02.03.1961
Neðri deild: 71. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1378 í B-deild Alþingistíðinda. (1462)

126. mál, matreiðslumenn

Frsm. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Iðnn. þessarar d. flutti í vetur frv. um bryta og matreiðslumenn á farskipum og fiskiskipum. Einstakir nm. áskildu sér þá rétt til þess að hafa óbundnar hendur um afstöðu til málsins. En síðan hefur n. tekið málið til frekari athugunar og orðið á eitt sátt um að mæla með frv. með breyt., sem n. gerir till. um og prentaðar eru með nál. á þskj. 417.

Frv. um þetta sama efni hafa nokkrum sinnum áður verið flutt hér á Alþ., en ekki náð fram að ganga.

N. hafa borizt umsagnir um málið frá eftirtöldum aðilum: Matsveina- og veitingaþjónaskólanum, Félagi framreiðslumanna, Félagi bryta í Reykjavík, Matsveinafélagi Sjómannasambands Íslands, Félagi matreiðslumanna, skipaskoðunarstjóra, Eimskipafélagi Íslands, Sambandi ísl. samvinnufélaga og Skipaútgerð ríkisins.

Tilgangur þessa frv. er að tryggja það, að á öllum skipum af þeim stærðum, sem í 1. gr. frv. er tilgreint, sé skylt að hafa matreiðslumenn, sem sérstaklega hafa til þess starfs lært. Ætti það að stuðla að öryggi áhafnar og farþega og hagkvæmni í rekstri, að þeir, sem matreiðslu og brytastörf annast, kunni sitt verk. Samkvæmt lögum um matsveina- og veitingaþjónaskólann er ætlazt til, að eins vetrar nám þar geri nemendurna færa um að gerast matsveinar og framreiðslumenn á fiskiskipum og flutningaskipum.

Í bréfi frá skólastjóra matsveina- og veitingaþjónaskólans til n. segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Matsveina- og veitingaþjónaskólinn hefur haldið námskeið fyrir fiskiskipamatsveina siðan árið 1951. Aðsókn að fyrstu námskeiðunum var mjög góð, en hefur nú hin síðustu ár verið sáralítil þrátt fyrir stöðugan skort á mönnum til þessara starfa, og tel ég aðalástæðuna fyrir því vera, að menn vilja ekki eyða tíma og fé í nám, sem ekki gefur þeim nein sérréttindi til starfsins að námi loknu, enda hafa margir hætt við þátttöku í námskeiðunum, þegar þeir hafa fengið þær upplýsingar, að þeir fengju engin réttindi, þótt þeir hefðu lokið 8 mánaða matreiðslunámskeiði. Ég tel því mjög aðkallandi, að frv. til laga um bryta og matreiðslumenn á farskipum og fiskiskipum verði sem allra fyrst samþ. af hinu háa Alþ:

Ef frv. þetta verður að lögum, má ætla, að bót verði ráðin á þessu, sem skólastjórinn bendir á.

Eins og þm. sjá, eru ásamt nál. prentaðar nokkrar brtt. frá n., en þær eru byggðar á leið beiningum ýmissa þeirra aðila, sem sent hafa umsagnir um málið.

Fyrst er orðalagsleiðrétting á 1. gr. samkv. ábendingu skipaskoðunarstjóra. Að athuguðu máli þótti 2. mgr. 1. gr. óþarflega strangt ákvæði, og lagt er til, að lögin segi aðeins, að skylt sé, að þau skip, sem eru 50 rúmlestir eða stærri, verði skyld til að hafa matsveina. En í frv. óbreyttu er miðað við 25 rúmlesta lágmark.

Þá gerir n. brtt. við 4. gr. Ástæðan fyrir því er ósamkomulag, sem verið hefur milli framreiðslumanna og matreiðslumanna um efni 4. gr., eins og hún er prentuð í frv. Þar er framreiðslumönnum lögð á herðar lengri starfsskylda til að geta öðlazt réttindi en matreiðslumönnum. Á þetta hafa framreiðslumenn ekki viljað fallast. En nú hafa fulltrúar þessara stétta komið sér saman um lausn á þessum ágreiningi, og kemur hún fram í þeirri brtt. við 4. gr., sem nefndin hefur tekið upp. Þar er fellt niður skilyrðið um starfsskyldu tiltekinn tíma til að fá réttindi.

Í 5. gr. frv. er ákvæði, sem tryggja á rétt þeirra, sem eru við störf í þeim greinum, sem frv. fjallar um, til áframhaldandi starfa. Leggur n. til, að sú heimild verði rýmkuð, þannig að þeir, sem þegar hefðu öðlazt reynslu í starfi, gætu fengið rétt til þess, þótt þeir stundi það ekki í bili, þegar lögin taka gildi, ef starfstíminn hefur verið eitt ár eða meira.

Í 6. gr. er undanþáguákvæði, sem beita mætti, ef skortur yrði á mönnum til starfa, sem uppfylli þau skilyrði, sem lögin setja.

Með tilliti til þessara brtt., sem raktar hafa verið, og leiðbeininga þeirra, sem ætla má að bezt þekki þessa hluti, hefur n. að athuguðu máli talið rétt að leggja til við hv. þd., að frv. verði samþ.