14.03.1961
Neðri deild: 74. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1209 í B-deild Alþingistíðinda. (1111)

180. mál, Seðlabanki Íslands

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Þegar 2. umr. fór fram hér í hv. d. um þetta mál, var dagur mjög að kvöldi kominn, og af þeirri ástæðu féll ég frá því að biðja um orðið í það sinn. En það voru þó nokkur atriði í ræðu hæstv. viðskmrh., er þá var flutt, sem ég vildi gera að umtalsefni. Þar sem nú er útlit fyrir, að umr. sé að ljúka hér í hv. d., vildi ég koma að þessu, þó að mér þyki verra, ef ráðh. er héðan af fundi genginn.

Eins og fram hefur komið hér í umr., telur hæstv. ríkisstj., að hér sé um mikið stórmál að ræða, eitt mesta mál, sem fyrir þessu hv. Alþ. liggur. Að vísu er hér e.t.v. ekki mikið af stórmálum, en skrýtinn virðist nú sá skilningur, ef þetta er þeirra stærst. Það hefur verið upplýst í umr. um þetta mál, að frv. það, sem hér er á ferðinni, sé ekki veigamikill þáttur, því að aðalverkið, sem er aðskilnaður á milli eða stofnun Seðlabankans, hafi verið framkvæmt 1957, og það kemur fram í grg, frv., að á það er svo litið. Í raun og veru hefur það verið svo, síðan lögin um Seðlabankann voru sett, að verulegur aðskilnaður eða að mestu leyti aðskilnaður hefur verið á milli þessara tveggja deilda Landsbankans. Það, sem hér er því á ferðinni, er það, að í staðinn fyrir Landsbanki Íslands, seðlabankinn, mun eftirleiðis koma: Seðlabanki Íslands. Auk þessa er svo það, sem einnig hefur verið á bent, að bankastjórum og bankaráðsmönnum verður fjölgað. Það má vel vera, að mikil þörf hafi verið á því. En fer það nú nokkuð á annan veg en um var rætt, þegar lögin um Seðlabankann voru sett 1957, því að þá var mikið rætt um það af núv. stjórnarliðum, sem þá voru í stjórnarandstöðu, að nóg væri að því gert að fjölga mönnum á þeim stöðum? Auk þess, að bankastjórum og bankaráðsmönnum verður fjölgað, verður sett upp bankaeftirlit, og eftir þeirri þróun, sem virðist hafa átt sér stað í bankakerfinu nú á síðustu árum samkv. upplýsingum, sem komu fram þar að lútandi í umr. um þetta mál í útvarpi á sunnudagskvöldið, er nokkur ástæða til að ætla, að bankaeftirlitið muni finna stóla fyrir allmarga starfsmenn.

Hæstv. viðskmrh. hefur mjög vikið að því í sínum ræðum hér um þetta mál, að ef við færum ekki að eins og hér er lagt til, yrðum við að hálfgerðu viðundri í heiminum, því að það væri víst hvergi á byggðu bóli og þótt víðar væri leitað, að mér hefur skilizt, sem peningamálum eða yfirstjórn peningamála væri öðruvísi fyrir komið en gert er ráð fyrir í þessu frv., og hefur hann rætt mjög um það, hvað vel væri til þess vandað.

Ég tók eftir því í umr., sem fóru fram á sunnudaginn í útvarpssal milli bankamanna, — þar voru fyrrv. bankastjóri Jón Árnason og einn af núv. bankastjórum Landsbankans, Pétur Benediktsson, meðal þeirra, sem þátt tóku í þessum umr., — að þar var þetta frv. mjög gagnrýnt, og var talið, að það hefði ekki verið vandað til verksins. T.d. benti Jón Árnason á, að það ákvæði frv., að seðlabanki réði alveg vöxtunum, væri ekki framkvæmt hér á Norðurlöndum a.m.k. Fleiri agnúa taldi hann á þessu frv., sem ég ætla ekki að fara að ræða hér, en heyrði ekki, að því væri mótmælt af þeim aðilum, sem mæltu frv. þó bót.

Þessi var þó ekki aðalástæðan fyrir því, að ég bað um orðið, heldur atriði, sem komu fram í ræðu hæstv. viðskmrh., þeirri sem hann flutti hér við 2. umr. og ég skal nú víkja að.

Í fyrsta lagi var það viðvíkjandi vöxtunum, sem hæstv. ráðh, sagði að hefði verið hægt að lækka, vegna þess að viðreisnin hefði tekizt svo vel. Hér á hv. Alþingi fluttum við framsóknarmenn frv. um að lækka vextina í byrjun þings í haust. Hæstv. viðskmrh. tók þátt í þeim umr., og hann var ekki að tala um það þá, að vel væri stjórnað og þess vegna mætti lækka vextina. Það var annað atriði, sem hæstv. ráðh. gerði þá að umtalsefni, og það var, að nú vildi Framsókn fara að hafa vextina af fólkinu, sem ætti peningana, það væri gamalt fólk og börn og þess háttar fólk, og nú væri Framsókn að hugsa um það eitt að narta af þessu fólki. Hann var ekki á því, hæstv. ráðherra, að þetta fólk mundi þakka Framsókn fyrir þessar aðgerðir. Og þá var ekki nefnt, að nú væri búið að stjórna svo vel, að það mætti lækka vextina. Það var eitthvað annað, — það var fráleit hugsun að láta sér detta í hug að lækka vextina.

Nú skal ég segja hæstv. ráðherra það, að það er hvorki ég né aðrir, sem taka það hátíðlega, að það sé búið að stjórna svo vel í peningamálum þjóðarinnar s.l. ár, að það sé þess vegna hægt að lækka vextina. Það er allt annað, það er m.a. vegna þess, að frv. okkar framsóknarmanna kom fram í haust, að það var látið undan síga að lækka vextina, vegna þess að atvinnuvegirnir í landinu þoldu ekki vextina, og það var sótt fast á það að lækka okurvextina frá því, sem áður var. Þetta er ástæðan fyrir því, að þessi leið hefur verið farin, að ríkisstj. hefur hrakizt til þess að lækka vextina, en ekki það, að vel hafi verið stjórnað, og er alveg sama, þótt hæstv, ráðherra flytji fleiri ræður um það, það veit landsfólkið, og það mætavel.

Þá var það annað atriði í ræðu hæstv. ráðherra, sem ég vildi víkja að. Hann sagði, að við framsóknarmenn héldum því fram, að það væri verið að draga fé utan af landsbyggðinni þéttbýlinu í vil. Hv. 1. þm. Norðurl. v. hefur svarað þessu. Það er deginum ljósara, að það er ekki verið að draga það neinu þéttbýli í vil. Við höfum aldrei haldið því fram. En við höfum hins vegar lýst því yfir, að það væri fráleitt að halda uppi þeirri stefnu og þörfin fyrir þetta fjármagn úti á landsbyggðinni væri svo mikil, að þess vegna ætti ekki að vera að því.

Hæstv. ráðherra sagði, að þær ástæður væru fyrir því, í fyrsta lagi að hafa stjórn á peningakerfinu í landinu og í öðru lagi að tryggja sparifjáreigendurna. Hv. 1. þm. Norðurl. v. hefur nú sýnt fram á, að það er hvorki verið að hafa neina yfirstjórn á peningamálum í landinu, þó að takist að ná í 800 kr. vestan af Rauðasandi, né tryggja þá, sem eiga þar innstæðufé.

Hæstv. ráðherra kom að því að sýna fram á það, hve mikið fjármagn hefði farið til uppbyggingar í landbúnaði síðustu árin. Og þegar hann hafði lokið við þann lestur, þá fannst honum ástæða til að ætla, að það væri ekki undarlegt, þó að væri nú dregið úr þessum fjármagnsflutningi og eitthvað kæmi til baka af fjármagni aftur, svo að ekki væri hægt að halda áfram uppbyggingunni úti um landið, nóg væri að gert og mætti þess vegna draga úr ferðinni. Nú vil ég segja hæstv. ráðherra það, að vegna þessarar uppbyggingar, sem átt hefur sér stað síðan 1950 til ársloka 1958, hefur framleiðsla aukizt á hvern vinnandi mann í landbúnaði í mjólkuraukningu um 40% og í kjötframleiðslu um 70%. Þetta sýnir, að því fjármagni, sem hefur farið til uppbyggingarinnar í landbúnaðinum, hefur ekki verið til einskis varið.

En þá skulum við koma að því: Var þá nokkur þörf á því að vera að þessu? Erum við ekki að skapa offramleiðslu með þessum hætti og þess vegna sýni framleiðsluaukningin út af fyrir sig ekki, hvort rétt hefur verið stefnt eða ekki? En þá er því við að bæta, að ef við hefðum staðið í stað með framleiðslu á landbúnaðarvörum frá 1950–58, þá hefðum við orðið að flytja inn á árinu 1960 landbúnaðarvörur fyrir um 340 millj. kr. Við hefðum orðið að flytja inn landbúnaðarvörur fyrir 340 millj. kr. á árinu 1960, ef þessi framleiðsluaukning hefði ekki átt sér stað þessi ár, sem ég nefndi hér áðan. Þetta sannar betur en allt annað, að það var fullkomin þörf á því að halda uppi þessari uppbyggingu, sem var gerð úti um byggðir landsins.

Þá komum við að því: Má þá ekki hafa það, eins og hæstv. ráðherra sagði, draga úr ferðinni, fara rólega, nú er búið að gera svo mikið, að við getum tekið okkur hvíld? En þá skulum við gæta að því, að á næstu 2–3 áratugum verðum við að tvöfalda landbúnaðarframleiðsluna í landinu, ef við eigum að halda í við fólksfjölgunina, við verðum að tvöfalda landbúnaðarframleiðsluna á næstu 2–3 áratugum til þess að hafa nægar landbúnaðarvörur handa þeim þegnum, sem þá verða í þessu landi. Þetta sýnir, að hæstv. ráðherra þarf að gæta sín betur í því, hvort við höfum ekki þörf fyrir þær krónur úti á landsbyggðinni, sem fyrir hans forustu er verið að reyna að draga inn í Seðlabankann. Þessum atriðum á hæstv. ríkisstj. að gera sér fullkomlega grein fyrir. Ef hún vill vera framsýn, þá verður hún að taka tillit til þessa. Nema ríkisstjórnin hugsi sem svo, að syndafallið komi eftir hennar dag og hún þurfi ekki um framtíðina að hugsa, og manni er næst skapi að ætla, að sú hugsun hafi verið ríkjandi hjá hæstv. ríkisstj. og ráðherra, þegar hann mælti þessi orð.

Hæstv. ráðherra vék að því í sambandi við það að taka til Seðlabankans verulegan hluta af sparifjáraukningunni og sparifjárinnlögum, að það hefði ekki verið gert fyrr en á s.l. ári. Hann taldi, hæstv. ráðherra, að hvorki vinstri stjórnin, sem að vísu sat fáa mánuði, eftir að Seðlabankinn var stofnsettur, né heldur sú ríkisstj., sem flokkur hans myndaði, hafi farið inn á þessa braut, og taldi hann það miður. Það er ein eðlileg skýring á þessu, ekki sú, að ríkisstj. Emils Jónssonar hafi gleymt neinu í því að fara inn á þessa braut, heldur hitt, að það var ekki talið hyggilegt að fara inn á þá braut, fyrr en kosningarnar voru hjá gengnar. Þess vegna held ég, að það sé alveg óþarfi fyrir hæstv. ráðherra að vera með neina eftirþanka út af því, að framkvæmdin hafi dregizt, því að ef hann hefði haft þann áhuga, sem hann virðist hafa nú, þá hefði hann getað komið þessu í framkvæmd í stjórn Alþfl. En áhuginn vaknaði ekki, fyrr en kosningarnar voru liðnar hjá.

Hæstv. ráðherra var að tala út af aths. hv. 1. þm. Norðurl. v. um litlu hlutföllin í okkar þjóðfélagi. Það væri ástæða til að halda áfram þeim samanburði, og þá gætum við komið að því, að það væri hlægilegt fyrir okkur, svo fámenna þjóð, að vera sjálfstæð þjóð, sem væri ekki nema 170 þús. manns. Það mætti segja það jafnhlægilegt eins og þau dæmi, sem hv. 1. þm. Norðurl. v. tók hér. Um þetta vil ég segja það, að það er engin þjóð hlægileg fyrir það að vera lítil, ef hún heldur manndómi sínum og sjálfstæði. En hún getur orðið hlægileg, litla þjóðin, ef hún er að apa eftir stórum þjóðum þá þætti, sem eru ekki eðlilegir frá sjónarmiði fámennrar þjóðar.

Þetta mál, sem hér er til umræðu, er einn af þeim þáttum, þar sem of mikið er verið að apa eftir þjóðfélögum, sem eru miklu stærri og með öðrum hætti en okkar litla þjóðfélag. Þess vegna getur þetta mál orðið hlægilegt, eins og hv. 1. þm. Norðurl. v. hefur sýnt fram á, en ekki að það verði nein þjóð hlægileg, þótt fámenn sé, ef hún heldur manndómi til þess að velja og hafna.