03.02.1961
Efri deild: 52. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1341 í B-deild Alþingistíðinda. (1327)

158. mál, sóknargjöld

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég var staddur annars staðar í þessu húsi við nauðsynleg störf í upphafi þessa fundar og bjóst ekki við, að um þetta mál yrðu umræður, því að mér sýndist vera á ferðinni mál, sem telja megi sanngjarnt og ætla megi, að þm. geti fylgt. En nú hef ég orðið þess áskynja, að umr. hafa farið fram um þetta mál og verið varpað fram ábendingum, svo að verið geti, að n., sem málið flytur, taki það til athugunar að nýju á milli umr. Ég ætla ekki að gera að umtalsefni það atriði, sem fram kom hjá hv. 1. þm. Vesturl., en ætla að vekja máls á öðru atriði, ef n. þætti það þess virði að taka það til íhugunar í sambandi við nánari athugun á málinu í heild.

Eins og við vitum, er þjóðkirkjan grundvölluð á ákvæðum stjórnarskrárinnar og ríkinu þar lögð á herðar sú skylda að styðja hana og styrkja. Hins vegar hefur Alþingi ekki gengið svo langt að lögfesta, að ríkið greiddi framlag til kirkjubygginga í landinu, og fjárhagsleg aðstoð ríkisins við kirkjuna er aðallega fólgin f greiðslu embættislauna prestanna. Á hinn bóginn kostar bygging kirkjuhúsa mjög mikið fé, og það er stórt fjárhagslegt átak fyrir söfnuði að ráðast í slíkt og koma því í viðunandi horf. Söfnuðirnir eru því af hálfu löggjafans að nokkru leyti settir í spennitreyju hvað fjárhagsgrundvöllinn snertir. Það mælir því full sanngirni með því, að ekki sé mjög þröngur stakkur skorinn í löggjöfinni um heimild til þess að innheimta kirkjugjöld eða sóknargjöld. Frá 1909–47 voru gjöld til prests og kirkju og kirkjugarða fastákveðin í krónutölu samkv. lögum, sem giltu á þessu tímabili um þetta efni, og þau gjöld voru mjög lág, að ég ætla 2–3 kr. á hvern mann, enda var verðgildi peninga vitanlega allt annað þá en það er nú. En til viðbótar þessu voru í lögum á því tímabili tvær heimildir fyrir sóknarnefndir að grípa til, ef nauðsyn þætti að auka fjárráð safnaðanna umfram það, sem hin lögákveðnu gjöld leyfðu. Önnur heimildin var sú, að sóknarnefnd að tilskildu samþykki safnaðarfundar og héraðsfundar gæti um eitt ár í senn hækkað sóknargjöldin fram yfir það, sem hið fasta lögákveðna gjald var, og hin heimildin var sú, að heimilt væri að leggja á aukagjald eins konar, að gripa til eins konar niðurjöfnunar, sem væri þó hlutfallsleg hækkun á hinu fasta sóknargjaldi.

Með lagabreytingu, sem gerð var á þingi 1947, að ég ætla, var sú regla upp tekin að lögfesta hámark og lágmark sóknargjalda og veita sóknarnefndum svigrúm til þess að ákveða gjöldin innan þessara marka, en um leið var heimildin um að hækka gjöldin umfram hámarkið að tilskildu samþykki safnaðarfundar og héraðsfundar felld niður. Hins vegar er heimildinni um niðurjöfnun aukagjalds haldið, og mun hún enn vera í gildandi lögum. 1955 þurfti að hækka þessi mörk að krónutölu vegna breytts verðgildis krónunnar, og þau munu vera nú, eins og fram kemur í frv. því, sem hér liggur fyrir, 9–36 kr., og er þá miðað við grunngjald, þannig að við það bætist verðlagsvísitala, eins og hún var reiknuð, áður en efnahagslögin frá síðasta þingi voru sett, þannig að ég hygg, að þegar tillit er tekið til verðlagsuppbóta, þá geti hámark sóknargjalds eftir gildandi lögum numið milli 60 og 70 kr.

Þetta frv. felur í sér að hækka þetta mark upp í 100 kr., setja mörkin milli 25 og 100 kr. og veita sóknarnefndum svigrúm til þess að ákveða gjaldið innan þessara marka. Ég hef litið svo til, að samkv. brtt., sem hv. fjhn. hefur borið fram, mæli hún með því, að þetta hámark verði lögfest, en lágmarkið verði ekki tiltekið í lögunum.

Það, sem ég vildi vekja máls á hér, m.a. vegna þess, að mér er kunnugt um, að sumir áhugamenn um kirkjuleg málefni vilja gjarnan, að það sé tekið til athugunar, er, hvort ekki er ástæða til að taka aftur upp í lögin gömlu heimildina, sem var niður felld á þingi 1947, um það, að sóknarnefnd megi að tilskildu samþykki safnaðarfundar og héraðsfundar hækka sóknargjaldið um eitt ár í senn umfram það hámark, sem ákveða á samkvæmt þessu frv. Þó að slík heimild yrði lögfest að nýju, yrði hún ekki notuð, nema þeir menn, sem söfnuðurinn hefur kosið til forræðis um kirkjuleg málefni á svæði safnaðarins, teldu brýna nauðsyn til þess að rýmka þannig fjárhag kirkjunnar, t.d. vegna framkvæmda, sem eru á döfinni og söfnuðurinn stendur að. Ég hef ekki mótaða brtt. um þetta og hef sjálfur ekki ákveðið, hvort ég ber hana fram, en ég vildi varpa fram þessari hugmynd til ábendingar fyrir nefndina, ef hún jafnvel af öðrum ástæðum tekur málið til nánari athugunar á milli umræðna.