30.01.1961
Neðri deild: 52. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1326 í B-deild Alþingistíðinda. (1290)

120. mál, sala eyðijarðarinnar Hellnahóls í Rangárvallasýslu

Ágúst Þorvaldsson:

Herra forseti. Frsm. í þessu máli er ekki viðstaddur hér í dag og hefur beðið mig um að lýsa áliti landbn. um þetta mál.

Landbn. hafði þetta mál til meðferðar, og er álit hennar prentað á þskj. 283. Það hljóðar svo: „Nefndin hefur athugað frv. og aflað sér álits landnámsstjóra og jarðeignadeildar ríkisins um það. Mælir n. einróma með samþykkt þess. “

Ég vil leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að lesa kafla úr umsögnum landnámsstjóra og jarðeignadeildar ríkisins. Landnámsstjóri segir svo:

„Jörðin Hellnahóll er úrskipt úr Holtstorfu, þó að hjáleiga sé. Jörðin er algerlega húsalaus. Landumráð hennar eru takmörkuð svo, að vart mundi hún fullnægja ákvæðum laga um búrekstrarskilyrði til þess að verða endurbyggð sem sjálfstæð lögbýlisjörð. Þar sem heldur er ekki aðstaða til, að jörð þessi fengi landauka annars staðar frá, væri ekki fært að veita henni aðstoð til sjálfstæðrar uppbyggingar.“

Jarðeignadeild ríkisins segir svo í umsögn sinni:

„Ríkisjörðin Hellnahóll var byggð Einari Jónssyni með byggingarbréfi, dags. 5. okt. 1934, og hefur hann haft öll not jarðarinnar síðan og nytjað hana frá ábúðarjörð sinni, Moldnúpi. Þar sem Einar hefur sótt um að fá jörðina keypta og hreppsnefnd Vestur-Eyjafjallahrepps mælir með, að Einari verði seld jörðin, getur ráðuneytið mælt með, að frv. nái fram að ganga.

F.h. ráðherra,

Sveinbjörn Dagfinnsson.“

Þetta eru þá umsagnir þeirra aðila, sem ég hef nefnt, landnámsstjóra og jarðeignadeildar ríkisins.

Landbn. hefur, eins og ég áður sagði og eins og stendur á þskj. 283, mælt með því, að frv. nái fram að ganga. Vil ég leyfa mér að leggja til, að málinu verði að þessari umr. lokinni vísað til 3. umr.