07.02.1961
Neðri deild: 57. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1351 í B-deild Alþingistíðinda. (1353)

117. mál, ábúðarlög

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram brtt. á þskj. 316 við frv. til ábúðarlaga, og eru þær nokkuð í samræmi við það, sem ég ræddi hér um við 1. umr. þessa máls.

Áður en ég lýsi brtt. sjálfum, vildi ég leyfa mér að benda á, að ýmsar þær jarðir í landinu, sem hafa mikil hlunnindi, eru um skemmri eða lengri tíma í engri ábúð. Á ég þar sérstaklega við þær jarðir, sem hafa mikla dúntekju, allmikla selveiði, einnig sumar hverjar, sem hafa laxveiði og eigendur sjá sér meiri hag í því að láta jarðirnar liggja í eyði, hús og lönd níðast niður, en geta annaðhvort byggt jarðirnar eða notfært sér sjálfir hlunnindin og haft af þeim miklu meira fé en ef ætti að láta búa á jörðunum, sitja á jörðunum sjálfir eða leigja þær til annarra. Mér er persónulega kunnugt um, að sumar af þessum jörðum mundu vera í byggð, ef afgjaldinu væri stillt í hóf, en afgjald er venjulega miðað við það, hvað hlunnindin gefa af sér, og þá er freistingin sumpart hjá eigendunum sjálfum að nytja hlunnindin, selja dúninn eða selinn eða hvað annað, sem jarðirnar gefa af sér, en hugsa ekkert um jarðirnar sjálfar eða leigja þær til annarra aðila, sem þannig nytja jarðirnar. Þetta er hins vegar til stórkostlegra óþæginda og tjóns fyrir hreppana, sem jarðirnar eru í. Ég veit m.a., að ýmsar jarðir á Breiðafirði eru komnar í eyði beinlínis fyrir þessa ráðstöfun. Þess vegna tel ég nauðsynlegt, að það séu gerðar róttækar ráðstafanir til þess að koma þessum jörðum í ábúð, og það verður ekki gert, nema því aðeins að annaðhvort sé hægt að ráða nokkru um það, hvað eftirgjaldið er, eða þá jarðirnar séu með hæfilegu verði teknar af eigendunum og seldar þeim mönnum, sem vilja á þeim búa.

Ég veit, að till. hv. landbn. á þskj. 291 er tilraun til þess að reyna að bæta úr þessu, þar sem sagt er, að sveitarstjórnin skuli þá krefjast þess, að svona og svona sé farið með jarðirnar, sem lögin mæla fyrir um. En ég hef ekki trú á því, að þótt það verði samþ. að fyrirskipa þetta með lögum, þá verði á því nokkur veruleg bót. Þess vegna hef ég leyft mér að bera hér fram brtt. við 3. gr., það er a-liður, við 1. málslið 5. mgr. bætist: „á þreföldu fasteignamati, og skal kaupanda skylt að koma jörðinni i ábúð innan eins árs frá þeim degi, er jörðin var þannig af honum keypt“. Þá mundi allur þessi liður hljóða þannig, með leyfi hæstv. forseta: „Nú hefur jörð verið í eyði i þrjú ár eða lengur og rýrnað að búrekstrargildi af þeim sökum, og er þá jarðeiganda skylt að gefa hlutaðeigandi hreppi eða landnámi ríkisins kost á að kaupa jörðina“ — og við þetta á þá að bætast eftir minni tillögu — „á þreföldu fasteignamati, og skal kaupanda skylt að koma jörðinni í ábúð innan eins árs frá þeim degi, er jörðin var þannig af honum keypt.“ Það er ekki nægilegt frá mínu sjónarmiði, að eiganda sé skylt að gefa þessum aðilum kost á að kaupa jörðina. Það mundi hafa það í för með sér, að það yrði látið fara fram mat á eigninni, og af reynslunni mundi það mat byggjast á því, hvað hægt væri að hafa upp úr hlunnindunum, en engan veginn tekið tillit til hins, að jörðin væri sett í ábúð og hvað hægt væri þá að greiða í leigu fyrir jörðina, því að það er allt annað atriði, ef ábúandi á að standa undir því að hýsa jörðina, rækta hana og búa á henni eða hann á aðeins að standa undir því að greiða leigu af hlunnindunum. Þess vegna tel ég, að það sé nauðsynlegt að koma þessu ákvæði inn.

B-liður í brtt. er þannig, að 2. og 3. málsl. 5. gr. falli niður, en það er nauðsynlegt til leiðréttingar á greininni, ef a-liðurinn er samþykktur. Verði a-liðurinn felldur, mun ég að sjálfsögðu taka aftur b-liðinn, þar sem hann á þá ekki lengur við, og vil beina því til hæstv. forseta, að verði a-liðurinn felldur, þá að sjálfsögðu er b-liðurinn tekinn aftur.

2. brtt. er við 4. gr., að við 2. mgr. 4. gr. bætist: „eða fá jörðina keypta samkv. fyrirmælum 3. gr. þessara laga, ef söluverðið yrði með því lægra en kauptilboðið, enda uppfylli kaupandi skilyrði þau, sem 3. gr. setur hér um.“ Þessu er nauðsynlegt að bæta við, ef a-liður 1. brtt. verður samþykktur. Verði hann hins vegar felldur, er einnig 2. tölul. tekinn til baka, vegna þess að það er samhengi á milli þessara brtt. og seinni liðurinn afleiðing af samþykkt hinnar fyrri. En seinni till. er sett inn vegna þess, að það gæti svo farið, að kauptilboðið, sem hreppsnefnd og landnám hefði hafnað, væri hærra en þrefalt fasteignamat og þess vegna nauðsynlegt að hafa þessi ákvæði hér með, ef 1. brtt. verður samþ.

Ég skal ekki hafa þessi orð lengri, en það, sem vakir fyrir mér, er að gera ítrekaða tilraun til þess, að það sé hægt að laga þetta ófremdarástand í ýmsum hreppum landsins, einkum og sér í lagi þar, sem um hlunnindajarðir er að ræða, því að ég tel það alveg óverjandi, að slíkar jarðir séu látnar vera i eyði árum og áratugum saman, eins og reynslan hefur sýnt, vitandi, að á þessum jörðum eru framúrskarandi góð afkomuskilyrði, ef þær væru leigðar með nokkuð sanngjörnu verði. Þess vegna vænti ég þess, að þessar brtt. verði samþykktar.