06.12.1960
Neðri deild: 33. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1290 í B-deild Alþingistíðinda. (1201)

42. mál, fræðslumyndasafn ríkisins

Frsm. minni hl. (Geir Gunnarsson):

Herra forseti. Menntmn. er öll sammála um að leggja til, að frv. það, sem hér er til umr., verði samþykkt, en meiri hl. n. leggur fram brtt. um, að við lagafrv. bætist heimild til að leggja skatt á útlán annarra aðila en fræðslumyndasafnsins á mjófilmum, Ég er ósamþykkur þessari brtt. og legg til, að frv. verði samþykkt óbreytt.

Þegar rætt var í menntmn. um sýningar á myndum fræðslumyndasafnsins, var minnzt á sýningar á öðrum mjófilmum, sem ýmsir aðilar, einkum erlend sendiráð og félög, sem annast menningarsambönd við önnur lönd, lána félögum og einstaklingum. Kom þar fram, að varhugavert mætti telja, hversu mikill væri hlutur erlendra ríkja í filmútlánum til sýningar fyrir almenning hér á landi. Gegn því væri að vísu ekki hægt að sporna, en e.t.v. mætti gera þessi útlán að tekjulind fyrir fræðslumyndasafn ríkisins. Mér þykir þessi hugmynd heldur ógeðfelld. Mér þykir fara illa á því, að á sama tíma og stjórnarvöldin líða þau lögbrot, sem eiga sér stað með rekstri afsiðunarútvarpsstöðvar herliðsins á Keflavíkurflugvelli, þá fari ríkisvaldið að grípa til þess að skattleggja lögleg og eðlileg útlán á erlendum mjófilmum. Myndir þessar eru yfirleitt fræðslu og landkynningarmyndir ámóta og þær, sem íslenzk sendiráð erlendis eiga og ég veit ekki til að nokkru erlendu ríki hafi til hugar komið að skattleggja. Þessi hugmynd er líka ógeðfelld að því leyti sem hún ber keim af þeirri áráttu að skattleggja alla skapaða hluti, leita með logandi ljósi að einhverju, sem kynni enn að finnast óskattlagt. Og nú hefur þetta smáatriði fundizt og verið dregið fram til skattlagningar. Þau eru ekki út í bláinn mælt, orðin, sem einn húsráðandinn lét falla, þegar teljari við allsherjarmanntalið 1. des. spurði, svo sem eyðublaðið gerði ráð fyrir, hvort ísskápur væri í íbúð hans. Jú, það á víst svo að heita, á nú að fara að skattleggja þá líka? sagði hann. Annan tilgang gat skráningin ekki haft. Skattur af útlánum á mjófilmum dregur íslenzka ríkið og ríkisstofnanir skammt, en hann yrði nokkur viðbót við þá skriffinnsku, sem fyrir er og öllum til leiðinda.

Meiri hl. menntmn. flytur brtt. sína um skatt þennan einungis af góðum hug til fræðslumyndasafnsins, vegna þess að sú lágmarksfjárveiting til safnsins, sem lagafrv. gerir ráð fyrir, er engan veginn fullnægjandi. En það er á valdi hv. alþm. að hafa fjárveitinguna fyrir ofan lágmarkið. Og ég held, að hv. alþm. ættu að fella brtt. um þennan leiðindaskatt, en sjá fræðslumyndasafninu heldur fyrir viðunandi fjárframlagi á viðkunnalegri hátt með því að samþykkja fjárveitingu til safnsins allnokkru ofan við lágmarkið, sem er 4% af skemmtanaskatti umliðins árs.