14.03.1961
Neðri deild: 74. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1212 í B-deild Alþingistíðinda. (1112)

180. mál, Seðlabanki Íslands

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Hv. 1. þm. Norðurl. v. (SkG) hefur við 2. umr., bæði í ræðu og nál., lýst viðhorfi Framsfl. til þessa máls, og verður þar að mínum dómi ekki um bætt, þótt ég kjósi að segja hér fáein orð.

Málflutningur þessa hv. þm. var svo markvíss og hnyttinn, að auðheyrt var á ræðum stjórnarliðsins, að undan sveið. Hæstv. viðskmrh. talaði þó á köflum mjúku máli og sléttu og komst ekki hjá því að viðurkenna þá innsýn, sem sum ákvæði þessa frv. veita í hugarfar og viðhorf núv. ríkisstj. og fylgifiska hennar til fólksins úti á landi og lífsbaráttu þess, og á ég þar fyrst og fremst við ákvæði frv. um fyrirhugaða lögskipaða herferð um fjárdrátt til Reykjavíkur úr sparisjóðum og innlánsdeildum kaupfélaganna, en um þetta efni minnti ræða hæstv. viðskmrh. á óvandaðan sölumann, sem reynir að leyna göllum vöru sinnar með því að vefja hana í snotrar umbúðir.

Ræða hv. 5. þm. Reykv. (JóhH) var af sama toga spunnin, en ólík að því leyti, að hún var m.a. umbúðalítill skætingur í garð samvinnufélaganna, og að nokkrum ummælum þessa þm. vil ég því lítillega víkja síðar.

Hæstv. viðskmrh. sló á þá strengi, að Seðlabankinn væri eign allra landsmanna og því ættu menn að láta sér vel líka að eiga fé sitt þar. En forráðamönnum þess banka, þ.e. núverandi ríkisstj., trúi ég í flestu verr til að beina því fjármagni á heppilegan hátt inn í framkvæmda- og atvinnulífið en bönkum, sparisjóðum og samvinnufélögunum.

Hv. 5. þm. Reykv. var að vonum ekki viss um, hvernig Seðlabankinn færi með þetta fé, sem smalaðist til Reykjavíkur úr byggðum landsins, en gizkaði þó á, að t.d. ærverðin af Ströndum mundu veitt til fisköflunar í Vestmannaeyjum. Auðvitað gat þessi hv. þm. ekki látið sér detta í hug, að þessar krónur, hvað þá meira, gengju til framleiðsluaukningar í landbúnaðinum, og ekki vildi hann heldur fullyrða, að féð gengi til framleiðsluaukningar við sjóinn, — og svo furðar ríkisstj. sig á því, að landsmenn láta sér yfirleitt illa líka þennan fjárdrátt hennar yfir í banka, sem hún hefur algerlega yfir að ráða.

Eins og hv. 1. þm. Norðurl, v. hefur rækilega bent á, ber enga nauðsyn til að setja nú nýja löggjöf um Seðlabankann, og hefur stjórnarliðið ekki getað hrakið það með neinum rökum, enda varla von, því að reynslan hefur sýnt, að Seðlabankinn getur fyllilega starfað og náð tilgangi sínum undir þeirri löggjöf, sem hann vinnur nú eftir.

Megintilgangur þessa frv. er því að útvega stjórnarliðinu fleiri bankaembætti og lögskipa aukinn fjárdrátt til Reykjavíkur frá hinum dreifðu byggðum landsins. Í núgildandi lögum eru ákvæði, sem heimila Seðlabankanum m.a. að skylda sparisjóði til að geyma hluta af vörzlufé sínu í Seðlabankanum. Ég vil fullyrða, að sú hugmynd er aðeins hugsuð sem hemill, sem Seðlabankinn getur gripið til, ef einhver útlánastofnun hagar sér að hans dómi svo ógætilega í útlánum, að öryggi hennar getur stafað hætta af, og einnig ef útlánastarfsemi hennar færi að marki í bága við lánapólitík, sem Seðlabankinn og ríkisstj. á hverjum tíma vildi að væri í heiðri höfð. En gengið var út frá því, að því valdi, sem Seðlabankanum og ríkisstj. var veitt með þessu heimildarákvæði, yrði ekki beitt í framkvæmd nema undir alveg sérstökum og óvenjulegum kringumstæðum, fyrst og fremst gagnvart sparisjóðum og jafnvel ekki almennt gagnvart bönkum, og allra sízt var gert ráð fyrir að þessu ákvæði þyrfti nokkurn tíma að beita gagnvart hinum yfirleitt litlu sparisjóðum úti á landi. Í trausti þess, að þessi skilningur mundi ætíð ríkja og aldrei kæmi til almennrar fjárheimtu Seðlabankans á hendur hinum litlu sparisjóðum, mun þetta ákvæði á sínum tíma hafa hlotið atkvæði þáv. stjórnarliðs. Það er líka vitað, að slíkar smálánastofnanir eins og sparisjóðirnir úti á landi, sem eru almennt með örfárra millj. kr. starfsfé eða jafnvel undir einni milljón, geta aldrei valdið truflun á viðtekinni útlánastarfsemi né óeðlilegum sveiflum á peningamarkaðinum, og ef slíkt fyrirbæri gæti átt sér stað í einstaka sérstöku tilfelli, þá er Seðlabankanum auðvitað hægt um vik að aðvara slíkan sparisjóð, sem vafalaust mundi fara eftir settum reglum Seðlabankans, þegar hann ætti ella á hættu að missa forræði verulegs hluta af vörzlufé sínu. En núv. ríkisstj. vill ekki virða þann anda og þann tilgang, sem vakti fyrir löggjafanum við setningu þessarar umræddu lagaheimildar. Ákvæðið er því nú þegar orðið hættulegt í höndum ríkisstj., og enn hættulegra verður það, þegar þessi fjárdráttur Seðlabankans eru orðinn skilyrðislaus lagaskylda. Þetta mál snertir hagsmuni allra eða flestra byggða landsins, og því ber öllum, sem vilja virða rétt þeirra og hagsmuni, að sameinast um að fella frv., a.m.k. það ákvæði, sem ég vík hér að, eða fylgja brtt. minni hl. fjhn., sem liggja hér fyrir.

Svo fjarstætt sem þetta fyrirhugaða ákvæði er gagnvart hinum almennu smáu sparisjóðum, þá er þó hin fyrirhugaða fjárnámsherferð á hendur innlánsdeildum kaupfélaganna enn fjarstæðari og ljótari og á heldur enga stoð í þeim almennu yfirborðsrökum, sem borin eru fram til þess að reyna að réttlæta fjárnámið hjá sparisjóðunum.

Það er ríkisstj. jafnt sem öðrum fullkunnugt, að innlánsdeildirnar starfa ekki sem útlánastofnanir, heldur er þar aðeins um að ræða innlög á sparifé félagsmanna hlutaðeigandi samvinnufélags, fé, sem þeir þurfa ekki að nota í lengri eða skemmri tíma og vilja geyma hjá sínu fyrirtæki sér til hagsbóta og sínu félagi. Þetta fé fer ekki út á hinn almenna lánamarkað, en er notað sem nauðsynlegt rekstrarog framkvæmdafé, eins langt og það hrekkur, og dregur þar af leiðandi úr óhjákvæmilegri fjárþörf samvinnufélaganna, sem hinar almennu útlánastofnanir í landinu þyrftu annars að fullnægja. Það er því augljóst mál, að innlagsfé í innlánsdeildum samvinnufélaganna getur ekki valdið neinni óeðlilegri lánsfjárþenslu. Það má því miklu frekar segja, að fyrirkomulagið um meðferð sparifjár í vörzlu innlánsdeildanna vinni, eins langt og það nær, gegn óþarfa notkun sparifjár og óheppilegri lánsfjárþenslu. Innlánsdeildirnar virðast því styðja að þeirri þróun í peningamálunum, sem innan vissra takmarka er eðlileg og ríkisstj. þykist bera fyrir brjósti. Þessi herferð ríkisstj. hefur því enga frambærilega stoð og ber aðeins vott um fjandskap hennar í garð samvinnufélaganna. Með þessum nútíma féránsdómi skal enn stofna til nýrra herhlaupa gegn samvinnufélögunum. Enn skal vega í sama knérunn, sem oft hefur áður verið gert i valdatíð þessara stjórnarflokka. Og það, sem orðið er á þessu sviði, telur ríkisstj. og fylgismenn hennar ekki nóg. Meira skal nú að gert. Svo hóflaus og hatrammur er illvilji þessara herra í garð samvinnufélaganna.

Það kom líka glögglega fram í ræðu hæstv. viðskmrh. við 2. umr. þessa máls, að þessi fjárránsherferð á hendur innlánsdeildum kaupfélaganna er ástæðulaus og að hinar fyrirhuguðu hömlur á útlánum sparifjár geta gengið sinn gang og náð sínum tilgangi, þótt fé innlánsdeildanna sé látið i friði. Hæstv. ráðh. bauð sem sé, að þetta umrædda ákvæði skyldi ekki ná til innlánsdeildanna, ef fallizt væri á, að sparifé í vörzlu þeirra væri svipt þeim skattfríðindum, sem nú gilda um það eins og sparifé í vörzlu banka og sparisjóða. Ríkisstj. sér ofsjónum yfir, að þessi eðlilegu skattfríðindi skuli ná til sparifjár hjá innlánsdeildunum, og fyrir því hyggst hún eftir annarri leið ná sér þar niðri. Með þessu tilboði hæstv. ráðh. segir hann í raun og veru fleira en hann mun hafa ætlað. Í fyrsta lagi viðurkennir hann með þessu tilboði, að enga nauðsyn beri til þess, að hin almenna sparifjárbinding nái til innlánsdeildanna. Í öðru lagi staðfestir ráðh., að þessu rangiæti í garð innlánsdeildanna verði við haldið, nema ríkisstj. fái álíka hættulegt vopn í hendur til að lama þær. Og auðvitað gerir hæstv. ráðh. sér grein fyrir, hvaða áfall það væri, ef þeirri rangsleitni yrði beitt, að sparifé í innlánsdeildum nyti ekki hinna almennu skatthlunninda. Og i þriðja lagi virðist viðhorf hæstv. viðskmrh. svo hatrammt í garð samvinnufélaganna, að hann getur ekki hugsað sér að aflétta einum ólögum í þeirra garð nema fá annað ákveðið í staðinn, sem væri þeim álíka óhagstætt eða verra en það, sem burt væri numið.

Það væri að minni ætlan ekki svo mikil furða að heyra slíkt sem þetta frá munni forustumanna Sjálfstfl. En það veldur ýmsum nokkrum vonbrigðum, að sá forustumaður þess flokks, sem kennir sig við alþýðuna og sumir höfðu fyrir eina tíð bundið nokkrar vonir við um frjálslyndi og sanngirni í þjóðfélagsmálum og þá ekki síður í þeim málum en öðrum, sem varða samvinnustarfsemina í landinu, að hann skuli vera orðinn svo samdauna íhaldinu sem raun ber vitni m.a. í þessu máli.

Ég vil þá með örfáum orðum víkja að nokkrum atriðum í ræðu þeirri, sem hv. 5. þm. Reykv. hélt hér við 2. umr. málsins. Hv. þm. virtist mjög harma þá gömlu, góðu daga, þegar Sjálfstfl. hafði meiri hluta í öllum aðalbönkum landsins nema Búnaðarbankanum, og var raunar hneykslaður yfir, að svo skyldi ekki hafa einnig verið þar. Verður að gera ráð fyrir, að þm. trúi því, að enginn geti verið farsæll bankastjóri, nema hann hafi gert kenningar Sjálfstfl. að trúarbrögðum sínum, og sennilega eiga bankastjórarnir þá einnig helzt að vera af þeirri manngerð, sem Sjálfstfl. kallar fjáraflaklær. Hv. þm. taldi það sem dæmi um frekju Framsfl., að hann skyldi hafa átt og eiga mann í bankastjórasæti í Búnaðarbankanum, og kastaði kaldyrðum að Hilmari Stefánssyni bankastjóra fyrir það, að hann skuli hafa leyft sér að vera framsóknarmaður jafnhliða því að vera bankastjóri, og fordæmdi, að hann skyldi hafa stutt flokk sinn m.a. með því að hafa nokkru sinni verið í framboði fyrir hann. Þetta leyfir sá maður sér að segja, sem um langt skeið hefur verið forustumaður í einu harðvítugasta áróðursfélagi Sjálfstfl., er bankastjóri í öðrum stærsta banka landsins og situr jafnframt á þingi sem einn af framámönnum síns flokks. Og svo er ofstæki sjálfstæðismanna svo mikið yfir því, að Framsfl. skuli eiga menn í bankastjórastöðu, að þessi hv. þm. gat ekki orða bundizt út af því og nefndi sem dæmi um forréttindafrekju Framsfl., að í litlu og nýstofnuðu bankaútibúi að Egilsstöðum skuli framsóknarmaður vera í útibússtjórasæti, sem að dómi þessa ræðumanns átti auðvitað að vera sjálfstæðismaður, enda mun afstaða ýmissa forustumanna Sjálfstfl. varðandi þetta útibú hafa verið þessi: annaðhvort sjálfstæðismaður í útibússtjórasætið eða ekkert bankaútibú á þessum stað.

Hv. þm. hafði svo í frammi ýmiss konar skæting í garð samvinnufélaganna. Við þessu er í raun og veru ekkert að segja. Þm. verður auðvitað þar að fá að þjóna lund sinni, og þessar gömlu lummur hans eru sjálfsagt einatt sem nýjar í hans hóp. Ég held líka, að samvinnumenn megi á vissan hátt láta sér vel líka, að köldu andar í þeirra garð frá þessum þm. Ég verð að segja sem mína skoðun, að ef hv. 5. þm. Reykv. tæki upp á því að hrósa samvinnufélögunum, þá færi ég að óttast, að þau væru ekki á réttri leið i starfi sínu.

Hv. þm. hélt því fram, að útlánaaukning bankanna undanfarin ár stafaði að mjög verulegu leyti af því, að kaupfélögin hafi fengið mörg hundruð milljón króna rekstrarlán og fyrir þessi lán hafi þau byggt háreistar hallir víðs vegar um landið. Það er ósatt, að kaupfélögin hafi fengið aukin rekstrarlán. Slík lán hafa einstök kaupfélög sáralítil frá bönkum landsins. Hitt er annað mál, að nú um allmörg ár hafa bændur almennt fengið dálítil framleiðslurekstrarlán, en þó ekki út á nema nokkurn hluta af framleiðslunni og nú á síðustu tímum að mun minni en áður var hlutfallslega, og fjarri öllu lagi er það að halda því fram, að byggingar kaupfélaganna séu byggðar fyrir þessi rekstrarlán bændanna.

Það er ekki ofsögum sagt af því, að ýmsir sjálfstæðismenn sjá ofsjónum yfir bættum húsakosti samvinnufélaganna og framgangi þeirra á ýmsum sviðum. Slíkt hefur ósjaldan komið fram í ræðu og riti. Þeir sjá eftir hinum gömlu góðu dögum, þegar selstöðukaupmennirnir og arftakar þeirra í kaupmannastétt ríktu yfir byggðunum og m.a. skáru sig úr frá fólkinu hvað verzlunarhús og einkaíbúðir snerti. Þetta hafði allt á sér yfirbragð ríkidæmis, sem oft var meira eða minna sótt til bankanna og kom stundum ekki allt aftur til skila. En það er heppilegt fyrir hv. 5. þm. Reykv. og skoðanabræður hans að skilja það og sætta sig við, að þessir svokölluðu gömlu, góðu dagar í þessum efnum eru liðnir og koma ekki aftur. Fólkið hefur fundið mátt samtakanna og hefur lært að nota sér hann sér til hagsbóta, bæði í verzlun og á öðrum sviðum, og mun aldrei aftur vilja selja sig undir vald fjáraflaklónna, sem Sjálfstfl. dáist svo mikið að. Og nú hefur fólkið víða flutt verzlunarstarfsemi sína úr hinum lágreistu kofum frumbýlingsáranna, og hafa kaupfélögin sums staðar aðsetur í myndarlegu húsnæði hinna fyrrv. kaupmanna eða hafa reist glæsileg ný verzlunarhús, sem sómi er að í bæ og þorpi. En sjálfstæðisforkólfarnir sumir segja hátt og í hljóði: Það er óþolandi, að þessir kotkarlar við sjó og í sveit skuli hafa leyft sér að byggja svona hús, hús, sem jafnvel gætu sómt sér ágætlega í okkar borg, Reykjavík.

Hv. 5. þm. Reykv. leyfði sér að kasta því hér fram og raunverulega fullyrða, að kaupfélögin hefðu það til siðs, ef svo hentaði, að neita að greiða út innstæður úr innlánsdeildum. Ég fullyrði, að þetta er ósatt, og kalla þessi ummæli róg, eða svo býst ég við að þessi bankastjóri hefði viljað kalla það, ef slíkt hefði verið sagt um þann banka, sem hann er með í að veita forstöðu. Hitt er svo annað mál, að sumar innlánsdeildir beita stundum, ef um stærri útborgunarupphæðir er að ræða, umsömdum uppsagnarákvæðum, þeim sömu og eru í gildi í bönkunum og sparisjóðunum, og ég fullyrði, að fáar innlánsdeildir beita þessu ákvæði og a.m.k. ekki meir en bankar og sparisjóðir.