16.02.1961
Efri deild: 61. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1386 í B-deild Alþingistíðinda. (1492)

173. mál, sveitarstjórnarlög

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Frv. þessu var útbýtt hér á Alþingi 30. jan. og tekið til 1. umr. í þessari hv. deild 2. febr. Það skal játað, að mér hafði ekki gefizt tími til að lesa þetta stóra frv., áður en 1. umr. þess fór fram hér í deildinni, en á milli umræðna hef ég litið yfir frv., án þess þó að ég hafi grandskoðað það, en við fljótan yfirlestur hef ég komið auga á nokkur atriði, sem mér finnst rétt að vekja athygli á nú við þessa umr.

Þetta frv. hefur fengið mjög góðan undirbúning, að ég ætla. Það mun vera samið af milliþn., sent til athugunar til sveitarstjórna, samræmt á vegum félmrn. að umsögnum fengnum og nú flutt af þingnefnd, og á meðan þetta mál hefur legið hér fyrir þinginu, ætla ég, að það hafi verið athugað á fulltrúaráðsfundi Sambands íslenzkra sveitarfélaga.

Mál, sem þannig er undirbúið, er þess eðlis, að það er hæpið, að einstakir þingmenn fari að flytja við það brtt., a.m.k. án þess að vekja eftirtekt nefndarinnar, sem málið flytur, á þeim atriðum, sem hver þm. kynni að hafa hug á að fá breytt. Ég hef því tekið þann kost að gera ekki brtt., ekki að svo stöddu, en ætla að gera nokkrar athugasemdir við einstakar greinar frv. í ræðu nú við þessa umr., í trausti þess, að nefndin, sem málið flytur og hefur það til meðferðar, gefi þeim gaum og athugi, áður en málið verður afgr. í deildinni, um afstöðu sína til þessara efnisatriða, sem ég bendi á. Ég vil taka fram, að ég geri ekki kröfu til þess, að þessari umr. verði frestað, heldur tel ég, að þingnefndin hafi í raun og veru málið til meðferðar, á meðan það er hér í deildinni, hún geti komið við athugun þess að nýju á milli 2. og 3. umr.

Þó að mál þetta sé vel undirbúið, eins og ég hef getið um, og ég álíti það rétt, sem frsm. nefndarinnar tók fram við 1. umr., að með þessu stóra frv. væri ekki stefnt að því að gera byltingu í sveitarstjórnarmálum, heldur miklu fremur hinu, að samræma dreifð og sundurleit lagaákvæði, ber þess að gæta, að sveitarfélögin í landinu eru mörg og hafa misjafnar þarfir og misjafna aðstöðu. Það er mjög mikill munur á aðstöðu hinna fámennustu og aftur hinna stærstu. Og í annan stað er þess að gæta, að með þessu frv. á að nema úr lögum samkvæmt 110. gr. þess hvorki meira né mínna en 20 lög, sem nú eru í gildi. Það er því augljóst, að í sambandi við svona lagasetningu er margs að gæta, og má segja, að seint sé svo grandskoðað, að ekki megi eitt og annað betur fara.

11. gr. þessa frv., stafliður f, hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Samþykki sýslunefndar þarf til þess, að ályktun hreppsnefndar sé gild um eftirtalin atriði: 1) Lántökur vegna hreppsins, sem nemi meira en álögð útsvör í hreppnum það ár. 2) Sala eða veðsetning fasteigna hreppsins svo og kaup nýrra fasteigna. 3) Ólögboðnar skuldbindingar, sem gilda eigi langan tíma. Nú synjar sýslunefnd um samþykki til ráðstöfunar, sem um ræðir í staflið þessum, og er þá hreppsnefnd rétt að bera málið á sveitarfundi, sbr. 31. gr., undir atkv. Hljóti ályktun hreppsnefndar 3/4 hluta atkv., skal hún vera gild án samþykkis sýslunefndar.“

Efni þessa málsliðs er ekki nýmæli. Ég ætla, að efni hans sé að mestu eða öllu í samræmi við gildandi lög. En þrátt fyrir það, þegar verið er að setja löggjöf um þetta að nýju, þá ber auðvitað að skoða þetta efnisatriði sem önnur. Mín skoðun er sú, að það eigi ekki að takmarka valdsvið löglega kjörinna hreppsnefnda til ráðstöfunar um skör fram og að eins og þessi stafliður greinarinnar er orðaður, þá sé helzt til langt gengið í þessu efni. Ég bendi sérstaklega á tölulið 2: sala eða veðsetning fasteigna hreppsins svo og kaup nýrra fasteigna. Í gildi eru lög um kauprétt á jörðum. Eitt ákvæði þeirra laga er það, að hreppsnefnd eigi í víssum tilvikum forkaupsrétt. Ég ætla, að það sé ekki tekið fram í þeim lögum, að hreppsnefnd geti ekki neytt þessa réttar, án þess að samþykki sýslunefndar komi til, en eins og þetta orðalag er um kaup nýrra fasteigna, þá hygg ég, að kaup á jörð innan hreppsins hljóti að falla undir þessa grein. Ég ætla einnig, að það sé andi þeirra laga um kauprétt á jörðum, að hreppsnefnd geti ákveðið, hvort hún notfæri sér þennan rétt eða ekki, á eigin spýtur. M.a. mun vera svo kveðið á, að hreppsnefnd verði að svara tilboði um, hvort hún notar kauprétt eða ekki, innan 15 daga, frá því að tilboðið berst, og virðist mér leiða af því, að það sé naumast ætlunin, að á þeim skamma tíma sé gert ráð fyrir, að sýslunefnd fjalli um málið. Enn fremur er það svo, að sýslunefnd er í sveitarstjórnarlögum eða skipulagi um sveitarstjórnarmál yfirleitt skoðuð sem æðra dómstig eða aðili æðra settur en hreppsnefnd. Nú er hér svo fyrir mælt, að synji sýslunefnd um samþykki til ráðstöfunar, sem um ræðir í staflið þessum, þá sé hreppsnefnd rétt að bera málið upp á sveitarfundi undir atkvæði, og hljóti ályktun hreppsnefndar 3/4 hluta atkv., skal hún vera gild án samþykkis sýslunefndar. Þetta þýðir það, að þó að hreppsnefnd leiti til sýslunefndar, þá getur hún ógilt úrskurð sýslunefndar og haft hann að engu, ef málinu er síðar vísað heim til hreppsins aftur og þar fást 3/4 hlutar atkv. með málinu. Ég hygg, að þetta sé ekki nýmæli, en mér finnst þessi málsmeðferð ekki að öllu leyti eðlileg eða æskileg. Mér finnst eðlilegra, að málið fái fullnaðarathugun og úrskurð af sveitarfélaginu og að til úrskurðar sýslunefndar komi aðeins í þeim tilvikum, þar sem lögleg afgreiðsla næst ekki heima fyrir.

Í 20. gr. er fjallað um kosningu í sveitarstjórnir, og í undanfarandi gr. eru ákvæði um það, hvenær sveitarstjórnarkosningar skuli vera hlutbundnar og hvenær þær megi vera óhlutbundnar. Þegar kosið er hlutbundnum kosningum, þá er kosning varamanna mjög einföld, leiðir alveg af kosningafyrirkomulaginu, en þegar kosning er óhlutbundin í sveitarfélagi, þ.e.a.s. í hreppsnefnd, þá eru miklu meiri vandkvæði á um kosningu varamanna, og mér er kunnugt um það, að á ýmsum stöðum á landinu hefur þessu atriði einmitt verið gefinn sérstakur gaumur með tilliti til þeirrar reynslu, sem fengin er, og hve erfitt hefur reynzt að framkvæma þau ákvæði, sem að þessu lúta í gildandi lögum. Í gildandi lögum er kosning varamanna í hreppsnefndir, þegar kosning er óhlutbundin, heimiluð, en ekki lögskipuð. Það segir svo í 3. gr. laga nr. 81/1936: „Eigi er skylt að kjósa varamenn í hreppsnefndir, þar sem hreppsnefndarkosningar eru óhlutbundnar.“ Þetta ber að skilja svo, að það sé heimilt, en eigi skylt. En þar sem þessi heimild er notuð, — og það hefur í sumum hreppum verið gert, það er mér kunnugt um, — þá er ákvæðið um framkvæmd kosninganna að þessu leyti í gildandi lögum þannig skv. 27. gr. laga nr. 81 1936: „Ef um óhlutbundnar kosningar er að ræða, fer talning atkvæða fram með þeim hætti, að formaður kjörstjórnar les upp nöfnin, sem á kjörseðlinum standa, og réttir hann svo meðkjörstjórum til athugunar, en þeir skrifa tölurnar niður jafnóðum. Þeir, sem flest atkvæði fá, eru réttkjörnir. Þegar úrslit eru kunn um kosningu aðalmanna, byrjar kosning varamanna, og fer um hana á sama hátt.“ Þetta eru ákvæði gildandi laga.

Með þessu frv. á að gera hér breytingu á. Það á að gera það að skyldu að kjósa varamenn, þó að kosning sé óbundin. Það á ekki lengur að vera heimild, heldur skylda. Síðasti málsl. 1. málsgr. 20. gr. frv. er þannig orðaður: „Þegar kosning er óbundin, skal kjósa jafnmarga varamenn og aðalmenn eru.“ Hér er ekkert meira um þetta sagt, enginn stafur um framkvæmd kosningarinnar. Ég tel, að þannig megi ekki ganga frá þessari löggjöf, að ekki séu sett ákvæði um framkvæmd á kosningu varamanna, þegar kosning í hreppsnefnd er óbundin. Og þá sýnist mér, að það geti komið þrjár reglur til álita eða athugunar:

Ein er sú að halda þeirri reglu í lögum, sem nú er í gildandi lögum og ég gat um áðan. Hún hefur þann kost í för með sér, að þá liggur fyrir, hverjir hafi hlotið sæti aðalmanna í hreppsnefnd, áður en kosning varamanna hefst. En þessari tilhögun fylgja miklir annmarkar, og mér er kunnugt um, eins og ég sagði áðan, að eftir því hefur verið tekið i ýmsum hreppum hér í landinu. Það eru þeir annmarkar, að ef kosning varamanna getur ekki hafizt, fyrr en búið er að telja atkvæði aðalmanna, þá verður að halda öllum kjósendum í grennd við kjörstað, þangað til kosningu aðalmanna er lokið, eða þá að það séu hafðir tveir kjördagar og að kosning varamanna fari fram degi seinna en kosning aðalmanna. Nú er þetta kosningafyrirkomulag einungis í sveitahreppum, þar sem um langan veg er að fara og kjósendur oft önnum kafnir. Það hefur því leitt af þessum ákvæðum, að það hefur á ýmsum stöðum jafnvei ekki þótt gerlegt að koma við kosningu varamanna, og þar sem hreppar eru svo stórir, að kjördeildir eru fleiri en ein, þá er nær útilokað, að kosning varamanna eftir þessari reglu, sem í gildi er, geti farið fram á sama kjördegi og kosning aðalmanna.

Önnur regla, sem mér finnst koma til álita og vert að íhuga, er sú, að kosningunni yrði þannig hagað, að hver kjósandi skrifi á seðil helmingi fleiri nöfn en aðalmenn í hreppsnefnd eiga að vera og síðan sé bara atkvæðatalan látin skera úr, þeir 5, sem flest atkvæði fá, séu aðalmenn og svo fari tala varamanna eftir atkvæðatölunni þar fyrir neðan. En þá þarf jafnframt að athuga það, hvernig varamenn, sem þannig yrðu kosnir, eiga að taka sæti, þ.e.a.s. hver er varamaður hvers, hvort það verður ákveðið að kosningu lokinni, eða hvort sá, sem er varamaður og flest atkvæði hefur fengið, á að taka sæti það, sem losnar hverju sinni, hvaða aðalmaður sem á í hlut.

Þriðja reglan, sem mér finnst líka koma til athugunar og þurfi að skoða, er sú að halda aðgreindri kosningu aðalmanna og varamanna, þannig að hver kjósandi fái tvo atkvæðaseðla, gjarnan auðkennda eða með sitt hvorum lit, og kjósi aðalmenn á annan seðilinn, en varamenn á hinn, og síðan ráði atkvæðatala í hvorum flokki um kjör aðalmanna og varamanna.

Þessa bendingu vil ég gefa og legg á það áherzlu, að þessi hv. d. skilji ekki þannig við þetta mál, að ekki séu einhver skýrari ákvæði sett um frv. en nú eru að þessu leyti.

33. gr. frv. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Bæjarstjórn ræður bæjarstjóra. Ráðningartími hans skal jafnan vera hinn sami og kjörtími bæjarstjórnar. Hafi bæjarstjóri verið ráðinn til lengri tíma, skal þó hvorum aðila heimilt að kjörtímabili loknu að segja ráðningarsamningi upp með sex mánaða fyrirvara. Nú næst eigi meiri hluti í bæjarstjórn fyrir ráðningu bæjarstjóra, svo að hann er í andstöðu við meiri hluta bæjarstjórnar, og getur ráðh. þá ákveðið, að bæjarstjórnarkosningar skuli fara fram á ný.“

Mér virðist, að þessi ákvæði, eins og þau standa í frv., taki fyrst og fremst til þess, þegar bæjarstjórn er nýkosin og það fellur í hennar hlut — nýkosinnar bæjarstjórnar — að gera ráðningarsamning við bæjarstjóra og í því sambandi myndast meiri og minni hluti innan bæjarstjórnarinnar. Nú er dæmi þess, og það er ekki aðeins fræðilegt, heldur raunverulegt dæmi, sem ég ætla að víkja að, en ekki að öðru leyti að gera þau málsatvik að umræðuefni, og ég mínni ekki á þetta dæmi heldur í sambandi við það, að mannaskipti hafa orðið hér í hv. d., en það liggur fyrir raunverulegt dæmi um það, að breytingar á valdaaðstöðu innan bæjarstjórnar hafa átt sér stað á miðju kjörtímabili, án þess að kosningar hafi farið fram. Og þær breytingar á meirihlutaaðstöðu hafa haft það í för með sér, að bæjarstjóra, sem ráðningarsamning hafði, hefur verið sagt lausu starfi. Mér skilst málsatvik vera þau, að starfinu hafi verið sagt lausu án saka, án þess að uppsagnarfrestur kæmi til frá hvorugum aðila og án þess að nokkur réttur fylgdi til launa um ákveðinn tíma eða skaðabóta, heldur verði þá að taka það mál upp sérstaklega og reka það fyrir dómstólum. Mér skilst, að dómsúrskurður sé fyrir hendi um það, að ef nýr meiri hluti myndist í bæjarstjórn, valdahlutfall breytist, þá geti sá nýi meiri hluti hafnað starfi bæjarstjóra, sem áður hafi verið ráðinn, en lengra nái dómsúrskurður ekki, og að í þessu efni sé ekki í lögum tryggður neinn uppsagnarfrestur frá hvorugum aðila og ekki réttur til ákveðinna bóta eða kaupgreiðslu um víssan tíma. Ég endurtek það, að ég ætla ekki að öðru leyti að draga þessi málsatvik inn í þessar umr., en mér finnst þessi grein þessa frv. vera þess eðlis, að það sé full þörf á því fyrir löggjafann að hafa hliðsjón af þessu raunhæfa dæmi, sem hefur gerzt, og koma inn í lögin eins skýrum ákvæðum og við verður komið um það, hvernig með skuli fara, ef svona málsatvik eiga sér stað, og hver sé réttur hvors aðila um sig, bæjarstjórnarmeirihlutans annars vegar og bæjarstjórans hins vegar, í slíkum tilfellum.

Í 42. gr. þessa frv. er tekið upp nýmæli, sem að ýmsu leyti horfir til bóta, þ.e. að heimilt er tveim hreppum eða fleiri, sem hafa samtals meira en 500 íbúa, að ráða einn sveitarstjóra sameiginlega. Ég er þessu út af fyrir sig meðmæltur, en vil aðeins benda á, að í þessari grein segir ekki um það, hvernig með skuli fara, ef einhvern tíma á kjörtímabilinu, meðan ráðningarsamningur er í gildi, kemur upp ágreiningur milli þeirra sveitarfélaga, sem ráðningarsamning hafa gert í öndverðu, um það, að annað eða sum vilja halda starfi sveitarstjórans, en önnur vilja hverfa frá þeirri skipan, hvort ekki sé ástæða til, að einhver ákvæði komi inn í greinina, sem ákveða þetta.

Mér virtist við fljótan yfirlestur, að í 59. gr. væri misrituð tilvitnun í lagagrein, en það segi ég aðeins nefndinni til athugunar. Þar segir: „Að lokinni afgreiðslu ársreikninga skv. 58. gr. skal senda Hagstofu Íslands eitt eintak af reikningunum í því formi, sem ákveðið hefur verið skv. 52. gr. laga þessara.“ Mér virðist það vera 53. gr., sem fjallar um form reikninganna. Þar segir: „Félagsmálaráðuneytið ákveður í samráði við Hagstofu Íslands form fyrir ársreikninga sveitarfélaga.“

Næst ætla ég að víkja fáum orðum að 61. gr. Greinin hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Komi í ljós, að sveitarstjórn hafi þrátt fyrir áminningar sýslumanns eða sýslunefndar, ef um hreppsfélag er að ræða, vanrækt ákvæði laga þessara um bókhald og reikningsskil eða á einhvern hátt beitt valdi sínu ranglega, skal ráðuneytið hlutast til um rannsókn og endurskoðun á bókhaldi, fjárreiðum og rekstri hlutaðeigandi sveitarfélags eins fljótt og verða má. Ráðuneytið skal leggja fyrir sveitarstjórn að laga það, sem ábótavant kann að reynast, innan hæfilegs frests, sem ráðuneytið ákveður.“

Þessa grein finnst mér að verði að lesa og skoða í samhengi við 92. gr. frv., stafl. a og b. En í upphafi 92. gr. er það ákveðið hlutverk sýslufélaga að annast eftirlit með öllum fjárreiðum allra hreppa innan sýslufélagsins, endurskoðun og úrskurðun ársreikninga þeirra svo og allra fyrirtækja, sem rekin eru á vegum hreppanna, og umsjón með því, að hreppsnefndirnar starfi yfirleitt í sveitarstjórnarmálum samkv. gildandi lögum og reglugerðum. Mér finnst, að í 61. gr. sé ekki gerður nægur munur á bæjarfélögum annars vegar, þar sem sýslunefnd er ekki milliliður milli þeirra og ráðuneytis, og hreppum hins vegar, þar sem sýslunefnd er milliliður milli hrepps og ráðuneytis og sýslunefnd hefur að lögum ákveðnu hlutverki að gegna í þessum efnum. Nú er þess að gæta, að sýslumaður er í senn héraðsdómari og oddviti sýslunefndar og fjárhaldsmaður sýslusjóðs. En í þessari grein er aðeins talað um „þrátt fyrir áminningar sýslumanns eða sýslunefndar“, og liggur jafnvel nærri eftir orðalagi greinarinnar, að ráðuneytið geti hlutazt til um rannsókn á fjárreiðum hreppsfélags, eins og segir, ef ráðuneytið kemst að því eftir einhverjum leiðum, að þarna sé ábótavant, án þess að sýslumaður eða sýslunefnd eigi frumkvæði að því, að slík rannsókn fari fram. Ég vil benda nefndinni á, hvort ekki sé ástæða til að skipta þessari grein f tvær málsgreinar, þar sem annars vegar séu ákvæði, sem henta bæjarfélögunum, og hins vegar ákvæði, sem séu meira sniðin við hreppana og með tilliti til sýslunefndanna heldur en orðalag þessarar greinar bendir til.

Þessu næst ætla ég að drepa á ákvæði í 78. gr. Þar er fjallað um lánasamninga, sem gerðir kunna að vera vegna sveitarfélags, — skuldaskil. Og í 2. mgr. gr. segir: „Við þessi skuldaskil skal verðmæti eigna, sem eigi verða seldar, samkv. 11, gr. laga þessara, ákveðið með mati þriggja dómkvaddra manna. Draga skal frá matsverði þann hluta, sem ríkissjóður kann að hafa lagt til eignanna.“ Ég hef ekki fengið næga skýringu á því, hvorki í framsöguræðum fyrir þessu máli né í greinargerð, hvers vegna ber nauðsyn til að taka yfirleitt með þær eignir, sem verða ekki seldar samkv. 11. gr. En ef það er við nánari athugun talið nauðsynlegt, þá verður að gera ráð fyrir því, að þessar eignir fyrnist, þannig að matsverð verði lægra en upphaflegt kostnaðarverð, sem hlutdeild ríkissjóðs var miðuð við, og finnst mér, að það þurfi að vera skýrt í sambandi við þessa lagasetningu, að hlutur ríkissjóðs fyrnist þá eða lækki að mati í réttu hlutfalli við matsverð eignarinnar í heild, og geri ég raunar ráð fyrir, að það sé andi þessarar greinar, þótt orðalagið mætti vera skýrara.

Að lokum ætla ég að fara örfáum orðum um 95. gr. Greinin er svo hljóðandi: „Sýslunefndarmenn skulu kosnir með leynilegum almennum kosningum. Ákvæði 16.—19. gr. laga þessara gilda, eftir því sem við á, um kosningu sýslunefndarmanna. Við kosningu til sýslunefnda er heimilt að viðhafa framboð.“

Eins og lög um sveitarstjórnarkosningar eru nú, þá er skylt í sumum sveitarfélögum að viðhafa hlutfallskosningu og í öðrum heimilt, ef víss skilyrði eru fyrir hendi. Þessari reglu er í megindráttum haldið í þessu frv. En ef sýslunefndarmaður er kosinn, þá er aðeins um kjör á einum manni og einum varamanni að ræða í hverjum hreppi. Um kosningu sýslunefndarmanna segir svo í 34. gr. gildandi laga um þetta efni: „Kosningu sýslunefndarmanna skal haga á sama hátt og hreppsnefndarkosningum.“ Þetta mun a.m.k. sums staðar á landinu, þar sem ég er kunnugur, hafa verið skilið þannig, að ef kosning í sveitarstjórn í einu sveitarfélagi er hlutbundin, þá skuli haga kosningu sýslunefndarmanns í því sveitarfélagi á sama hátt, þannig að þá komi fram í raun og veru listar, — þó að hlutfallskosning njóti sín ekki, þegar svo fáir eru kosnir, þá komi samt fram listar, sem kosið sé um. En á hinn bóginn þar sem hreppsnefndarkosning er óbundin, þá leiðir það af sjálfu sér, að kosning sýslunefndarmanns sé einnig óbundin í því sveitarfélagi. Nú segir í 95. gr. í þessu frv., að það beri að skilja greinina þannig, að það eigi að vera meginregla, að kosning sýslunefndarmanns sé óbundin, en hitt sé fremur undantekning, það sem segir í síðustu mgr.: „Við kosningu til sýslunefnda er heimilt að viðhafa framboð.“ Út af fyrir sig hef ég ekkert að athuga við þetta efnislega, en ég vil að lokum vekja athygli á því, þar sem talað er um, að heimilt sé í þessu efni, að það segir ekkert, hver á að úrskurða, hvort heimildin er notuð eða ekki. Mér skilst, að það falli ekki undir ákvæði, sem áður er i frv. um kröfu 25 kjósenda, eða slíkt. Mér finnst í fljótu bragði liggja helzt við að skilja það svo, að fráfarandi sveitarstjórn, sem undirbýr kosninguna, eða þá kjörstjórn eigi að ákveða það á eigin spýtur, hvort þessi heimild verði notuð eða ekki notuð, en mér þykir ástæða til, að orðalag um þetta sé skýrara en nú er í frv.

Ég vænti þess, að nm., sem standa að þessu frv., a.m.k. einhverjir þeirra, hafi hlustað á þessar ábendingar, og eins og ég tók fram í upphafi máls, kaus ég að setja þessar athugasemdir fram í ræðu nú við 2. umr. Ég mun ekki á neinn hátt beita mér fyrir því, að málið tefjist af þessum sökum, en vil að lokum beina því til nefndarinnar að íhuga þessi efnisatriði, sem ég hef bent á.