10.02.1961
Efri deild: 56. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1371 í B-deild Alþingistíðinda. (1433)

181. mál, heimild til að veita Guðjóni Ármanni Eyjólfssyni stýrimannaskírteini

Frsm. (Jón Árnason):

Herra forseti. Frv. það, sem hér um ræðir, sem er um heimild til handa samgmrh. til að veita Guðjóni Ármanni Eyjólfssyni sjóliðsforingja stýrimannsskírteini á íslenzkum skipum, er flutt af sjútvn. hv. d. eftir beiðni hæstv. samgmrh. Er hér um lagasetningu að ræða, sem er hliðstæð því, sem áður hefur átt sér stað, þegar eins hefur staðið á um menn, sem tekið hafa próf frá sjóliðsforingjaskólanum í Kaupmannahöfn, sem talið er að jafngildi fyllilega prófum við stýrimannaskóla Íslands. Einstakir nm. áskilja sér rétt til að bera fram eða fylgja brtt., sem fram kunna að koma við frv., og hafa óbundnar hendur um afstöðu til þess. Samkv. fskj. II með frv. þessu kemur fram, að skólastjóra stýrimannaskólans, herra Jónasi Sigurðssyni, hefur verið sent mál þetta til umsagnar, og upplýsir hann, að siglingafræðikunnátta sú, er Guðjón Ármann Eyjólfsson hefur öðlazt með fyrrnefndu sjóliðsforingjaprófi, jafnist fyllilega á við þá fræðslu í siglingafræði, sem stýrimannaskólinn í Reykjavík veitir.

Ég tel víst, að hv. alþm. liti svo á, að rétt sé að samþykkja frv., eins og á stendur. En í þessu sambandi þykir mér rétt að benda á, hvort ekki sé eðlilegast, að Alþingi gerði þá breytingu á siglingalöggjöfinni, sem heimili samgmrn. að veita slík réttindi, sem hér um ræðir, án þess að þess yrði þörf að flytja frv. til laga um hvern einstakling, svo sem verið hefur. Það ætti að vera nægjanlegt að leita umsagnar og meðmæla, t.d. skólastjóra stýrimannaskólans, Farmanna- og fiskimannasambands Íslands eða annarra skyldra aðila, þegar leitað er til ráðuneytisins með slík mál eins og þetta, sem hér um ræðir.

Ég mun svo ekki orðlengja frekar um málið að sinni, tel óþarft að vísa því til nefndar, eins og á stendur, en legg til, að málinu verði vísað til 2. umr. að þessari umræðu lokinni.