20.02.1961
Efri deild: 63. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1403 í B-deild Alþingistíðinda. (1504)

173. mál, sveitarstjórnarlög

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Mér finnst þessi brtt., sem lýst var hér áðan, horfa til bóta. En það, sem ég vildi aðeins vekja athygli á og er þó nokkuð seint á þessu stigi málsins, er það, að ég held, að það sé ákaflega hæpið, eins og gert er í þessu frv. og gert er í samræmi við eldri löggjöf, að gera ráð fyrir því, að það sé borgaraleg kvöð að taka sæti í sveitarstjórn, í hvaða sveitarstjórn sem er. Eins og kosningum í bæjarstjórn er orðið háttað, þar sem það er algild og ófrávíkjanleg regla, að þar sé um pólitískar listakosningar að ræða, þá er í raun og veru engin skynsemi í því að telja það borgaralega kvöð að taka sæti í bæjarstjórn, að menn verði að taka við því að vera stillt upp af hvaða flokki sem lízt það að taka nafn manns til þeirra hluta. Þegar um slíkar kosningar er að ræða, þá á að mínu viti að gilda sama regla og þegar um alþingiskosningar og framboð til þeirra er að tefla, að samþykki hlutaðeigandi þurfi til þess. Ég ætla ekki að koma fram með neina brtt. um þetta hér, ég geri ráð fyrir, að það sé erfitt að fara að breyta þessu á þessu stigi, en ég vildi aðeins láta þetta sjónarmið koma fram, að ég álít, að þetta sé ákaflega óeðlilegt og svo óeðlilegt, að ég efast um, að ef reyndi á það nokkurn tíma, þá mundi það verða skýrt á þá lund, sem orðin þó hljóða upp á.