21.03.1961
Efri deild: 78. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1243 í B-deild Alþingistíðinda. (1123)

180. mál, Seðlabanki Íslands

Frsm. 1. minni hl. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Þetta frv., sem hér er til umr., er eitt af fjórum frv. um ríkisbankana, sem eru nú á ferðinni hér í Alþingi, og þetta frv. þeirra stærst og brýtur því leiðina.

Ég tel, að það hefði verið mjög viðeigandi að taka bankalöggjöf landsins í heild til endurskoðunar, ef það hefði verið gert á þann hátt að skipa til þess mþn., sem kjörin hefði verið af Alþingi. Telja hefði mátt með því, að trygging yrði nokkur fyrir því, að lagður yrði sá grundvöllur, sem menn almennt teldu réttan og gætu við unað, en sá grundvöllur mundi helzt fást með slíkri nefndarskipan. Ég tel, að það hefði verið ástæða til þess að gera bankastarfsemina í landinu miklu einfaldari en nú er. Hún virðist hafa haft mjög mikla tilhneigingu til þess að greinast, að flokkast í fleiri og fleiri heildir. Hér í Reykjavík munu nú vera 7 bankar. Og þessi starfsemi, þessi greiningarstarfsemi, skiptingarstarfsemi, hún virðist vera í mjög örri þróun. Ég tel hana ekki heppilega, og ég tel, að það hefði frekar átt að taka það til mjög rækilegrar athugunar að sameina banka heldur en að fjölga þeim. Hvers vegna ætti t.d. ekki að láta Seðlabankann taka að sér verkefni Framkvæmdabankans? Með dreifingu bankastarfseminnar milli margra stofnana á sama stað er auðskilið mál að tilkostnaður vex í kerfinu að því er snertir alla vinnu. Og það eru líka miklu meiri líkur til þess, að ósamræmi skapist í starfseminni heldur en ef bankarnir eru færri.

Mér finnst það harla fráleitt, að sú hæstv. ríkisstj., sem sagðist ætla að framkvæma sparnað hjá hinu opinbera, skuli nú vinna að auknu mannahaldi við bankastarfsemina, hún skuli stofna til meiri eyðslu á vegum hins opinbera, en það gerir hún með þessu frv., sem hér liggur fyrir. Og hún hefði vafalaust ekki gert það af svo lítilli þörf sem hún gerir það, ef henni hefði verið alvara með sparnaðartalið. Hvað lá á að gera þær breytingar, sem hún vill nú gera láta á bankastarfseminni? Það lá ekki svo mikið á þessu, að ekki mætti bíða endurskoðunar. Það lá ekki á þessu í Landsbankanum til þess að skilja seðlabankann og viðskiptabankann að frekar en gert var 1957 með breytingum, sem þá voru gerðar í þessum efnum og menn telja nú yfirleitt að hafi verið eðlilegar. Þá var greinilega aðskilið vald og stjórn seðlabankastarfseminnar og viðskiptabankastarfseminnar, en hins vegar samvinna höfð um ýmis atriði, sem áttu að verða til þess, að minni tilkostnaðar þyrfti við. Og hvað sem annars er um það, að rétt sé að skilja þarna frekar á milli, sem er nú ekki stórt spor, þá er alveg áreiðanlegt, að það er ekki hægt að færa fyrir því rök, að á þessu liggi nú sérstaklega, að ekki væri hægt að bíða með þetta eftir því, að nefnd, sem skipuð væri, gæti skilað áliti um bankalöggjöfina í heild og þessi atriði þá einnig.

Skyldi nú þetta kannske vera nauðsynlegt til þess, að bankastarfsemin sé ríkisstj. nægilega samhent? Í það var látið á vissan hátt skína. En öllum þeim, sem fylgzt hafa með þessum málum, hlýtur að vera ljóst, að Landsbankinn hefur fullkomlega hlýtt kalli ríkisstj. Rödd hans hefur verið bassaröddin í laginu, og hönd hans hefur tekið peningamálin þeim kverkatökum samdráttarins, sem núverandi hæstv. ríkisstj. hefur ætlazt til. Það hefur alls ekki á þetta skort. Það er þess vegna ekki rétt tilfundin ástæða, að núv. hæstv. ríkisstj. þurfi að tryggja það, að Seðlabankinn verði sér samstilltur. Sú ástæða hefði getað verið til, ef hún væri ekki algerlega óþörf. Þess vegna mun engin ástæða til finnast, sem er á nokkurn hátt frambærileg. Ég tel annars, þó að ég nefni þessa ástæðu, að hún væri allathugunarverð, af því að hætt er við, að bankastarfsemin gæti orðið helzt til laus í rásinni, ef hver ríkisstj. byggi sér þannig í hendur með breytingum bankalaga fyrir sig. Nei, núv. hæstv. ríkisstj. þarf ekki að leggja fram breytingar á bankalögum af því, að bankinn þjóni henni ekki. Það stendur svo vel á við stjórn bankans fyrir hana, að á þetta skortir ekki. Breytingin er fyrst og fremst sú að fjölga stjórnendum Seðlabankans úr 5 upp í 8, þar með talið að fjölga bankastjórunum úr 2 í 3. Og þessi fjölgun er áreiðanlega aðeins til þess að koma gæðingum á stall. Eyðslan við þessa fjölgun gæðinga á stalli samrýmist ekki rétt vel hátíðlegum yfirlýsingum hæstv. ríkisstj. um að draga úr tilkostnaði á vegum hins opinbera. Hér er áreiðanlega um óþarfabruðl að ræða.

Ég hef ásamt hv. 5. þm. Norðurl. e. leyft mér að leggja fram brtt. um það að fjölga ekki bankastjórunum, fella niður ákvæðin um fjölgun þeirra. Í sambandi við þessar tillögur gefst hv. stuðningsmönnum tækifæri til að firra sig ámæli um að stofna enn eitt nýtt, dýrt embætti hjá hinu opinbera. Ég vænti þess, að þeir taki það tækifæri til athugunar og noti sér það.

Það er margt, sem ég fyrir mitt leyti hef við þetta frv. að athuga. Hins vegar veit ég, að það er árangurslaust að minnast á sumt af því, og ég hef enga löngun til að lengja umr. sérstaklega í sambandi við þessi mál og mun því mörgu sleppa. En á nokkur fleiri atriði vil ég þó minnast en þetta eyðsluatriði. Og þá eru mér ríkust í huga ákvæði í 11. gr. frv. um bindingu sparifjárins fyrir sparisjóðum og innlánsdeildum kaupfélaganna: Þessi ákvæði eru að mínu áliti mjög óheppileg og meira en það. Ég álít þau vera mjög skaðleg, sérstaklega fyrir dreifbýlið.

Það er vitnað til þess af þeim, sem að þessum ákvæðum standa, að það hafi verið sett í lög 1957 að heimila að taka hluta af aukningu sparifjár hjá sparisjóðum og binda það í Seðlabankanum. Það er rétt, að þetta var lögleitt. Ég var á móti því, að það væri gert. En mér kom þó aldrei í hug, að þetta yrði misnotað, eins og gert hefur verið og gera á nú og í enn stærri stíl. T.d. datt mér aldrei í hug, að þó að yrði gripið til þess einhvern tíma, þegar nauðsyn þætti og einkanlega ef það færðist í aukana að bankar yrðu stofnaðir og þess vegna yrði örðugra að ráða við þróun peningamálanna og sérstaklega þá að hafa stjórn á þeim málum, þegar erfiðlega gengi hjá þjóðfélaginu, — þá datt mér aldrei í hug, að þessi ákvæði yrðu látin ná til smáfyrirtækja, eins og víða eru í landinu í formi sparisjóða. En þó að þessi ákvæði séu frá 1957, voru þau rýmkuð í efnahagsmálalöggjöf hæstv. ríkisstj. í fyrra og látin ná til innlánsdeilda kaupfélaga líka. Það taldi ég mjög rangláta útfærslu ákvæðanna vegna þess, að í eðli sínu eru innlánsdeildirnar allólíkar almennum sparisjóðum, þar er ekki um neina útlánastarfsemi að ræða, og þær eru nánast, ef rétt er á litið, reikningar hjá samvinnufélögunum, sem samvinnumenn og aðrir viðskiptamenn leggja sparifé sitt inn á til þess að efla þessar eigin stofnanir, lána þeim rekstrarfé, sem kemur þeim, sem inn leggja, sjálfum til góða í rekstrinum, og þess vegna er það, að með því að ætla að taka fé af þessum stofnunum til bindingar, þá er verið að taka fé í raun og veru úr sjálfsvörzlu og svipta menn réttinum yfir slíku fé.

Ef menn bera saman ákvæðin, sem eru í 11. gr., við ákvæðin frá 1957 í löggjöfinni þá, þá er greinilegt, að það er ekki aðeins lengra gengið en það, að hér er átt við innlánsdeildir kaupfélaganna — ásamt sparisjóðum, heldur er líka gengið nær sparisjóðunum með ákvæðunum um bindinguna. Og hér er ekki aðeins um það að ræða, að menn vita, að hér eru heimildarákvæði, sem hægt er að grípa til, heldur vita menn líka af reynslunni s.l. ár, að þessi heimildarákvæði eru notuð. Og menn vita meira, menn vita, að nú hefur Seðlabankinn gefið út bréf til innlánsstofnana, sem dags. er 19. jan. s.l., á grundvellinum frá efnahagsmálalöggjöfinni. Þar eru m.a. birtar reglur um bindingu innstæðna í Seðlabankanum frá og með 1. jan. 1961. Þar segir fyrst, að af heildarinnstæðuaukningu á fyrstu ársfjórðungi skuli innlánsstofnanir greiða 30% inn í bundinn reikning í Seðlabankanum. Þó er tekið fram, að þetta skuli ekki ná til innlánsstofnana, sem hafi mínna en 5 millj. kr. af innlánsfé í byrjun ársins. Í öðru lagi eru fyrirmæli í bréfinu um, að lágmarksbinding innstæðufjár á hverjum þriggja fyrstu ársfjórðunganna skuli þó vera 1% af heildarinnstæðu í byrjun ársfjórðungsins, hver sem breyting innlána er, og þetta nær til allra innlánsstofnana, hvort sem innstæður hjá þeim eru meiri eða minni en 5 millj. kr. Í fyrsta sinn eiga innlánsstofnanirnar að afhenda Seðlabankanum fyrir 30. apríl 1% af heildarinnstæðum, eins og þær eru hjá þeim um síðustu áramót. Þessi bréf eru útgefin, áður en þetta frv. kemur fram. Þau eru byggð á ákvæðum, eins og ég sagði, sem eru í efnahagsmálalöggjöfinni, og miklar líkur virðast til þess eftir gangi málanna, eins og hann hefur verið, að þessi ákvæði verði hert, þegar búið er að leiða í lög 11. gr. eins og hún er nú. Ég sé ekki betur með tilliti til 11. gr., þar sem má taka allt að 20% af innstæðufé hjá viðkomandi stofnunum, því innstæðufé, sem ávísa má á með tékka, en 15% af öðrum innstæðum, að þá sé samkv. þeim ákvæðum hægt að taka a.m.k. milli 15 og 20% af innstæðufénu, sparifénu, sem inni stendur samtals. En svo kemur einnig til greina 12. gr. með viðbótarákvæðum, sem mælir svo fyrir, að heimilt sé að skylda þessar innlánsstofnanir til að eiga ríkistryggð verðbréf eða önnur trygg verðbréf, er nemi allt að 10% af innstæðu hjá þeim. Ég sé ekki betur en með þessu móti sé hægt að taka samtals a.m.k. fjórða part af aðalumráðafé sjóðanna og binda það, svipta þá ráðstöfunarrétti yfir því og draga það út úr þeim héruðum, sem sjóðirnir starfa fyrir.

Eins og sparisjóðslöggjöfin er núna, eiga sparisjóðir að hafa 1/10 af fé sínu í peningum eða auðseljanlegum og tryggum verðbréfum. Það eru eðlileg ákvæði til þess að tryggja það, að sjóðirnir geti alltaf svarað til um fé það, sem gengið er eftir hjá þeim. En að leggja þessa nýju skyldu á þá virðist mér vera til þess að þvinga svo starfsemi þeirra, að ekki nái nokkurri átt.

Ég hef leyft mér ásamt hv. 5. þm. Norðurl, e. að flytja till., sem draga úr þessum ákvæðum nokkuð. Þær till. eru á þskj. 563. Þær fela það í sér, að ekki megi telja til aukningar, sem skila þarf hluta af, þá upphæð, sem nemur vöxtum af innstæðufénu. Sú hugsun liggur þar til grundvallar, að það sé eðlilegur vöxtur hverrar innlánsstofnunar að vaxa um vextina af innlánsfénu og það megi ekki gera kröfur til þess, að af þeim vexti verði hún að skila til bindingar nokkrum hluta.

Þá er tillaga um það, að ákvæði þessarar greinar nái ekki til innlánsstofnana, sem hafa minna en 10 millj. kr. innstæðufé samtals. Sú hugsun liggur þar til grundvallar, að slíkar stofnanir, sem hafa ekki meira umráðafé sem innstæðufé en 10 millj. geti ekki undir neinum kringumstæðum valdið nokkurri röskun í heildarpeningamálum þjóðfélagsins, því að ekki getur annað vakað fyrir þeim, sem setja þessa hagfræði, heldur en vilja hafa í hendi Seðlabankans eða þeirrar yfirstjórnar, sem honum er ætluð í peningamálum, vald til þess að koma í veg fyrir, að reknar séu peningastofnanir í landinu, sem trufli þá stefnu, sem yfirstjórn þessara mála vill hafa. Ég get ekki skilið, að nokkur geti haldið því fram, að svo smávirkar stofnanir, sem hafa ekki yfir að ráða meira en 10 millj. kr. eða allt að því, geti verið hættulegar fyrir jafnvægi í peningamálum þjóðfélagsins.

Í hv. Nd. flutti 1. þm. Norðurl. v. ásamt 4. þm. Austf. till. sem þessa, en miðaði við 20 millj. sem hámark fyrir því, sem ákvæðin næðu ekki til. Mér dettur í hug, að það geti verið, að einhverjum hafi þótt það hámark of hátt, og þess vegna legg ég til, að það sé lækkað um helming, og þá get ég ekki skilið, að nokkur geti hér fundizt, sem þyki með því markið sett of hátt. Ég veit, að þeir, sem búa í höfuðstaðnum, þar sem aðalpeningastofnanir eru, geta litið svo á, að þetta sé ekki stórmál út af fyrir sig, eða þeir, sem eru hér í grennd við höfuðstaðinn, vegna þess að það hefur lítil áhrif á möguleika þeirra til þess að fá lán til þarfa sinna. En þeir mega gæta þess, að þeir hafa fyrsta flokks aðstöðuna í landinu í þessum efnum. Úti á landi, þar sem smáar peningastofnanir eru, skiptir þetta miklu máli. Þessir litlu sjóðir og innlánsdeildir eru á sínum takmörkuðu svæðum fjörgjafar í atvinnulífi og viðskiptalífi, þótt smáir séu, af því að þar er umhverfið smærra og minna um að vera. Hins vegar er starfsemin þar í atvinnulífinu þjóðfélaginu alla vega þýðingarmikil, og það er reginfjarstæða og öfugt að farið að ætla að taka þessum landshlutum peningalega blóð með því að flytja sparifé þeirra og geyma það hér í Seðlabankanum.

Mér hefur verið sagt í skrafi í nefnd, að til þess sé nú ætlazt að fara heldur mildilega með þetta vald og binda ekki féð neinum órjúfandi böndum, heldur muni verða tekið liðlega á því að leyfa að ávísa á þetta fé, þegar á liggi. En á það er ekki treystandi, og eigi það svo að vera, þá er líklega ekki miklu fórnað með því að undanþiggja skyldunni þessar litlu stofnanir, sem ég hef verið að ræða um. En þar að auki vil ég benda á það, að svo mikið langræði er víða í landinu að sækja til Reykjavíkur, að það er mikil hindrun að ætlast til þess, að menn, sem standa fyrir þessum smáu stofnunum úti um land, geti verið í því sambandi við Seðlabankann sem þyrfti til þess að fá undanþágur, þegar erfiðlega gengur. Að fara bænaferðir slíkar til Reykjavíkur norðan úr Þingeyjarsýslu eða austan úr Múlasýslu kostar ekki lítið fé, og það er blátt áfram heimskulegt að setja viðskiptin í slíka kreppu, sem hér hlýtur að verða, og stofna til þess að auka stórkostlega allan rekstrarkostnað. Ég vil þess vegna vænta þess, að hv. þm. fallist á þessar tillögur okkar, Ég vil vænta þess, að þeir, sem hafa fyrsta flokks aðstöðuna, skilji svo aðstöðu hinna. Og ég vil vænta þess, að þeir, sem eru beinlínis meðal fólksins, sem hefur erfiðari aðstöðu, taki það tillit til þess og séu átthögum sínum svo velviljaðir að láta ekki binda fé þess á þennan hátt.

Við, sömu menn og flytjum þær tillögur, sem ég hef gert hér að umræðuefni, höfum leyft okkur líka að flytja brtt. við 12. gr. Hún er um það, að í stað orðanna „ríkistryggð verðbréf eða önnur trygg verðbréf, er nemi allt að 10% af innstæðum“ komi: í sjóði, innstæðu í banka, sem ríkið ábyrgist, ríkistryggð verðbréf eða önnur trygg verðbréf, er samtals nemi 10%. — Með þessum ákvæðum er linað takið, ef þau eru samþykkt, — linað takið, sem er tekið samkvæmt 12. gr., eins og hún er í frv

Ég skal upplýsa, að ég fékk þau svör við fsp. í fjhn., að þarna mundi ekki felast það, að þessum sparisjóðum og innlánsdeildum, sem þarna er um að ræða, yrði gert að skyldu að kaupa einhver tiltekin bréf, heldur gætu þarna reiknazt t.d. skuldabréf, sem sjóðurinn hefði tekið fyrir lán, sem hann hefði veitt og tryggt væri með fasteign, þ.e.a.s. tryggingarbréf fasteignaveðslána, og jafnvel gæti komið til greina, að það yrðu teknir gildir líka til þess að fullnægja þessari skyldu víxlar. Ég er mjög vantrúaður á, að þetta geti staðizt, og hygg, að tilgangurinn muni ekki heldur vera sá, heldur muni hann vera sá, að ætlazt er til, að það sé hægt að binda fé fyrir þessum stofnunum í föstum verðbréfum, sem einhverra hluta vegna þykir æskilegt fyrir þá, sem með völdin fara, að selja. Og mér finnst fjarstæða að leggja þá skyldu á herðar þessara stofnana að þurfa að verða við kröfum hvaða ríkisstj. eða hvaða valds sem væri, sem vildi nota sér heimildina á þann hátt, sem orðin hljóða hér.

Ekkert liggur fyrir um það, hvaða verðbréf skuli metin gild í þessu skyni, en það er sagt, að Seðlabankinn ákveði það. Enn fremur er tekið fram, að þegar komin eru á regluleg kaupþingsviðskipti, skuli yfirleitt ekki önnur verðbréf metin gild en þau, sem þar eru skráð. Allt er þess vegna í óvissu um þetta, og því hygg ég, að það sé mjög eðlilegt af hendi þeirra, sem vilja koma í veg fyrir það, að misþyrmt sé smásparisjóðum og smáinnlánsdeildum, að breyta ákvæðunum og færa þau í raun og veru til samræmis við það, sem núgildandi sparisjóðslög skylda sparisjóðina til að hafa bundið eða laust tiltækilegt fé, — bundið í auðseljanlegum verðbréfum eða sem tiltækilegt fé.

Ég ætla svo ekki að lengja mál mitt öllu meira, þó að ég hins vegar sjái margt við þetta frv., sem ég teldi að væri mjög æskilegt að breyta og nauðsynlegt að breyta. Ég veit, að það hefur ekki þýðingu að vera að flytja slíkar till., því að það er svo ráðið mál hjá þeim, sem meiri hl. hafa á Alþingi, að setja þessa löggjöf í gegn, að því verður varla haggað. Hv. 3. þm. Norðurl. v. hefur á sérstöku skjali bent á mörg atriði, sem nauðsynlegt væri að lagfæra, og gerir hann sjálfsagt grein fyrir þeim. Mér sýnist, að þær till. séu á rökum reistar og sanni það, að hér er nokkuð flausturslega að farið með smíði þessa frv. En sem sagt, ég ætla ekki að hreyfa fleiri brtt. en ég er nú búinn að gera grein fyrir og eru hér á einu þskj., 563. Ég vænti þess, að menn líti með velvilja á þær og taki þær til greina.

Oft hefur verið á það bent, þegar líður að lokum þings og mál er í seinni d. til meðferðar, að ekki sé tími til þess, að það fari aftur til fyrri d. Nú stendur þannig á hér, að það þarf að breyta frv. Fjhn. komst einhuga að þeirri niðurstöðu, að það þyrfti að leiðrétta skakka tilvitnun, og enn fremur, að laga þyrfti framsetninguna á einum stað, þar sem var æpandi málvilla á ferðum. Og þess vegna er það, að ég hygg, að það sé vafalaust, að frv. þurfi að fara til hv. Nd., og þá dregur ekkert um það, þó að það sé búið að laga það að fleira leyti, og það tefur ekkert fyrir framgangi þess. Þess vegna þurfa menn ekkert að hika við að samþykkja hér brtt. mínar.

Ég tel, að ef brtt. þær, sem ég stend að, yrðu samþ., þá væri ráðin bót til muna á frv. En hins vegar tel ég það samt, þrátt fyrir það, svo gallað, að ég mun ekki greiða því atkv. og legg til, að það verði fellt, ekki fyrir það, að ég telji bankalöggjöfina í því ástandi, að ekki geti verið rétt að breyta henni, heldur af því, að ég tel, að þessar breyt. séu illa unnar og að það eigi að hafa þann hátt á að endurskoða bankalöggjöfina af n., sem þingið kysi, þar sem allir flokkar þings gætu unnið að og grundvöllur gæti skapazt fyrir bankalöggjöfina, sem telja mætti að væri svo breiður, að allir gætu unað á honum að standa.