02.02.1961
Neðri deild: 54. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1155 í B-deild Alþingistíðinda. (1092)

180. mál, Seðlabanki Íslands

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð, sem ég vil segja í sambandi við þetta mál og sérstaklega vegna þess, að ég er forseti þessarar hv. deildar. Í hv. Ed. var ég í gær ásakaður af hv. 3. þm. Norðurl. v. fyrir að hafa gerzt sekur um trúnaðarbrot við hæstv. Alþingi fyrir að ræða efni þessa frv., áður en það var lagt fyrir þingið. Í frásögn blaðs Framsfl., Tímans, í gær er um þessar umr. í Ed. m.a. sagt, að með framkomu minni að þessu leyti væri, eins og þar stendur: „höggvið nærri virðingu Alþingis og því misboðið“, enn fremur, að með slíku væri verið, að „draga vald úr höndum Alþingis“. Ég hef gert kjósendum í stjórnmálafélagi grein fyrir því í aðalatriðum, hvað hæstv. ríkisstj. hygðist leggja fyrir Alþingi til lögfestingar um bankamál. Þetta gerði ég með vitund hæstv. ríkisstj. Ég vil leyfa mér að vænta þess, að í þessari hv. deild, sem ég nýt þess trausts að vera forseti í, sé ekki átalið, að mál, sem vitað er að lögð verði fram á Alþ., séu rædd áður við kjósendur í stjórnmálafélögum.