16.02.1961
Efri deild: 61. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1372 í B-deild Alþingistíðinda. (1438)

181. mál, heimild til að veita Guðjóni Ármanni Eyjólfssyni stýrimannaskírteini

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Ég ætla, að samkvæmt þingsköpum sé til þess ætlazt, að aðalumræða um mál fari fram við 2. umr., þá sé gerð rækileg grein fyrir hverju frv. í einstökum efnum, enda fer atkvgr, þá fram um hverja grein út af fyrir sig. Þess vegna er ætlazt til, að þá sé athugun á málinu lokið í nefnd. Ég held, að þetta fari ekki á milli mála. Þess vegna er það að fara aftan að siðunum, ef nú á að hespa mál í gegnum 2. umr., áður en nefnd hefur athugað það, áður en hún hefur fengið umbeðna umsögn og áður en nokkur veit, hver er afstaða hvers einstaks nefndarmanns til málsins. Þar að auki sé ég ekki nokkurn ávinning í þessu, því að ef allir eru sammála um málið og samhljóða verður álit n., þá gengur það væntanlega umræðulaust í gegnum 3. umr., svo að það kemur nákvæmlega sama út hvað tímann snertir við umr. hér í hv. deild. Ég vil því endurtaka ósk mína um, að málið sé tekið út af dagskrá.