16.03.1961
Efri deild: 74. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1228 í B-deild Alþingistíðinda. (1120)

180. mál, Seðlabanki Íslands

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ég get ekki látið þetta mál fara gegnum 1. umr, án þess að gera við það nokkrar almennar athugasemdir og án þess að benda á nokkra höfuðágalla, sem ég tel vera á þessari fyrirhuguðu lagasetningu, bæði að því er varðar undirbúning hennar og eins þær efnisbreytingar, sem hún ráðgerir. Ég mun hins vegar ekki fara út í að ræða á þessu stigi einstakar frumvarpsgreinar. Þær eiga að sjálfsögðu eftir að ganga í gegnum sinn hreinsunareld hjá hv. n., sem fær þetta mál til meðferðar, og er vonandi, að þær taki einhverjum framförum hjá henni.

Það er varla hægt að segja, að frv. þetta, sem hér liggur fyrir til laga um Seðlabankann, feli í sér gagngerar breytingar á skipan bankamálanna. Það gefur því tæplega tilefni til heitra deilna. En þó eru að sjálfsögðu skoðanir skiptar um það, og óánægja með einstök atriði þess getur auðvitað valdið því, að menn geta ekki léð því fylgi, enda þótt svo sé, eins og ég sagði, að það feli ekki í sér beint gagngerar breytingar, a.m.k. ekki við fyrstu sýn og á yfirborðinu. En hvað sem því líður, þá er hér um stórmál að ræða, sem sé það, hvernig skipa á yfirstjórn peningamála í landinu og yfirstjórn æðstu peningastofnunarinnar, svo að það er ekki óeðlilegt, að nokkuð sé um það rætt.

Sú skipulagsbreyting að skilja að seðladeild og sparisjóðsdeild Landsbankans er í rauninni þegar komin á. Með breytingu landsbankalaganna árið 1957 var Landsbankanum skipt í seðlabanka og viðskiptabanka. Hvor þeirra banka var settur undir sérstaka stjórn, og hafa þeir síðan að öllu leyti starfað sem tveir aðskildir og sjálfstæðir bankar. Sérstakur seðlabanki var þess vegna raunverulega settur á stofn árið 1957. Þar er því í sjálfu sér ekki um neina nýjung að ræða í frv. Þar er aðeins um að tefla staðfestingu þeirrar stefnu, sem horfið var að 1957, og þeirrar breytingar, sem þá var gerð. Stofnun sjálfstæðs og sérstaks seðlabanka var því lögfest og raunverulega komin á, og þess vegna er ekki þörf nýrrar lagasetningar til þess.

Og þó að menn hefðu viljað slíta með öllu skipulagstengslin á milli seðlabankans og viðskiptabankans, sem eru aðallega fólgin í afskiptum bankaráðs af skipun stjórnarmanna seðlabankans, þá mátti vitaskuld gera það með einfaldri lagabreytingu, en þurfti ekki að semja nýtt heildarfrv. um seðlabankann. Það mátti að sjálfsögðu með mjög fyrirferðarlítilli lagabreytingu ákveða, að Alþingi skyldi kjósa þrjá af meðstjórnendum bankans í stað þess, sem nú er, að ríkisstj. skipar þá eftir tilnefningu bankaráðs Landsbankans. Slíka lagabreytingu, sem ég tel í sjálfu sér ekki óeðlilega, þó að mér sé ekki kunnugt um, að þar hafi neitt sérstakt ýtt á eftir, mátti auðvitað gera án mikilla umsvifa i lagasetningu, og við því var ekkert að segja, ef sú leið hefði verið valin að breyta þannig með smálagabreytingu skipulagi á æðstu stjórn bankans að þessu leyti til. En sú leið hefur ekki verið valin hér, heldur hin að semja frv. til nýrra heildarlaga um seðlabankann, enda eru í frv. ýmis nýmæli og breyt. aðrar en þær, sem lúta að eða leiðir af þeirri höfuðstefnu frv. að gera fullan lögskilnað, eins og það hefur verið orðað, með þessum bankastofnunum tveimur, viðskiptabanka Landsbankans og seðlabanka Landsbankans, og lögfesta þannig sérstakan seðlabanka án sérstakra tengsla við nokkurn einstakan viðskiptabanka. Við sum þeirra fyrirmæla frv., þau hin nýju fyrirmæli, hef ég sitt hvað að athuga eins og gengur.

Ég tel það rétta stefnu að hafa hér sérstakan seðlabanka, sem fari með æðstu stjórn peningamála. Ég er því sammála þeirri meginstefnu frv., er að því lýtur, enda er þar, eins og ég þegar hef sagt, aðeins um að ræða staðfestingu þeirrar skipunar, sem upp var tekin árið 1957 og hæstv. viðskmrh. átti þá hlut að eða frumkvæði að.

En það eru ýmis nýmæli þessa frv., sem ég get ekki fellt mig við og mér virðast í meira lagi vafasöm, auðvitað misjafnlega veigamikil atriði. Það má, held ég, í stuttu máli segja, að höfuðbreytingar þær, sem þetta frv. gerir ráð fyrir frá núgildandi skipan, eru fólgnar í þessu:

1. Að skipulagstengslin, sem hafa þó ekki verið meiri en ég hef gert grein fyrir, á milli þessara bankastofnana, viðskiptabankans og seðlabankans, verði að fullu slitin.

2. Breyting á stjórnarfyrirkomulagi seðlabankans.

3. Breyting á afstöðu seðlabankans gagnvart ríkisvaldinu, þ.e.a.s., að í þessu frv. felst það, eins og ég síðar mun koma að, að afstaða seðlabankans gagnvart ríkisstjórninni er verulega veikt, og þess vegna er það, eins og ég síðar mun einnig koma nokkuð að, að þó að sífellt sé í sambandi við þetta mál verið að tala um sjálfstæðan seðlabanka og nauðsyn á því að setja upp sjálfstæðan seðlabanka, þá er kjarni málsins sá, að með þessu frv. er að því stefnt að gera seðlabankann ósjálfstæðari og háðari ríkisstj. en verið hefur.

Fjórða höfuðbreytingin er sú, að veðdeild Landsbankans, sem fylgt hefur seðlabankanum samkvæmt lagabreyt. frá 1957, er skilin frá seðlabankanum og sett undir viðskiptabankann.

Í fimmta lagi er það nýmæli eða breyt. frá því, sem nú er, að gert er ráð fyrir, að sett verði innan vébanda seðlabankans upp sérstök stofnun eða a.m.k. sérstök deild, sem á að hafa með höndum svokallað banka- og sparisjóðaeftirlit.

Og sjötta nýmælið má segja að sé það, að ákveðið er, að svo og svo mikið af varasjóði bankans skuli hér eftir teljast stofnfé hans og að af því skuli bankinn greiða vexti og skuli helmingur þeirra vaxta renna til sérstakra þarfa — vísindasjóðs.

Ég mun nú lítillega víkja að þessum atriðum hér á eftir, en vil þó strax geta þess, að ég neita því alls ekki, að í þessu frv. sé sumt, sem er til bóta frá núgildandi skipan. En áður en ég vík að þessum einstöku atriðum, langar mig fyrst til að benda á það, að úr því að horfið var að því ráði að framkvæma a.m.k. að formi til heildarendurskoðun á löggjöfinni um seðlabankann og raunar líka að nokkru leyti löggjöfinni um hina bankana, því að hér eru á ferðinni samtímis frv., sem varða fjóra ríkisbankana, þá hefði verið eðlilegast að efna til heildarendurskoðunar á löggjöf um ríkisbankana almennt og á bankalöggjöf almennt.

Ég hefði talið heilbrigðast, að Alþingi hefði kosið sérstaka mþn. til þess að annast þá endurskoðun. Bankalöggjöf er að sjálfsögðu ekki eilíf frekar en önnur löggjöf. Henni getur þurft að breyta til samræmis við breyttar þjóðlífsaðstæður, til samræmis við breyttar þjóðlífsþarfir, og það getur þurft að laga hana eftir fenginni reynslu. En til slíkrar lagasetningar þarf vel að vanda. Það viðurkenndi hæstv. viðskmrh. eindregið hér í gær í framsöguræðu sinni. Hann sagði: Það er nauðsynlegt að vanda vel til slíkrar löggjafar, þegar sérstakur seðlabanki er settur á fót. — Ég er hæstv. viðskmrh. hjartanlega sammála um þetta atriði. Það þarf vissulega að vanda vel til löggjafar um þessi málefni. Tíðar og vanhugsaðar lagabreytingar um peningastofnanir þjóðarinnar eru ekki heppilegar. Þær geta haft margvísleg óheppileg áhrif, þó að ég eyði ekki tímanum í það hér að fara út að rekja það ýtarlega. Og ég vil segja, að það er ekki heppilegt, að mínum dómi, svo sem nokkur fordæmi eru nú gefin fyrir, að hver ríkisstj. fari að hringla fram og aftur með bankalöggjöfina. Vönduð endurskoðun þessara mála í heild er bezt tryggð með því að fela hana mþn. Sú endurskoðun færi þá fram fyrir opnum tjöldum, ef svo má segja. Almenningur vissi þá, hver eða hverjir væru ábyrgir fyrir fram komnum till. Þá væri og tryggt, að fleiri sjónarmið kæmust að. Það væri tryggt, að ekki aðeins kæmust að sjónarmið stjórnarinnar og hennar stuðningsmanna, heldur einnig stjórnarandstöðunnar, og ef samstaða næðist í þvílíkri nefnd um þessi efni, þá væri löggjöfinni tryggt mikið fylgi á breiðum grundvelli. Og það er ákaflega hætt við því, að það fáist ekki friður um varanlega löggjöf um þessi efni og þessi mál, fyrr en að henni er unnið á þvílíkum grundvelli.

Við umr. um þetta mál, bæði hér á þingi og eins utan þings, hafa komið fram ýmsar athyglisverðar ábendingar, sem vel væru þess verðar, að þær væru gaumgæfilega athugaðar í mþn. Því hefur t.d. verið hreyft, hvort það væri ástæða til, að ríkið væri með þrjá viðskiptabanka, hvort ekki væri hægt að spara með sameiningu þeirra að meira eða mínna leyti. Því hefur verið hreyft, hvort fjárfestingarlánasióðir, sem þessum bönkum fylgja, ættu ekki betur heima annars staðar. Það hefur verið orðað, hvort ekki mætti sameina seðlabankann og Framkvæmdabankann. Það hefur verið bent á, að æskilegt væri að setja almenna bankalöggjöf. Sumir telja aukna starfsemi einkabanka viðskiptabanka — æskilega. Ég skal engan, alls engan dóm leggja hér á þessi atriði, og ég vil alls ekki gera þessar ábendingar að mínum till. og vil taka það alveg skýrt fram til þess að fyrirbyggja allan misskilning, að ég er ekki að tala fyrir till. í þessa átt. En ég hef nefnt þær hér til þess að sýna fram á, að það er víssulega full ástæða til, að mál þessi öll séu tekin til rækilegrar og gagngerrar endurskoðunar af mþn. í stað þess, eins og nú er gert, að taka einn og einn þátt þessara mála til — ég vil nú segja heldur fálmkenndrar endurskoðunar.

Hæstv. viðskmrh. hélt því að vísu fram hér í gær, að til þessarar lagasetningar hefði verið vandað og að henni hefðu unnið fjármálasérfræðingar ríkisstj., sem hún hefði haft sér til aðstoðar. En frv. ber það þó ekkert með sér, hver eða hverjir þeir fjármálasérfræðingar hafa verið.

Það er engin furða, og það má aðeins geta þess í sambandi við þessi atriði, sem ég nefndi, þó að sú spurning vakni hjá almenningi, hvort ástæða sé til þess sífellt að fjölga ríkisbönkum og bankastjórnarmönnum. Það liggur í augum uppi, að af því stafar margs konar aukinn kostnaður, og hverju ryki sem reynt er að slá i augu manna, þá er almenningur ekki svo blindur, að hann sjái ekki, að einhver verður með einhverjum hætti að borga þann brúsa.

Hæstv. viðskmrh. lét þess getið í ræðu sinni hér i gær, að árið 1927 mundi m.a. ekki hafa verið horfið að því ráði að setja á stofn sérstakan seðlabanka, heldur hafa í einu lagi þá þrjá þætti lánastarfsemi, sem þá voru sameinaðir í Landsbanka Íslands, sem sé seðlabanka, sparisjóðsviðskipti og fasteignalánadeild, af því að þá hefði þótt þörf á því, ef ég tók rétt eftir, að hafa yfirstjórn peningamálanna sem einfaldasta og ódýrasta. Alveg áreiðanlega er þetta rétt. En ég hefði haldið, þrátt fyrir margs konar velgengni, sem við höfum átt við að búa á umliðnum árum, og þrátt fyrir margvíslegar breytingar, sem átt hafa sér stað í okkar þjóðlífi á þessum áratugum, sem síðan eru liðnir, þá sé sama ástæðan fyrir hendi nú sem þá: að hafa yfirstjórn þessara mála sem einfaldasta, óbrotnasta og ódýrasta.

Ég vil endurtaka og leggja áherzlu á það, að ég tel heppilegast, þegar í hlut á löggjöf um efni sem þetta, að til hennar sé vandað með þeim hætti, að til hennar sé stofnað á sem breiðustum grundvelli og að það sé ekki aðeins sú stjórn og hennar stuðningsmenn, sem eru við völd þá og þá, sem einir hafa um það eitthvað að segja, heldur sé stjórnarandstöðu líka gefinn kostur á að fylgjast þar með. Að öðrum kosti næst ekki sú samstaða um setningu þvílíkrar löggjafar, sem æskileg og jafnvel nauðsynleg er, a.m.k. ef henni er ætlað að standa lengur en rétt þangað til næsta stjórn tekur við, af því að það er auðsætt, að það fer að verða auðveldur eftirleikurinn fyrir þá, sem siðar taka við, um að breyta og breyta aftur. En það er að mínum dómi ekki heppilegt, að stjórnarfyrirkomulag bankanna verði leiksoppur í valdatafli stjórnmálamanna. Það er að mínum dómi ekki heppilegt og ég hygg t.d. að þær þjóðir, sem við teljum okkur skyldastar, Norðurlandaþjóðirnar, hafi verið svo gæfusamar, að þær hafi mjög getað sneitt hjá því.

Ég skal svo ekki ræða frekar um undirbúninginn að þessu. Ég dreg út af fyrir sig ekki í efa, að um þessi mál hafi fjallað mætir menn. En það er nokkuð annað en að hafa þann hátt á, sem ég hef hér lagt til og talið þá einu réttu leið í þessu efni, þegar um þvílíka lagasetningu sem þessa er að tefla.

Að því er svo efnisbreytingar frv. varðar, þ.e.a.s. þær efnisbreytingar, sem í því felast frá núv. skipan, þá vil ég fyrst nefna þá breyt. á stjórn bankans, sem í því felst. Með frv. er gert ráð fyrir, að stjórnarmönnum, stjórnendum Seðlabankans, sé fjölgað úr 5 og upp í 8. Ég vil fyrst nefna þá breyt., af því að hún er raunverulega höfuðbreytingin, sem í þessu frv. felst, og auðvitað ástæðan til þess, að þetta frv. er flutt. Það vita allir, að þetta frv. er flutt í þeim eina tilgangi að koma þeirri breytingu í kring. Það er alveg sama, í hve miklar umbúðir það er vafið, það fer ekki fram hjá neinum, að sá er kjarni málsins sem og annað höfuðatriði, sem ég kem að siðar. Nú er stjórn bankans þannig háttað, eins og menn vita, að það eru tveir bankastjórar, annar stjórnskipaður, hinn ráðinn af bankaráði, og þrír meðstjórnendur, raunverulega tilnefndir af bankaráðinu, en bankaráðið er eða var kosið af Alþ., nema hvað formaðurinn er stjórnskipaður. Nú er hins vegar gert ráð fyrir því að fjölga bankastjórum úr tveimur og í þrjá og setja svo upp sérstakt bankaráð skipað 5 mönnum.

Þessi fjölgun og þessi fyrirkomulagsbreyt. er að mínum dómi algerlega ástæðulaus, enda hafa alls engin rök verið flutt fram fyrir þessari breyt. Hæstv. ráðh. lét þess getið í gær, að það hefði komið í ljós, að þessi breyt., sem gerð var 1957, mundi að vísu ekki hafa haft alla þá kosti, sem gert hafði verið ráð fyrir í upphafi, og hún hefði sýnt sig að hafa einhverja galla, sem hefði ekki verið gert ráð fyrir í upphafi. En honum láðist alveg að geta þess, hverjir þeir gallar hefðu verið, sem ekki hefði verið ráð gert fyrir í upphafi og fram hefðu komið. Hann nefndi heldur enga þá kosti þessarar skipunar, sem hugsað var um í upphafi, sem hefðu ekki komið fram. Mér er ekki kunnugt um, að það hafi komið fram neinir sérstakir vankantar á þessu fyrirkomulagi. Mér er ekki kunnugt um, að það hafi komið fram í starfi þessarar stofnunar, að það væri þörf á þremur bankastjórum. Hæstv. viðskmrh. veit það manna bezt, að þessi stofnun hefur meira að segja um 8 eða 9 mánaða skeið, að ég ætla, komizt af með aðeins einn starfandi bankastjóra, og hæstv. viðskmrh., sem átti sjálfsagt réttum lögum samkvæmt að setja þar annan bankastjóra, meðan það ástand stóð, sem hér þarf ekki um að ræða, gerði það ekki, sennilega af því, að hann hefur kynnt sér það og talið, að störfin væru ekki meiri en það, að einn bankastjóri gæti komizt yfir þau, á meðan svo stæði. En nú allt í einu þykir ástæða til þess að fjölga þessum bankastjórum upp í þrjá, jafnhliða því svo sem umfangsmiklu verkefni er af bankanum létt með þessari fyrirhuguðu lagabreytingu, sem sé allri starfsemi veðdeildarinnar.

Ég held, að hæstv. ráðh. hafi ekki vikið að því í framsögu sinni í gær, en mér er óhætt að fullyrða, að hann lét að því liggja, þegar hann ræddi málið í Nd., að það fyrirkomulag að hafa meðstjórnendur, sem ynnu ekki að fullu leyti störf i bankanum, en hefðu öðrum störfum að sinna, hefði sýnt sig að gefast ekki vel. Mér er nú þetta mál skylt, en ég verð algerlega að mótmæla þessu. Ég verð algerlega að mótmæla því, að það hafi komið á nokkurn hátt fram, að meðstjórnendur hafi verið þarna á nokkurn hátt til trafala, að þeir hafi ekki alltaf verið reiðubúnir til þess að sinna störfum í bankanum, þegar þeir hafa verið til kvaddir. Mér er sem sagt ekki kunnugt um, að þessi skipan hafi á neinn sérstakan hátt gefizt verr en a.m.k. ástæða var að búast við i upphafi, þegar hún var sett.

Það er ekki heldur svo, að ríkisstjórnirnar, hvorki fyrrv. ríkisstjórnir né hæstv. núverandi ríkisstj., hafi þurft undan að kvarta sambúðinni við þennan banka. Ríkisstj. hefur fengið þar gerðar, að vísu stundum með meiri hl. og gegn atkv. minni hl., þær ákvarðanir, sem hún hefur óskað eftir að þar væru teknar.

Hvað því viðvíkur, að þetta fyrirkomulag, sem lögleitt var 1957, sé óvenjulegt og andkannalegt, þá vil ég segja, að það á sér fyrirmyndir annars staðar frá, og fyrirmyndin að þessu fyrirkomulagi mun vera stjórnskipulagið í Noregsbanka. Þar er einmitt stjórninni þannig háttað, að það eru tveir stjórnskipaðir bankastjórar, formaður og varaformaður, en svo eru þrír meðstjórnendur kosnir til 6 ára í senn af Stórþinginu. Ég skal játa, að það hefði verið eðlilegra að mínum dómi, þegar þessi skipan var upp tekin, að þá hefði verið horfið að því strax, að þessir þrír meðstjórnendur hefðu verið kosnir af þinginu, en ekki af þeim millilið, sem var látinn kjósa þá, bankaráðinu. Það er að vísu rétt, að það er sums staðar annars staðar á þessu nokkuð önnur skipan og sums staðar fjölmennari yfirstjórn á ríkisbönkum en í Noregi. En það er náttúrlega óþarfi fyrir okkur að taka það endilega til fyrirmyndar, þar sem þessu er skipað á þann veg að hafa þessar yfirstjórnir mjög fjölmennar.

Ég endurtek það því, að ég tel þessa fjölgun á stjórnarmönnum algerlega ástæðulausa. Á hinn bóginn má náttúrlega segja, að hún út af fyrir sig sé ekki ákaflega skaðleg. Það komast þarna fleiri menn að, og það getur náttúrlega einhverjum þótt gott, sem þar hljóta sess. Þarna verður rúm a.m.k. fyrir tvo menn í ágætum stöðum. Ég býst við því, að bæði staða formanns bankaráðsins og eins þessa þriðja bankastjóra mundu verða alveg tilvaldar stöður fyrir þá manngerð, sem flokksblað hæstv. viðskmrh. hefur gefið heitið toppkratar og þar með skapað merkilegt nýyrði í okkar máli, — kannske ekki ómögulegt, að ritstjórar Alþýðublaðs, sem þreyttir eru orðnir, hafi þar einhverja von. En hvað sem því líður, þá er eitt víst, að kostnaður hlýzt af þessu, margvíslegur og aukinn, og það er a.m.k. í ósamræmi við þá yfirlýstu stjórnarstefnu að vera að auka þannig eyðslu og kostnað að fjölga nefndum og stjórnum, því að þessi hæstv. ríkisstj. hefur haft það á sínu prógrammi að fækka nefndum og fækka stjórnum, og það var einu sinni birtur listi yfir þann ógnarfjölda nefnda, sem ættu að hætta. Það getur nú skeð, að það verði eitthvað minna úr því en gert var ráð fyrir. En hvað um það, þessi var ætlunin.

Það er þess vegna í fyllsta ósamræmi við þessa yfirlýstu stefnu að fara að fjölga stjórnendum bankans, eins og þarna er ráð fyrir gert, því að vitaskuld er það alveg jafnt kostnaður, sem kemur við þjóðina, þó að það sé ekki sjálfur ríkissjóður, sem verður að borga þessar upphæðir. Það má vera, að ríkisstj. hugsi eins og maðurinn í þjóðsögunni, sem sagði: Hesturinn ber ekki það, sem ég ber. En það sjá allir, að það er aukaatriði, hvort þetta er greitt beint úr ríkissjóði, sá aukakostnaður, sem af þessu stafar, eða hvort hann er greiddur af bankanum. Þjónusta sú, sem bankinn lætur í té, verður auðvitað þá þeim mun dýrari eða hagnaður sá, sem bankinn hefur, þeim mun minni. Það liggur í augum uppi, að einhver verður að borga þennan kostnaðarauka, um það þarf ekki að ræða.

Eins og ég sagði áðan, er kannske þessi breyt. út af fyrir sig, þó að það sé fjölgað þarna í bankanum, skaðlaus að öðru leyti til, ef ekki fylgdi annað með, og þó að ég segði áðan, að hún væri í ósamræmi við yfirlýsta stefnu ríkisstj., þá er hún náttúrlega í góðu samræmi við stefnu ríkisstj. eins og hún hefur verið í framkvæmd.

Þá kem ég að annarri höfuðbreytingunni, sem felst í þessu frv., en hún varðar afstöðu þjóðbankans til ríkisstjórnar á hverjum tíma. Um það málefni eru skiptar skoðanir. Sumir telja, að seðlabanki eða þjóðbanki eigi að hafa sem mest sjálfstæði gagnvart ríkisstjórn. Aðrir telja hins vegar, að þjóðbanki eigi að vera verkfæri í hendi þeirrar ríkisstjórnar, sem hverju sinni fer með völd. Ég held, að það sé rétt, og tek undir það, sem hæstv. viðskmrh. sagði hér í gær, að hér verður nokkuð að fara bil beggja. Það er auðvitað almennt æskilegt, að góð samvinna geti verið á milli ríkisstj. og stjórnar höfuðbankans. Ef til alvarlegra árekstra kemur á milli þessara aðila, verður það sjálfsagt ríkisstj., sem ræður að lokum, svo fremi að hún hafi þingið á bak við sig eða meiri hluta þess, og það er að mínum dómi eðlilegt. Auðvitað gæti ríkisstjórn alltaf vikið þeim bankastjóra frá, sem vill ekki beygja sig. Þó að ég telji, að ríkisstjórn studd af Alþ. verði að lokum að ráða stefnunni í peningamálum, þá er það þó mín skoðun, að æskilegt sé, að stjórnendur þjóðbankans séu gerðir sem sjálfstæðastir og óháðastir ríkisstj. í sínum aðgerðum. Ég viðurkenni, að hér verður að setja viss mörk. En ég er algerlega andvígur þeirri skoðun og stefnu, sem telur þjóðbankann eiga að vera skoðanalausan þjón ríkisstj. á hverjum tíma, viljalaust verkfæri í hennar hendi og annað ekki, þ.e.a.s., að þjóðbankinn eigi nánast sagt ekki að vera annað en afgreiðslustofa fyrir ríkisstj. Ég þekki þessa skoðun, hún er ekki ný, henni hefur verið haldið hér fram áður, a.m.k. af vissum stjórnmálaflokki. En sé slíkum kenningum játað, þá verð ég að segja, að ég sé ekki annað en það sé alveg hreinn óþarfi að vera að burðast með sérstakan seðlabanka undir sérstakri stjórn, þá sé ég ekki annað en hann geti eins vel verið deild í fjmrn., efnahagsmálarn. eða viðskmrn., eða hvaða rn. sem það nú er, sem fer með þessi mál.

Ég hafði nú satt að segja haldið, að hæstv. viðskmrh. væri ekki sérstakur talsmaður þessarar stefnu, en mér skildist það samt á ummælum hans hér í gær, að hann væri mjög farinn að hneigjast í þá átt, og ég held, að ég hafi skilið hann rétt, að hann hafi látið ummæli falla í þá átt, að það væri vaxandi skilningur á því meðal ríkisstjórna og jafnvel meðal seðlabankastjóra, þar sem hann þekkti til, að staða þjóðbankans yrði að vera sú, sem hann var að túlka hér í gær, sem sé að þjóðbankinn yrði að vera þjónustutæki fyrir ríkisstj. og ríkisstjórn á hverjum tíma sem mest undirgefinn.

Það kann að vera, að þetta sjónarmið mæti vaxandi skilningi hjá ríkisstj. Ég verð þó að segja, að ég kannast ekki við það, og ég efast um, að hæstv. ráðh. geti tilfært dæmi um það, t.d. frá Norðurlöndum. Ég held þvert á móti, að ég geti nefnt nýlegt dæmi frá einu Norðurlandanna, þar sem þekktur þjóðbankastjóri hafði haldið fram tilteknum skoðunum og forsrh. tók þá einmitt undir þau ummæli, og þar af var vissulega ekki hægt að draga þá ályktun, að þar væri vaxandi skilningur á því þernuhlutverki, sem hæstv. ríkisstj. virðist ætla seðlabankanum hér. Að því er það varðar, að það sé vaxandi skilningur á þessu hjá seðlabankastjórum, þá held ég, að það hljóti að vera einhver misskilningur hjá hæstv. ráðh., því að það er ekki ýkjalangt siðan t.d. þjóðbankastjórar Norðurlandanna komu saman á fund, þar sem rætt var einmitt um þessi málefni, og það var einróma álit þeirra, að það væri nauðsynlegt, að staða seðlabankanna væri sem allra sjálfstæðust gagnvart ríkisstjórnunum.

Ég viðurkenni það út af fyrir sig, að í þessu frv. er gerð tilraun til þess að fara bil beggja í þessum efnum, og sú tilraun birtist sérstaklega í 4. gr. frv. Ég verð þó að segja, að sú tilraun virðist mér heldur vandræðaleg, og ég verð að segja, að þessi 4. gr. er vægast sagt hálfgert hnoð. Í upphafi 4. gr. segir að vísu ekki nema það, sem sjálfsagt er, að í öllu sínu starfi skuli Seðlabankinn hafa náið samstarf við ríkisstjórnina og gera henni grein fyrir skoðunum sínum varðandi stefnu í efnahagsmálum og framkvæmd hennar. Þetta er auðvitað ekki nema sjálfsagt. En siðan segir svo, að sé um verulegan ágreining við ríkisstj. að ræða, þá er seðlabankastjórninni að vísu þarna talið rétt að lýsa þeim ágreiningi opinberlega og skýra sinar skoðanir. En síðan segir, að hún skuli engu að síður telja það eitt meginverkefni sitt að vinna að því, að stefna, sem ríkisstj. markar að lokum, nái tilgangi sínum, þannig að það er ákaflega lítið í sjálfu sér á þessari grein að græða, eins og hún er orðuð. Það er gert ráð fyrir því, að þó að bankastjórnin hafi lýst því yfir, að hún telji þá stefnu, sem fylgt er, ranga, þá eigi hún samt sem áður að telja það eitt meginverkefni sitt að vinna að framkvæmd þessarar stefnu.

Það má vera, að það sé hægt að vinna á þessum grundvelli, en ákaflega tel ég það ósennilegt. Og það vil ég sérstaklega undirstrika, að það er ekki talað um, að það sé stefna, sem Alþ. hafi markað, — það er stefna, sem ríkisstj. hefur markað. Hitt væri náttúrlega annað, ef talað væri um, að það væri stefna, sem Alþ. hefði markað, þá væri það nokkuð annað. En auk þess vil ég í sambandi við þessa 4. gr. benda á það, að hún er að mínum dómi ákaflega óheppileg að því leyti til, að hún gefur alranga hugmynd um afstöðu íslenzks réttar til málfrelsis. Af henni mætti ráða, að embættismenn og sýslunarmenn hér á landi hefðu ekki almennt málfrelsi eða a.m.k. mjög takmarkað, því að þarna er bankastjórunum, — ég geri nú ráð fyrir því, að þarna sé átt við bankastjórana aðeins, en ekki bankaráðsmennina, þó er það ekki alveg ljóst, — þarna er bankastjórunum sem sagt veittur sérstakur réttur í lögum — sérstakt leyfi — til þess að skýra frá skoðunum sínum, rétt eins og bankastjórarnir hefðu ekki rétt til þess annars að íslenzkum lögum. Ég veit vel, að á opinberum starfsmönnum hvílir víss trúnaðar- og hollustuskylda, en í henni felst alls ekki það, að þeir séu í einu og öllu skyldir til þess að vera jábræður ríkisstjórnar á hverjum tíma og megi ekki gagnrýna opinberlega stefnu ríkisstjórnar og gerðir. Þvert á móti er þeim almennt fullheimilt að skýra opinberlega frá sínum skoðunum.

Ég held því, að sú nefnd, sem fær þetta frv. til meðferðar, ætti að fella þetta leiðindaákvæði niður úr frv. Það gefur bankastjórunum ekki neinn nýjan rétt, sem þeir hafa ekki nú samkvæmt gildandi löggjöf. Eftir gildandi löggjöf er þeim auðvitað fullheimilt að skýra opinberlega frá sinni stefnu og sínum skoðunum og ágreiningi við ríkisstjórn, ef hann er fyrir hendi. Ég held, að þetta ákvæði út af fyrir sig styrki stöðu bankastjóranna sáralítið, þar sem þeir eiga þó, eftir að þeir hafa sagt almenningi frá því, að þeir séu á allt annarri skoðun en ríkisstj., að kyngja sinni skoðun og vinna að því, að stefna ríkisstj. nái tilgangi sínum, eins og það er orðað í frv. En sem sagt, þetta ákvæði er villandi og gefur alranga mynd af íslenzkum réttarhugmyndum, og maður gæti haldið, að þetta væri komið frá einhverjum, sem þekkti meira til réttarhugmynda annars staðar en hér á Íslandi.

Mín aðalathugasemd við 4. gr. er sú, að mér finnst hún ásamt öðrum ákvæðum í frv. ganga of langt til móts við þá stefnu, sem gera vill þjóðbankann sem háðastan ríkisstjórn, sem fer með völd á hverjum tíma. Mér virðist stefna frv. mótast um of af því sjónarmiði. Þar kemur til auk þess það, sem birtist í 4. gr. að mér virðist, að framkvæmdastjórn bankans er meir sett beint undir ráðherra en verið hefur, og er reynt að gera sem allra minnst úr valdi trúnaðarmanna Alþ., þ.e.a.s. úr völdum þess bankaráðs, sem gert er ráð fyrir að Alþ. kjósi eftir þessu frv. Og það, að þessi sé stefna frv., þarfnast í rauninni ekki frekari rökstuðnings en að vitna til þeirra ummæla, sem hæstv. viðskmrh. hafði um þetta í sinni framsöguræðu hér í gær, þegar hann var að skýra frá þeim bollaleggingum, sem verið hefðu um þetta mál á undirbúningsstigi þess, en þá sagði hann, að það hefði komið til mála að sleppa alveg bankaráðinu, hafa það ekki með, en láta ríkisstj. vera eins konar bankaráð fyrir þjóðbankann og kippa þá þar með burt því áhrifavaldi, sem Alþ., þótt óbeint sé, er þó ætlað að hafa á stjórn bankans með því að geta tilnefnt menn, sem hafa þó aðstöðu til að fylgjast þar með. Það má vel vera, að ráðh. geti nefnt þess dæmi, að það tíðkist með einhverri þjóð að hafa þannig seðlabanka án þess að hafa bankaráð eða menn í stjórnum bankanna tilnefnda af löggjafarþingum beint eða óbeint, en ég verð að játa, að ég þekki það ekki, og á Norðurlöndunum a.m.k., held ég, að sú skipan sé ekki til. Það má segja að vísu, að þetta sjónarmið, að draga sem mest vald úr höndum Alþingis, — en það staðhæfi ég að sé óbeinlínis verið að gera með þessu frv., — og draga sem mest vald saman hjá ríkisstj., sé ekki nýtt af nálinni, heldur hefur mjög borið á þeirri stefnu hjá hæstv. núv. ríkisstj., svo sem margoft hefur verið bent á og mörg dæmi hafa verið um nefnd.

Ég ætla aðeins í þessu sambandi, þó að það sé ekki beint í tengslum við þessa höfuðbreytingu, sem stefnt er að með frv., að nefna eitt atriði, þ.e.a.s. nafn bankans.

Það er auðvitað svo, að þegar þessir tveir bankar, sem starfað hafa þarna saman í tengslum, — viðskiptabankinn og seðlabankinn, — skilja, geta þeir ekki báðir hlotið nafnið Landsbanki Íslands, og það verður því að gera upp á milli þeirra að því leyti til, að ákveða verður, hvor bankinn eigi að njóta þess nafns framvegis. Það er nú auðvitað matsatriði, og ég skal ekki eyða löngum tíma í að ræða það, en líklegt er, að það verði nokkuð athugað af þeirri nefnd, sem frv. fær til meðferðar, en mér sýnist, að með fullt eins miklum rétti megi segja, að það liggi öllu nær, að nafnið fylgi seðlabankanum. Það er alveg rétt, sem hæstv. viðskmrh. gerði grein fyrir hér í framsöguræðu sinni í gær, að Landsbankinn var ekki í upphafi beinlínis seðlabanki. Hann var fyrst viðskiptabanki. En þá var það landssjóður, eins og hann réttilega skýrði frá, sem hafði seðlaútgáfurétt og fékk þá Landsbankanum strax í öndverðu þá seðla til eins konar umsjár, þannig að með nokkrum rétti má segja, að Landsbankinn hafi þá verið seðlabanki. Og án þess að fara að rekja þá sögu, sem þarna liggur á bak við, má geta þess, að það var þannig komið 1903 eða þar um bil, ef ég man rétt, að þá voru samþykkt lög, sem heimiluðu að gera Landsbankann að seðlabanka, vegna þess að þá þótti óvíst um, að lögin um Íslandsbanka, þar sem gert var ráð fyrir seðlaútgáfurétti hans, kæmust til framkvæmda. En það atvikaðist nú svo, að þau lög komust í framkvæmd, og Landsbankinn varð þess vegna ekki reglulegur seðlabanki fyrr en 1927, en síðan hefur hann gegnt þrenns konar hlutverki, þangað til skilnaðurinn var gerður 1957, sem sé að vera seðlabanki, vera fasteignalánabanki og vera almennur viðskiptabanki. En það er þó auðvitað ekkert aðalatriði, hver af þessum deildum ætti frekar rétt á nafninu að því leyti til, hvor eða hver þátturinn í starfsemi bankans hafi að undanförnu verið meginþátturinn, heldur hitt, hverja gagnsemi má hafa af því að hafa þetta nafn. Ég hygg, að því sé ómótmælt, að þetta heiti: Landsbanki Íslands — hafi áunnið sér vissan „goodwill“ hjá viðskiptastofnunum þjóðarinnar erlendis. Og ég hygg, að það sé gert ráð fyrir því, að Seðlabankinn fari framvegis með það aðalhlutverk að standa í sambandi við lánastofnanir erlendis, og þess vegna álít ég, að það væri hyggilegast að binda nafnið við einmitt þann þátt stofnunarinnar. En ég viðurkenni, að þetta er álitamál, og skiptir kannske ekki höfuðmáli. Hvað sem því líður, verð ég að segja það, að þetta heiti: Seðlabanki — finnst mér ákaflega afkáralegt og leiðinlegt, og það sýnir sig reyndar, að í sjálfu frv. er það svo, að þegar á að fara að þýða heiti bankans á ensku, þá er það ekki hægt, heldur er búið til alveg sérstakt heiti á honum á enskunni. Það er alls ekki þýðing á heitinu seðlabanki. Ég vildi nú leggja til, að n., sem fær frv. til meðferðar, taki til athugunar, ef hún er sama sinnis og hæstv. ríkisstj., að láta viðskiptabankann halda Landsbankanafninu, hvort það væri þá ekki rétt að taka upp eitthvert annað heiti á þessum banka, t.d. það heiti, sem einu sinni var gerð tillaga um, 1926, að hann héti Ríkisbanki Íslands eða Þjóðbanki eða eitthvað því líkt. Það er að vísu hægt að benda á einhver dæmi þess annars staðar, að slíkir bankar séu nefndir Seðlabankar, að ég ætla í þýzku, en ég hygg það þó ákaflega óvenjulegt. Ég hygg, að þeir heiti eitthvað það, sem minnir á, að þeir séu aðalbankar þjóðarinnar, annaðhvort kenndir við þjóðina eða landið.

Þá kem ég að þeirri breytingu, því nýmæli frv., sem gerir ráð fyrir því, að veðdeildin verði skilin frá þjóðbankanum eða seðlabankanum, sem hún hefur fylgt frá 1957, og fengin í hendur viðskiptabanka Landsbankans. Það má vel vera, að það sé réttmætt að greina veðdeildina frá seðlabankanum. Þetta eru tveir ólíkir þættir bankastarfsemi. En það má raunar segja, að veðdeildin eigi ekkert frekar heima með viðskiptabankanum en seðlabankanum, og ef á að skilja hana frá seðlabankanum, þá hygg ég, að það væri eins rétt eðli málsins samkv. að flytja hana t.d. til Framkvæmdabankans og hún ætti öllu heldur heima í sambandi við þann banka.

En annars vil ég benda á það í sambandi við veðdeildina, að það er gert ráð fyrir því í þessum lögum, að bankastjórnin beiti sér fyrir því nýmæli að stofna kaupþing, — þar stendur enn „bankastjórnin“, og þar er það að mínu viti enn óvíst og athugandi fyrir n., hvort átt er við framkvæmdastjórnina og bankaráð eða framkvæmdastjórnina eina, — það er sagt, að bankastjórnin skuli beita sér fyrir því að koma hér á fót kaupþingi, sem á að verzla með verðbréf, en ég hygg, að einmitt aðalstofninn í slíku kaupþingi gæti orðið verðbréf, sem veðdeildin gæfi út og aðrar henni áþekkar stofnanir, þannig að út af fyrir sig væri það kannske ekki svo óeðlilegt, eins og fljótt á litið gæti virzt, að veðdeildin væri áfram í tengslum við seðlabankann, eins og hún hefur verið frá 1957. En hvað sem öðru líður, þá á hún ekkert frekar heima í sambandi við viðskiptabankann.

Það hefur verið bent á það í umr. um bankamál, t.d. þegar þar hefur verið talað um, hvort það væri nauðsynlegt að hafa alla þessa ríkisbanka, sem raunar hefðu allir nokkuð svipuðu hlutverki að gegna, að það mundi ekki vera heppilegt að sameina þá, því að með því væri útilokuð samkeppni, sem nauðsynleg væri á milli þeirra, og slíkur ríkisbanki, sem þannig væri sameinaður úr þessum þremur bönkum, yrði svo mikill risi, að það mundi ekki vera heppilegt. En það er nú sannast mála, að viðskiptabanki Landsbankans ber nú mjög af öðrum bönkum að stærðinni til, og ef veðdeildin bætist þar við, þá verð ég að segja, að nokkuð raskast jafnvægið milli þessara banka.

En ef veðdeildina á að skilja frá seðlabankanum, af því að hún er ekki talin eiga þar heima, þá liggur í augum uppi, að sömu örlögum á stofnlánadeildin að sæta, þannig að það er sjálfsagt, ef veðdeildin er flutt burt og í viðskiptabankann, þá sé stofnlánadeildin flutt þangað líka.

Það er ekki hægt að segja, að það sé beinlínis nýmæli í þessu lagafrv., að það er gert ráð fyrir því, að ekki aðeins bönkum og sparisjóðum, heldur og innlánsdeildum kaupfélaga geti verið skylt eftir ákvörðun bankastjórnar að geyma ákveðinn hluta af innstæðufé í Seðlabankanum. Þetta byggist á lagabreytingu, sem gerð var á s.l. ári, þannig að það er ekki hægt að segja, að það sé út af fyrir sig nýtt í þessu frv. En að mínum dómi er þetta óeðlilegt og ósanngjarnt ákvæði, að setja innlánsdeildirnar að þessu leyti til á bekk með bönkum og sparisjóðum, vegna þess að innlánsdeildirnar hafa hér algera sérstöðu. Innlánsdeildir samvinnufélaganna eru myndaðar til þess að afla samvinnufélögunum rekstrarfjár, og það fé, sem lagt er inn í innlánsdeildirnar, festist beinlínis samkv. sinni tilætlun í ýmsum rekstri samvinnufélagsins og er notað í almennum viðskiptum félaganna, eins og allir vita. Það er þess vegna algerlega óeðlilegt, að um slíkar innlánsstofnanir, sem kannske má kalla svo, gildi sömu reglur og um þær innlánsstofnanir, sem ætlað er beinlínis að reka útlánastarfsemi, eins og er með banka og sparisjóði. Þess vegna finnst mér, að þetta ákvæði þurfi sérstaklega að athugast og meðfram með tilliti til þess, hvernig þessum heimildarákvæðum hefur verið beitt í framkvæmdinni, en þeim heimildarákvæðum hefur að mínum dómi verið beitt ákaflega harkalega í framkvæmd.

Loks vil ég aðeins drepa á þá höfuðbreytingu, sem ég gat um áður að gert væri ráð fyrir í þessu frv., sem sé þá, að allverulegur hluti af eigin fé bankans væri lagður í stofnsjóð eða gerður að stofnfé, sem hann á að greiða vexti af, og helmingur þeirra vaxta á að renna í vísindasjóð. Um þessa fyrirhuguðu breytingu hef ég ekki nema gott eitt að segja. Ég tel það einmitt mikilsvert, að þeim sjóði, sem þarna á góðs af að njóta, vísindasjóði, sé séð fyrir tekjum, og tel það ekki óeðlilegt, að nokkur hluti af vöxtum þessa fjár renni í þann sjóð. Ég vil mæla með þeirri breytingu og finnst hún góðra gjalda verð. En ég bara vil skjóta því fram svona innan sviga til nefndarinnar, að ég hef alltaf vanizt því, að í tilfelli sem þessu væri talað um vexti, en ekki arð. En það er kannske misskilningur hjá mér og þetta er kannske nýmóðins orðalag, að tala þarna um arð af stofnfénu, greiða 5% arð af stofnfénu, í stað þess, sem ég hélt að venjulega væri talað um, að greiða 5% vexti af stofnfénu. Það orðalag er nú náttúrlega aukaatriði.

Ég skal svo ekki fjölyrða miklu meira um þetta. Ég hef gert nokkra grein fyrir þeim athugasemdum i höfuðdráttum, sem ég hef að gera við frv. og þessa fyrirhuguðu lagasetningu, bæði að því er snertir undirbúning frv. og eins efni þess. Og ég verð að segja það, að ég teldi þau örlög þessu frv. eftirsóknarverðust, að það fengi að hvíla sig á þessu þingi og því væri leyft að daga uppi og síðan væri milliþn. skipuð til þess að framkvæma heildarendurskoðun á bankalöggjöfinni yfirleitt. Ég tel frv., eins og það nú liggur fyrir, í ýmsu áfátt, sumar efnisbreytingar þess frá núverandi skipan allsendis óþarfar, aðrar varhugaverðar. Stórskaðlegar tel ég þær þó yfirleitt ekki, það vil ég ekki segja, þó að ég álíti, eins og ég hef reynt að gera nokkra grein fyrir, að í frv. sé stefnt í ranga átt, en hversu skaðlegt það verður, fer náttúrlega mikið eftir því, hvaða menn veljast til framkvæmda í þessum málum. Ég tel æskilegt eða jafnvel nauðsynlegt að gera ýmsar smávegis lagfæringar á einstökum ákvæðum frv., og ég hef hug á því að koma síðar á framfæri brtt. þar við og ræði það atriði ekki neitt á þessu stigi málsins. Það má vera, að meiri hl. sé alveg ráðinn í því að hafa allar slíkar ábendingar eða brtt. að engu og því sé allt slíkt unnið fyrir gýg, en það verður þá að sýna sig.