03.02.1961
Efri deild: 52. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1338 í B-deild Alþingistíðinda. (1324)

158. mál, sóknargjöld

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Það kann að virðast í fljótu bragði, að það frv., sem hér um ræðir, skipti ekki svo ýkja miklu máli, og afgreiðsla hv. fjhn. bendir einna helzt til þess líka, og ég er ekki að álasa nefndinni fyrir það, síður en svo. En frv. þetta er flutt að beiðni hæstv. kirkjumrh. eftir till. kirkjuþings, að mér skilst, og í grg. frv. stendur m.a., að rekstrargjöld safnaðanna hafi aukizt gífurlega hin síðari ár, og ég efast ekki um, að þar er algerlega farið rétt með. Virðist það meira að segja mjög erfitt fyrir söfnuði, eins og hér í höfuðstaðnum, að rísa undir útgjöldum kirkjunnar, hvað þá heldur hina fámennu söfnuði víðs vegar um landið, sem hafa kirkjur, sem þurfa mikillar viðgerðar við, og auk þess sumir orðið að safna stórskuldum til þess að gera kirkjur sínar þannig úr garði, að komandi væri í þær.

Ég held í því tilfelli, að það skipti ekki ýkja miklu máli, þegar um mjög fámenna söfnuði er að ræða, kannske um 20 manns, hvort sóknargjöldin eru 25 kr. eða 100 kr., þau bæta ákaflega lítið úr þörfinni í þeim efnum. Það, sem ég vildi hreyfa í þessu sambandi og mér finnst þeir, sem með kirkjunnar málefni fara, þurfi að hugleiða mjög á næstunni, er að koma á einhvers konar jöfnuði á þeim kostnaði, sem er við kirkjuhaldið í landinu, því að hinum fámennu söfnuðum, sem hafa orðið fyrir því á undanförnum áratugum að missa fólkið úr sveitunum, sífækkandi fólk, og þeir, sem eftir verða, rísa varla undir útgjöldunum, þeim er ókleift að hugsa þannig um sínar kirkjur, að sómasamlegt sé. Þar verður annað til að koma en hækkun sóknargjalda einna saman, og ákvæði það, er í lögum felst, að það megi taka víssan hundraðshluta af útsvörum hjá hlutaðeigandi bæjar- eða sveitarfélagi, kann ekki heldur að hjálpa mikið í því tilfelli. Mér finnst, að nefndin ætti einmitt nú, áður en frv. fer úr deildinni, að íhuga þessi mál nánar og vita, hvort ekki er hægt að finna þær leiðir, sem bæta úr, sérstaklega fyrir hinum fámennu söfnuðum víðs vegar á landinu, svo að þeim verði fyrst og fremst kleift að sjá sómasamlega um sínar kirkjur, svo að þeim verði ekki voðinn vís í framtíðinni, því að á undanförnum árum hefur á mörgum sviðum hér á landi verið komið á ýmiss konar jöfnuði, gjaldajöfnuði, þar sem það opinbera hefur gripið inn í, og á þessu sviði finnst mér að sé ekki síður ástæða til, að einhvers konar jöfnuður sé við hafður, heldur en á fjölmörgum öðrum sviðum.

Ég vil beina því til hv. nefndar, að hún einmitt hugleiði þessi mál nú út frá því raunhæfa viðhorfi, sem við okkur blasir hvarvetna á landinu. Það skiptir ekki höfuðmáli, eins og ég sagði áðan, hvort sóknargjöldin, þar sem fámennir eru söfnuðir, eru 25 kr., 100 kr. eða 1000 kr. Það hjálpar ákaflega lítið, það þarf meira til. Og mér finnst, að frá hinum fjölmennu söfnuðum, eins og t.d. í höfuðborginni, einmitt frá þeim eigi að koma einhvers konar jöfnuður, það eigi að jafna sóknargjöldunum á öll sóknarbörn landsins, þannig að þeir þurfi ekki sérstaklega að gjalda þess, sem búa í afskekktum og fámennum sóknum landsins. Ég vænti þess, að hv. n. taki þetta mál til gaumgæfilegrar athugunar og reyni að finna viðunandi lausn á því.