20.02.1961
Efri deild: 63. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1401 í B-deild Alþingistíðinda. (1502)

173. mál, sveitarstjórnarlög

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Það má nú segja, að í sambandi við þetta frv. geti lengi verið von á einum í ræðustólinn, því að frv. er stórt og fjallar um víðtæk málefni. Það hafa verið lagðar fram nú við þessa umræðu á seinna stigi tvær brtt. eða þó raunar þrjár.

Ég vil segja það um þær, að ég tel þær til bóta báðar og vil mæla með þeim sem félagsmálanefndarmaður, þó að þær hafi ekki verið ræddar í nefndinni út af fyrir sig.

Ég tel, að aðaltill. hv. 5. þm. Austf. sé mjög til bóta, því að hún bætir úr óvissu, sem hlýtur að vera um, hvernig eigi að fara með kosningu varamanna samkvæmt frv., eins og það liggur fyrir, þar sem í sveitum hefur reynzt mjög örðugt, jafnvel talið óframkvæmanlegt víða að kjósa sama dag bæði aðalmenn og varamenn á þann rökréttasta hátt, sem þar er hægt við að hafa, að varamannakosningin fari fram, þegar búið er að telja atkvæði aðalmanna og úrskurða kosningu þeirra. Sú regla, sem hv. 5. þm. Austf. leggur til, að heimilt sé að viðhafa, leysir þennan vanda fyrir sveitarstjórnirnar á alleðlilegan hátt eða á þann hátt, að ég fyrir mitt leyti sé ekki ráð til þess að finna reglu, sem geri það öllu betur. Og ég þykist vita, að þetta komi sveitarstjórnunum beinlínis vel, því að í sambandi við athugun frv. í sveitarstjórnunum og bréf sveitarstjórnanna til félmn. voru fleiri en einn bréfritari að vekja athygli á því, að þarna væri um ógreinileg ákvæði að ræða.

Að því er snertir till. hv. 9. þm. Reykv., þá finnst mér hún til bóta sem orðskýring, einmitt af nákvæmlega sömu ástæðu og hann tilgreindi.

Í gær varð mér það ljóst, að 19. gr., eins og hún er í þessu frv., sem fyrir liggur, er mjög gölluð, og mér finnst ástæða til að laga hana. Seinasta málsgrein hennar er þannig fram sett, að hún er ekki sjálfstæð eða skiljanleg. Hún hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Þeim, er setið hefur í sveitarstjórn, er þó eigi skylt að taka við kjöri, fyrr en jafnlangur tími er liðinn síðan hann átti þar síðast sæti, enda tilkynni hann yfirkjörstjórn í síðasta lagi þrem dögum áður en framboðsfrestur er útrunninn, að hann skorist undan endurkjöri.“

Hér er þegnum þjóðfélagsins gefinn réttur til að skorast undan að taka þátt í sveitarstjórnarstarfi, og hefur svo verið lengi, og það er sagt, að maður geti neitað að taka sæti eða vera í kjöri, þangað til jafnlangur tími er liðinn, síðan hann átti þar síðast sæti. Viðmiðunin „jafnlangur tími“ er þarna ekki skilgreind. Viðmiðunartíminn er enginn. Ég fór að athuga lögin, sem gilt hafa frá 1936, og komst að þeirri niðurstöðu, að þessi málsgr. er tekin nákvæmlega orðrétt upp úr þeim, og þess vegna hefur hún eiginlega engar grunsemdir vakið. Ég fór að kynna mér sögu þessarar málsgr. lengra til baka, og þá komst ég að því, að í frv. til sveitarstjórnarlaga, sem lagt var fyrir Alþingi 1929, hafði þetta meginatriði fallið niður með breyt., sem Alþ. gerði á frv. Við breyt. hafði viðmiðunartíminn dottið út úr mgr.

Ég vil nú leyfa mér, af því að ég tel, að það sé fráleitt að ganga fram hjá þessu, þegar auga hefur verið komið á það, að leggja hér fram skrifl. brtt. á þessa leið, við 19. gr.:

„Síðasta málsgrein greinarinnar orðist svo: Þeim, sem setið hefur í sveitarstjórn eitt kjörtímabil eða lengur, er þó ekki skylt að taka við kjöri, fyrr en liðinn er jafnlangur tími og hann átti þar samfleytt sæti síðast, enda tilkynni hann yfirkjörstjórn í síðasta lagi þrem dögum áður en framboðsfrestur er útrunninn, að hann skorist undan endurkjöri.“

Meining löggjafans hefur verið sú að undanförnu, þótt hún hafi ekki komið betur fram en þetta í lagasetningunni, að hver maður, sem setið hefur eitt kjörtímabil, hafi rétt til að skorast undan kosningu næsta kjörtímabil. Það gæti verið um það að ræða, að hver maður ætti rétt til þess að skorast undan að sitja í sveitarstjórn jafnlangan tíma og hann hefði alls áður setið í sveitarstjórn. En það er þó ekki meining löggjafans, að því er virðist, eftir þeim athugunum, sem ég gerði á sögu málsins, enda finnst mér ekki ástæða til að gefa þann rétt, heldur gera hann þannig, að miðað sé við þann tíma, sem maðurinn hefur setið samfleytt í sveitarstjórn.

Ég vona, að hv. þdm. geti fallizt á þessa brtt. mína, sem er leiðrétting á síðustu mgr. 19. gr., og leiðréttingu er a.m.k. sjálfsagt að gera. Þessi till. mín er, að leiðréttingin verði á þá leið, sem ég held að sé eðlilegust.