23.02.1961
Neðri deild: 68. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1169 í B-deild Alþingistíðinda. (1097)

180. mál, Seðlabanki Íslands

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég vil fyrst þakka hv. fjhn. fyrir afgreiðslu hennar á þessu máli, og ég er frsm. n. sammála um, að hér er um stórmál að ræða. Ég sé líka ástæðu til að láta í ljós ánægju yfir því, að talsmaður hv. Alþb. hefur lýst fylgi sínu við meginefni frv., við þá meginstefnubreytingu, sem er sannarlega mjög mikilvæg, sem í frv. felst. Þau atriði, sem hann gerði að umtalsefni og hann greinir á við okkur, sem að frv. stöndum, eru öll minni háttar.

Hins vegar verð ég að láta í ljós mikil vonbrigði yfir afstöðu talsmanns hv. Framsfl., hv. 1. þm. Norðurl. v. Það virðist algerlega hafa farið fram hjá honum, að hér er um stórmál að ræða. Hér er um að ræða fyrstu lagasetninguna um sjálfstæðan seðlabanka á Íslandi. Hér er um það að ræða að koma á fót í fyrsta skipti í fjárhagssögu Íslands seðlabanka með þeim verkefnum, sem slíkar stofnanir hvarvetna hafa. Og það er meira en það, sem hér er um að ræða. Þessum íslenzka seðlabanka eru í þessu frv. ætluð verkefni með þeim hætti, að að ýmsu leyti má segja, að þessi löggjöf, ef hún nær samþykki, verði fullkomnari og betri og í meira samræmi við nútímasjónarmið í fjármálum en tíðkast í nágrannalöndum. Ef þetta frv. verður að lögum, þá verða Íslendingar til þess að lögfesta venjur, sem skapazt hafa á undanförnum áratugum varðandi starfsemi seðlabanka og skipti þeirra við ríkisvaldið. Engin nágrannaþjóða okkar hefur orðið til þess að setja þau ákvæði í lög, sem felast í 4. gr. þessa frv. og frv. að öðru leyti er að miklu leyti byggt utan um.

Það má því að ýmsu leyti segja, að þessi löggjöf, ef hún nær fram að ganga, megi teljast og verði talin með nýtízkulegustu seðlabankalöggjöf, sem í gildi er í nálægum löndum. Með þessu er ég ekki að segja, að sú skipan, sem gert er ráð fyrir að lögtaka, sé að einhverju leyti öðruvísi en sú skipan, sem gildir t.d. á Norðurlöndum og öðrum löndum í Vestur-Evrópu. Hún er þvert á móti sú sama, sem löng venja hefur skapað þar í þeim þróuðu lýðræðisríkjum og hefur gefizt vel. Hins vegar er gert ráð fyrir, að reglurnar um þessa venju verði lögfestar í þessu frv. Það er m.a. og ég vil segja fyrst og fremst þess vegna, sem hér er um stórmál að ræða. Og ég endurtek það, að mér eru það mikil vonbrigði, að annar stærsti stjórnmálaflokkur landsins skuli ekki gera sér gleggri grein fyrir þessu meginatriði en svo, að hann láti ágreining um mjög minni háttar atriði ætla að verða til þess, að hann standi ekki að afgreiðslu þessa máls í heild.

Það, sem hér er að öðru leyti um að ræða, fyrir utan að marka þessa skýru stefnu, er að bæta úr því, sem vangert var hjá stjórn Hermanns Jónassonar að því er snertir bankalöggjöfina og Framsfl. þá að sjálfsögðu stóð að. Sú bankalöggjöf, sem stjórn Hermanns Jónassonar beitti sér fyrir, var að ýmsu leyti af miklum vanefnum ger, af því að sá tími, sem ætlaður var til þess að undirbúa þá löggjöf, reyndist allt of naumur. Þetta hefur ég held flestum, sem gerþekkja til þessara mála, verið ljóst, allar götur síðan 1957, og það hefur komið í hlut þessarar ríkisstj. að bæta úr þessum ágöllum og setja um stærstu ríkisbankana þrjá þá löggjöf, sem þessi hv. d. er nú einmitt að fjalla um.

En hvað er það þá, sem hv. Framsfl. virðist leggja svo mikið upp úr í þessu frv., að hann telji stuðning við frv. í heild eiga að velta á? Það eru reglurnar um innlánabindinguna, það eru ákvæði frv. í 11. og 12. gr. Áður en ég ræði þessi atriði nokkru nánar, vil ég minna hv. þdm. á, að í því frv. um Landsbanka, sem stjórn Hermanns Jónassonar beitti sér fyrir að samþykkt yrði, voru ákvæði, sem veittu Seðlabankanum ótakmarkaða heimild til þess að binda fé innlánsstofnana á lokuðum reikningum í Seðlabankanum. Þetta ákvæði var auðvitað meingallað og hefði aldrei átt að vera svo. Það er nauðsynlegt fyrir seðlabanka að hafa slíka heimild. Það var viðurkennt af hv. Framsfl. 1957, þegar hann hafði forsæti í ríkisstj. Að öðrum kosti hefði flokkurinn varla staðið að því, að slíkt ákvæði væri í landsbankalögunum. Þá var heimildin algerlega ótakmörkuð. Nú er úr þessu bætt og heimild Seðlabankans til slíkrar innstæðubindingar er takmörkuð, svo sem um er getið í 11. gr. Hún má ekki vera hærri en 20% af því innstæðufé hjá viðkomandi stofnun, sem ávísa má á með tékka, og ekki hærri en 15% af öðrum innstæðum.

Það er jafnrétt nú og það var 1957, að bráðnauðsynlegt er fyrir seðlabanka að hafa heimild til slíkrar innstæðubindingar. Ég get ekki skilið, að Framsfl. hafi skipt svo rækilega um skoðun frá því að vera í stjórn og við það að komast i stjórnarandstöðu, að hann telji nú heimild Seðlabankans til innstæðubindingar vera algerlega óþarfa. Því trúi ég ekki. Þess vegna er það dálítið undarlegt, að slíkur úlfaþytur skuli gerður út af þessum reglum, þegar þetta frv. gerir einmitt ráð fyrir, að heimildir Seðlabankans til innstæðubindingar séu takmarkaðar, eins og ég lýsti.

Hv. þm. spurði, hvers vegna slíkar reglur sem þessar væru settar. Um það mætti margt segja, en ég skal ekki um það fjölyrða. Ég skal aðeins láta þess getið, að til þess liggja tvær meginástæður. Annars vegar eru slík ákvæði nauðsynleg til þess, að Seðlabankinn geti haft vald á peningamagninu í umferð. Það er eitt af meginhlutverkum seðlabanka, um það er ekki ágreiningur, að tryggja, að peningamagn í umferð og framboð lánsfjár sé hæfilegt, miðað við það, að verðlag geti haldizt stöðugt og framleiðslugeta atvinnuveganna sé hagnýtt á skynsamlegan hátt. Þetta er önnur meginröksemdin fyrir því, að slíkar reglur séu nauðsynlegar. Hin er sú, að þær eru það til þess að tryggja öryggi innstæðueigendanna í þeim innlánsstofnunum, sem gert er ráð fyrir að eigi víssar innstæður í Seðlabankanum. Þetta eru raunar allt saman taldir sjálfsagðir hlutir, taldir augljósir og sjálfsagðir hlutir hjá öllum, sem þekkja nokkuð til rekstrar seðlabanka og bankamála yfirleitt. Ég þekki ekkert land, þar sem slíkar reglur séu ekki í gildi, ekki eitt einasta.

Þessar reglur eru yfirleitt tvenns konar, eins og gert er ráð fyrir í þessu frv. að Seðlabankinn geti haft þær. Þær eru annars vegar þannig, að Seðlabankanum er heimilað að binda ákveðinn hluta innlánsaukningar í innlánsstofnunum, og hins vegar þannig, að Seðlabankanum er heimilað að skylda innlánsstofnanir til þess að eiga vissan hundraðshluta af innstæðum sínum sem inneign í Seðlabankanum. Þessar tvær reglur eru alls staðar í gildi, sumpart notaðar jöfnum höndum og sumpart önnur þeirra einungis, víðast hvar þó notaðar jöfnum höndum. Ég endurtek það: Ég þekki ekkert land, bókstaflega ekkert land, þar sem slíkar reglur séu ekki í gildi, og mér þætti afar fróðlegt og beini því hér með til hv. 1. þm. Norðurl. vestra, að hann nefni mér það, ef hann þekkir nokkurt land á byggðu bóli, þar sem slíkar reglur séu ekki í gildi og þeim sé beitt, og ég vildi óska þess að hann gleymdi ekki að svara þessari fyrirspurn minni. Það getur sannarlega ekki verið nein goðgá að lögleiða hér ákvæði, sem eru fastur þáttur í starfsemi seðlabanka um víða veröld.

Þær reglur, sem fyrst voru settar samkv. heimildinni i lögunum frá 1957 í sambandi við efnahagsráðstafanir núv. ríkisstj. á s.l. ári, voru þannig, að gert var ráð fyrir því, að helmingur innstæðuaukningarinnar á árinu 1960 yrði bundinn í Seðlabankanum. Þessum reglum hefur nú nýlega verið breytt og á þeim verið slakað, og það er liður i þeirri stefnu, sem komið hefur fram einnig á öðrum sviðum hjá ríkisstj., m.a. í vaxtalækkuninni, að svo góður árangur hafi orðið af efnahagsráðstöfunum ríkisstj. á s.l. ári, að hægt hafi verið að slaka nokkuð á þeim mjög ströngu ráðstöfunum, sem gerðar voru samhliða efnahagsráðstöfununum. Þess vegna var það gert nokkurn veginn samtímis, að vextir voru lækkaðir og slakað á reglunni um innstæðubindinguna. Það er einmitt meiningin með slíkum reglum, að hægt sé ýmist að slaka á þeim eða herða á þeim, eftir því, hvernig Seðlabankinn metur ástandið á peningamarkaðnum hverju sinni. Þær reglur, sem nú gilda og eiga að gilda aftur á bak fyrir 1960, að svo miklu leyti sem hinar voru ekki komnar til framkvæmda, og fyrir 1961, eru þær, að nú á að binda aðeins 30% af innstæðuaukningunni, en auk þess 3% af innstæðunum, sem fyrir hendi eru hjá hverri innlánsstofnun, þó þannig, að aðeins skal skila 1% í hvert sinn í þrjú skipti. Þessar reglur eru auðvitað léttir fyrir innlánsstofnanirnar frá því, sem var á árinu 1960, og því í raun og veru ekki ástæða fyrir þær að kvarta né heldur að kvarta fyrir þeirra hönd.

Nú kann að vera, að það, sem hv. þm. vill gera að meginatriði í sínu máli, sé ekki það, að slíkar reglur séu settar í sjálfu sér, enda á hann erfitt með það, þar sem hann og hans flokkur stóðu að því 1957, að ótakmörkuð heimild til að setja slíkar reglur var sett. Það kann að vera, að það, sem fyrir honum vakir fyrst og fremst, sé það, að þessar reglur eru látnar ná til allra innlánsstofnana, að meðtöldum innlánsdeildum í kaupfélögum. Það, sem hann kann fyrst og fremst að setja fyrir sig, er, að þetta tekur einnig til lítilla innlánsstofnana, og ég held raunar, að hann hafi spurt mig alveg sérstaklega: Hvers vegna eru þessar reglur látnar gilda um litlu innlánsstofnanirnar? Á hann þar væntanlega við innlánsdeildir kaupfélaganna og litla sparisjóði. Því er mjög fljótsvarað, hvers vegna þetta þarf að vera svo. Í slíkum efnum sem þessum eru undanþágur óframkvæmanlegar og leiða þegar í stað til mjög alvarlegrar misnotkunar. Það er samkeppni á milli inniánsstofnananna, og ef sama regla gildir ekki um þær allar, hvort sem þær eru fyrir neðan eitthvert ákveðið mark eða svolítið fyrir ofan það, þá er alveg augljóst mál, að þar er um aðstöðumun að ræða milli innlánsstofnana til þess að afla sér lánsfjár.

Þetta, sem ég er að segja núna, er engin fræðikenning, sprottin upp í mínum huga. Um þetta höfum við dæmi, tiltölulega nýlegt dæmi hér á Íslandi. Það gerðist í einum kaupstað, þar sem reglurnar, sem fyrst voru í gildi um þetta, gerðu ráð fyrir nokkurri mismunun eftir stærð stofnananna. Í kjölfar þess sigldi það, svo að ég nefni eitt dæmi, — fleiri væri hægt að nefna, — að innlánsstofnanir í einum kaupstað hófu samkeppni um innstæðufé á þeim grundvelli, að önnur stofnunin væri minni en svo, að innstæðubindingarreglurnar tækju til hennar, en hin væri stærri en svo, að af innstæðuaukningu þar þyrfti að skila ákveðnum hundraðshluta til Reykjavíkur. Það gefur auga leið, að slíkt má ekki viðgangast, af því að komast verður hjá því að efna til slíks, ef þess er nokkur kostur. Þess vegna verða slíkar reglur eins og þessar, ef þær eiga að vera varanlegar og standa til frambúðar, eins og reglurnar um hundraðshlutann af innstæðum yfirleitt eru, að vera algildar, gilda um alla aðilana. En það er það, sem hv. þm. og flokkur hans virðast ekki vilja sætta sig við. Hann virðist ekki vilja sætta sig við það, að þessar reglur, þ.e. reglurnar um bindingu á ákveðnum hundraðshluta af innstæðufé, gildi fyrir alla. Hann vill hafa undanþágu fyrir suma, hann vill hafa sérréttindi fyrir suma. Það er þetta sjónarmið, sem núv. ríkisstj. vill ekki viðurkenna og mun ekki viðurkenna. Hún mun ekki viðurkenna, að nokkrir aðilar eigi rétt á undanþágum frá almennum reglum, að nokkrir aðilar eigi rétt á alveg sérstökum sérréttindum eða fríðindum í þessum efnum, vegna þess að það skapar misrétti á samkeppnissviðinu, sem getur orðið alvarlegt.

Hverjir eru nú þeir aðilar, sem hv. þm. virðist sérstaklega bera fyrir brjósti í þessum efnum? Ég geri ekki ráð fyrir því, að það séu fyrst og fremst litlu sparisjóðirnir. Ég geri ráð fyrir, að það séu fyrst og fremst innlánsdeildir kaupfélaganna, sem þessar innstæðubindingarreglur munu taka til, og ég hygg, að ég með þessu geri hv. þm. engar getsakir. Ýmis orð hans féllu þannig, að það er ómögulegt að skilja þau öðruvísi en svo, að hann telji ranglæti þessa frv. sérstaklega vera fólgið í því, að það geri ráð fyrir, að sú kvöð verði lögð á innlánsdeildir kaupfélaga eins og sparisjóði og aðrar innlánsstofnanir, að þær bindi ákveðinn hundraðshluta af innstæðufé sínu í Seðlabankanum.

Nú er mér alveg ljóst, hvaða sérstöðu innlánsdeildir kaupfélaganna hafa meðal innlánsstofnana landsmanna. Hitt veit ég líka, að innlánsdeildir kaupfélaganna njóta allra sömu fríðinda og sparisjóðir njóta til þess að geta keppt við sparisjóðina um innlánsfé almennings. Þetta er meginástæðan til þess, að ríkisstj. telur ekki fært að láta innlánsdeildir kaupfélaganna njóta sérstakra réttinda að því er snertir þær byrðar, sem nauðsynlegt er að leggja á innlánsstofnanir í landinu vegna öryggis peningakerfisins og vegna öryggis innstæðueigendanna sjálfra. Það er vegna þess að Alþingi hefur gengið þannig frá réttindum innlánsdeilda kaupfélaganna, að réttindin eru nákvæmlega hin sömu og sparisjóðanna. Það er vegna þessa, að skyldur innlánsdeilda kaupfélaganna hljóta að verða hinar sömu. Þegar ég segi, að Alþingi hafi veitt innlánsdeildum kaupfélaganna sömu réttindi og sparisjóðunum, þá á ég fyrst og fremst við það, að ákvæðin um skattfrelsi innstæðufjár gilda um innlánsdeildir kaupfélaganna. Þetta eru mjög mikilvæg réttindi, sem hafa úrslitaþýðingu í samkeppni innlánsstofnana um innstæðufé sparifjáreigenda. Að þessu leyti hafa innlánsdeildir kaupfélaganna verið settar á sama bekk og Landsbankinn, Búnaðarbankinn, Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis, Sparisjóður Siglufjarðar, allar innlánsstofnanir landsins, og fyrst svo er, að þær njóta sömu réttinda og innlánsstofnanirnar, þá satt að segja á ég ekki gott með að skilja þann hugsunarhátt, sem krefst þess, að þær beri ekki sömu byrðar, að þær beri ekki sömu skyldur og innlánsstofnunum almennt er ætlað að gera. Það, sem er sérstaklega athyglisvert við málflutning hv. þm. og flokks hans í þessu máli, er, að mér skilst hann ekki í sjálfu sér andmæla því, að slíkar reglur séu nauðsynlegar. Honum finnst eðlilegt, að Landsbankinn og Útvegsbankinn verði að sæta slíkri bindingu af hálfu Seðlabankans. Honum finnst eðlilegt, að stór sparisjóður, jafnvel þó að úti á landi sé, verði að sæta slíkri bindingu. En þegar kemur að innlánsdeild kaupfélags, þá má hún ekki sæta slíkri bindingu. Það er þessi sérréttindahugsunarháttur, sem ég hvorki skil né heldur get fellt mig við.

Nú skal ég að gefnu þessu tilefni, vegna þess að þetta virðist vera bókstaflega eitt aðalatriðið í afstöðu hv. þm. til þessa máls, leyfa mér að beina til hans alveg ákveðinni spurningu. Ég skal orða hana skýrt og óska þess mjög eindregið, að hann svari henni líka alveg skýrt: Er hv. þm. reiðubúinn til þess að fallast á, að ákvæðið um skattfrelsi sparifjár hætti að taka til innlánsdeilda kaupfélaganna, m.ö.o., að innlánsdeildir kaupfélaganna verði þess konar stofnanir, sem samvinnulögin gera ráð fyrir að þær séu? Ef hv. þm. er reiðubúinn til þess að eiga þátt í því eða beita sér fyrir því eða standa að því, samþykkja það, að ákvæðin um skattfrelsi innstæðna í innlánsdeildum kaupfélaganna séu afnumin, þá skal ég fyrir mitt leyti beita mér fyrir því, að ákvæðin um bindingu innstæðufjárins í Seðlabankanum hjá deildum kaupfélaganna taki ekki til innlánsdeilda kaupfélaganna. Þetta er ákveðið tilboð til hans, og ég tel, að með þessu móti væri öllu réttlæti fullnægt. Ef innlánsdeildir kaupfélaganna njóta ekki þeirra sérréttinda, sem sparisjóðirnir og almennir viðskiptabankar njóta, að innstæðufé sé skattfrjálst, þá eiga þær ekki heldur að bera þá byrði, sem hér er gert ráð fyrir að á innlánsstofnanir sé lögð, það játa ég, og þá skal ég fyrir mitt leyti beita mér fyrir því, að þeirri byrði verði létt af þeim. En ef hv. þm. og flokkur hans vill ekki samþykkja, að þessum ákvæðum sé breytt, verð ég að halda fast við þá skoðun mína, að hið sama verði að gilda um innlánsdeildir kaupfélaganna og aðra sparisjóði, hvort sem þeir eru litlir eða stórir. Hitt hef ég áður rökstutt, hvers vegna ekki er hægt að gera greinarmun á stórum og litlum innlánsstofnunum.

Þá vildi ég að síðustu fara nokkrum orðum um þá skoðun hv. þingmanns, að með þessum innstæðubindingarákvæðum sé í raun og veru verið að níðast sérstaklega á dreifbýlinu af hálfu fjölbýlisins eða Reykjavíkur. Þau dæmi, sem hann nefndi í ræðu sinni og í nál. sínu um, að sótt sé eitt ærverð norður í Trékyllisvík, og annað því um líkt, áttu, auk þess að vera skemmtileg, að vera eins konar dæmisaga um, að með þessum ákvæðum væri verið að íþyngja dreifbýlinu alveg óhóflega þéttbýlinu í vil. Hér er auðvitað um mikinn grundvallarmisskilning að ræða. Það er algerlega óviðurkvæmilegur málflutningur að benda á, þó að nokkurt fé flytjist úr dreifbýli í Seðlabankann í Reykjavík, sem auðvitað er sameign allra landsmanna, sem liður í heildarráðstöfunum þjóðarbúinu og sparifjáreigendum almennt til öryggis, og það er algerlega villandi málflutningur að benda á slíkt sem dæmi um, að á dreifbýlið sé hallað að því er snertir dreifingu fjármagnsins. Sú hugmynd, sem þessum ummælum er ætlað að vekja hjá hv. þdm. og hjá þjóðinni yfirleitt, er án efa sú, að það sé stefna núverandi ríkisstj. að draga fé úr dreifbýlinu og hingað í þéttbýlið og þó sérstaklega til Reykjavíkur.

Ég gerði mér það til dundurs áðan, meðan hv. ræðumenn voru að tala, að ég tók skýrslu, sem lá á borði mínu frá hagfræðideild Landsbanka Íslands, sem sýnir fjárfestingu í höfuðatvinnugreinum landsmanna undanfarin 6 ár. Tölur um raunverulega fjárfestingu í höfuðatvinnugreinunum eru ein öruggasta vísbendingin um það, hvernig lánsfé landsmanna í raun og veru hefur dreifzt á milli atvinnugreinanna, hvernig það hefur dreifzt á milli dreifbýlis og þéttbýlis, því að fjárfestingin er, ég vil segja nær öllsömun kostuð af lánsfé. Undanfarin 6 ár hefur ekki verið um þess konar ágóða að ræða í íslenzkum atvinnuvegum, að fjárfestingin hafi að neinu verulegu leyti getað verið kostuð af því að halda eftir ágóða í fyrirtækjunum, og væntanlega á það ekki við um landbúnaðinn að neinu verulegu leyti. Hún er sem sagt að langmestu leyti kostuð af lánsfé. Og hvað skyldi nú koma í ljós, ef við tökum fjárfestingu í fjórum höfuðatvinnugreinum landsmanna s.l. 6 ár, þ.e. á árunum 1954–59? Þær tölur eru þannig, reiknað á verðlagi hvers árs: Fjárfesting í landbúnaði á þessum 6 árum hefur numið 1435 millj. kr. Fjárfesting í sjávarútvegi hefur numið 879 millj. kr. Fjárfesting í iðnaði og námugrefti hefur numið 426 millj. kr. Og fjárfesting í verzlun og veitingum, sem tekið er saman, 212 millj. kr. Fjárfesting í landbúnaðinum einum hefur því numið meira samtals s.l. 6 ár en fjárfesting samtals í sjávarútvegi og iðnaði. Í sjávarútvegi og iðnaði hefur fjárfestingin numið 1305 millj. kr., en í landbúnaðinum 1435 millj. kr. Það er ekki fjarri lagi, að s.l. 6 ár hafi fjárfesting í landbúnaði numið næstum eins miklu og fjárfesting í hinum þremur höfuðatvinnuvegum landsmanna samtals. Tölurnar eru 1435 millj. kr. í landbúnaðinum og 1517 millj. kr. í hinum þremur höfuðatvinnuvegum landsmanna samtals. Auk þess er svo þess að geta, að í raforkuframkvæmdum hafa verið fjárfestar á þessum sömu árum 773 millj. kr., og er mjög verulegur hluti þess framkvæmdir í dreifbýlinu.

Þessar tölur eru án efa einna skýrasta vísbendingin um það, hvernig fjármagn landsmanna undanfarin 6 ár hefur dreifzt. Það má fara aðrar leiðir til þess að komast að raun um, hvernig fjármagnið hefur dreifzt, það heildarlánsfé, sem þjóðin hefur haft yfir að ráða. Ég er ekki í nokkrum vafa um, að niðurstaðan verður í stórum dráttum sú sama, því að það er alveg sama, hvort við tökum útlánatölur þeirra stofnana, sem hafa haft yfir að ráða innlendu og erlendu fé, eða hvort við tökum þær framkvæmdir, sem lánsféð hefur verið notað til, niðurstaðan er þessi. Með hliðsjón af þessu er það náttúrlega næstum óskiljanlegur málflutningur að gera eitthvert stórt veður út af því, þótt innlánsdeild einhvers kaupfélags eða þótt einhver lítill sparisjóður þurfi að skila nokkrum hundruðum króna eða nokkrum þúsundum króna, eins og hv. þm. nefnir einstök dæmi um í grg. sinni, í Seðlabankann, í sameiginlegan sjóð landsmanna sem lið í reglum, sem alls staðar er viðurkennt að nauðsynlegar séu og hv. þm. sjálfur og flokkur hans viðurkenna í grundvallaratriðum að nauðsynlegar séu, en vill bara ekki láta taka til sín eða þeirra fyrirtækja, sem hann sérstaklega ber fyrir brjósti.

Ég held, að með þessu hafi ég svarað meginatriðunum, sem fram komu í ræðu hv. þm., og ég vil enda þessi orð mín á því að endurtaka það, sem ég sagði í upphafi máls míns, að ég harma það sannarlega, að næststærsti flokkur þingsins, Framsfl., skuli láta blindast svo af jafnsmávægilegu atriði og hér er um að ræða, af jafnalgeru aukaatriði í þessu stórmáli, sem hér er um að ræða, að hann virðist ætla að láta það kosta fylgi sitt við málið, að hann ætli að láta það valda því, að hann á ekki aðild að því að afgreiða eitt stærsta mál, sem þetta þing hefur til meðferðar.