13.12.1960
Neðri deild: 37. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 72 í B-deild Alþingistíðinda. (147)

133. mál, almannatryggingar

Frsm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Á s.l. ári voru í sambandi við efnahagsmálaráðstafanir hæstv. ríkisstj. framkvæmdar stórfelldar umbætur í tryggingamálum þjóðarinnar. Fjölskyldubætur voru hækkaðar mjög og eru nú greiddar með hverju barni. Mæðralaun voru hækkuð og aðrar bætur lífeyristrygginganna, svo sem ellilífeyrir. örorkulífeyrir, barnalífeyrir, fæðingarstyrkur, ekkjubætur og ekkjulífeyrir, hækkuðu einnig mjög verulega. Jafnframt voru slysabætur hækkaðar. Allar miðuðu þessar hækkanir á bótum og lífeyrisgreiðslum að auknu félagslegu öryggi og bættri aðstöðu sjúkra og aldraðra, barnmargra fjölskyldna og þeirra, sem orðið hafa fyrir slysum eða öðrum skakkaföllum í lífinu.

Með frv. því, sem hér liggur fyrir til 2. umr., er fyrst og fremst stefnt að niðurfellingu þeirra skerðingarákvæða, sem í lögum hafa verið um greiðslu ellilífeyris. Þessi ákvæði hafa komið í veg fyrir það að meira eða minna leyti, að gamalt fólk, sem leggur sig fram um öflun tekna, njóti ellilífeyris. Mun það almenn skoðun, að slík skerðing ellilífeyris sé hvorki æskileg né sanngjörn. Það er óheppilegt, að með lagaákvæðum um tryggingamál sé beinlínis dregið úr starfsvilja gamla fólksins. En nú er lagt til, að þessi ákvæði séu felld úr gildi og að frá næstu áramótum valdi tekjuöflun ellilífeyrisþega ekki skerðingu eða frádrætti á lífeyri þeirra.

Þetta mun samtals hafa í för með sér 21.9 millj. kr. útgjaldaaukningu á árinu 1961. Af þeirri upphæð greiðir ríkissjóður 7.9 millj. kr. eða 36%, hinir tryggðu 7 millj. kr. eða 32%, sveitarfélögin 4 millj. kr. eða 18% og atvinnurekendur 3 millj. kr. eða 14%.

Heilbr.- og félmn. þessarar hv. d. hefur rætt þetta frv. í dag og mælir einróma með, að það verði samþykkt óbreytt. Hér er um að ræða merka umbót á tryggingalöggjöf þjóðarinnar, — umbót, sem verða mun fjölda aldraðs fólks í landinu til hagræðis og aukins öryggis á efstu árum þess.