24.03.1961
Efri deild: 82. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1380 í B-deild Alþingistíðinda. (1473)

126. mál, matreiðslumenn

Fram. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér um ræðir, gerir ráð fyrir þeirri skyldu að hafa matreiðslumenn og/ eða bryta á skipum yfir 800 rúmlestir, en á skipum 50–800 rúmlestir er aðeins skylt skv. frv. að hafa matsvein. Í 2. gr. frv. er nánar kveðið á um, hvernig öðlast skuli réttindi til þessara starfa. Í 3. og 4. gr. er eingöngu miðað við réttindi og skyldur varðandi farþega- og flutningaskip, og eru iðnréttindi þar áskilin hliðstæð því, sem gerist um störf iðnaðarmanna í landi. 5. og 6. gr. frv. eru varðandi undanþágur frá ákvæðum laganna og koma til móts við rök þeirra aðila, sem gert hafa athugasemdir við frv., svo sem Landssambands ísl. útvegsmanna og Félags ísl. botnvörpuskipaeigenda.

Nú munu liðin ein 5 eða 6 ár frá því, að frv. svipaðs efnis var flutt fyrst hér á Alþingi, en um það var upphaflega ágreiningur milli matreiðslu- og framreiðslumanna. En sá ágreiningur hefur nú að fullu verið jafnaður, og mæla báðir aðilar nú með framgangi málsins. Fáum mun blandast hugur um, að æskilegt sé, að sem bezt þjálfaðir menn sjái um þessi störf: Í fyrsta lagi vegna þeirra, sem oft um langan tíma dveljast fjarri heimilum sínum við störfin á hafi úti. Í öðru lagi verður að telja hagkvæmara fyrir þá, sem bera kostnað af slíkum störfum, að þar komi til sem bezt þekking og þjálfun.

Frv. hefur tekið nokkrum breytingum í samræmi við fyrrnefnt samkomulag frá því, sem það var upphaflega flutt. Iðnn. hefur rætt frv. og mælir með samþykkt þess óbreytts, eins og það er á þskj. 444.

Það skal þó fúslega viðurkennt, að um tonnatölu þá, sem ákveðin er með frv., má nokkuð deila, þegar sett er löggjöf um þetta efni í fyrsta sinn. En á þessu stigi málsins skal ekki farið nánar út í þá sálma.

Einstakir nm. áskilja sér þó rétt til að flytja eða fylgja brtt., ef fram kunna að koma.