21.03.1961
Neðri deild: 79. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1411 í B-deild Alþingistíðinda. (1516)

173. mál, sveitarstjórnarlög

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Ég get ekki verið sammála hv. 3. þm. Vesturl. um það, að það sé til hagræðis fyrir sveitarfélögin að binda kosningu endurskoðenda við fjögur ár í stað þess að binda hana við eitt ár, eins og brtt. gerir ráð fyrir. Það er meginregla, ég held yfirleitt hjá öllum sveitarfélögum, a.m.k. hinum stærri sveitarfélögum, að þau kjósa endurskoðendur til eins árs í senn. Þeir endurskoðendur hafa sitt kjörtímabil aðstöðu og þeim ber að fylgjast með reikningshaldi sveitarfélagsins, ekki aðeins þann tíma, sem það er lagt fyrir þá til endurskoðunar, heldur einnig það ár, sem þeir eru kjörnir endurskoðendur. Ef kosningin væri bundin við fjögur ár, gæti skapazt sú aðstaða, þar sem þetta er undantekningarlaust unnið í hjáverkum, að ástæður hins kjörna endurskoðanda hefðu breytzt þannig, að hann ætti erfitt með að gegna sínum skyldum, og væri frekar hætta á, að hann vanrækti þær, heldur en ef hann væri aðeins kosinn til eins árs, eins og nú er almennast. Ég tel því þá breyt., sem n. hefur gert í þessu efni, vera sjálfsagða og byggi mína afstöðu á þeirri reynslu, sem ég hef í þessu, að það getur að mínu áliti verið varhugavert að binda endurskoðendur til 4 ára, eins og hv. 3. þm. Vesturl. hefur bent á.