13.02.1961
Efri deild: 57. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1346 í B-deild Alþingistíðinda. (1333)

158. mál, sóknargjöld

Frsm. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Við 2. umr. þessa máls kvöddu sér hljóðs nokkrir hv. þm. og vöktu athygli á því, að sú hækkun eða sú heimild til þess að hækka sóknargjöld, sem í frv. felst, væri ófullnægjandi til þess að leysa fjárhagsvandamál hinna minni safnaða úti um land. Jafnframt óskuðu þessir þingmenn, að fjhn. tæki þetta mál til nánari meðferðar, og báru fram ákveðnar ábendingar i því efni, svo sem þá að hækka hámark það á sóknargjöldum, sem leyft er samkvæmt frv. Ég lofaði því við 2. umr., að nefndin mundi taka þessar ábendingar til athugunar á milli umræðna. Hefur nefndin síðan haldið fund um málið, en niðurstaðan varð sú, að nefndin telur sér ekki fært að flytja frekari till. um hækkun sóknargjaldanna en í frv. felst og lítur þannig á, að eðlilegt sé, að það mál gangi í gegnum kirkjuþing, þótt öllum nm. muni vera fyllilega ljós sá vandi, sem hér er um að ræða. Hins vegar hafa einstakir nm. óbundnar hendur um till., er fram kynnu að koma frá öðrum, þótt nefndin sem heild treystist ekki til þess að flytja frekari brtt. við þetta frv.