01.03.1961
Neðri deild: 71. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1269 í B-deild Alþingistíðinda. (1143)

202. mál, raforkulög

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir hans upplýsingar.

Það er viðvíkjandi því að taka erlend lán til þess að fullkomna tíu ára áætlunina. Það er engum efa bundið, hvað tíu ára áætlunin út af fyrir sig er nytsamlegt og gott fyrirtæki fyrir þá, sem hennar njóta. En við verðum að gá að því, þegar við hugsun um fyrirtæki eins og tíu ára áætlunina, að þetta eru fyrst og fremst kjarabætur, sem við erum að skapa. Það er fyrst og fremst að búa betur í haginn fyrir fólk, til þess að það geti lifað á þeim

stöðum, þar sem það er að vinna. Það er það, sem við verðum fyrst og fremst að hafa í huga. Þetta er þjóðfélagsleg ráðstöfun til þess að reyna að jafna aðstöðuna milli þegnanna í þjóðfélaginu. Það er fyrst og fremst slík mannréttindaráðstöfun.

Það, sem þurfti frá upphafi að fylgjast að í rafmagnsmálunum, var, að jafnhliða því, sem við gerðum slíkar ráðstafanir til þess að bæta kjör almennings og gera ekki hvað sízt líf þeirra, sem búa í dreifbýlinu, viðunandi, þá þurfti af stórhug að ráðast í þær stórvirkjanir, sem áttu að bera uppi iðnaðinn í landinu, og það er það, sem alltaf hefur verið vanrækt og er enn. Hér er lagt til að bæta við 150 millj. kr. lántökuheimild. Er út af fyrir sig gott að verja því til nytsamlegra og nauðsynlegra kjarabóta. En það þurfti fyrir löngu að vera búið að gera áætlanir um stórhuga framkvæmdir um leið, sem þýddu veruleg fyrirtæki, sem stæðu undir þjóðarbúinu, sem aldrei hefur fengizt og ekki liggur enn þá fyrir.

Það, sem olli því fyrst og fremst, að ég spurði viðvíkjandi útlendu lánunum í þetta, er, að ég varð einnig var við það í sambandi við nokkuð, sem hér var rætt um, vegalagningu, og það var jafnvei hugsað um að taka erlent lán til mikilla vegalagninga á Íslandi. Samtímis kemur það fram, að það er jafnan talað um það svo að segja í flimtingi, að svo framarlega sem t.d. verkamenn í landinu fái kjarabætur, þá verði að fella gengi krónunnar. Það eru til menn, sem eru svo ábyrgðarlausir, að þeir láta sér svona um munn fara. En á sama tíma er talað um að taka erlent lán til vegalagningar og til nauðsynlegra kjarabóta eins og tíu ára áætlunarinnar. Það er aðeins þetta, sem ég vildi minnast á. Þetta megum við ekki gera. Annaðhvort verðum við að sníða okkar framkvæmdum í þessum efnum stakk eftir okkar innlendu getu eða við verðum að ganga þannig frá, að það sé ekki beitt þeim aðferðum í annarlegum tilgangi að lækka gengi krónunnar hvað eftir annað og valda því þannig, að fyrirtæki eins og Sogsvirkjunin t.d. núna og áburðarverksmiðjan og slík verði að fara að borga upp aftur og aftur sömu skuldirnar.

Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir hans svör viðvíkjandi útlitinu um framtíðina viðvíkjandi stórvirkjunum. Ég tók að vísu ekki eftir, að hann kæmi inn á, hvort hæstv. ríkisstj. hefði nokkuð athugað um rekstrarform á þessum hlutum enn þá, en eðlilegt væri, að það færi sem fyrst að birta þannig til, að við hefðum hugmynd um, hvað eðlilegt væri að ráðast í næst, fyrst allur undirbúningur hefur gengið 15 árum of seint í þessum málum.

Ég ætla ekki að öðru leyti að gera þetta að umtalsefni nú, en það væri ákaflega æskilegt, að við við tækifæri ræddum þessi mál, þegar hæstv. ríkisstj. væri til þess reiðubúin, áður en þingi lýkur.