25.10.1960
Efri deild: 10. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1431 í B-deild Alþingistíðinda. (1541)

59. mál, launajöfnuður karla og kvenna

Flm. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. Er ekki hv. 5. þm. Norðurl. e. viðstaddur? (Forseti: Ég held, að hann sé hér í nágrenninu, svo að hann heyri.) Hv. 5. þm. Norðurl. e. (BjörnJ) hélt hér nokkra ræðu um þetta frv. og fann því æðimikið til foráttu. Þótti mér það leitt að heyra, því að ég hafði nú satt að segja vænzt þess frá honum, að hann mundi styðja þetta mál, þar sem hann er forustumaður hjá verkalýðshreyfingunni. En það, sem hann var sérstaklega að gagnrýna, var það, að þarna væri farið miklu hægar í sakirnar en verkalýðshreyfingin ætlaði sér og launajöfnuðurinn mundi því væntanlega komast á miklu síðar, vegna þess að frv. væri til þess að tefja málið, en ekki híð gagnstæða.

Þetta var í raun og veru algert vindhögg og alger misskilningur hjá þessum hv. þm., því að í 5. gr. þessa frv. stendur það skýrt og skorinort, að lög þessi skerði ekki á nokkurn hátt rétt stéttarfélaganna til að semja um það við vinnuveitendur, að launajöfnuði skuli náð á skemmri tíma en lögin mæla fyrir um, þannig að það, sem er meiningin með lögunum, er, að það verði i siðasta lagi á þessum tíma, sem launajöfnuðurinn næst. Ef verkalýðshreyfingin treystir sér til þess að fá launajöfnuðinn fram fyrr, þá er ekkert því til fyrirstöðu, og það á ekki að stranda á nokkurn hátt á þessu frv. Hitt er svo annað mál, sem þessi hv. þm. kom reyndar ekki inn á og sást. yfir, að hluti af þessu fólki er alls ekki í Alþýðusambandi Íslands eða verkalýðssamtökunum, sem þessi hv. þm. kallar. Það er í Landssambandi verzlunarmanna, og það er álit manna, að það muni einmitt stranda á hv. flokksbræðrum þessa þm. um að fá þetta landssamband inn í Alþýðusambandið, þó að það sé ekki fullreynt um það enn, þannig að allur þessi hópur getur ekki fylgt kröfum Alþýðusambands Íslands.

Hitt er svo annað mál, og það vita allir, bæði verkakonur og aðrir, sem hafa haft áhuga á þessu máli, að verkalýðssamtökin eru lengi búin að setja fram kröfuna um fullt launajafnrétti eða um það að brúa bilið eða minnka bilið mikið frá því, sem er. Það hefur bara því miður ekki tekizt. Við verðum að horfa á þá staðreynd. Ég hygg, að á síðasta áratug og jafnvel lengur hafi verkakonur í hverjum einustu samningum sett fram kröfur um það að minnka bilið. Það hefur að vísu tekizt lítils háttar, en alls ekki nógu vel og alls ekki eins ört og þetta frv. gerir ráð fyrir — ekki nálægt því. Ég vil nefna sem dæmi, að í tíð vinstri stjórnarinnar, þegar verið var að breyta lögunum um útflutningssjóð vorið 1958, þá var breytt með lögum launaákvæðum, og breyt. var sú, að laun karla voru hækkuð um 5%, laun kvenna voru hækkuð um 5 7%, þannig að sú hækkun, sem konur fengu umfram karla, var 1–2%. Þetta var nú öll rausnin, Í þessu frv. er gengið miklu lengra.

Ég ætla ekki að fara að deila við þennan hv. þm. um efnahagsmál yfirleitt og um það, hvaða áhrif efnahagsaðgerðir ríkisstj. hafi haft á afkomu kvenna, því að vitanlega vita það allir, að krafan um launajafnrétti er miklu, miklu eldri en efnahagsráðstafanir núv. ríkisstj. Það veit vitanlega hvorki ég né þessi hv. þm., hvað þessi ríkisstj. lifir lengi, en að það geti haft nokkur áhrif á það tímabil, sem eðlilegt sé, að launajöfnuður nái fram að ganga á, hvort ein ríkisstj. situr lengur eða skemur, það skiptir þar engu máli, og má ekki blanda því hér saman við.

Þessi hv. þm. var eiginlega nokkuð óánægður yfir því, að úr því að verið væri að fara lagaleiðina eða löggjafarleiðina í þessu, þá skyldi þetta ekki vera gert í einum áfanga. Ég get nú vísað til þeirra raka, sem ég hafði um þetta í minni framsöguræðu, en ég vildi líka benda á það til viðbótar, að í fyrsta lagi gæti það nú vel farið svo, ef það væri sett í lögin, að launajafnréttið ætti að fást fram í einum áfanga, að slíkt frv. færi ekki í gegnum þingið. Það væri miklu líklegra, að það væri hægt að koma fram frv., þar sem þetta væri gert í nokkrum áföngum. Þannig verður maður auðvitað að líta á hlutina frá raunsæju sjónarmiði.

En það er annað: Jafnvel þó að hægt væri að fá því framgengt, að launajöfnuðurinn yrði lögfestur i einum áfanga, þá gæti það haft slæm áhrif á kjarabaráttu verkalýðsins í heild, á kjarabaráttu karlmanna, því að þá kæmu vinnuveitendur og yrðu þá hálfu örðugri viðfangs en áður um að hækka kaupið hjá karlmönnum, þegar allar konur væru komnar á sama taxta líka. Það er líka atriði, sem verður að hafa í huga.

Hitt kemur manni svo anzi mikið á óvart, að einmitt þessi hv. þm. skuli vera svona óánægður yfir því, hve frv. þetta gengur skammt, því að nú var það flokksbróðir þessa hv. þm., sem skipaði hina svonefndu launajafnaðarnefnd. Ég hygg, að það hafi verið vorið 1958, og það er sem sagt komið nokkuð á þriðja ár, siðan sú n. tók til starfa. Þessi n. hefur undir forustu flokksbróður þessa hv. þm., — og ég hygg, að hans flokkur eigi allmikil ítök i þeirri n., — hún hefur sofið á málinu og hún hefur ekki gert neitt. Ég tel það alveg óverjandi afstöðu hjá n., sem er skipuð til þess að undirbúa till. um fullkomið launajafnrétti, að láta ekkert heyra frá sér á þriðja ár. Þess vegna á maður i raun og veru dálítið erfitt með að taka þennan hv. þm. mjög alvarlega, úr því að hann hefur getað horft á það, að þessi n. svæfi á málinu, en svo þegar því loksins er hreyft, þá finnst honum allt of lítið að gert.