmdin á þessu hefur verið, og settar um þetta strangari reglur en gilt hafa. Það tel ég ekki óeðlilegt. En ég tel, að sú breyting, sem hér er gert ráð fyrir, mundi hafa hættulegar verkanir í sambandi við ýmsar framkvæmdir í landinu, og af þeim ástæðum er ég á móti frv. eins og það er. Ég hef hins vegar með hv. 1. þm. Norðurl. v. flutt hér nokkrar brtt., sem allar miða að því að því að draga úr þessum annmörkum, sem ég hef hér gert aðallega að umtalsefni, á þessu frv. Ég tel að vísu, að það væri allmikil bót að fá þær brtt. samþykktar, það mundi draga nokkuð úr, en teldi þó langæskilegast, að þetta mál yrði látið liggja og yrði tekið til frekari athugunar fyrir næsta þing, hvernig þessum málum ætti að koma fyrir á betri veg en hér er gert ráð fyrir í þessu frv.