03.02.1961
Efri deild: 52. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1343 í B-deild Alþingistíðinda. (1328)

158. mál, sóknargjöld

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Hv. 1. þm. Vesturl. hefur vakið hér athygli á þeirri hlið þessa máls, að erfiðleikar eru hinir mestu í ýmsum söfnuðum, þar sem fámenni stendur undir gjöldum kirkju og safnaðarstarfs. Þetta er rétt hjá honum, að þessa hlið málsins þyrfti að athuga, og ég vil sérstaklega taka undir það hjá honum, að æskilegt væri, að hv. nefnd hefði athugað þessa hlið málsins, jafnvel þótt ekki komi til að breyta neitt þessu frv. út af fyrir sig, þar sem þetta mál er þess eðlis, að ekki eru horfur á, að það verði athugað annars staðar, ef það verður ekki gert hér.

Brtt., sem nefndin flytur við frv., er tvímælalaust til bóta. Skv. henni er lagt til, að fellt verði niður það lágmark, sem sett var í frv. sjálft, og það er að mínum dómi rétt, því að ef söfnuður telur sig ekki þurfa að fara upp í 25 kr. fjárhæð, þá á ekki að neyða hann til þess. Hins vegar vil ég taka undir með 1. þm. Vesturl. um það, að hvort sem safnaðargjöld eru 25 kr. eða 100 kr. eða eitthvað meira, þá hefur það í ýmsum tilfellum ákaflega lítið að segja til safnaðarstarfseminnar, þar sem fámenni er orðið mjög mikið. Og þar sem hv. 6. þm. Norðurl. e. drap á það, að þessi gjöld séu hæst þar, sem fjölmenni er mest, þá virðist það líta einkennilega út. En ætli það stafi ekki af því, að söfnuðirnir í fámenninu telji þýðingarlaust að vera að hækka gjaldið að neinu ráði, því að vandinn verður ekki leystur með því? Vandinn er miklu meiri en svo, að hann verði leystur með safnaðargjöldum.

Ef nefndin tekur þetta mál til frekari athugunar, sem mér fyndist æskilegt að hún gerði, þá vil ég benda nefndinni á eina hlið þessa máls, sem hefur ekki verið drepið á. Hún er sú, að til eru tvenns konar kirkjur hér á landi: annars vegar eru safnaðarkirkjur, hins vegar eru bændakirkjur, og ég held, að það hljóti að skipta nokkru máli fyrir upphæð safnaðargjalda, hvort heldur er. Ef kirkjan er bændakirkja, þá á viðkomandi bóndi að kosta allt viðhald og endurnýjun kirkjunnar og söfnuðinum kemur sá kostnaður ekkert við. Ef hún er safnaðarkirkja, þá hvílir þessi skylda aftur á móti á söfnuðinum. Mér sýnist, að þetta skapi mjög misjafnar þarfir safnaða til að innheimta há safnaðargjöld. Það getur ekki verið, að sá söfnuður þurfi að hafa eins há gjöld hjá sér, sem þarf ekki að bera neinn veg eða vanda af viðhaldi kirkjunnar. Ég veit ekki, hvort nefndin hefur athugað þessa hlið.

Nú breytir þetta í sjálfu sér ekki því, að frv. að meðtalinni brtt. megi ekki vera eins og það er, því að jafnvel þótt 100 kr. safnaðargjald sé fyrirskipað eða þyki eðlilegt, þá er það sjálfsagt ekkert of hátt fyrir söfnuði, þvert á móti allt of lágt í fámennum söfnuði. En það, sem ég vildi sérstaklega vekja athygli hv. nefndar á, ef hún gefur sér tíma til að athuga málið frekar, er, hvort það sé ekki með öllu úrelt fyrirkomulag og óviðunandi að viðhalda svokölluðum bændakirkjum hér í landinu enn þá. Ég tala þarna út frá eigin reynslu, því að ég er ríkari en margir hv. þm. að þessu leyti, að ég á heila kirkju. Þessi kirkja er bráðum 100 ára, timburhjallur og er á góðri leið með að kveðja þennan heim. Hvað skeður þá? Hvað skeður, þegar þessi kirkja fer? (Gripið fram í: Þá áttu að byggja aðra.) Já, ég á að byggja aðra kirkju, segja lögin, eða öllu heldur 200 ára gamlar konungstilskipanir, held ég að það sé. Hvernig fer nú, ef kirkjubóndi hefur engan möguleika til þess að gera þetta, hefur engan fjárhagsmöguleika til þess? Hvað verður um kirkjuhaldið í þessum söfnuði, þegar kirkjan er farin? Bóndinn getur ekki byggt kirkjuna, hversu feginn sem hann vildi, söfnuðinum kemur það mál ekki við. Hver á að sjá söfnuðinum fyrir kirkju? (Gripið fram í: Er nokkur prestur þarna?) Já, en hann byggir aldrei kirkju. Prestarnir byggja þær ekki, þeir kosta ekki til kirknabygginga, svo að það breytir engu. Það er þessi hlið málsins, sem ég hefði viljað mælast til að hv. nefnd hefði athugað. Meira að segja, þetta gerðist á Vestfjörðum fyrir tiltölulega fáum árum. Kirkja varð ónýt. Hún var bændakirkja og bóndinn treysti sér ekki til að byggja aftur. Það gerðist ekkert annað þar en það, að það var engin kirkja til um langt tímabil. En er það það, sem Alþ. telur viðunandi?

Ég vil ekki neita því, að það megi fækka kirkjum í landinu, eftir að samgöngur eru orðnar gerólíkar því, sem áður var. En ekki hef ég orðið var við, að nein hreyfing sé í þá átt.

Þetta er vandamál, og það verður ekki komizt fram hjá þessu, og þetta verður einhvern veginn að leysa.

En þó að ég nefni þetta um bændakirkjurnar, þá gildir hér um bil það sama um sumar safnaðarkirkjur, þar sem söfnuðirnir eru orðnir mjög fámennir, kirkjurnar illa á sig komnar og efnahagur safnaðanna ekki til þess að endurbyggja kirkjur. Það getur alveg það sama komið á daginn þar.

Það var á það bent hér áðan af hv. 6. þm. Norðurl. e., að ekki hefði komið neitt annað frá kirkjunnar mönnum um þetta en það, sem felst í þessu frv., þ.e.a.s. frá kirkjuþingi eða kirkjunnar mönnum. Og það er rétt. Mér sýnist hér nokkur ljóður á, að kirkjunnar menn hafi ekki tekið þetta til rækilegrar athugunar. En kirkjunnar menn eru reyndar að mínum dómi alveg eins alþingismenn, því að þeir eiga að láta þessi mál til sín taka eins og hver önnur mál, ekki sízt þegar það berst svona upp í hendurnar á þeim eins og þetta frv. Þá eiga alþm. ekki að láta þetta lönd og leið, að ég tali nú ekki um þingmenn, sem eiga kirkjur. Það geta verið fleiri þingmenn en ég, sem þannig er ástatt um. Ég vil því taka undir þau ummæli hv. 1. þm. Vesturl., að nefndin athygli frv. á ný. Ég er ekki að fara fram á, að hún breyti neinu af því, sem hér liggur fyrir, — það er út af fyrir sig gott, það sem það nær, — en að hún athugi þær aðrar hliðar þessara mála, sem hér hefur verið drepið á, og ef henni sýnist svo, flytji um þetta till. eða frv. Mér sýnist, að hv. nefnd gæti gert það alveg eins, þó að ekki standi til að breyta neitt þessu frv. frekar en hún sjálf leggur til. Ég sé ekki, að það skaði neitt, þó að nokkur dráttur yrði á afgreiðslu þessa máls. Það er enginn ágreiningur um sjálft frv., eins og það er nú orðið með þessari brtt., og gengur sjálfsagt áfram, en það ætti að verða nægur tími til að afgreiða málið úr þessari hv. deild, þó að nefndin gæfi sér tíma til að athuga þær hliðar þessara mála, sem hér hefur verið drepið á.