27.03.1961
Neðri deild: 85. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1308 í B-deild Alþingistíðinda. (1245)

217. mál, landnám, ræktun og byggingar í sveitum

Frsm. meiri hl. (Jónas Pétursson):

Herra forseti. Landbn. Nd. hefur athugað frv. það, sem hér liggur fyrir á þskj. 564, á fundi sínum nýlega. Eins og fram kemur í nál., var fulltrúi Framsfl., Helgi Bergs, ekki mættur á fundinum, en hann tilkynnti n. síðar, að hann mundi skila séráliti ásamt brtt., og hann mun gera grein fyrir þeim hér á eftir. Hv. 6. þm. Sunnl. (KGuðj), sem stendur að áliti meiri hl., þar sem lagt er til, að frv. verði samþykkt óbreytt, áskilur sér þó rétt til að fylgja brtt., ef fram kynnu að koma.

Hæstv. landbrh. gerði grein fyrir þessu máli er frv. var hér til 1. umr., og mun ég að mestu vísa til þess.

Segja má, að breytingar þær, sem í frv. felast, séu þríþættar: Fyrst að auka nokkuð stuðning við nýbýli til að mæta að nokkru þeirri verðrýrnun krónunnar, sem orðin er síðustu árin og er svo mikil, að segja má, að grundvöllurinn sé að verulegu leyti brostinn undan nýbýlamyndun, ef ekki er að gert. Annað er það verkefni, sem verið er að vinna að samkv. 38. gr. laga um landnám o.fl. frá 28. maí 1957, að koma túnstærð allra býla í landinu a.m.k. í 10 hektara. Fyrir liggur nú fullnaðarathugun á því verkefni í öllum sýslum landsins, nema tveimur, þ.e. Árnes- og Rangárvallasýslum, en þar mun ekki vera margt býla, sem falla undir þessi ákvæði. En samkvæmt þeirri athugun er breytingin við 41. gr. laganna að framlengja framlagsskylduna næstu 4 ár. Í þriðja lagi er svo framlag, er leiðir af lögum frá síðasta Alþingi um stuðning við íbúðarhúsabyggingar á þeim jörðum, sem enn hafa ekki verið hýstar viðunandi íbúðarhúsum og ábúendur hafa, eins og segir í lögum, að dómi nýbýlastjórnar ekki bolmagn til að hýsa þær án stuðnings.

Þetta eru meginatriðin, og ég ætla ekki að ræða þetta nánar. Hér er um stjórnarfrv. að ræða. Þrír nm. í landbn. hafa lagt til, að frv. verði samþ. óbreytt, einn að vísu áskilið sér rétt til að fylgja brtt. Einn nm. (JPálm) var fjarstaddur vegna veikinda, en mér þykir rétt að segja það hér, að ég veit, að hann er fylgjandi þessu máli, enda er hann formaður nýbýlastjórnar. Við leggjum því sem sagt til, að frv. verði samþ. óbreytt.