21.02.1961
Neðri deild: 67. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1357 í B-deild Alþingistíðinda. (1377)

161. mál, lögskráning sjómanna

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Þetta frv. er hingað komið frá hv. Ed., þar sem það hefur verið afgreitt, að ég ætla alveg samhljóða og ágreiningslaust, en frv. var þar flutt eftir minni beiðni af hv. sjútvn.

Ástæðan til þess, að þetta frv. er flutt, eða aðdragandinn að flutningi þess er sá, að nokkru fyrir nýárið 1960 var ráðuneytinu bent á, að nokkrir erfiðleikar væru á lögskráningu sjómanna, þannig að talsverð brögð mundu að því vera, að menn réðust til skips og færu til skips án þess að vera skráðir á eðlilegan hátt, og var talið, að erfitt væri að ráða á því viðunandi bót, nema því aðeins að lögunum um lögskráningu sjómanna væri breytt verulega. Það varð þess vegna til þess, að hinn 15. jan. 1960, — Þetta var fyrir áramótin 1960, sem þessi ábending kom fram frá tollstjóranum eða þeim, sem annast skráninguna, — var svo skipuð n. til þess að endurskoða lögin, og voru skipaðir í n. fulltrúar frá flestum þeim aðilum eða öllum, sem nokkurra hagsmuna hafa þarna að gæta. Þar var fulltrúi frá Landssambandi íslenzkra útvegsmanna Baldur Guðmundsson, frá Farmanna- og fiskimannasambandinu Kristófer Eggertsson, frá Sjómannafélagi Reykjavíkur Sigfús Bjarnason og fulltrúi tollstjóra, Sveinn Þórðarson, ásamt með deildarstjóra í samgmrn., Brynjólfi Ingólfssyni. Þessi nefnd skilaði áliti nú tiltölulega nýlega, og er þetta frv., sem hér liggur fyrir, árangurinn af starfi hennar.

Fyrstu lagaákvæði um lögskráningu sjómanna munu vera þau, sem er að finna í lögskráningarbálki farmannalaga frá 1890 og giltu mikið til óbreytt fram til janúar 1930, en þá var á Alþ. lagt fram nýtt frv. um þetta efni, sem varð að lögum á því þingi. En eins og gefur að skilja, breytist margt á skemmri tíma en 30 árum rúmum, og hefur þess vegna þótt nauðsynlegt að endurskoða lögin og semja þau upp að nýju. Höfuðsjónarmiðin, sem ráðið hafa um samningu þessa frv., eru eftirfarandi: 1) Að lögskráningin tryggi, að áhöfn skips sé lögleg, að ekki séu aðrir í skiprúmi á skipi en þeir, sem mega það lögum samkvæmt og hafa fært sönnur á fyrir skráningarstjóra, að svo sé og að þeir hafi lagalegan rétt til þess að gegna þeim störfum á skipinu, sem þeir eru ráðnir til. 2) Að lögskráningin tryggi, að upplýsingar séu til um það, hverjir eru í skiprúmi á hverjum tíma. 3) Að gerðir séu glöggir samningar um kaup og kjör lögskráðra sjómanna með því að vitna í heildarsamninga, eða séu slíkir samningar ekki til, þá með því að skrá sérstaklega, um hvaða kjör sé samið. 4) Að með lögskráningunni er skráður siglingatími sjómanns. Annars eru upp í þessi nýju lög tekin ýmis atriði úr þeim gömlu og nýjum bætt við, eftir því sem ástæða hefur þótt til. Frv. fylgir mjög ýtarleg grg. og skýring á hverri grein laganna, sem ég tel óþarft að rekja, en vildi leyfa mér að leggja til, að frv. væri að lokinni þessari umr. vísað til hv. sjútvn.