20.02.1961
Efri deild: 63. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1400 í B-deild Alþingistíðinda. (1497)

173. mál, sveitarstjórnarlög

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. 2. umr. þessa máls fór fram á fundi hér í d. s.l. föstudag. Við þá umr. benti ég á nokkur efnisatriði frv., sem ég taldi að þyrftu athugunar við, og vék því til hv. þn., sem málið flytur, að taka þau til athugunar. Nú á fundi í dag hefur verið útbýtt brtt. við frv. frá heilbr.- og félmn. Út af fyrir sig tel ég, að þær horfi til bóta, og ég mun fylgja þeim till. við atkvgr. En þar eru ekki nema að litlu leyti tekin til greina þau atriði, sem ég gerði að umtalsefni við 2. umr. Ég hef því hug á að flytja brtt., a.m.k. um eitt atriði frv. og ef til vill fleiri. En hvort tveggja er, að betur fer á, að brtt. við svona stórt frv. liggi fyrir prentaðar, þegar atkvgr. fer fram, og hitt, að ég vildi gjarnan eiga þess kost að kynna nm., sem standa að flutningi þessa máls og hafa fjallað um það með mjög nákvæmri athugun, betur en ég hef átt kost á efni þeirrar tillögu eða tillagna, sem ég hyggst flytja. Ég vildi því beina þeim tilmælum til hæstv. forseta, hvort hann sjái sér ekki fært að fresta þessari umr. nú til morguns. Ef hæstv. forseti sér sér það ekki fært, þá teldi ég ávinning að því að fá fundarhlé fáar mínútur til þess að gera þessa till. úr garði. En hinn kostinn kysi ég þó heldur, að málið yrði ekki tekið til endanlegrar afgreiðslu hér fyrr en á fundi á morgun.