26.01.1961
Efri deild: 48. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1356 í B-deild Alþingistíðinda. (1370)

161. mál, lögskráning sjómanna

Frsm. (Jón Árnason):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til umr., um lögskráningu sjómanna, hefur sjútvn. hv. d. leyft sér að flytja á þskj. 280. Frv. er flutt eftir beiðni hæstv. sjútvmrh., en undirbúning þess og aðdraganda má rekja til þess, er fram kemur í grg. með frv., að hæstv. ráðh. hafði þann 15. jan. 1960 skipað 5 manna nefnd til þess að endurskoða gildandi lög og reglur varðandi lögskráningu sjómanna. Í n. voru skipaðir Brynjólfur Ingólfsson deildarstjóri í samg.- og iðnmrn., Baldur Guðmundsson útgerðarmaður, eftir tilnefningu L.Í.Ú., Kristófer Eggertsson skipstjóri, eftir tilnefningu Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, Sigfús Bjarnason sjómaður, eftir tilnefningu Sjómannafélags Reykjavíkur, og Sveinn Þórðarson fulltrúi, eftir tilnefningu tollstjórans í Reykjavík. Í fjarveru og veikindaforföllum Kristófers Eggertssonar tilnefndi Farmanna- og fiskimannasamband Íslands Egil Hjörvar vélstjóra til þess að starfa í nefndinni í stað Kristófers, og sótti Egill nokkra fundi nefndarinnar. Nefndin aflaði sér upplýsinga um framkvæmd lögskráningar sjómanna hér á landi og lög þau og reglur, er um þessi mál gilda í Noregi, Svíþjóð og Bretlandi. Varð fullt samkomulag í n. um frv. þetta.

Lagafrv. það, sem hér um ræðir, er í fjórum köflum. I. kafli kveður á um lögskráningarskyldu og lögskráningarstjóra. II, kafli kveður á um lögskráningu á skip, önnur en fiskiskip, en þar er gerður nokkur greinarmunur á. III. kafli er svo um lögskráningu á fiskiskip. Og sá IV. er um almenn ákvæði.

Fyrstu íslenzku lagaákvæðin um lögskráningu sjómanna eru frá 22. marz 1890. Voru það ákvæði um lögskráningarskyldu og framkvæmd lögskráningar. Þessi fyrstu íslenzku lög um lögskráningu sjómanna giltu svo óbreytt allt til 1. jan. 1931, er núgildandi lög tóku gildi, en þau eru að mestu efnislega óbreytt frá því, sem áður var. Við samningu þessa frv. telja nm., að sé megintilgangurinn að setja gleggri ákvæði en nú eru um ýmis atriði og í því sambandi beri að leggja höfuðáherzlu á eftirtalin atriði, en þar segir í grg. með frv., með leyfi forseta:

„1) Lögskráning á að tryggja, að áhöfn skips sé lögleg, að ekki séu aðrir í skiprúmi á skipi en þeir, sem mega það lögum samkv. og hafa fært sönnur á fyrir lögskráningarstjóra, að þeir hafi lagalegan rétt til þess að gegna þeim störfum á skipinu, sem þeir eru ráðnir til.

2) Með lögskráningu er tryggt, að upplýsingar séu til um það, hverjir eru í skiprúmi á hverjum tíma.

3) Að gerðir séu glöggir samningar um kaup og kjör lögskráðra sjómanna með því að vitna í heildarsamninga, eða séu slíkir samningar ekki til, þá með því að skrá sérstaklega, hvaða kjör samið er um.

4) Með lögskráningu er skráður siglingatími sjómanna.“

Telja verður, að þessi fjögur atriði feli í sér megintilgang lögskráningar sjómanna, og er frv. samið með hliðsjón af því. Er því lögð áherzla á það í frv. að fella lögskráninguna í það form, að unnt sé í framkvæmd að tryggja sem bezt, að náð sé þessum megintilgangi laganna.

Svo sem ég áður hef sagt, er frv. þetta flutt af sjútvn. eftir beiðni hæstv. sjútvmrh. Einstakir nm. áskilja sér rétt til að bera fram eða fylgja brtt., sem fram kunna að koma við frv., og hafa að öðru leyti óbundnar hendur um afstöðu til þess. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um málið að þessu sinni, en legg til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. Þá tel ég ástæðulaust að vísa því til nefndar, þar sem sjútvn. hefur tekið að sér að flytja frv. og mun að sjálfsögðu taka það til nánari athugunar, á meðan hv, d. hefur málið til meðferðar.