23.02.1961
Neðri deild: 68. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1159 í B-deild Alþingistíðinda. (1095)

180. mál, Seðlabanki Íslands

Frsm. 1. minni hl. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Ég sé, að hæstv. viðskmrh., sem fer með bankamálin, er ekki í sínu sæti. Ég vildi spyrja um hann, því að ég vil mjög, að hann sé viðstaddur, þegar ég flyt mitt mál. Ég þarf einmitt að beina til hans nokkrum orðum. (Forseti: Hæstv. ráðh. var nú hér rétt áðan. Við skulum láta athuga það.) Já, þökk fyrir, ég skal bíða á meðan.

Ég hef skilað sérstöku áliti um frv. um Seðlabanka Íslands á þskj. 408 og hefur því nú verið útbýtt í þd. Eins og þar kemur fram, tel ég enga þörf fyrir þessa lagasetningu, sem hér er stofnað til.

Hv. meðnm. minn, 6. landsk. þm., sagði áðan í sinni ræðu, er hann mælti fyrir áliti meiri hl., að ef þetta frv. yrði samþ., þá yrðu kapítulaskipti í íslenzkri bankasögu með stofnun sérstaks seðlabanka. Þetta tel ég ekki rétt hjá hv. þm. Hafi verið um kapítulaskipti að ræða, þá hafa þau verið árið 1957, þegar Seðlabankinn var skilinn frá viðskiptadeild Landsbankans og settur undir sérstaka stjórn.

Það er sagt hér einnig í aths., sem þessu frv. fylgja, að með frv. þessu sé lagt til, að fullur aðskilnaður verði gerður á milli Seðlabankans og viðskiptabankans, en þetta er ekki rétt, það var búið að gera þennan aðskilnað áður. Seðlabankinn er nú og hefur verið senn í fjögur ár sérstök stofnun með sérstakri stjórn. Þar er því ekki um nýmæli að ræða, en meginatriðið í þessu frv., sem hér liggur fyrir, er að fjölga stjórnendum Seðlabankans úr 5 upp í 8. Ég sé ekki neina þörf fyrir þetta. Ég sé ekki heldur, að hæstv. ríkisstj. hafi þörf fyrir þessa breyt., því að reynslan hefur sýnt, að meiri hl. stjórnar bankans fer eftir tilmælum stjórnarinnar.

Það er ekki ófróðlegt í sambandi við þetta meginatriði frv., sem hér liggur fyrir, að athuga nokkuð ummæli sumra hv. þm. Sjálfstfl., sem þeir höfðu hér á þingi 1957, þegar landsbankal. var breytt og þessi aðskilnaður gerður sem ég áður nefndi. Þá voru einnig hér samþykkt frumvörp um breytingar á lögum annarra banka. Í nál. minni hl. fjhn. Nd., sem út var gefið af fulltrúum Sjálfstfl. í n. 24. maí 1957, segir svo m.a.:

„Lengi hefur það hins vegar verið augljóst, að fyrir ríkisstjórnarflokkunum vekti það fyrst og fremst að tryggja stuðningsmönnum sínum stöður í stjórn Seðlabankans sem og annarra banka.“

Og í umr. um bankamálið sagði hæstv. núv. landbrh. m.a. á þessa leið, þá þm. Rangæinga: „Tilgangur frv. er sá að tryggja stjórnar flokkunum fleiri sæti og fleiri stöður í bönkum.“ Og hann sagði líka, að með þeirri lagasetningu væri m.a. verið að svipta réttkjörna bankaráðsmenn umboði því, sem þeir nú hafa samkv. lögum. Það er fróðlegt að rifja þetta upp í sambandi við það, sem hér er á ferð.

Nýmæli er þó hér í 10. gr. frv. Þar er gert ráð fyrir því að taka upp aftur bankaeftirlit. Seðlabankinn á að annast það samkv. frv. Þar getur skapazt atvinna fyrir nokkra menn.

Í 11. gr. frv. eru ákvæði um það, að innlánsstofnanir, sem nánar eru tilgreindar í 10. gr., þ.e.a.s. bankar, sparisjóðir,. innlánsdeildir samvinnufélaga, Söfnunarsjóður Íslands og hver önnur stofnun, sem tekur við innstæðum frá almenningi eða rekur sambærilega starfsemi að mati Seðlabankans, skuli geyma lausafé sitt á reikningi í Seðlabankanum, eftir því sem við verður komið. Í sömu grein er einnig heimild til Seðlabankans til að ákveða, að innlánsstofnanirnar skuli eiga á reikningi i Seðlabankanum upphæð, er nemi tilteknum hundraðshluta af innstæðufé viðkomandi stofnunar. Þar segir, að innstæðubinding skuli þó ekki vera meiri en 20% af því innstæðufé, sem ávísa má á með tékka, en 15% af öðrum innstæðum. Síðan segir, að Seðlabankinn geti innan þessara takmarka breytt þessu hlutfalli, er ástæða þykir til, en sama hlutfall á þó ætið að gilda um hvern flokk innstæðna hjá öllum innlánsflokkum. Þá er einnig í sömu grein ákveðið, að Seðlabankinn geti heimtað til sín hluta af innstæðuaukningu, sem verða kann hjá innlánsstofnunum, inn á bundinn reikning.

Þá segir í 12. gr. frv., að Seðlabankanum sé heimilt að ákveða, að innlánsstofnanirnar, sem áður um ræðir, skulu eiga ríkistryggð verðbréf eða önnur trygg verðbréf, er nemi allt að 10% af innstæðum hjá þeim, nema hærri upphæð sé ákveðin í lögum. Það lítur út fyrir, að þarna í 12. gr. sé um að ræða viðbót við það, sem sparisjóðum er nú skylt að eiga í sjóði, bankainnstæðu eða verðbréfum samkv. 16. gr. l. nr. 69 1941, um sparisjóði, vegna þess að það ákvæði er ekki numið úr gildi, þó að þetta frv. verði samþ., eins,og það nú er. En í 16. gr. l. um sparisjóði segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Sparisjóðir skulu, til þess að það sé tryggt, að þeir geti hvenær sem er fullnægt skyldum sínum um greiðslu á innlánsfé, eiga í sjóði innstæðu í banka, sem ríkið ábyrgist, og f tryggum, auðseljanlegum verðbréfum minnst 1/10 af innlánsfénu. Sjóður og bankainnstæða mega þó aldrei vera mínna en 7% af innlánsfénu.“

Mér sýnist, að það verði allmjög takmarkaðir möguleikar sparisjóðanna til útlánanna, almennra útlána, eða ráðstöfunarréttur þeirra á því fé, sem þeir hafa undir höndum, ef þessum lagaheimildum verður beitt til fulls. Samkv. 11. gr. segir, að það megi skylda þá til að binda hjá Seðlabankanum 15–20% af innstæðufénu, í 12. gr., að það megi ákveða, að þeir kaupi verðbréf fyrir 10% af innlánsfénu. Þarna er komið 25–30, og í sparisjóðslögunum, sem ég vitnaði til, segir, að þeir skuli eiga 1/10 eða 10% af innstæðunum í peningum, innstæðu í banka eða verðbréfum. Þarna er, ef þessu væri beitt til fulls, komið 35 eða 40%, sem hægt er að skylda sparisjóðina til þess að hafa í bankainnstæðum eða verðbréfum eða peningum, og minnka þá auðvitað möguleikar þeirra til almennra útlána sem þessu svarar. Það nýmæli feist líka í 12. gr. að skylda samvinnufélög til að kaupa verðbréf fyrir hluta af innstæðufé f innlánsdeildum, ef Seðlabankinn mælir svo fyrir.

Í núgildandi landsbankalögum frá 1957 er ákvæði í 16. gr. þeirra, sem veitir Seðlabankanum heimild til að ákveða, að bankar og sparisjóðir skuli eiga innstæður í Seðlabankanum og þá hve miklar. Stjórnarflokkarnir settu ákvæði í efnahagslögin á síðasta þingi um það, að þetta skyldi einnig ná til innlánsdeilda samvinnufélaga. Ég hygg, að mér sé óhætt að fullyrða, að sá hafi verið tilgangurinn með þessari lagaheimild, sem sett var í bankalögin 1957, að gera það mögulegt að grípa í taumana, ef einhver innlánsstofnun næði til sín miklu innlánsfé og hætta væri á því, að því yrði ráðstafað með þeim hætti, að óeðlilegri og hættulegri röskun gæti valdið i fjármálalífi þjóðarinnar. Þetta mun hafa verið eina ástæðan til þess, að þetta var sett í lög. Þessi heimild frá 1957 í landsbankalögunum hefur ekki heldur verið notuð fyrr en á næstliðnu ári, eftir að núv. hæstv. ríkisstj. tók við stjórnartaumunum, og þá hefur hún verið ákaflega misnotuð, þessi heimild. Það hafa verið gefnar út fáránlegar tilskipanir um fjárheimtu frá litlum sparisjóðum og innlánsdeildum um land allt. Sá var áreiðanlega ekki tilgangurinn. Það vakti ekki fyrir þeim, sem settu þessa heimild á sínum tíma inn í landsbankalögin, að heimildin yrði misnotuð með þessum hætti.

Í aths. með efnahagsmálafrv., sem hæstv. ríkisstj. lagði fyrir þingið í fyrra, sagði hún m.a., að ráð væri fyrir því gert, að gerðar verði ráðstafanir til þess að koma á jafnvægi í peningamálum innanlands, og til þess að ná þessu marki kvaðst ríkisstj. ætla að beita sér fyrir því, að nokkur hluti innlánsaukningar hjá bönkum og sparisjóðum, þ. á m. innlánsdeildum kaupfélaga, verði bundinn í Seðlabankanum. Stjórnin tók þegar snemma á s.l. ári að beita sér fyrir þessu, sem hún hafði boðað að koma skyldi. Eftir fyrirmælum ríkisstj. ákvað meiri hluti stjórnar Seðlabankans vorið 1960 að gera kröfu um, að ákveðinn hluti af innstæðuaukningu, sem verða kynni hjá innlánsstofnunum, skyldi lagður inn á bundinn reikning í Seðlabankanum. Mér er ekki kunnugt um, hve mikið það er, sem Seðlabankinn hefur fengið út á þessa tilskipun árið sem leið. En nýtt bréf var gefið út frá Seðlabankanum 19. jan. í vetur, auðvitað eftir áður nefndum fyrirmælum ríkisstj. Bréf þetta er sent öllum innlánsstofnunum, bönkum, sparisjóðum og innlánsdeildum um land allt. Í þeirri nýju tilskipun er ekki látið nægja að heimta hluta af innstæðuaukningu, sem verða kann hjá stofnununum. Það er líka heimtað, að þær skili ákveðnum hundraðshluta af heildarinnstæðum hjá sér, hvort sem þær eru miklar eða litlar.

Eins og áður segir, er Seðlabankinn hér að framkvæma vilja ríkisstj. og fyrirmæli, og með þessum ráðstöfunum mun hæstv. ríkisstj. telja sig vera að vinna að því að koma á jafnvægi í peningamálum innanlands, eins og hún tilkynnti í fyrra, að hún ætlaði að gera.

Þegar lagafrumvörp eru til meðferðar hér á Alþingi, þá er jafnan nauðsynlegt fyrir þm. að reyna að glöggva sig sem bezt á því, hvernig væntanleg lagasetning muni verða í framkvæmdinni. Það eru venjuleg og sjálfsögð vinnubrögð. Ég hef í nál. mínu á þskj. 408 brugðið upp nokkrum myndum af framkvæmdinni á tilskipun þeirri, sem Seðlabankinn hefur nýlega gefið út fyrir hönd ríkisstj. Eins og þar er bent á, á að sækja nú í aprílmánuði næsta kr. 3963.35 norður fyrir Trékyllisheiði á Ströndum, 5 þús. kr. út í Flatey á Skjálfanda og eitt ærverð vestur á Rauðasand, Þetta allt saman á að setja á bundinn reikning í Seðlabankanum. Sömu upphæðir á að sækja á þessa sömu staði í júlí og í þriðja sinn í október. Með þessu mun ríkisstj. telja sig vera að vinna að jafnvægi í peningamálum þjóðarinnar. Svo er nú það.

Það er reyndar eðlilegt, að einhver spyrji: Getur þetta verið rétt? Verður ekki sleppt að krefja minnstu sparisjóðina og innlánsdeildirnar? Nei, það má ekki. Enginn á að sleppa. Samkv. bréfi Seðlabankans nær fjárheimtan til allra innlánsstofnana, hvort sem þær hafa mikið eða lítið sparifé i sinni vörzlu. Það er alveg glöggt í bréfinu. Og þó að seðlabankastjórninni kunni að detta í hug að sleppa þeim minnstu, þá getur hún það ekki, ef þetta frv. verður samþykkt eins og það liggur fyrir.

Í 2. málsgr. 11. gr., þar sem ræðir um heimild Seðlabankans til þessarar fjárheimtu og ákveðið er, hvað háa prósentu af innlánsfé hann megi heimta, þá segir: „Seðlabankinn getur innan þessara hámarka breytt þessu hlutfalli, þegar ástæða þykir til, en sama hlutfall skal ætíð gilda um hvern flokk innstæðna hjá öllum innlánsstofnunum.“ Þetta á að ná til allra. Rollurnar þrjár á Rauðasandi eiga ekki að sleppa. Það á að sækja þangað eitt ærverð vestur nú í apríl, annað í júlí og það þriðja í október, engin þeirra á að sleppa. Þessar 3 ær eiga að gegna þýðingarmiklu hlutverki í jafnvægissókn ríkisstj. á því herrans ári 1961.

Það er oft talað um jafnvægi hér á hinu háa Alþingi. Það er talað um jafnvægi í byggð landsins, það er þýðingarmikið, ef hægt er að koma því á og halda því við. Það er talað um jafnvægi í viðskiptum, þetta er líka gott, ef tekst að koma því á og halda því við. Það er talað um jafnvægi í peningamálum, víst er það heppilegt. Allt er þetta gott og blessað, ef hægt er að ná þessu og halda því við. En ég hef lýst hér örlítið einni jafnvægisæfingu núv. hæstv. ríkisstj. Ég verð að segja það, að hún hefur tekizt ákaflega ófimlega og að segja má afkáralega. Og ég vil nú spyrja hv: stuðningsmenn núv. ríkisstjórnar: Finnst þeim ekki tími til þess kominn að stöðva þessar jafnvægisæfingar hjá sinni ríkisstj., ef hún hættir þeim ekki ótilkvödd? Vilja þeir láta landslýðinn horfa lengur upp á fimleika af þessari tegund? Þetta vekur að vísu gamansemi. Það er brosað að þessu um landið þvert og endilangt. En því miður, þetta er ekki eingöngu gamanmál og hlátursefni, þetta hefur líka sína alvarlegu hlið. Við vitum það, að á undanförnum áratugum hafa verið miklir fólksflutningar utan af landi í þéttbýlið hér við Faxaflóa. Allir þeir mörgu, sem hafa flutt sig búferlum á undangengnum árum, hafa farið með fjármuni sína með sér. Þegar fólk flytur sig búferlum úr einhverri byggð á landinu og með allt sitt, þá verður lífsbaráttan erfiðari fyrir þá, sem eftir eru, á þeim stöðum, ef ekki kemur fólk inn í byggðina í staðinn. En þannig hefur það einmitt oft verið, að það hafa engir komið í staðinn fyrir þá, sem hafa flutt sig burt. Lífsbaráttan verður erfiðari á margan hátt hjá þeim, sem eftir eru, Þeir hafa orðið að sjá á eftir þessu fólki og þeim fjármunum, sem það réð yfir. Þá held ég, að það megi ekki minna vera en fólkið, sem eftir er í byggðunum og heldur þar við eldi á arni, fái að halda sínu litla sparifé heima í sínum héruðum. Það er fyllsta þörf fyrir þessa peninga þar.

Eitt af þeim málum, sem við höfum séð hér á þessu þingi, er till. til þál. viðkomandi jafnvægi í byggð landsins. Fyrsti flm. hennar er sá hv. þm., sem nú um sinn er í sæti 1. þm. Vestf. Því miður sé ég hann ekki á fundinum nú. Í þessari till. er m.a. talað um, að það sé nauðsynlegt að skapa aukið atvinnuöryggi og vaxandi framleiðslu um land allt. Nú vil ég spyrja þá hv. þm., sem að þessari till. standa, og aðra þdm.: Stefnir þetta frv. í þá áttina? Er þetta til að auka jafnvægi í byggð landsins, auka þar atvinnuöryggi og framleiðslu? Nei, hér er stefnt í þveröfuga átt.

Í gær var fundur hér í Sþ. Þá var hv. 1. þm. Vestf. (SB) að tala um tili., sem hann og fleiri flytja viðkomandi læknaskortinum víða um land. Hann nefndi m.a. Árneshrepp í Strandasýslu, þar sem nú væri enginn læknir, og hann nefndi nýlegt dæmi um mikla erfiðleika, sem af því hlutust, þegar lítill drengur í þeirri byggð varð fyrir slysi. Úr þessu þarf að bæta, sagði hann. Og það er alveg rétt. Vonandi verður reynt að bæta úr þessu. Það er oft nokkur norðannæðingur í þessari byggð þarna nyrzt í Strandasýslu, vestan Húnaflóa. Það hefur verið lítið um það nú á þessum vetri, blessuð tíðin hefur verið svo góð, en það leggur til þeirra kuldagust úr suðri í staðinn, frá yfirvöldunum í höfuðborginni. Skv. þessu frv. er trúlegt, að af þeim verði krafizt, að þeir sendi um 12 þús. kr. á þessu ári inn í bundinn reikning í Seðlabankanum. Þetta er náttúrlega ekki stórfé á nútímans mælikvarða, en þarna er líka um að ræða bara eitt afskekkt sveitarfélag, sem á við næga erfiðleika að stríða. Þeir, sem búa þar í Árneshreppi, hafa nóga þörf fyrir sína peninga heima fyrir. En sá er þegnskapur þess fólks í nyrztu byggð Strandasýslu, að ég er ekki í vafa um það, að þeir mundu greiða af höndum þetta fé með glöðu geði, ef þjóðarnauðsyn heimtaði. En hver getur bent á þörfina fyrir þessar fjárkröfur á hendur þeim? Vill sá gefa sig fram? Ég held, að hv. 1. þm. Vestf., sem talaði um þennan hrepp í gær í Sþ., ætti að leggja sitt lið til þess, að hætt verði við svona kúnstir nú þegar.

Ég minnist þess, að í umr. um viðskiptamál á síðasta þingi sagði meðnefndarmaður minn, hv. 6. landsk., formaður fjhn., að takmark þeirra, er nú fara með stjórn landsins, væri frelsið. Takmark okkar er frelsið, sagði hann. Hann sagði, að stjórnarandstæðingar vildu höft og bönn og ófrelsi. En það eru ekki hlýir straumar frelsisins, sem berast út um landið frá núverandi valdhöfum. Það er ný, áður óþekkt frelsisskerðing, sem landsmönnum er boðuð með þessum aðförum ríkisstj., sem hún lætur Seðlabankann framkvæma. Menn eiga að fá að kenna á valdinu. Krafa valdhafanna er: Komið þið með peningana inn í Seðlabankann, málshöfðun og aðför að öðrum kosti.

Sparifé alls í bönkum, sparisjóðum og innlánsdeildum á öllu landinu mun nú vera töluvert yfir 3000 millj. kr. eftir þeim skýrslum, sem sézt hafa um þetta efni. Ákveðið er skv. þessu frv. og samkvæmt bréfi Seðlabankans og þeirri heimild, sem hann hefur, að smala nú í apríl á að gizka 5 millj. frá sparisjóðum og innlánsdeildum utan kaupstaðanna við Faxaflóa, jafnmiklu í júlí og í þriðja sinn í október í haust. Það er sem sagt trúlegt, að frá þessum stofnunum fáist um það bil 15 millj. yfir allt árið. Ja, nú ætlaði ég að fara að koma með fyrirspurn til hæstv. ráðh., og þá skrapp hann burt. Ég held ég verði aðeins að doka við. Kannske hefur hann farið í símann. — Ég var að segja, að mér sýndist útlit fyrir, að út á bréf Seðlabankans frá 19. jan., sem sumir kalla gangnaseðilinn, muni hafast alls á þessu ári um 15 millj. kr. frá sparisjóðum og innlánsdeildum á öllu landinu, utan kaupstaðanna við Faxaflóa. Og nú vil ég spyrja hæstv. viðskmrh., sem flutti þetta mál af hálfu ríkisstj. hér inn í þingið og lýsti því við 1. umr.: Hvað á þetta að þýða? Hvað á þetta að þýða, að snapa saman þessa upphæð, þrisvar sinnum 5 milljónir á árinu frá smásjóðum um allt land? Engum kemur í hug, að þetta sé þáttur i ráðstöfunum til að ná jafnvægi í peningamálum þjóðarinnar. Ef það væri meiningin að koma á jafnvægi í peningamálum, þá ætti auðvitað að veita fénu í öfuga átt, út um landið, en ekki hingað, til bindingar í Seðlabankanum. Hver er þá ástæðan, sem liggur að baki öðru eins og þessu? Jú, það getur verið, að ýmsir líti það hýru auga, þetta geti valdið kaupfélagsmönnum um land allt einhverjum óþægindum. En ekki er það nú vel frambærileg ástæða, ef það er engum til gagns.

Hæstv. ráðh. getur náttúrlega sagt: Þetta er útreiknað. Þetta kom svona út úr vélum. — En ég vil mjög óska svars við þessari spurningu minni: Í hvaða tilgangi er þetta gert? Getur hæstv. ráðh. bent á nokkurt gagn, sem af þessu muni verða? Ég óska skýringa.

Ég vil nú að lokum beina þeim tilmælum til ríkisstj. og sérstaklega hæstv. viðskmrh., sem fer með bankamálin, og raunar til þm. stjórnarflokkanna yfirleitt, að þeir taki þetta fjárheimtu- og fjárbindingarmál til íhugunar og stöðvi þær óviturlegu ráðstafanir í þeim efnum, sem ég hef hér rætt um. Ég tel, að þeir ættu að athuga þetta gaumgæfilega, ef ekki nú, áður en þessari umr. lýkur, þá fyrir 3. umr. um frv.

Eins og segir í mínu nál., þá er ég á móti þessu frv. Ég tel enga þörf fyrir þessa fjölgun í bankastjórninni, sem er meginatriði frv. Búið er að aðskilja áður viðskiptabankann og seðlabankann í Landsbankanum, og þarf engin ný lög um það efni. Ég legg því til, að frv. verði fellt, en ég vil þó sérstaklega skora á hv. þm. að greiða atkv. gegn 11. og 12. greinum frv., sem geyma fjárbindingarákvæðin, sem ég hef hér nokkuð talað um.