21.03.1961
Neðri deild: 79. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1410 í B-deild Alþingistíðinda. (1513)

173. mál, sveitarstjórnarlög

Frsm (Gísli Jónsson):

Út af ræðu hv. þm. vil ég taka það fram, að þetta var mjög rætt í n., og n. sá ekki ástæðu til annars en að þetta væri sett inn vegna þeirrar venju, sem þegar hefur skapazt hjá fjöldamörgum sveitarfélögum, að þau kjósa endurskoðanda til aðeins eins árs í senn. Ég sé ekki heldur, að það sé neitt athugavert, þó að það standi í l., því að ef sveitarstjórnir hefðu fengið svo ágæta menn, að þær vildu ekki missa þá, þá hafa þær að sjálfsögðu alla möguleika til þess að endurkjósa þá á hverju ári, svo að ég sé ekki, að það þurfi að breyta neinu um það. En annars var þetta mjög rætt í n., og vegna þeirra umr. og þess, sem þar fram kom, sé ég ekki ástæðu til þess að tefja málið með því að taka það aftur í n. og ræða þar þessa till. á ný.

Sama er um ábendingar hans í sambandi við 11. gr. Það var mjög rætt í n., þetta atriði, sem kom fram hjá honum við 1. umr., og n. gat ekki fallizt á annað en að halda þessu eins og það er í frv. Ég ræddi þessi atriði og alveg sérstaklega atriði 11. gr. mjög við ráðuneytisstjórann, sem hélt því mjög fast fram, að hann óskaði eftir, að 11. gr. væri haldið þannig óbreyttri og það væri ekki fallið frá þeirri skyldu að leita álits sýslunefndar um þetta atriði, áður en gengið væri frá því.