10.11.1960
Efri deild: 19. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 65 í B-deild Alþingistíðinda. (111)

3. mál, bráðabirgðabreyting og framlenging nokkurra laga

Frsm. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Frumvarp það, sem hér liggur fyrir, felur í fyrsta lagi í sér heimild til handa ríkisstj. til þess að innheimta með viðauka nokkur gjöld til ríkissjóðs, í öðru lagi heimild til þess að fella niður aðflutningsgjöld af nokkrum nauðsynjavörum.

Frv. þetta er í rauninni gamall kunningi að því leyti, að sams konar frv. hafa á mörgum undanförnum þingum verið hér til meðferðar. Á síðasta þingi var sú breyting gerð á þessu, eins og kunnugt er, að nokkrum frumvörpum um heimildir til þess að innheimta þessi gjöld með viðauka var þá steypt saman í eitt frv. Eru þær heimildir, sem það frv., sem hér liggur fyrir, felur í sér, samhljóða þeim, er samþykktar voru á síðasta þingi. Þó er það svo, að þetta frv. er að því leyti allmiklu minna að vöxtum en það frv., sem lá fyrir hv. deild á siðasta þingi, að ýmsar af þessum heimildum hafa nú verið staðfestar með öðrum lögum, eins og nánar getur um í grg. fyrir frv. Má þar t.d. nefna það, að nú hafa verið sett sérstök lög um söluskatt. Enn fremur hafa sumar þessara heimilda í þreyttri mynd verið teknar upp í löggjöf þá um efnahagsmál, sem sett var á síðasta þingi, þannig að í 17. gr. þeirrar löggjafar eru nú ákvæði um benzínskatt, í 19. gr. um vitagjald skipa og í 20. gr. um lestagjald af skipum. Enn fremur hefur nú verið lagt fram sérstakt frv. um skemmtanaskatt. Og sömuleiðis er gjaldaviðauki á skipaskoðunargjöld ekki tekinn með í þessu frv., þar sem sett hefur verið reglugerð um þau gjöld.

Afgreiðsla frv. í nefndinni hefur orðið sú, eins og nefndarálitið á þskj. 101 ber með sér, að nefndin er sammála um að leggja til, að frv. verði samþykkt, enda hefur ekki verið ágreiningur um það á undanförnum þingum. Tveir hv. nefndarmanna, þeir 1. og 5. þm. Norðurl. e., skrifa þó undir nefndarálitið með fyrirvara, sem ég tel vist að þeir muni gera grein fyrir við umræðuna.