16.02.1961
Efri deild: 61. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1323 í B-deild Alþingistíðinda. (1282)

131. mál, sala jarðanna Stokkseyri I--III með hjáleigum

Frsm. (Sigurður Ó. Ólafsson):

Herra forseti. Á undanförnum árum hafa verið samþ. á Alþ. nokkur heimildarlög um, að ríkið seldi ýmsum bæjar- og sveitarfélögum lönd og lóðir, sem ríkið hefur átt, en tilheyrt hafa viðkomandi bæjarfélögum. Með samþykkt þessara heimildarlaga hefur Alþ. viðurkennt þá staðreynd, að heppilegast sé, ef ekki nauðsynlegt, að bæir og kauptún eigi sjálfir land það og lóðir, sem byggð þeirra er á. Rök fyrir þessu eru hv. alþm. svo kunn, að óþarfi er að fjölyrða um þau.

Það er eitt slíkt frv., sem hér er til umr. Það er frv. um að heimila ríkisstj. að selja Stokkseyrarhreppi allt land jarðanna Stokkseyrar I—III ásamt hjáleigum, sem taldar eru upp í 1. gr. frv. Frv. þetta er flutt að beiðni hreppsnefndar Stokkseyrarhrepps, og í grg., sem fylgir frv., eru færðar fram ástæður fyrir flutningi þess, og sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þær hér. Málið er flutt í hv. Nd. og hefur verið samþ. þar. Það var sent landnámsstjóra og jarðeignadeild ríkisins til umsagnar, og mæltu báðir þessir aðilar með samþykkt þess.

Til að gefa hv. þdm. nokkra hugmynd um eignir þær, sem hér er um að ræða, þykir mér rétt að lesa hluta af umsögn landnámsstjóra, sem hann sendi landbn. hv. Nd. samkvæmt beiðni n. Í umsögn sinni segir landnámsstjóri m.a.:

„Stokkseyri er í fasteignamati;1922 metin sem þrjár lögbýlisjarðir, en í síðustu tveim fasteignamötum er jörðin metin í einu lagi sem Stokkseyrarland. Frá 1922 hafa úr landi Stokkseyrar verið leigð ræktunarlönd á erfðaleigu til 33 aðila. Byggingarlóðir munu vera um 122. Enda þótt það sé ekki beint fram tekið í frv., verður að gera ráð fyrir, að söluheimildin nái til þessara sérleigðu landa og lóða þeirra, sem leigðar eru úr hinum sérmetnu Stokkseyrarjörðum I–III, og verður gengið út frá, að þessi skilningur á ákvæðum 1. gr. frv. sé réttur. Hjáleigur, sem í söluheimildinni felast, eru 15 að tölu. Af þeim eru 9 í ábúð, en 6 ábúðarlausar. Stokkseyrarland og hjáleigur eru metin að fasteignamati 1957 á 185100 kr. Auk þessa kemur svo til greina eignarhluti ríkisins í ræktunarlöndum, sem eru í sérleigu, og lóðum í sjálfu þorpinu, sem leigðar hafa verið til einstaklinga.

Í þessu sambandi skal á það bent“. — segir enn fremur í umsögn landnámsstjóra, — „að umræddar hjáleigur eru sumar í kauptúninu sjálfu eða svo nærri því, að vænta má, að þær falli fyrr eða síðar undir áhrifasvæði skipulags kauptúnsins. Það verður því að teljast tvímælalaust hagfelldast og eðlilegast af þessum sökum, að hreppsfélagið sjálft hafi fullan eignar- og ráðstöfunarrétt á umræddum löndum, en jafnframt taki það á sig þær skuldbindingar, að því er tekur til þess réttar, er ábúendur á sérmetnum byggðum lögbýlisjörðum eiga gagnvart núverandi jarðeiganda, ríkissjóði, og hafi ríkið lagt til húsabóta eða annarra umbóta á þessum jörðum, þá verður að telja eðlilegast, að þau verðmæti fylgi með í sölu jarðanna.“

Þetta er aðalkaflinn úr umsögn landnámsstjóra um þetta frv. Það má geta þess í sambandi við athugasemd hans um, að söluheimildin nái til hinna sérleigðu landa, sem hann minnist á, á jörðunum, þá segir í 1. gr.: „Allt land jarðanna Stokkseyri I-III“ — og eru þá hin sérleigðu lönd auðvitað ekki undanskilin.

Í Nd. tók frv. þeirri breyt., að við 1. gr. var bætt því ákvæði, að hreppsnefndinni væri óheimlit að selja öðrum en ríkissjóði land eða lóðir úr jörðum þessum. Þó að slíkt ákvæði hafi ekki áður verið í hliðstæðum lögum, virðist ekki vera ástæða til að amast við því, að það verði sett hér inn.

Landbn. þessarar hv. d. hefur haft frv. til athugunar og mælir einróma með því, að það verði samþ. óbreytt, eins og það liggur fyrir á þskj. 304.