23.03.1961
Neðri deild: 80. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1358 í B-deild Alþingistíðinda. (1379)

161. mál, lögskráning sjómanna

Frsm. (Birgir Finnsson):

Herra forseti. Sjútvn. hefur samþ. að mæla með því, að þetta frv. verði samþ. óbreytt, en einstakir nm. áskilja sér rétt til að flytja eða fylgja brtt.

Ég sé ekki ástæðu til að rekja efni frv. eða ræða um einstök atriði þess, því að grg., sem frv. fylgir, er mjög ýtarleg af hálfu n., er það samdi. En ég vil geta um eitt atriði, sem menn voru ekki að öllu leyti sammála um í sjútvn., þó að menn gerðu það ekki að ágreiningsatriði. Samkv. frv. skulu ekki gilda sömu reglur um lögskráningu á flutningaskip og lögskráningu á fiskiskip. Það eru ekki gerðar eins strangar kröfur til mætingar hjá skráningarstjóra, þegar um skráningu á fiskiskip er að ræða, og sú skoðun kom fram í n., að það þyrfti einnig að falla frá mætingarskyldu að einhverju leyti varðandi flutningaskip. En n. sá þó ekki ástæðu til að taka upp brtt, um þetta atriði, og eins og fyrr segir, mælir hún með samþykkt frv.