24.03.1961
Efri deild: 82. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1134 í B-deild Alþingistíðinda. (1086)

124. mál, ríkisábyrgðir

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Hv. Nd. gerði eina breytingu á þessu frv. um ríkisábyrgðir. Það er 3. málsgr. 4. gr., sem bætt var þar inn að tillögu hv. 1. þm. Vestf. (GíslJ). Þessi málsgrein er svo hljóðandi: „Áhættugjald það, sem greitt verður skv. 1. og 2. málsgr. þessarar greinar, skal geymt á sérstökum reikningi. Má einungis nota fé þetta, eftir því sem til vinnst, til þess að greiða ábyrgðarkröfur, sem á ríkissjóð kunna að falla, svo og kostnað við framkvæmd laga þessara. Nú endurgreiðist skuld, sem greidd hefur verið af framangreindum reikningi, og skal þá hið endurgreidda fé lagt á reikninginn.“

Þetta er í samræmi við það, sem jafnan hafði verið fyrirhugað, að áhættugjaldið, sem ákveðið er í 4. gr., skyldi notað til þess, eftir því sem til ynnist, að mæta töpum vegna ábyrgða, sem á ríkið féllu, og ég tel til bóta að setja slíkt ákvæði skýrt inn í frv.

Ég legg til við þessa hv. d., að hún samþykki frv. eins og það liggur fyrir með þessari breytingu.