17.03.1961
Efri deild: 75. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1372 í B-deild Alþingistíðinda. (1441)

181. mál, heimild til að veita Guðjóni Ármanni Eyjólfssyni stýrimannaskírteini

Frsm. (Jón Árnason):

Herra forseti. Þetta frv., sem hér er til umr., er flutt af hv. sjútvn. eftir beiðni samgmrh., en siðan það var til umr. hér seinast, hefur sjútvn. komið saman á fund og rætt málið frekar og sent það til umsagnar Farmanna- og fiskimannasambands Íslands. N. barst umsögn Farmannasambandsins, sem ég vil leyfa mér að lesa, með leyfi hæstv. forseta, — hún hljóðar svo:

„Stjórn FFSÍ hefur athugað frv. það, er hv. sjútvn. Ed. hefur sent oss til umsagnar, en það er um undanþágu til handa Guðjóni Ármanni Eyjólfssyni til að fá stýrimannsskírteini á íslenzkum skipum. Stjórn FFSÍ hefur komizt að þeirri niðurstöðu, að hún telji sér eigi fært að mæla með þessari undanþágu, og byggir skoðun sina á eftirfarandi atriðum:

Svo sem flestum er kunnugt, hefur sjóliðsforingjapróf frá Noregi og Danmörku verið áður viðurkennt jafngilt farmannaprófi frá stýrimannaskólanum í Reykjavík með sérstakri undanþágu frá Alþ., en síðan slíkar undanþágur voru síðast veittar, hafa aðstæður breytzt verulega. Frá því 1953 hefur með lögum frá Alþ. verið starfandi sérstök deild innan stýrimannaskólans fyrir skipstjórapróf á varðskipum ríkisins, þar sem starfandi stýrimenn á varðskipum hafa verið búnir undir vandasöm störf skipstjóra á slíkum skipum. Rík áherzla er lögð á íslenzk lög og réttarfar, enda mikilvægt atriði, þar sem mikið hefur reynt á þá kunnáttu skipstjórnarmanna á varðskipunum, eins og öllum er kunnugt. Vottorð það, sem fylgir frv. sjútvn., segir að vísu, að sjóliðsforingjapróf umsækjanda jafnist fyllilega á við próf frá stýrimannaskólanum hvað siglingafræði viðvíkur, en um kunnáttu í öðrum fögum er ekki sagt. Stjórn FFSÍ leyfir sér hins vegar að benda á það, að alls er prófað í 34 fögum við farmannapróf og eru aðeins 9 þeirra siglingafræði. Liggur því í raun og veru ekkert fyrir um samanburð á öðrum fögum, er snerta löggæzlu og íslenzk lög. Þá viljum vér benda á, að Alþ. hefur ekki áður talið, að sjóliðsforingjapróf frá Danmörku jafngilti skipstjóraprófi á varðskipum ríkisins, heldur aðeins stýrimannsprófi, enn fremur, að nú er starfandi á varðskipunum fjöldi stýrimanna, sem hafa rétt til þess samkvæmt íslenzkum lögum að þreyta skipstjórapróf á varðskipunum, þegar yfirvöldunum þóknast. Þykir oss því rétt, að hér eftir verði handhafar erlendra prófa í siglingafræði, sem óska þess að starfa á íslenzkum skipum, látnir þreyta tilsvarandi próf við sjómannaskólann. Mælum við af framangreindum ástæðum gegn frv.

Fyrir hönd stjórnar Farmanna- og fiskimannasambands Íslands,

Guðmundur Jensson.“

Mér var falið það sérstaklega af nefndarinnar hálfu að leita frekari umsagnar frá skólastjóra stýrimannaskólans, en samkvæmt fylgiskjali II, sem var með frv., er bréf frá skólastjóranum eða fyrir hönd skólastjórans, ritað af Jónasi Sigurðssyni, og þar er, eins og fram kemur í þessu bréfi frá Farmanna- og fiskimannasambandinu, upplýst, að Guðjón Ármann Eyjólfsson hafi öðlazt þekkingu eða menntun í siglingafræði, sem jafnist fyllilega á við það, sem stýrimannaskóli Íslands veitir.

Eins og fram kemur líka í umsögn Farmanna og fiskimannasambandsins, hefur það tíðkazt að undanförnu, að þeim mönnum, sem hafa hlotið próf frá sjóliðsforingjaskólum bæði í Noregi og eins í Danmörku, hafa verið veitt með sérstökum lögum hverju sinni réttindi til að verða stýrimenn á skipum hér við land. Skólastjóri stýrimannaskólans sagði enn fremur í sambandi við þennan mann, sem kemur þó ekki fram í fylgiskjali því, sem fylgir frv., að hann hefði meiri menntun á öðrum sviðum en stýrimannaskóli Íslands réði yfir að veita honum og af þeim sökum teldi hann sjálfsagt, að hann öðlaðist þessi réttindi, svo sem jafnan hefur verið, þegar eins hefur staðið á um slíka menn áður.

Ég mun því mæla með því, að frv. verði samþ., en vil þó taka fram, að ég teldi eðlilegra, að það væri ákveðið í eitt skipti fyrir öll með löggjöf á breiðari grundvelli, hvaða próf það eru frá erlendum skólum, sem talin væru jafngilda þeim prófum eða lærdómi, sem stýrimannaskóli Íslands veitir, og að þeir menn, sem hefðu slíka eða hliðstæða menntun, gætu þá án þess að þreyta próf við stýrimannaskólann hér öðlazt slík réttindi. Það virðist í alla staði vera eðlilegra, að slík ákvæði í lögum væru fyrir hendi, heldur en samþykkja lagafrv. um hvern einstakling, þegar svo stendur á eins og hér um ræðir.