28.02.1961
Neðri deild: 70. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1404 í B-deild Alþingistíðinda. (1508)

173. mál, sveitarstjórnarlög

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Áður en þetta frv. um skipun nýrra sveitarstjórnarmála fer til nefndar, vildi ég mega segja örfá orð.

Megintilgangur þessa frv. er að sameina í einn lagabálk þau málefni, er varða bæjar- og sveitarfélögin í landinu. Það er mikil nauðsyn, að svo skuli gert, og verður til hagræðis fyrir sveitarstjórnir síðar meir.

Í þessu frv. er ekki að finna veigamikil nýmæli frá því, sem er í eldri lögum, þar sem þetta er aðalatriði þess. Hins vegar finnst mér, að það hefði mátt við endurskoðun þessara laga fella niður ýmis ákvæði, sem í raun og veru eru orðin úrelt og eru miðuð við aðrar aðstæður en nú er. Ég er yfirleitt fylgismaður þeirrar stefnu, að vald sveitarfélaga sé sem mest, innan þeirra eðlilegu takmarka, sem yfirstjórnin ákveður því, og að sveitarstjórnir, sem sinna sínum málefnum, svo sem gert er ráð fyrir, bæði um fjárreiður allar og skil á þeim gjöldum, sem þær vilja inna af hendi, eigi að hafa rúmar hendur um ráðstöfun á sínum fjárreiðum. Þess vegna finnst mér, að ákvæði 11. gr., þar sem gert er ráð fyrir því, að sveitarstjórnir verði að bera sín málefni undir sýslunefndir, séu að sumu leyti orðin úrelt og óeðlileg, þar sem er talað um, að sveitarstjórnir megi ekki selja eða veðsetja fasteignir eða kaupa nýjar fasteignir, án þess að til komi samþykki sýslunefnda. Það ber oft svo við, að sveitarstjórnir verða að taka ákvörðun um slík mál, eins og t.d. að nota rétt sinn til forkaupa á jörðum, án þess að geta haft samþykki sýslunefndar fyrir því, og mun þá framkvæmdin venjulega vera sú, að sýslumenn verði að gefa sitt samþykki eða synjun í viðkomandi máli upp á væntanlega afgreiðslu sýslunefndar. Mér finnst, að þetta ákvæði út af fyrir sig hafi tiltölulega lítið gildi, þegar það er framkvæmt á þennan hátt, eins og verður að framkvæma það, og í raun og veru finnst mér, að sveitarstjórnir hafi miklu betri aðstöðu til þess að meta þetta hverju sinni heldur en sýslunefndin hefur. Þess vegna vil ég benda þeirri hv. nefnd, sem mál þetta fær til meðferðar, á þessi atriði, hvort hún hefði ekki viljað skoða það, hvort nokkur ástæða er til að hafa þessi ákvæði eins og frv. gerir ráð fyrir.