10.03.1961
Neðri deild: 73. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1203 í B-deild Alþingistíðinda. (1107)

180. mál, Seðlabanki Íslands

Frsm. 1. minni hl. ( Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Ég vildi nú fyrst mælast til þess við hæstv. forseta, að hann léti athuga, hvort hæstv. viðskmrh. er hér í húsinu eða hvort hann mundi geta mætt hér. Ég þurfti að beina til hans spurningu í sambandi við atriði, sem fram kom í ræðu hans við 2. umr. um frv. (Forseti: Já, það koma fram upplýsingar um, að hæstv. viðskmrh, er í umr. í Ed., og þá held ég, að það væri hentugast, að við frestuðum þessu í bili.) Já. - — (Forseti: Þá getur umr. haldið áfram.)

Ég lagði til í nál. mínu, sem hér var lagt fram við 2. umr., að þetta frv. yrði fellt, en meiri hl. deildarinnar samþ. að vísa málinu til 3. umr.

Ég hef ásamt hv. 4. þm. Austf. flutt brtt. á þskj. 436, sem ég vil gera grein fyrir með fáum orðum.

Fyrri brtt., sem er í tveim liðum, er við 11. gr. frv. Í 3. málsgr. þeirrar gr. segir, að Seðlabankinn geti ákveðið, að tiltekinn hluti innlánsaukningar sé bundinn á reikningi hjá honum. Er þar átt við innlánsaukningu hjá innlánsstofnunum. Við leggjum til, að þarna verði bætt inn í málsgr. þessum orðum: „Þó aðeins af þeirri aukningu, sem er umfram þá upphæð, er svarar til almennra innlánsvaxta af öllu innlánsfénu.“ Þetta þýðir það, að ekki væri hægt að heimta af innlánsstofnun til bindingar í Seðlabankanum meira en eða annað en einhvern hluta af því, sem kalla mætti nettó-innstæðuaukningu hjá innlánsstofnuninni. Það væri ekki heimtað neitt af stofnuninni vegna innstæðuaukningar, ef hún næmi aðeins vöxtum af innstæðunni. Með öðrum orðum, vextir mættu leggjast við höfuðstól, án þess að þess væri krafizt, að nokkuð af þeim færi til bindingar í Seðlabankann.

B-liður fyrri brtt. á þskj. 436 er um það, að ný málsgr. bætist við 11. gr., svo hljóðandi: „Ákvæði þessarar gr. taka ekki til innlánsstofnana, sem hafa minna en 20 millj. kr. innstæðufé samtals.“ Ég sé ekki ástæðu til að fara um þessa brtt. mörgum orðum. Það var mikið rætt við 2. umr. um það ákvæði frv., að skylda mætti innlánsstofnanir til þess að leggja ákveðinn hluta af innstæðufé inn á bundinn reikning í Seðlabankann. Það var sýnt fram á það þar, að þetta kæmi sér mjög illa fyrir ýmsar innlánsstofnanir og sérstaklega þó fyrir mörg þau byggðarlög, þar sem þær starfa, sem hafa einmitt fulla þörf fyrir allt það fé, sem safnast hjá þessum innlánsstofnunum, bæði sparisjóðum og innlánsdeildum samvinnufélaga, — hafa fulla þörf fyrir það fé til atvinnurekstrar og framkvæmda í hlutaðeigandi byggðarlögum. Það var einnig á það bent, að þegar um litlar innlánsstofnanir væri að ræða, hefði það enga þýðingu fyrir stjórn peningamálanna yfirleitt að taka nokkurn hluta af innstæðum þeirra inn í Seðlabankann, og það var viðurkennt við 2. umr. af hæstv. viðskmrh., að þetta hefði enga þýðingu fyrir stjórn peningamálanna.

Strax, þegar þessi fjármunatilfærsla inn í Seðlabankann var ákveðin á árinu sem leið, komu mjög ákveðin mótmæli gegn því viða að af landinu. Ég ætla ekki að fara að rekja það hér, en ég vil þó vekja athygli á einu erindi, sem barst hingað til Alþingis í næstliðnum janúarmánuði frá Fjórðungssambandi Norðlendinga varðandi þetta mál. Bréfið er dagsett í Húsavík 23. jan. 1961, og það hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Fjórðungsþing Norðlendinga, haldið í Húsavík dagana 11. og 12. júní 1960, átelur að gefnu tilefni þá öfugþróun í fjármálum, að sparifé landsbyggðarinnar sé flutt til Seðlabankans í Reykjavík.

Samþykkt með 11:1 atkv.

Þetta leyfi ég mér virðingarfyllst að tilkynna hinu háa Alþingi.

Forseti fjórðungsþings Norðlendinga,

Jóhann Skaftason.

Til Alþingis.“

Það má telja, að þessi samþykkt hafi verið einróma á fjórðungsþinginu, þar sem aðeins einn af 12 af þeim, sem þar sátu, greiddi atkv. gegn ályktuninni. Ég tel rétt að vekja athygli á þessu, og eins og ég sagði, þá hafa margir fleiri mótmælt þessum ráðstöfunum bæði fyrr og síðar, síðan þær komu til framkvæmda. Ég tel, að þarna sé einnig sérstök ábending til okkar þm. af Norðurlandi.

Þá er 2. brtt. á þskj. 436. Hún er við 12. gr. Í 12. gr. segir, að Seðlabankanum sé heimilt að ákveða, að innlánsstofnanir, sem um ræðir í 10. gr., skuli eiga ríkistryggð verðbréf eða önnur trygg verðbréf, er nema allt að 10% af innstæðu hjá þeim, nema hærri upphæð sé ákveðin í lögum. Við leggjum til í brtt. okkar, ég og hv. 4. þm. Austf., að í stað orðanna „ríkistryggð verðbréf eða önnur trygg verðbréf“ komi: í sjóði, innstæðu í banka, sem ríkið ábyrgist, ríkistryggð verðbréf eða önnur trygg verðbréf. — Ef þetta væri samþykkt, þá næði heimildin til þessarar fjárbindingar ekki eingöngu til verðbréfa, þ.e.a.s. það væri ekki lögð sú skylda á innlánsstofnanirnar að hafa ríkistryggð verðbréf fyrir allt að 10% af innlánsfénu, heldur ríkistryggð verðbréf að viðbættri eign í sjóði eða innstæðu í banka. Þetta er alveg í samræmi við ákvæði í lögum um sparisjóði. Þar er ákvæði um það, að þeim sé skylt að hafa ákveðinn hundraðshluta, — ég held, að það séu 10% einnig af innlánsfénu, — í sjóði, í banka eða í ákveðnum verðbréfum: Þetta yrði þá í samræmi við þau ákvæði í sparisjóðslögunum, og það tel ég eðlilegt.

Ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þessar brtt., nema tilefni gefist. En það var eitt atriði, sem fram kom í ræðu hæstv. viðskmrh. við 2. umr. um þetta mál hér í deildinni 23. febr. s.l. Hæstv. ráðh. sagði þá: „Svo góður árangur er orðinn af efnahagsráðstöfunum stjórnarinnar, að nú er hægt að slaka á reglunum um bindingu sparifjár í Seðlabankanum og einnig að lækka vexti, eins og gert var um síðustu áramót.“ Svo góður árangur af efnahagsráðstöfunum stjórnarinnar! Ég fór ekki út í að ræða þetta þá, enda var þá nokkuð áliðið fundartímans og umr. snerust um önnur atriði. En nú vildi ég óska, áður en umr. um málið lýkur hér í hv. d., að hæstv. viðskmrh. gæfi nánari skýringu á þessum orðum, gæfi í stórum dráttum skýringu á því, hvað hann átti við, þegar hann talaði um svo góðan árangur af efnahagsráðstöfununum, til þess að okkur mætti verða það skýrara en nú er. Og ég vil fara um þetta fáeinum orðum.

Þegar stjórnin lagði fyrir sitt efnahagsmálafrv. á siðasta þingi, var fyrst og fremst lögð áherzla á það í aths. með frv., að það væri svo mikill greiðsluhalli við útlönd, að óhjákvæmilegt væri að minnka hann, greiðsluhallann við útlönd, það væri ekki hægt að halda þannig áfram að safna skuldum við útlönd eða auka þær árlega. En hvernig hefur til tekizt á þessu fyrsta ári núv. hæstv. stjórnar að því er þetta snertir? Hagtíðindin sýna okkur, að verzlunarhallinn, þ.e.a.s. óhagstæður verzlunarjöfnuður, árið 1960 hefur orðið 775.6 millj. kr. Vöruinnflutningurinn hefur reynzt á árinu 29% meiri en vöruútflutningurinn. Til samanburðar vil ég geta þess, að árið 1958 var einnig óhagstæður verzlunarjöfnuður, en þó ekki eins óhagstæður og nú. Þá var innflutningurinn 24% hærri en útflutningurinn samkv. skýrslum hagstofunnar. Hér hefur sem sagt jöfnuðurinn orðið óhagstæðari en þá var. Nú segir þetta ekki allt vitanlega um greiðslujöfnuðinn við útlönd, þó að þetta sé stærsti liðurinn í utanríkisviðskiptunum, vörukaup og vörusala. Þarna er hallinn 775 millj. Og ég vil spyrja hæstv. ráðh.: Hvað hafa skuldir þjóðarinnar aukizt um mörg hundruð millj. kr. árið 1960, skuldir þjóðarinnar við útlönd? Það má vera, að það sé eitthvað minna en þetta, sem nemur verzlunarhallanum, en ég óska eftir að fá svona hér um bil upplýsingar um það hjá hæstv. ráðh. Ég tel víst, að hann geti látið þær í té. Hvað hafa skuldir landsins við útlönd aukizt um mörg hundruð milljónir árið 1960?

Það er þegar sýnilegt, að greiðsluhalli hefur verið mikill á árinu sem leið. Það er síður en svo, að ríkisstj. hafi tekizt að snúa við og stefna þarna í rétta átt. Það hefur enn aukizt greiðsluhallinn og skuldirnar við útlönd aukizt.

Það var talað einnig í aths. með stjórnarfrv. í fyrra um það, að greiðslubyrðin væri orðin óhóflega mikil, þjóðin gæti naumast undir henni risið. En mér sýndist það alveg ljóst, að vegna skuldasöfnunar við útlönd árið sem leið hefur greiðslubyrðin aukizt til verulegra muna og þá ekki sízt fyrir það, að þau lán, sem tekin hafa verið erlendis árið sem leið, eða töluvert af þeim mun hafa verið tekið til mjög stutts tíma, á að greiðast innan skamms.

Fleira var rætt um í sambandi við efnahagsmálafrv. stjórnarinnar í fyrra, sem gera þyrfti í efnahagsmálunum. Stjórnin taldi óhjákvæmilegt að gera ráðstafanir í peningamálum. Spariféð þyrfti að aukast og útlánin að minnka og verða í eðlilegu hlutfalli við sparifjármyndunina. Hvernig hefur til tekizt á árinu 1960 að því er þetta snertir? Það eru líka komnar skýrslur, sem sýna, hvað spariféð var mikið í bönkum og sparisjóðum um síðustu áramót, og það er hægt að bera þær tölur saman við innstæður áður. Ef maður tekur aðeins það, sem kallað er sparlinnlán í bönkum og sparisjóðum, þá er útkoman sú, að um síðustu áramót voru þau 2338 millj., en í ársbyrjun 1960 1980 millj. Þarna er hækkun 358 millj. En til þess að bera þetta saman við tölur fyrri ára finnst mér eðlilegt að taka tillit til vaxtahækkunarinnar af sparifé, sem varð árið sem leið. Ég hef reiknað þetta út þannig, að ef ég tek heildarinnstæðuna í ársbyrjun 1960 og reikna af henni vaxtahækkunina, þ.e.a.s. þá meðalhækkun á sparisjóðsvöxtum, sem. varð árið 1960, sem mun vera um 3.4%, ef hækkuninni er deilt á allt árið, þá eru þetta 67 millj. kr., vaxtahækkunin. Dragi maður það frá innstæðunni í árslokin, þá kemur út, að nettóhækkun á sparifénu hefur orðið á árinu 1960 291 millj. kr., og það er 14.7%. En til samanburðar má geta þess, að árið 1958 var aukning sparifjárins 14.9%. Það má segja, að þetta sé hér um bil óbreytt. En nú tel ég hins vegar miklu réttara að taka saman bæði sparlinnlán og hlaupareikningsinnlán, það tel ég að gefi réttari mynd. Og það má benda á það, þegar Seðlabankinn er samkv. heimild í lögum að heimta til sín hluta af sparifénu frá innlánsstofnunum, þá gerir hann engan greinarmun á innstæðum í sparisjóði og hlaupareikningi. Hann gerir engan greinarmun á því, heimtar hlutfallslega jafnmikið af innstæðum í hlaupareikningi og í sparisjóðsreikningi. Og beri maður saman árið 1960 og árið 1958, taki heildarinnstæðurnar, þá er sú útkoman úr dæminu, að árið 1958 var aukningin á innlánum 21.6%, en árið 1960 12.9%, — ég er þá búinn að draga frá aukningunni áætlaða vaxtahækkun af innstæðunum 1960, — aðeins 12.9% aukning 1960 á móti 21.6% árið 1958.

Þetta er nú að segja um þá hliðina.

En hvað er þá að segja um útlánin? Nú er það alkunnugt, að það hafa verið verulegar hömlur á lánveitingum 1960. Það hefur verið stórum erfiðara en áður fyrir menn að fá lán frá lánsstofnunum, enda var það yfirlýst stefna hæstv. stjórnar að draga úr útlánum. En þrátt fyrir það, þó að þrengt hafi verið að mörgum að því er þetta snertir, þá hefur orðið veruleg útlánaaukning árið 1960. Og það hygg ég að stafi fyrst og fremst af því, að menn hafi ekki getað staðið í skilum við bankana. Það hafa safnazt skuldir, það hefur þegar komið fram, og það er hér sérstakt frv., sem nú er hér á dagskránni einnig, um lánveitingar til sjávarútvegsins. Það hafa safnazt miklar skuldir einmitt á árinu sem leið hjá atvinnurekendum, bæði þeim, sem fást við sjávarútveg, og hjá fleirum, svo að útkoman er sú, að útlánin hjá bönkunum eru allmiklu hærri en þau voru í byrjun ársins. Ég hef gert hér samanburð á þessu, ég hef aðeins tekið bankana, ég hef sleppt sparisjóðunum, en þar eru útlánin svo að segja alveg í sama hlutfalli við spariféð nú og áður hefur verið, svo að það raskar ekki heildarmyndinni. Í árslok 1960 hafa útlán bankanna verið samkv. hagskýrslum 3864 millj., en í ársbyrjun 3561 millj. og í árslok 1958 voru útlánin 3035 millj. Sem sagt, frá árslokum 1958 hafa útlánin aukizt um 829 millj., en á sama tíma hafa innlán hjá bönkunum, saman dregið bæði sparlinnlán og önnur innlán, aukizt um 633 millj. Útlánaaukningin á þessum tveimur árum er 829, en innlánaaukningin 633.

Það er fleira, sem þarf að athuga í þessu sambandi auðvitað til þess að gera sér ljóst, hver breyting hefur orðið í efnahags- og peningamálum þjóðarinnar. Það hefur þar auðvitað mikla þýðingu, hvernig útkoman er hjá ríkissjóði. Ef t.d. hefði orðið verulegur greiðsluafgangur hjá ríkissjóði árið sem leið, þá má segja, að það væri til þess að bæta útkomuna í heild. En hvernig er þá ástatt að því leyti? Við höfum ekki enn hér á Alþ. fengið skýrslu frá hæstv. fjmrh. um, hvernig útkoman hafi orðið í ríkisbúskapnum árið sem leið. Nú þykir mér trúlegt, að það langt sé komið uppgjöri, að slík skýrsla ætti að vera til. Það væri æskilegt að fá vitneskju um þetta sem fyrst. En síðast, þegar heyrðist frá ríkisstj. um þá hluti, var okkur sagt, að það væri ekki útlit fyrir, að þar yrði um greiðsluafgang að ræða árið 1960.

Enn fleira þarf hér að athuga. Hafa atvinnuvegirnir kannske bætt sinn hag áríð sem leið? Ég nefndi áðan, hvernig ástandið væri hjá sjávarútveginum. Það liggur hér fyrir stjórnarfrv. um sérstök lán handa sjávarútveginum, og það er talið, að þau þurfi að nema nokkrum hundruðum milljóna, til þess að hann geti gengið áfram. Þegar þessi hæstv. ríkisstj. tók við rétt fyrir áramótin 1959 og 1960, þá þurfti ekki að gera þannig hallærisráðstafanir, til þess að útgerðarrekstur gæti hafizt í byrjun ársins. En það hefur sigið svo á ógæfuhlið fyrir þessum þýðingarmikla atvinnuvegi, að nú gátu útvegsmenn ekki hafið sinn rekstur, nema ríkisstj. gæfi út brbl. um sérstakar lánveitingar og skuldaskil þeim til aðstoðar.

Þannig er þessi mynd, sem ég hef getað fengið af ástandinu nú, eins og það kemur fram í opinberum skýrslum, sem fyrir liggja, og þess vegna er mér það alveg óljóst, hvernig hæstv. viðskmrh, kemst að þeirri niðurstöðu, að það hafi orðið svo góður árangur af efnahagsráðstöfunum stjórnarinnar árið sem leið, að nú sé tími til kominn að slaka á, eins og hann orðaði það, ýmsum reglum, sem stjórnin setti í byrjun ársins 1960. Ég hef að vísu oft heyrt stjórnina og hennar menn tala um, að það væri betra ástandið hjá bönkunum nú að því er snerti viðskiptin við útlönd, reikningar bankanna hjá viðskiptaaðilum erlendis stæðu eitthvað betur nú en áður. En er ekki ósköp lítið gagn að því, ef skuldir þjóðarinnar erlendis hafa hækkað miklu meira á sama tíma en sem þessu nemur? Við skulum hugsa okkur, að einhver maður hefði skuldað í ársbyrjun 1960 100 þús. kr. í Útvegsbankanum, hins vegar ekkert í Landsbankanum, en í árslokin hefði hann skuldað 120 þús. í Landsbankanum, en ekkert í Útvegsbankanum. Hann gæti náttúrlega bent á það, að hann hefði borgað alveg skuld sína við Útvegsbankann á árinu. En þar með væri bara hálfsögð sagan. Það væri ekki hægt að draga þá ályktun af þessu, að hann hefði bætt hag sinn um 100 þús. á árinu, þegar það liggur fyrir, að hann hefur á sama tíma stofnað nýja skuld í Landsbankanum, sem nemur hærri upphæð. Mér finnst eitthvað svipað að segja um það, þó að bankarnir kunni að standa eitthvað betur í reikningi við erlenda banka nú um áramótin en áður, ef Íslendingar hafa safnað skuldum erlendis sem nemur enn meira en þessum mismun hjá bönkunum.

Ég skal ekki að svo stöddu hafa um þetta fleiri orð. En ég vil óska skýringa nú, áður en umr. um þetta mál lýkur, frá hæstv. ráðh., vegna þess að hann einmitt dró þetta atriði inn í umr. um það frv., sem hér liggur fyrir. Ég vil fá skýringu á því, hvað hann á við, þegar hann talar um góðan árangur af efnahagsráðstöfununum og bættan hag, og ég vil fá skýringar á því hjá honum, eftir því sem hann getur látið þær nú, eða upplýsingar um það, hvað erlendar skuldir Íslendinga hafa aukizt um mörg hundruð milljónir króna árið 1960.